Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 131/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. apríl 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 131/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16030016

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. mars 2016 barst kærunefnd útlendingamála kæra […], f.h. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. mars 2016, að synja honum um leyfi til dvalar hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar hjá stofnuninni.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt leyfi til að dveljast hér á landi á meðan umsókn hans er til vinnslu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli á Íslandi þann 29. maí 2015. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. september 2015, var kæranda synjað um hæli og dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Í ákvörðun stofnunarinnar kom einnig fram að kæranda skyldi vísað frá landinu eins fljótt og verða mætti. Ákvörðun stofnunarinnar var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. september 2015. Með úrskurði, dags. 16. desember 2015, staðfesti kærunefnd ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um hæli og dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og var honum synjað um frestun með úrskurði nefndarinnar, dags. 22. febrúar 2016. Því var óskað eftir því við Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 4. september 2015 yrði framkvæmd. Þann 1. mars 2016 sótti kærandi um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli skorts á vinnuafli, sbr. 12. gr. a laga um útlendinga og að fá að dveljast á landinu á meðan umsókn hans væri til vinnslu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. mars 2016, var umsókn kæranda um að fá að dveljast á landinu á meðan umsókn um dvalarleyfi væri í vinnslu hafnað. Kærandi hefur kært þá ákvörðun til kærunefndar og er það sú ákvörðun sem er til umfjöllunar í stjórnsýslumáli þessu.

Afrit af gögnum málsins bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun þann 8. mars 2016. Með tölvupósti, dags. 8. mars 2016, var kæranda veittur 7 daga frestur til að leggja fram frekari greinargerð og gögn vegna kærumálsins. Greinargerð barst frá kæranda samtímis kæru og viðbótargögn bárust 14. mars 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda byggir á því að skv. 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga skuli útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins. Honum skuli jafnframt vera óheimil koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Þá byggir stofnunin á því að skv. 38. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 megi víkja frá skilyrðum 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga ef umsækjandi er maki, samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum. Hið sama eigi við ef um er að ræða barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og barnið er yngra en 18 ára. Kærandi falli ekki undir undantekningar sem settar hafi verið fram í reglugerð um útlendinga og var kæranda því synjað um heimild til dvalar hér á landi á meðan mál hans væri til vinnslu. Um sé að ræða undantekningu frá meginreglu laga um útlendinga sem beri að túlka þröngt.

Því næst tók stofnunin til skoðunar hvort uppi væru ríkar sanngirnisástæður í máli kæranda sem réttlættu að undanþágu frá 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga væri beitt. Stofnunin byggir á að ríkar sanngirnisástæður eigi t.d. við ef um sé að ræða náin fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi, eins og nefnt sé í dæmaskyni í greinargerð með frumvarpi laga um útlendinga. Þá lítur stofnunin til 2. mgr. 13. gr. laganna þar sem fram kemur að nánustu aðstandendur í skilningi laganna teljist vera maki, sambúðarmaki eða börn umsækjanda eða ættmenni eldri en 66 ára. Jafnframt líti stofnunin til að undir slíkar undanþágur falli atvik sem leiði það af sér að útlendingi sé ómögulegt af einhverjum ástæðum sem hann sjálfur fái ekki ráðið við, t.d. vegna alvarlegra veikinda o.s.frv., að yfirgefa landið meðan umsókn um dvalarleyfi sé til vinnslu. Að mati stofnunarinnar eigi ríkar sanngirnisástæður ekki við í máli kæranda. Tengsl kæranda við Ísland séu þau að hann hafi dvalist hér á landi á meðan umsókn hans um hæli hafi verið til vinnslu hjá íslenskum stjórnvöldum. Meðferð þess máls sé lokið og ákvörðun hafi verið tekin um flutning kæranda úr landi. Stofnunin sjái ekki að kærandi hafi önnur tengsl við landið. Í ákvörðun um hæli hafi verið tekin afstaða til þess að kærandi hefði ekki sérstök tengsl við Ísland og að það hafi ekki verið grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga. Þær aðstæður kæranda séu óbreyttar og komi því ekki til skoðunar í málinu.

Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að kæranda bíði ekki ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður í Búlgaríu komi til þess að hann fari þangað aftur. Byggir stofnunin niðurstöðu sína um þetta á því að stofnunin hafi áður komist að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni, dags. 4. september 2015, í hælismáli kæranda, að hans biði ekki framangreindar aðstæður þar í landi. Niðurstaða stofnunarinnar hafi m.a. verið byggða á dómafordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu í málum þar sem dómstóllinn hafi slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki að sjá öllum sem dveldu innan lögsögu þeirra fyrir heimili og legði jafnframt ekki almenna skyldu á aðildarríki til að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Vísar stofnunin til úrlausnar mannréttindadómstóls Evrópu, dags. 2. apríl 2013, í máli nr. 27725/10, (Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu). Umsókn kæranda um að fá að dveljast á landinu á meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri í vinnslu var því hafnað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé flóttamaður frá […] sem hafi dvalist án húsnæðis og framfærslu í Búlgaríu um skamma hríð á flótta sínum frá heimalandi. Kærandi hafi komið til Íslands og sótt hér um alþjóðlega vernd en verið synjað þar um. Hann hafi nú fengið starf á […]hér á landi þar sem ríki mikill skortur á vinnuafli. Kærandi óski eftir að kærunefnd felli úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og heimili honum að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, vegna afar bágra aðstæðna í móttökuríki og vegna þess mikla kostnaðar sem ella falli á ríkissjóð vegna flutnings þangað sem verði síðar endurheimtur frá kæranda. Í greinargerð kemur fram að starfsmenn Útlendingastofnunar hafi upplýst kæranda að málsmeðferð vegna umsóknar hans um dvalarleyfi taki ekki meira en fjórar vikur og sé því verulegt óhagræði af því fyrir kæranda og ríkissjóð að senda kæranda í burtu til þess eins að stofna til hárrar skuldar hjá honum við ríkissjóð auk þeirrar miklu hættu sem kærandi muni verða fyrir í Búlgaríu. Kærandi kveðst ekki eiga í nein hús að venda í Búlgaríu. Kærandi vísi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá árinu 2013, þar sem vísað sé til í ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem segi að engar skyldur hvíli á aðildarríkjum mannréttindasáttmála Evrópu að sjá þeim sem dvelja innan lögsögu ríkjanna fyrir heimili né að veita þeim fjárhagsaðstoð sem þangað leiti í ósk um vernd. Kærandi kveði það hins vegar liggja fyrir að í Búlgaríu ríki neyðarástand meðal flóttamanna og þar sé hvorki að finna húsnæði né atvinnu fyrir þá sem þangað leiti. Kærandi hafi hér á landi bæði atvinnu og húsnæði. Hagsmunir kæranda af því að fá að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi sé til meðferðar séu umtalsverðir og þá vísi kærandi einnig til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar máli sínu til stuðnings. Kærandi kveður stjórnvöld enga hagsmuni hafa af því að vísa kæranda úr landi á meðan málsmeðferð standi og óski eftir því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og honum heimilað að dvelja hér á landi við umsóknarferlið.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 10. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og honum sé óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Síðan segir í ákvæðinu að frá þessu megi víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því eða samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Í athugasemdum við frumvarp til laganna er tekið fram að slíkt geti t.d. átt við ef um er að ræða náin fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi.

Í 38. gr. reglugerðar um útlendinga er nánar fjallað um umsókn útlendings um dvalarleyfi hér á landi. Er þar áréttuð sú meginregla laganna sem fram kemur í 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga. Í reglugerðinni eru settar fram undantekningar sem heimila dvöl umsækjanda hér á landi á meðan umsókn er til vinnslu:

Frá þessu má víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er:

a. maki, samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum,

b. barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og barnið er yngra en 18 ára

Ljóst er að engin ofangreindra undantekninga á við í máli kæranda. Kemur því til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið sé frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og kæranda heimiluð dvöl hér á landi á meðan mál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum.

Kærandi hefur dvalist hér á landi frá árinu 2015. Hann á enga ættingja hér á landi. Kærandi hefur ekki tengsl við landið önnur en þau að hann starfar hér á landi. Umsókn hans um hæli og dvalarleyfis af mannúðarástæðum hefur þegar verið synjað af Útlendingastofnun og var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála. Kærunefnd hefur einnig litið til þess að kostnaður við framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar um frávísun kunni að falla á kæranda. Kærunefnd telur samt sem áður að það skapi ekki grundvöll til að víkja frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga.

Þegar horft er heildstætt á aðstæður kæranda getur kærunefndin ekki fallist á að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að undanþága verði gerð frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og kæranda heimiluð dvöl hér á landi á meðan umsókn hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Verður því fallist á mat Útlendingastofnunar að kæranda beri að yfirgefa landið á meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar.

Loks ber að geta þess að af ákvörðun Útlendingastofnunar má ráða að stofnunin notast við skilgreiningu á hugtakinu „nánustu aðstandendur“ í 2. mgr. 13. gr. útlendingalaga við skýringu á orðalagi í greinargerð um þýðingu náinna fjölskyldutengsla. Þó svo að það hafi ekki beina þýðingu í þessu máli, þá telur kærunefnd engu að síður rétt að árétta að alger samsvörun þessara tveggja mismunandi hugtaka eigi sér enga stoð.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Vigdís Þóra Sigfúsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta