Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 103/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. mars 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 103/2016

Í stjórnsýslumáli nr. KNU16020005

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 2. febrúar 2016 barst kærunefnd útlendingamála kæra […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi) á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2016, að synja honum um leyfi til dvalar hér á landi meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar hjá stofnuninni.

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt leyfi til að dveljast hér á landi á meðan umsókn hans er til vinnslu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli á Íslandi þann 17. apríl 2012. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. júní 2012, var umsókn kæranda um hæli hér á landi synjað um efnislega meðferð og ákveðið að kærandi skyldi, ásamt hælisumsókn sinni, sendur til Svíþjóðar. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til innanríkisráðuneytisins með stjórnsýslukæru, dags. 21. júní 2012. Með úrskurði, dags. 7. apríl 2014, staðfesti innanríkisráðuneytið ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi skyldi, ásamt hælisumsókn sinni, endursendur til Svíþjóðar. Kærandi leitaði með mál sitt til dómstóla með stefnu, dags. 18. júlí 2014. Með dómi héraðsdóms, […], var íslenska ríkið og Útlendingastofnun sýknuð af kröfum kæranda. Kærandi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar en felldi málið niður hinn 20. október 2015. Því var óskað eftir því við Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 13. júní 2012 yrði framkvæmd. Þann 16. desember 2015 sótti kærandi um dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga og að fá að dveljast á landinu á meðan umsókn hans væri til vinnslu. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2016, var umsókn kæranda um að fá að dveljast á landinu á meðan umsókn um dvalarleyfi væri í vinnslu hafnað. Kærandi hefur kært þá ákvörðun til kærunefndar og er hún til umfjöllunar í stjórnsýslumáli þessu.

Þann 19. febrúar 2016 barst kærunefnd afrit af gögnum málsins frá Útlendingastofnun. Með tölvupósti, dags. 19. febrúar 2016, var kæranda veittur 7 daga frestur til að leggja fram greinargerð vegna kærumálsins. Frestur til framlagningar greinargerðar var framlengdur til 2. mars 2016 í samræmi við beiðni kæranda þess efnis. Greinargerð barst frá kæranda þann 3. mars 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda byggir á því að skv. 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga skuli útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins. Honum skuli jafnframt vera óheimil koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Þá byggir stofnunin á því að skv. 38. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003 megi víkja frá skilyrðum 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga ef umsækjandi er maki, samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum. Hið sama eigi við ef um er að ræða barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og barnið er yngra en 18 ára. Kærandi falli ekki undir undantekningar sem settar hafi verið fram í reglugerð um útlendinga og var kæranda því synjað um heimild til dvalar hér á landi á meðan mál hans væri til vinnslu. Þá var það jafnframt mat stofnunarinnar að ekki væru uppi ríkar sanngirnisástæður í máli kæranda sem réttlættu að undanþágu frá 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga væri beitt. Slíkar undantekningar frá meginreglu laganna verði að túlka þröngt. Tengsl kæranda við Ísland væru þau að hann hafi dvalist hér á landi á meðan umsókn hans um hæli væri í vinnslu hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum. Meðferð þess máls væri lokið og ákvörðun hafi verið tekin að flytja kæranda úr landi. Væri því ekki séð að kærandi hefði önnur tengsl við landið.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærandi byggi kröfu sína á því að stofnunin hafi farið út fyrir heimild sína með því að túlka 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga þröngt þannig að heimildin taki aðeins til tilviks þegar umsækjandi hafi fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi í skilningi 13. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggi á því að það komi skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga nr. 96/2002 að náin fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi sé aðeins sett fram í dæmaskyni. Því hafi Útlendingastofnun verið óheimilt að túlka heimildina eins og um tæmandi talningu sé að ræða.

Þá telji kærandi að Útlendingastofnun hafi rangtúlkað ummæli löggjafans með að túlka „náin fjölskyldutengsl“ sem „nánustu fjölskyldutengsl“ í þeim tilgangi að heimfæra það atvik sem aðeins var tekið í dæmaskyni undir 13. gr. laga um útlendinga. Með því hafi verið búið að þrengja heimild stjórnvalda enn frekar með því að skilyrða heimildina við fjölskyldutengsl sem ráðist af ættingjum í beinan legg eða maka/sambúðarmaka. Kærandi telji ekkert í athugasemdum við 10. gr. laga um útlendinga gefi fyrirmæli um slíkt.

Kærandi byggi kröfu sína á því að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að hann fái að dvelja hér á landi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar hjá stjórnvöldum. Flutningur hans til annars lands hafi í för með sér mikla röskun á lífi hans. Hann hafi ríkari hagsmuni á því að halda atvinnu sinni hér á landi og samfelldri búsetu en Útlendingastofnun af því að vísa honum úr landi. Brottvísun hans úr landi komi í veg fyrir að honum verði unnt að gæta lögbundins réttar síns verði umsókn hans um dvalarleyfi synjað. Kærandi vísi til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þessu til stuðnings.

Kærandi byggi jafnframt kröfu sína á því að líkur séu á því að honum verði veitt leyfi til dvalar á Íslandi þar sem hann uppfylli öll skilyrði 4. mgr. 12. gr. f, sbr. 12. gr. g laga um útlendinga, enda yrði honum ekki kennt um langan afgreiðslutíma Útlendingastofnunar á umsókn hans. Kærandi telji að ekki megi horfa framhjá því að kærunefnd útlendingamála hafi í nýlegum úrskurði sínum, í máli nr. 40/2015, viðurkennt að langur málsmeðferðartími geti haft svo skaðleg áhrif á andlegt og líkamlegt ástand umsækjanda að sanngirnissjónarmið leiði til ívilnandi meðferðar á umsókn. Í málinu hafi kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að réttlátt væri að fjalla efnislega um hælisumsókn hér á landi þrátt fyrir heimild til endursendingar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi telji að sömu sanngirnissjónarmið eigi við um mál sitt.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 10. gr. laga um útlendinga kemur fram að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og honum sé óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Síðan segir í ákvæðinu að frá þessu megi víkja ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því eða samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Í athugasemdum við frumvarp til laganna er tekið fram að slíkt geti t.d. átt við ef um er að ræða náin fjölskyldutengsl við einhvern búsettan hér á landi.

Í 38. gr. reglugerðar um útlendinga er nánar fjallað um umsókn útlendings um dvalarleyfi hér á landi. Er þar áréttuð sú meginregla laganna sem fram kemur í 1. mgr. 10. gr. útlendingalaga. Í reglugerðinni eru settar fram undantekningar sem heimila dvöl umsækjanda hér á landi á meðan umsókn er til vinnslu:

Frá þessu má víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er:

a. maki, samvistarmaki eða sambúðarmaki íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum,

b. barn íslensks eða norræns ríkisborgara eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum og barnið er yngra en 18 ára

Ljóst er að engin ofangreindra undantekninga á við í máli kæranda. Kemur því til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður mæli með því að vikið sé frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og kæranda heimiluð dvöl hér á landi á meðan mál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum.

Kærandi hefur dvalist hér á landi frá árinu 2012 á meðan umsókn hans um hæli var í vinnslu hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum. Kærandi á ekki ættingja hér á landi. Kærandi hefur ekki tengsl við landið önnur en þau að hann er í starfi hér á landi. Umsókn hans um hæli hér á landi var synjað um efnislega meðferð og ákveðið að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar og sú ákvörðun staðfest af innanríkisráðuneyti. Þá var íslenska ríkið og Útlendingastofnun sýknuð af kröfum umsækjanda með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Þegar horft er heildstætt á aðstæður kæranda getur kærunefndin ekki fallist á að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að undanþága verði gerð frá meginreglu 1. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og kæranda heimiluð dvöl hér á landi á meðan umsókn hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Verður því fallist á mat Útlendingastofnunar að kæranda beri að yfirgefa landið á meðan umsókn hans um dvalarleyfi er til meðferðar. Þá telur kærunefnd ekkert í máli kæranda gefa til kynna að kærandi verði að vera hér á landi til þess að gæta réttar síns verði umsókn hans um dvalarleyfi synjað. Kærandi getur rekið mál fyrir kærunefnd útlendingamála þrátt fyrir að vera ekki hér á landi. Komi til þess að kærandi þurfi að gefa skýrslu fyrir dómi hefur hann kost á því, þar sem slíkt sé hægt að gera í gegnum fjarfundabúnað skv. 4. mgr. 51. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Kærandi verður ekki af þeim grundvallarrétti sínum skv. 70. gr. stjórnarskrárinnar að geta borið mál sitt undir dómstóla hér á landi þó að honum verði vísað brott af landinu.

Loks ber að geta þess að af ákvörðun Útlendingastofnunar má ráða að stofnunin notast við skilgreiningu á hugtakinu „nánustu aðstandendur“ í 2. mgr. 13. gr. útlendingalaga við skýringu á orðalagi í greinargerð um þýðingu náinna fjölskyldutengsla. Þó svo að það hafi ekki beina þýðingu í þessu máli, þá telur kærunefnd engu að síður rétt að árétta að alger samsvörun þessara tveggja mismunandi hugtaka eigi sér enga stoð.

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Vigdís Þóra Sigfúsdóttir Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta