Úrskurður nr. 349/2016
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 6. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 349/2016
í stjórnsýslumáli nr. KNU16030009
Kæra […]
og dóttur hennar
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestur og kæruheimild
Þann 2. mars 2016 barst kærunefnd útlendingamála kæra, […], f.h. […], ríkisborgara […], (hér eftir nefnd kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. febrúar 2016, um að fella niður rétt hennar og dóttur hennar til dvalar hér á landi.
Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins sóttu kærandi, eiginmaður hennar og dóttir um hæli á Íslandi 28. maí 2014. Þann 17. júlí 2014 drógu þau hælisumsóknir sínar til baka með undirritaðri yfirlýsingu sem Útlendingastofnun barst sama dag. Þann 5. nóvember 2014 sóttu þau aftur um hæli hér á landi. Fyrir meðferð hælismálsins hafi kæranda verið ítrekað leiðbeint um réttarstöðu sína sem EES-borgari á Íslandi en hún hafi ekki viljað neyta þess réttar og hafi haldið hælisumsókn sinni til streitu. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar dags. 15. desember 2014 var kæranda, dóttur hennar og eiginmanni synjað um hæli hér á landi.
Samkvæmt Þjóðskrá Íslands var kærandi fyrst skráð inn í landið þann 18. mars 2015, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. a útlendingalaga. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi [...] á umræddu tímabili. Útlendingastofnun sendi kæranda bréf, dags. 15. janúar 2016, þar sem kæranda var tilkynnt að til skoðunar væri hvort fella ætti niður rétt hennar til dvalar á Íslandi af framangreindum ástæðum. Lagði kærandi fram greinargerð sem móttekin var hjá Útlendingastofnun 26. janúar 2016. Útlendingastofnun felldi niður rétt kæranda til dvalar hér á landi með ákvörðun sinni, dags. 11. febrúar 2016.
Þann 2. mars 2016 barst kærunefnd kæra í málinu. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust samtímis kæru. Með tölvupósti þann 4. mars 2016 óskaði kærunefnd eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Gögn málsins bárust kærunefnd þann 14. mars 2016 en Útlendingastofnun gerði ekki athugasemdir við kæruna. Þá bárust frekari gögn og upplýsingar frá kæranda 6. apríl, 29. maí, 1. og 3. júní og 7., 12. og 27. september 2016. Meðal þeirra gagna var tímabundinn ráðningarsamningur kæranda og […], með gildistíma frá 21. mars 2016 til 31. október 2016 og uppsagnarbréf vegna starfsins, dags. 3. maí 2016. Þá barst afrit af ótímabundnum ráðningarsamningi kæranda og […], dags. 26. september 2016, með upphaf ráðningartíma 1. maí 2016. Jafnframt bárust kærunefnd launaseðlar og afrit gagna frá […] og ríkisskattstjóra.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi einungis […] síðan hún fluttist hingað til lands í mars 2015. Það sé því ljóst að hún sé ekki að vinna á Íslandi og hafi [...] sem skráð sé hjá stjórnvöldum. EES-borgari eigi rétt á að dveljast hér á landi í allt að sex mánuði frá komu til landsins, ef hann fellur undir skilgreiningu 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og sé í atvinnuleit, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna, en það tímabil sé nú liðið. Meðferð umsóknar eiginmanns hennar hjá stofnuninni hafi þar engin áhrif og hafi kærandi í raun fengið rýmri tíma en gildi samkvæmt lögum til þess að leita sér að starfi. Sú leit hafi ekki borið árangur og þar með samræmdist tilgangur dvalar hennar hér á landi ekki skráningu hennar hjá Þjóðskrá á grundvelli 1. mgr. 36. gr. a laga um útlendinga, sbr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB um rétt borgara Sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsra flutninga og búsetu á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Þá byggir stofnunin á því að ekki sé að sjá að kærandi hafi verið atvinnulaus tímabundið og falli aðstæður hennar því ekki undir 3. mgr. 40. gr. laga um útlendinga. Var það því mat stofnunarinnar að réttur kæranda til dvalar hér á landi væri niður fallinn, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður kæranda
Í greinargerð kæranda kemur að kærandi vísi til röksemda í greinargerð hennar til Útlendingastofnunar, dags. 26. janúar 2016. Í þeirri greinargerð kemur fram að kærandi og eiginmaður hennar hafi upphaflega sótt um hæli hér á landi, en hafi verið ráðlagt að draga þá umsókn til baka og sækja heldur um fjölskyldusameiningu. Kærandi kveður eiginmann sinn ekki hafa kennitölu hér á landi og sé í umtalsverðum vandræðum vegna þess, svo sem að hann geti ekki fengið vinnu þrátt fyrir að honum hafi boðist vinna. Vegna þess hvað ferlið hafi tekið langan tíma hafi kæranda þótt [...]. Það sé neyðarúrræði og einungis ætlað til skamms tíma. Hún hafi verið skráð hjá […] og hafi sinnt virkniúrræðum, auk þess sem hún hafi sótt um fjölda starfa. Kærandi telur það hafa áhrif á atvinnumöguleika sína að eiginmaður hennar hafi ekki kennitölu. Kærandi kveður fjölskyldu sína vilja byggja upp líf á Íslandi. Þau sjái ekki fram á að þurfa [...] nema í skamman tíma í viðbót og óskar hún eftir því að tekið verði tillit til erfiðra aðstæðna hennar og þess hve erfiðlega gangi fyrir eiginmann hennar að fá staðfesta stöðu á Íslandi. Kærandi telur að hún muni fá vinnu að lokum og að eiginmanni hennar bíði starf um leið og umsókn um fjölskyldusameiningu verði samþykkt. Að mati kæranda megi rekja þær tafir sem orðið hafa á málinu að einhverju leyti til þess hve mál þeirra hafi verið lengi í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Kærandi bendir á að samkvæmt meginreglunni um frjálsa för launþega sé henni heimilt að vera á Íslandi í atvinnuleit í sex mánuði, sbr. lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. núgildandi lög nr. 105/2014. Kærandi kveðst sannarlega vera í atvinnuleit. Hún sé ekki þiggjandi atvinnuleysisbóta frá vinnumálastofnun. Hafi hún farið fram yfir þau tímamörk sem um ræði sé það að miklu leyti rekjanlegt til þess tíma sem afgreiðsla umsókna hennar og eiginmanns hennar hafi tafist hjá Útlendingastofnun.
Í greinargerð kæranda á kærustigi heldur kærandi því fram að 3. mgr. 42. gr. laga um útlendinga sé heimildarákvæði. Engin lagaskylda hvíli á Útlendingastofnun að brottvísa EES- eða EFTA-borgurum úr landi þótt þeiri eigi í einhverjum erfiðleikum með að sjá sér farborða í lengri tíma en 36. gr. eða 36. gr. a kveði á um.
Kærandi vísar til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og skorar á íslensk stjórnvöld að falla frá niðurfellingu dvalarheimildar kæranda og dóttur hennar, sem og að taka umsókn maka hennar til efnislegrar umfjöllunar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið heimilt að fella niður rétt kæranda til dvalar hér á landi á grundvelli VI. kafla laga um útlendinga nr. 96/2002.
Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir sem áður segir á 40. gr. laga um útlendinga. Þar er fjallað um brottfall dvalarréttar samkvæmt ákvæðum VI. kafla útlendingalaga, í kaflanum er að finna sérreglur um útlendinga sem falla undir EES- samninginn og stofnsamning EFTA. Þar segir m.a. í 1., 3. og 4. mgr.:
Réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður ef útlendingur hefur vísvitandi veitt rangar upplýsingar, ef um málamyndagerninga að hætti 3. mgr. 13. gr. er að ræða eða dvöl í öðrum tilgangi en þeim sem samræmist 1. mgr. 36. gr. Sama á við ef um aðra misnotkun er að ræða.
Réttur til dvalar hér á landi skv. a- eða b-lið 1. mgr. 36. gr. a fellur ekki niður vegna tímabundinna veikinda eða slyss eða ef um er að ræða þvingað atvinnuleysi EES- eða EFTA-borgara eftir að hann hefur starfað hér á landi lengur en eitt ár.
Útlendingastofnun tekur ákvörðun um hvort réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum þessa kafla fellur niður.
Eins og fram kemur í 1. mgr. 40. gr. getur réttur til dvalar m.a. fallið niður ef tilgangur dvalar hér á landi samrýmist ekki ákvæðum núgildandi 36. gr. a laga um útlendinga, sem eru svohljóðandi:
EES- eða EFTA-borgari á rétt til dvalar hér á landi lengur en þrjá mánuði ef hann fullnægir einhverju af eftirgreindum skilyrðum:
a. er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur hér á landi eða,
b. ætlar að veita eða njóta þjónustu hér á landi og fullnægir jafnframt skilyrðum c-liðar, eftir því sem við á,
c. hefur nægilegt fé sér til handa og aðstandendum sínum til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan á dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir,
d. er innritaður hjá viðurkenndri námsstofnun með það að meginmarkmiði að öðlast þar menntun eða starfsþjálfun, fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir og getur sýnt fram á trygga framfærslu.
Ákvörðun Útlendingastofnunar var sem áður segir byggð á því að réttur kæranda til dvalar hér á landi væri niður fallinn, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga, í ljósi þess að tilgangur dvalar hennar hér á landi samrýmdist ekki skráningu hennar hjá Þjóðskrá á grundvelli 1. mgr. 36. gr. a laga um útlendinga. Stofnunin byggði niðurstöðu sína á gögnum sem sýndu fram á að kærandi hefði verið án atvinnu frá apríl 2015 [...]. Samkvæmt gögnum sem kærandi hefur lagt fyrir kærunefnd, þ.m.t. launaseðla og ráðningarsamninga, hefur hún frá í apríl 2016 verið launþegi hér á landi. Því er það mat kærunefndar að dvöl hennar hér á landi sé nú í samræmi við tilgang a-liðar 1. mgr. 36. gr. a laga um útlendinga. Brestur því skilyrði þess að fella niður rétt kæranda til dvalar hér á landi. Ber því að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Pétur Dam Leifsson