Mál nr. 20/2023 - Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
B
Endurupptöku hafnað.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls nr. 11/2023 var hafnað, enda hefði úrskurður kærunefndar í málinu ekki byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 20. desember 2023 er tekið fyrir mál nr. 20/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með úrskurði kærunefndar frá 26. júlí 2023 í máli nr. 11/2023, A gegn B, var málinu vísað frá nefndinni á þeim grundvelli að kærufrestur væri liðinn, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála. Hinn 31. júlí 2023 óskaði kærandi þess að málið yrði endurupptekið. Af beiðni hennar má ráða að kærandi telji kærufrest ekki hafa byrjað að líða þegar þau atvik urðu sem hún vísar til sem brottvikningar úr félaginu, líkt og miðað hafi verið við í úrskurði nefndarinnar, heldur síðar, nánar tiltekið er hún sendi skilaboð til X, dags. 5. desember 2022 og 16. janúar 2023, til Y, dags. 9.–11. apríl 2023, og/eða til Z sem hafði hætt störfum í maí 2022, dags. 4. janúar og 30. mars 2023.
NIÐURSTAÐA
- Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála, á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í því sambandi verður að vera um að ræða upplýsingar sem byggt var á við ákvörðun málsins en ekki rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um atvik sem litla þýðingu höfðu við úrlausn þess.
- Eins og mál þetta er vaxið telur kærunefnd jafnréttismála engan vafa leika á því að vitneskja kæranda um ætlað brot á lögum um jafnréttismál lá fyrir í september 2022 þegar þau atvik sem hún vísar til sem brottvikningar úr félaginu urðu og að kærufrestur hafi þá byrjað að líða. Ný gögn sem kærandi hefur lagt fram með beiðni sinni um endurupptöku breyta þar engu um, enda felast ekki í þeim upplýsingar sem breyta þeirri niðurstöðu að kærufrestur hafi verið liðinn.
- Að þessu virtu er beiðni kæranda um endurupptöku máls nr. 11/2023 hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Beiðni kæranda um endurupptöku máls nr. 11/2023 er hafnað.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Ari Karlsson