Mál nr. 136/2013
Úrskurður
Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skuli halda áfram að líða var staðfest.
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 136/2013.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 6. desember 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 5. desember 2011, fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsóknin hafi verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá B sé réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknarinnar skv. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
Vinnumálastofnun barst beiðni kæranda, dags. 12. nóvember 2013, um að mál hennar vegna eldri viðurlaga skv. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar yrði tekið til meðferðar á ný með tilliti til nýrra gagna/upplýsinga. Á fundi Vinnumálastofnunar 2. desember 2013 var beiðni kæranda um endurupptöku málsins synjað skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Kærandi vildi ekki una ákvörðunum Vinnumálastofnunar og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 15. nóvember 2013. Kærandi krefst þess að málið verði skoðað á mannlegum nótum og henni verði greiddar 100% bætur einnig fyrir biðtímann. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun frá 11. september 2013 skuli staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 15. nóvember 2011. Áður hafði hún unnið hjá B en sagði sjálf upp störfum þar. Ástæður þess voru að sögn kæranda þær að breytingar höfðu verið gerðar á starfinu án samráðs við hana. Höfðu breytingarnar í för með sér aukið vinnuálag án þess að til launahækkunar kæmi.
Kærandi lagðist inn á sjúkrahús 16. nóvember 2011 og var því afskráð af greiðsluskrá Vinnumálastofnunar frá og með þeim degi. Hún var því aðeins skráð á greiðsluskrá Vinnumálastofnunar í einn dag en ekki kom til greiðslu atvinnuleysisbóta vegna biðtímans sem henni hafði verið gert að sæta.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 13. ágúst 2013. Samkvæmt læknisvottorði var hún óvinnufær vegna sjúkdóms, aðgerðar og meðferðar til 1. ágúst 2013 en vinnufær frá þeim tíma. Kærandi var því skráð á atvinnuleysisbætur frá 13. ágúst 2013, en vegna þess að hún hafði ekki tekið út tveggja mánaða biðtímann samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. desember 2011 gátu greiðslur ekki hafist fyrr en að honum loknum enda hafði hún ekki starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hún sótti aftur um atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun barst bréf frá kæranda 7. nóvember 2013 ásamt gögnum sem hún hugðist senda með kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem ekki höfðu komið fram áður. Um var að ræða læknisvottorð, dags. 2. september 2013, þar sem fram kom að kærandi væri óvinnufær vegna meðferðar sjúkdóms á tímabilinu 30. október 2011 til 30. júlí 2013, en engar læknisfræðilegar hindranir séu lengur í vegi fyrir því að hún hefji störf.
Vinnumálastofnun barst annað bréf frá kæranda 11. nóvember 2013 þar sem hún greindi frá því að meðfylgjandi væru ný gögn sem vonandi gætu breytt niðurstöðu stofnunarinnar. Kærandi greindi meðal annars frá því að hún væri búin að vera í fullu starfi í tvö ár við að ná heilsu og að hún hefði fengið 100% greiðslur frá sjúkratryggingum. Með bréfi kæranda fylgdi læknisvottorð, dags. 2. september 2013, og læknabréf, dags. 21. janúar 2010.
Í kæru kemur fram að kærandi líti svo á að hún sé búin að vera í 100% vinnu síðastliðin tvö ár við að ná heilsu og á 100% launum við það frá sjúkratryggingum. Kæranda finnist biðtíminn sem hún hafi orðið að þola vera óréttlátan. Hún sé búin að bíða í tvö ár eftir því að komast aftur út að vinna. Í öllu því ferli hafi hún verið kýld niður hvað eftir annað, en enn standi hún. Ef hún hefði ekki sótt um bætur 2011 þá hefði hún sennilega aldrei lent í þessu, þar sem Vinnumálastofnun vilji gögn 6–12 mánuði aftur í tímann, en þá hafi hún verið í 100% vinnu á 100% launum við að ná bata. Hún hafi verið í stakk búin til að bíða árið 2011, hún hafi vitað uppá sig sökina. En tveimur árum síðar komi eitt kjaftshöggið enn. Kærandi fer fram á að ákvarðanir Vinnumálastofnun verði endurskoðaðar á mannlegum nótum og henni verði greiddar 100% bætur og einnig fyrir biðtímann, þar sem niðurstaða stofnunarinnar sé ekki sanngjörn. Hún hafi verið nýbyrjuð í skrifstofunámi hjá C til þess að auka við atvinnumöguleika sína þegar hún hafi greinst. Því námi hafi hún lokið með sóma.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. janúar 2014, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að láta kæranda sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Ákvörðun um biðtíma á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé frá 6. desember 2011. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé því liðinn skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Eftir að umsókn kæranda frá 13. ágúst 2013 hafi verið samþykkt hafi biðtími samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá desember 2011 haldið áfram að líða. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum en hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Þá bendir Vinnumálastofnun á 3. mgr. 54. gr. laganna og tekur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi hún ekki starfað á vinnumarkaði í a.m.k. hálfan mánuð frá því ákvörðun um biðtíma hafi verið tekin. Vinnumálastofnun telur því að ekki verði fallist á að heimild 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til að fella niður viðurlagatíma eigi við í máli kæranda. Biðtími eftir atvinnuleysisbótum skuli því halda áfram að líða eftir að kærandi hafi aftur sótt um bætur hjá Vinnumálastofnuna.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og henni gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. febrúar 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Kærandi óskaði eftir því við Vinnumálastofnun, 12. nóvember 2013, að mál hennar vegna eldri viðurlaga skv. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar yrði tekið til meðferðar á ný með tilliti til nýrra gagna/upplýsinga. Vinnumálastofnun synjaði á fundi sínum 2. desember 2013 beiðni kæranda um endurupptöku málsins skv. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin 5. desember 2011 og varðaði þá ákvörðun að fella rétt kæranda til atvinnuleysisbóta niður í tvo mánuði vegna starfsloka hennar hjá B.
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Ef beiðni um endurupptöku berst að liðnu ári frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun verður mál ekki tekið upp að nýju nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Kærandi óskaði endurupptöku máls síns tæpum tveimur árum eftir að ákvörðun Vinnumálastofnar var tekin og telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ekki að veigamiklar ástæður mæli með því að beiðni um endurupptöku verði tekin til greina. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því staðfest.
Kærandi óskar eftir því að henni verði greiddur biðtíminn sem Vinnumálastofnun tók ákvörðun um 5. desember 2011. Hún hefur ekki starfað í a.m.k. hálfan mánuð frá því ákvörðun um biðtíma var tekin. Heimild til þess að fella niður viðurlagatíma skv. 3. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á ekki við í máli kæranda. Biðtími skal því halda áfram að líða eftir að kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 13. ágúst 2013 og er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi þann þátt málsins einnig staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að synja beiðni A um endurupptöku ákvörðunar sem tekin var í máli hennar 5. desember 2011 er staðfest.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að biðtími A eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skuli halda áfram að líða er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúríksdóttir
Helgi Áss Grétarsson