Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 47/2012

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 47/2012

 

Frístundabyggð. Hlutverk félags. Þátttaka í sameiginlegum kostnaði.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Frístundafélagið B og C, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 28. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 14. desember 2012, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 7. janúar 2013 og athugasemdir gagnaðila, dags. 29. janúar 2013, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 20. mars 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða frístundabyggð í landi D í E. Ágreiningur er um hlutverk gagnaðila og skiptingu sameiginlegs kostnaðar. 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I.         Að viðurkennt verði að allir lóðarhafar á félagssvæði gagnaðila beri að taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna uppsetningar og reksturs öryggishliða að innkeyrslum að lóðum í B og C óháð því hvort frístundahús hafi verið byggt á viðkomandi lóð eður ei. 

II.      Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila beri að innheimta þann hluta félagsgjalds sem gangi til reksturs vatnsveitu á félagssvæðinu hjá öllum lóðarhöfum án tillits til þess hvort byggt hafi verið frístundahús á viðkomandi lóð. .

III.    Að kveðið verði á um hvort kostnaði vegna hliða, annars vegar að innkeyrslu C þar sem 31 lóð sé og hins vegar að innkeyrslu B þar sem 108 lóðir séu, eigi að skiptast á umráðamenn lóða jafnt milli aðila.

Í álitsbeiðni kemur fram haldinn hafi verið félagsfundur í gagnaðila þann 21. ágúst 2012 þar sem lögð hafi verið fram tillaga um uppsetningu tveggja öryggishliða við innkeyrslur inn á frístundasvæðið. Ágreiningur hafi komið fram á fundinum meðal annars um skiptingu kostnaðar. Stjórn gagnaðila hafi lagt fram tillögu sem gengið hafi út á að einungis þeir sem hafi frístundahús á lóð sinni skyldu taka þátt í greiðslu kostnaðar við uppsetningu og reksturs hliðanna, en þeir sem hafi ekki byggt á lóð sinni hafi átt kost á að taka þátt í kostnaði gegn því að fá aðgang að landi sínu. Þeir sem ekki tækju þátt í kostnaðinum fengju ekki lykil að hliðinu, en fengju aðgang að lóð sinni með greiðslu kostnaðar í framtíðinni þegar bygging frístundahúss hefðist.

Jafnframt hafi komið fram að greiðsla þess hluta félagsgjalds sem runnið hafi til reksturs vatnsveitu hafi á síðastliðnum þremur árum aðeins verið innheimt hjá þeim sem hafi haft frístundahús á lóð sinni en ekki af lóðarhöfum óbyggðra lóða.

Gagnaðili sé félag lóðahafa að skipulögðu frístundasvæði í landi D í E, með 139 lóðir. Gagnaðili starfi í samræmi við 17. gr. laga nr. 75/2008 og samþykktir sínar.

Í 1. mgr. 3. gr. samþykkta gagnaðila segi að félagsmenn séu allir þeir sem hafi umráð yfir lóð undir frístundahús á svæðinu og það sama gildi um umráðamenn lóða án húss. Skipulagning frístundalóða í C hafi verið gerð eftir stofnun félagsins en lóðarhafar hafi fljótlega gerst aðilar að félaginu. Á skipti jörðinni í tvö svæði, þannig að ekki sé sameiginleg innkeyrsla inn á svæðin. Því hafi falist í tillögu stjórnar gagnaðila sem lagðar voru fyrir félagsfund þann 21. ágúst 2012 að setja upp öryggishlið við innkeyrslur hvorra landanna um sig.

Á framangreindum fundi hafi formaður upplýst að sami háttur yrði hafður á innheimtu hliðgjaldsins og hafði verið á innheimtu vatnsgjaldsins, þ.e. að aðeins yrði innheimt af byggðum lóðum, en síðar myndu umráðamenn óbyggðu láðanna greiða sérstkt tengigjald þegar umræddar lóðir tengdust vatnsveitunni.

Varðandi skiptingu kostnaðar milli umráðamanna lóða í B annars vegar og C hins vegar sé það álitamálið hvort um sé að ræða kostnaðarskiptingu í anda 2. tölul. 7. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þ.e. að um sameign sumra sé að ræða þegar lega sameignar eða afnot hennar tilheyri aðeins þeim sem hafi aðgang að henni og afnotamöguleika.

Ágreiningsefni séu því annars vegar vegna niðurstöðu atkvæðagreiðslu félagsfundar þann 21. ágúst 2012 varðandi kostnaðarskiptinu vegna uppsetningu öryggishliðanna og hins vegar vegna þeirra upplýsinga sem fram komu varðandi innheimtu vatnsgjalds skv. ákvörðun stjórnar. Álitsbeiðandi vísi til 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/2008 þar sem segi að ákvæði laganna séu ófrávíkjanlega nema annað sé tekið fram eða leiði af eðli máls. Álitsbeiðandi telji félagsfund því ekki hafa haft heimild til að ákveða hverjir skuli taka þátt í sameiginlegum kostnaði sem samþykkt sé að félagið ráðist í eða undanþyggja tiltekna félagsmenn greiðsluþátttöku. Auk þess telji álitsbeiðandi stjórn gagnaðila ekki heimilt að ákveða upp á sitt einsdæmi hverjir skuli greiða vatnsgjaldið og hverjir skuli undanþegnir því. Vatnskerfið sé ekki í eigu gagnaðila fremur en vegirnir en gagnaðila beri að annast rekstur þess og viðhald samkvæmt lóðaleigusamningum við landeiganda eða upphaflegum lóðaleigusamningum núverandi eignarlóða.

Í samþykktum gagnaðila segi að hlutverk gagnaðila sé meðal annars viðhald akvega, lagning og viðhald göngustíga innan svæðisins og gerð og rekstur sameiginlegrar vatnsveitu. Auk þess segi að tilgangur gagnaðila sé meðal annars að vinna að auknu öryggi á félagssvæðinu. Álitsbeiðandi segir ljóst af framangreindu hlutverki og tilgangi gagnaðila að allir umráðamenn lóða eigi að taka þátt í sameiginlegum kostnaði þegar hann falli til.

Tillaga stjórnar gagnaðila um kostnaðarþáttöku vegna öryggishliða hafi verið rökstudd sem svo að með fyrirhuguðum framkvæmdum væru þeir sem ættu sumarhús að vernda eigur sínar og því væri mjög eðlilegt að miða ákvörðun um lögmæti fundar og innheimtu gjalds við byggðar lóðir. Þeir sem ekki hafi byggt á sínum lóðum hafi engra hagsmuna að gæta og ekki gæti talist sanngjarnt að þeir gætu ráðið úrslitum um það hvort aðrir verndi eigur sínar og verðmæti. Álitsbeiðandi segir þessi rök falla um sjálft sig þar sem ekki liggi annað fyrir en allir félagsmenn hafi verið boðaðir á fundinn, þar á meðal þeir sem séu umráðamenn fleiri en einnar lóðar þar sem a.m.k. ein er óbyggð og ein byggð og hvort viðkomandi einstaklingar hafi nýtt sér öll atkvæði sín, en atkvæði eru bundin við lóð en ekki einstakling.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að varðandi fyrstu kröfu álitsbeiðanda megi skilja inntak kæruefnisins sem svo að deilt sé um hvort öllum lóðarhöfum beri að greiða kostnað við uppsetningu og rekstur öryggishliða að svæðum B og C. Um þann þátt beri fyrst að nefna að ekki sé um það deilt af hálfu stjórnar hvort öllum lóðarhöfum beri að greiða kostnað sem af framangreindum framkvæmdum og viðhaldi þeirra hljótist. Stjórn gagnaðila líti svo á að öllum lóðarhöfum beri að greiða kostnað sem sannanlega stafi af því sem tilgreint sé í samþykktum gagnaðila, og gildi það óháð því hvort að lóðir séu byggðar eður ei. Hér hafi því einungis virst vera deilt um það útfærsluatriði hvort umráðamenn óbyggðra lóða séu krafðir um þátttöku í kostnaðinum þegar til hans stofnist eða hvort innheimta megi kostnaðinn þegar viðkomandi aðilar hafi byggt sumarhús á lóðum sínum.

Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. samþykkta gagnaðila sé hlutverk þess að viðhalda sameiginlegri girðingu um svæðið. Samkvæmt d. lið 5. gr. samþykktanna sé tilgangur gagnaðila að vinna að auknu öryggi á félagssvæðinu. Samkvæmt 12. gr. samþyktanna fari stjórn gagnaðila með æðsta vald í málefnum þess, og túlkist það út frá samþykktunum sem svo að hafi stjórn umboð félagsfundar til að ráðast í framkvæmdir, þá hafi hún óskorað umboð til þess. Ákvarðanataka á fundum gagnaðila ráði úrslitum í því hvaða málefni séu samþykkt og hvernig. Fari það eftir afli atkvæða í atkvæðagreiðslu, sbr. 8. gr. samþyktanna. Í umræddri 8. gr. komi fram að eitt atkvæði fylgi hverri lóð. Breyti þar engu hvort að einn og sami aðilinn fari með umráð fleiri en einnar lóðar, því atkvæðið fylgi lóðinni en ekki aðilanum. Um sé að ræða ákvörðun sem tekin hafi verið á grundvelli 11. gr. samþykktanna, en þar sé kveðið á um að tillaga sem feli í sér verulegan kostnað fyrir félagsmenn umfram verulegan rekstrarkostnað, þá þurfi aukið atkvæðamagn, eða 2/3 hluta greiddra atkvæða. Atkvæðagreiðslan hafi fallið þannig að 36 hafi samþykkt en 2 verið á móti.

Í samþykktum gagnaðila sé ekki kveðið á um hvernig skuli staðið að greiðslu kostnaðar að öðru leyti en því að allir lóðarhafar skuli taka þátt í kostnaði, í hvert skipti sem til hans stofnast. Þá sé ekki kveðið á um annað en að mál sem þessi skuli ráðast með ákveðnum hætti, sbr. 9. gr. samþyktanna, eða að stjórnin eða félagsmenn séu bundnir af öðru en ákvörðun fundar, sbr. 11. gr. Þar sem ákvæðum samþykktanna sleppi og félagsfundur hafi ekki ákveðið annað fáist ekki annað séð en að stjórn félagsins hafi vald til að framkvæma ákvarðanir sem teknar séu fyrir félagið með hagsmuni þess að leiðarljósi. Þeir hagsmunir þurfi ekki í öllum tilvikum að þjóna hagsmunum hvers og eins félagsmans. Ekki sé verið að mismuna félagsmönnum þar sem báðir flokkar félagsmanna séu bundnir af greiðslum til að fjármagna framkvæmd gagnaðila um uppsetningu og rekstur á öryggishliðum, sá flokkum sem þegar hafi reist sumarhús greiði sinn hluta við uppsetningu hliðanna, en sá flokkur sem ekki hafi reist sér sumarhús geri það eftir að sumarhús hafi verið byggt, sbr. tillaga stjórnar og ákvörðun fundarins. Til tryggingar gjaldinu hafi stjórnin leiðir til að tryggja greiðslu kostnaðar, s.s. að krefjast aðfarar hugsanlega á grundvelli lögveðs.

Varðandi aðra kröfu álitsbeiðanda segir gagnaðili að skv. 3. tölul. 4. gr. samþykkta gagnaðila sé gerð og rekstur á sameiginlegri vatnsveitu eitt hlutverka félagsins. Undir reksturinn falli tækjabúnaður sem kaupa þurfi, viðgerðir á honum og viðgerðir á lögnum o.fl. Gagnaðili vísar til sömu sjónarmiða og finna má að framan, þ.e. að engar hömlur séu á verkferlum stjórnar nema það sem ákveðið sé á aðalfundi félagsins. Ekkert fáist séð sem takmarki heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir sem félaginu séu fyrir bestu, eftir að ákvæðum 9. og 11. gr. samþykktanna sleppi.

Varðandi þriðju kröfu álitsbeiðanda segir gagnaðili að ekki verði séð hvernig þeirri kröfu verði svarað með skýrum hætti. Um sé að ræða tvö svæði, B og C, en um svæðin hafi verið stofnað eitt félag sem beri heiti beggja svæða. Í því felist að gagnaðili taki ákvarðanir fyrir bæði svæðin sameiginlega, enda teldist mismunun í öðru. Þrátt fyrir að á öðru svæðinu sé 31 lóð og á hinu 108 lóðir, þá breyti það engu um að bæði svæði hagnýti t.d. sama veg, sömu vatnsveitu o.fl.

Ljóst sé að samþykktir gagnaðila nái yfir bæði svæðin. Stjórn gagnaðila væri því óheimilt að taka ákvörðun, sem snerti bæði svæðin en fæli í sér meiri hagsbætur annars svæðis umfram hitt. Vegna staðsetningu svæðanna sé ljóst að þörf sé á fleiri en einu hliði. Af þeim sökum verði ákvörðunin að fela í sér jafnræðislega niðurstöðu sem þjóni hagsmunum allra lóðarhafa. Hvergi í samþykktum gagnaðila sé stjórn veitt heimild til að taka eina ákvörðun fyir svæði B en aðra fyrir svæði C. Tillaga stjórnar um uppsetningu hliða hafi verið samþykkt með miklum meirihluta atkvæða.  

Í athugasemdum álitsbeiðenda bendir álitsbeiðandi á að hvorki í lögum nr. 75/2008 eða samþykktum félagsins sé heimilt eða gert ráð fyrir því að félagsaðilar leggi fram fjármagn til að standa undir kostnaðarhlutdeild annarra félagsmanna sem gerðir séu undanþegnir greiðsluþátttöku á útgjaldaári þar til tiltekin skilyrði sem sett séu í sjálfdæmi viðkomandi félagsaðila að efna í framtíðinni, þ.e. að byggja sér sumarhús á lóðinni. Einhver þurfi að fjármagna þann hluta kostnaðar sem falli á óbyggðar lóðir því geti álitsbeiðandi ekki séð betur en að um lán sé að ræða. Hvorki sé heimilt samkvæmt framangreindum lögum eða samþykktum gagnaðila að krefja lóðarhafa um hærri félags- eða framkvæmdagjöld en sem nemi áætluðum kostnaðarhluta lóðar hvers og eins á hverju rekstrarári. Eigið fé félagsins sem hafi myndast sem mismunur félagsgjalda og kostnaður hvers ár sé ekki til frjálsrar ráðstöfunar stjórnar nema samkvæmt samþykkt félagsfundar á fjárhagsáætlun og þá aðeins til greiðslu rekstrarkostnaðar ársins eða til að jafna rekstrartap ársins hafi félagsgjald verið vanáætlað og ekki dugað til greiðslu eðlilegs eða samþykkts kostnaðar fyrir það rekstrarár.

Álitsbeiðandi telji að stjórn hafi ekki hugsað þetta útfærsluatriði til enda. Hvernig endurgreiðslufjárhæð kostnaðarhluta lóðarinnar verði ákvörðuð og þá væntanlega með vöxtum og verðbótum þegar lóðarhafa þóknist að uppfylla skilyrði endurgreiðslunnar. Sá kunni að hafa keypt lóðina eða leigulóðarréttindin af fyrri lóðarhafa. Hver eigi endurgreiðsluna, félagsmenn sem lögðu til fjármunina eða félagssjóður sem allir félagsmenn eigi tilkall til að ráðstafað sé í þágu þess. Að mati álitsbeiðanda geti það ekki verið félagið þar sem það hafi innt af hendi allan kostnað sem til hafi fallið á framkvæmdina á löngu liðnum árum.

Álitsbeiðandi segir að samþykktir félagsfundar og ákvarðanir stjórnar sem gangi gegn ákvæðum laga nr. 75/2008 og túlkun þeirra hafi ekki gildi gagnvart félagsmönnum þar sem ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg. Stjórninni beri að framkvæma ályktanir félagsfunda um rekstur gagnaðila og framkvæmdir en hafi ekki óskorað umboð til að túlka þá framkvæmd án tillits til laganna og samþykkta félagsins.

Álitsbeiðandi ítrekar því að hann telji félagsfundi ekki heimilt að ákveða hverjir skuli taka þátt í sameiginlegum kostnaði sem samþykkt sé að félagið ráðist í eða undanþiggi tiltekna aðila greiðsluþáttöku auk þess sem stjórn félagsins geti ekki upp á sitt einsdæmi eða félagsfundur ákveðið hverjir skuli greiða vatnsgjaldið og hverjir skuli undanþegnir því. Álitsbeiðandi telji því að um ólögmæta innheimtu sé að ræða á kostnað annarra aðila.

Varðandi atkvæðagreiðslu megi benda á að 36 hafi verið fylgjandi tillögu stjórnar um að setja upp öryggishlið en tveir á móti. Þrír hafi ekki greitt atkvæði. Þegar breytingartillaga hafi verið borin upp hafi 16 verið fylgjandi því að innheimt yrði kostnaðarhlutdeild hjá öllum félagsaðilum en 21 á móti. Samtals hafi því 37 tekið þátt í síðari atkvæðagreðislunni. Að mati álitsbeiðanda hafi félagsmenn í raun aðeins verið að greiða atkvæði um að setja upp öryggishlið þegar tillaga stjórnar hafi verið samþykkt, án þess að taka afstöðu til greiðsluþátttöku. Álitsbeiðandi fullyrði að engin andstaða sé innan félagsins sem slík að setja upp öryggishlið þó nokkrir telji sig vera með þjófavarnaöryggi nú þegar. Málið snúist um hvort meirihluti félagsmanna geti ákvarðað hverjir skuli taka þátt í sameiginlegum kostnaði sem samþykkt sé að félagið ráðist í og þar með láni öðrum félagsaðilum kostnaðarhlutdeild þeirra sem séu gerðir undanþegnir þáttökunni, a.m.k. á því ári sem kostnaður falli til.

Í samþykktum félagsins komi skýrt fram að umráðamanni lóðar sé skylt að greiða sinn hluta kostnaðar sem hlýst af ákvörðun sem löglega hafi verið tekin. Álitsbeiðandi segir óskiljanlegt hvernig hugsast getur að slíta í sundur greiðslu kostnaðar til þriðja aðila vegna framkvæmda félagsins og innheimtu árlegra félagsgjalda og framkvæmdagjalds þegar það  á við, án þess að það bitni á þeim félagsaðilum sem standi í skilum á sínum greiðslum. Auk þess komi fram að gjalddagi árgjalds skuli vera 1. júní og gjalddagi framkvæmdagjalds skuli tilgreint við samþykkt þess. Það liggi því ljóst fyrir að kveðið sé á um hvernig skuli staðið að innheimtu félagsgjalda og framkvæmdagjalda. Félagsgjald, þar með talið sá hluti þeirra sem varið sé til reksturs vatnskerfisins, séu þær tekjur félagsins sem einungis eigi að ganga til greiðslu rekstrarkostnaðar á rekstrarárinu ásamt samþykktum sértækum framkvæmdakostnaði hverju sinni og hver og einn lóðarhafi skuli standa skil á.

Lögveð skv. 21. gr. laga nr. 75/2008 geti ekki náð til óskilgreindrar lánveitingar félagsins til einstakra félagsmanna vegna löngu liðinna atburða á félagssvæðinu heldur aðeins til áfallinna gjalda ársins. Auk þess sem félaginu sé óheimilt að innheimta í sjóði félagsins frá öðrum félagsmönnum til að standa undir kostnaði sem aðrir félagsmenn fái að greiða í framtíðinni.

Álitsbeiðandi ítrekar það sem fram kemur í álitsbeiðni

Í athugasemdum gagnaðila kemur fram að atkvæðagreiðsla á félagsfundi hafi samþykkt tillögu stjórnar um fyrirkomulag varðandi innheimtu á kostnaði vegna öryggishliða. Það hafi þótt eðlilegt fyrirkomulag í ljósi þess að þeir sem hafi byggt séu í raun að vernda eigur sínar en aðrir hafi engra hagsmuna að gæta í þeim efnum. Í sumum tilfellum séu þeir sem ekki hafi byggt í deilu við landeigendur um að losna undan leigusamningi þar sem þeir ætli ekki að byggja og/eða séu komnir í fjárhagslegt þrot.

Í kjölfar álitsbeiðni álitsbeiðandai hafi stjórn gagnaðila hins vegar ákveðið að innheimtuseðlar vegna framkvæmdanna skyldu sendir á alla félagsmenn. Þannig hafi framkvæmd við innheimtu í raun orðið eins og álitsbeiðandi telji hana eiga að vera. Breytingin hafi verið gerð á grundvelli 12. gr. samþykkta gagnaðila. Auk þess vilji stjórn gagnaðila benda á að áður en innheimtuseðlar hafi verið sendir á alla félagsmenn hafi verið sendur út tölvupóstur til félagsmanna þar sem fram kom að vilji félagsmenn fá aðganga um hliðin þurfi þeir að hafa samband við stjórn gagnaðila og greiða gjald vegna hliðanna. Með því hafi stjórn í raun lagt áherslu á að allir þeir sem hafi ætlað inn á svæðið þyrftu að greiða sinn hluta í kostnaði vegna hliðanna, óháð því hvort byggt hafi verið sumarhús á lóð viðkomandi.

Vatnsöflun og vatnsveita hafi löngum verið vandræðamál á umræddu svæði. Því hafi verið samþykkt að leggja á sérstakt vatnsgjald vegna nauðsynlegra framkvæmda og viðhalds vatnsveitu. Vatnsgjald hafi upphaflega verið innheimt af öllum lóðum sen síðar hafi komið í ljóst að mikil óánægja hafi verið með gjaldið hjá þeim lóðarhöfum sem ekki hafi byggt á lóðum sínum og hafi því ekki verið tengdir við veituna. Í ljósi þess hafi sú hugmynd verið reifuð í stjórn að fella vatnsgjaldið niður hjá þeim sem ekki hafi byggt á lóðum sínum. Af því hafi þó ekki orðið og því hafi allir félagsmenn verið krafðir um greiðslu vegna vatnsgjalds. Undantekning frá framangreindu sé vegna ársins 2011 en það ár hafi vatnsgjald ekki verið innheimt af þeim lóðum sem ekki hafi verið tengdar veitunni.

Í fundargerð frá félagsfundi 21. ágúst 2012 sem áltisbeiðandi hafi sent með álitsbeiðni sinni segi: „Formaður sagði að hér væri viðhaft sama fyrirkomulag á og tíðkaðist við t.d. innheimtu vatnsgjalds. Það er aðeins innheimt af byggðum lóðum en síðan greiða óbyggðar lóðir sérstakt tengigjald þegar þær tengjast vatnsveitunni.“ Gagnaðili tekur fram að hafa verði í huga að fundargerð sé einungis frásögn af megin anda umræðu og því geti inn í hana slæðst ónákvæmni eða missögn þegar grannt sé skoðað.

Samhliða hugsanlegri niðurfellinug á vatnsgjaldi hafi stjórn gagnaðila rætt þá hugmynd að innleiða sérstakt tengigjald á nýja aðila er þeir tengist veitunni. Það hafi þó ekki enn komið til framkvæmda þar sem engin ný hús hafi verið reist frá því sú hugmynd hafi vaknað.

Um það megi deila hvort ákvörðun stjórnar að falla frá innheimtu vatnsgjalds á óbyggðum lóðum árið 2011 hafi verið rétt. Hins vegar hafi það meðal annars verið gert í von um að innheimta hinna almennu félagsgjalda gangi betur en reyndin hafi verið hjá þeim aðilum sem ekki hafi byggt á lóðum sínum. Þannig hafi stjórnin í raun með almenna hagsmuni félagsins í huga þegar sú ákvörðun hafi verið tekin.

 

III. Forsendur

  1. Í málinu liggur fyrir fundargerð félagsfundar í frístundafélagi B og C, haldinn 21. ágúst 2012. Á dagskrá fundarins var liðurinn: „öryggishlið, staðan og næstu skref“. 

    Samkvæmt 4. mgr. 22. gr. laga nr. 75/2008 skal tillaga, sem getið hefur verið í fundarboði, um að ráðast skuli í framkvæmdir eða stofna til kostnaðar sem leiðir til útgjalda, sem eru umfram venjulegan rekstrarkostnað félagsins, hljóta samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða og skal minnst þriðjungur félagsmanna sækja fundinn.

    Í 3. gr. samþykkta félagsins kemur fram að félagsmenn eru allir þeir sem hafa umráð yfir lóð undir frístundahús á svæðinu. Sama gildir um umráðamenn lóða án húss. Samkvæmt gögnum málsins eru 139 lóðir innan félagsmarka gagnaðila. Samkvæmt fundargerðinni mættu fulltrúar frá 41 lóð. Af því leiðir að kröfum um fundarsókn var ekki fullnægt. Það er því álit kærunefndar að ákvörðun félagsfundar um framkvæmdir vegna öryggishliða hafi ekki verið lögmæt.
  2. Í öðru lagi er deilt um innheimtu sérstaks vatnsgjalds, þ.e. hvort stjórn gagnaðila hafi verið heimilt að ákveða einhliða að innheimta sérstakt vatnsgjald aðeins af umráðamönnum byggðra lóða. Í athugasemdum gagnaðila kemur fram vatnsgjald hafi verið innheimt af umráðamönnum lóða óháð því hvort lóð hafi verið byggð eða ekki, að undanskyldu einu ári. Með vísan til þessara upplýsinga telur kærunefnd að ekki sé ágreiningur um innheimtu vatnsgjalds og er þessari kröfu því vísað frá kærunefnd.
  3. Að lokum virðist deilt um hvort skipta eigi kostnaði vegna uppsetningar hliða jafnt milli allra félagsmanna eða hvort líta megi á hvort hlið um sig sem sameign sumra, þannig að hlið að innkeyrslu C verði sameign umráðamanna lóða í C og hlið að innkeyrslu B verði sameign umráðamanna lóða í B.

Gagnaðili er félag í frístundabyggð sem stofnað er með vísan til 17. gr. laga nr. 75/2008 þar sem mælt er fyrir um skyldu umráðamanna lóða undir frístundahús til að hafa með sér félag um sameiginlega hagsmuni. Í 2. mgr. 17. gr. segir að félagssvæði ráðist af jarðamörkum, þó eru heimilaðar undantekningar í sérstökum tilfellum. Í því máli sem hér um ræðir hafa félagsmenn ákveðið að stofna félag þar sem félagssvæði ráðist af jarðamörkum. Hvergi er að finna í lögum nr. 75/2008 heimild til að skipta kostnaði á annan hátt en jafnt milli allra lóða. Það er því álit kærunefndar að kostnaður vegna uppsetningar hliða skuli skiptast jafnt milli allra lóða innan félagssvæðisins.

 

IV. Niðurstaða

  1. Það er álit kærunefndar að ákvörðun félagsfundar um framkvæmdir vegna öryggishliða hafi ekki verið lögmæt.
  2. Kærunefnd vísar frá kröfu álitsbeiðanda.
  3. Það er álit kærunefndar að kostnaður vegna uppsetningar öryggishliða skuli skiptast jafnt milli allra lóða innan félagssvæðisins.

 

Reykjavík, 20. mars 2013

 

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Ásmundur Ásmundsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta