Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Dýralæknum Sandhólaferju ehf.

 

Uppsögn á meðgöngu. Fallist á brot.

A kærði ákvörðun S ehf. um að segja henni upp störfum á meðgöngu. Samkvæmt uppsagnarbréfinu var ástæða uppsagnarinnar nauðsynlegar skipulagsbreytingar og fyrirsjáanlegur samdráttur. Var S ehf. ekki talið hafa sýnt fram á að ákvörðun um uppsögn A hafi grundvallast á öðrum ástæðum en fæðingar- og foreldraorlofi, meðgöngu eða barnsburði. Samkvæmt því var S ehf. talið hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. apríl 2023 er tekið fyrir mál nr. 9/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 3. maí 2022, kærði A ákvörðun Dýralækna Sandhólaferju ehf. um að segja henni upp störfum á meðgöngu. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 18. maí 2022. Kærði óskaði eftir framlengdum fresti til að skila greinargerð í málinu sem barst með bréfi, dags. 19. ágúst 2022. Greinargerð kærða var send kæranda til athugasemda með bréfi kæru­nefndar, dags. 23. s.m. Kærunefndinni bárust athugasemdir kæranda með bréfi, dags. 15. september 2022, og voru þær sendar kærða 19. s.m. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 11. október 2022, og voru þær kynntar kæranda degi síðar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 27. október 2022, og voru kynntar kærða degi síðar. Athugasemdir kærða bárust með bréfi, dags. 11. nóvember 2022, og voru kynntar kæranda sama dag.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærandi, sem er dýralæknir, var barnshafandi þegar henni var sagt upp störfum 28. febrúar 2022 með starfslokum þann dag. Í uppsagnarbréfinu var tekið fram að upp­sagnarfrestur yrði greiddur út. Þá voru ástæður uppsagnarinnar sagðar nauðsynlegar skipulagsbreytingar og fyrirsjáanlegur samdráttur. Uppsagnarbréfið var undirritað af öllum hluthöfum kærða.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi heldur því fram að uppsögn hennar úr starfi hjá kærða þegar hún var barns­hafandi feli í sér brot gegn ákvæðum laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  6. Kærandi tekur fram að henni hafi verið sagt upp 28. febrúar 2022 þegar fram­kvæmda­stjóri fyrirtækisins ók henni heim. Samkvæmt uppsagnarbréfinu tók uppsögnin strax gildi og urðu starfslok sama dag. Jafnframt var tekið fram að uppsagnarfrestur yrði greiddur út. Heldur kærandi því fram að uppsögnin hafi verið án gildra ástæðna, auk þess sem skriflegur rökstuðningur hafi ekki fylgt uppsögninni. Vísar kærandi til 50. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof um það.
  7. Kærandi tekur fram að hún hafi tilkynnt kærða í desember 2021, nánar tiltekið einum meðeiganda fyrirtækisins sem jafnframt er dýralæknir, um leið og hún sjálf vissi að hún væri barnshafandi. Hafi hún gert það þar sem mælt er gegn því að þungaðar konur noti röntgenvélar og meðhöndli tiltekin lyf. Þá hafi hún óskað eftir því að meðeigandinn tilkynnti framkvæmdastjóranum um þungunina en framkvæmdastjórinn hafi lítið sem ekkert verið á vinnustaðnum frá október til jóla 2021 en hann hafi gengist undir aðgerð um jólin. Staðfesti meðeigandinn það símleiðis daginn eftir að hún hefði gert það.
  8. Kærandi bendir á að þegar henni var sagt upp störfum hafi hún verið gengin 15 vikur og fjóra daga. Þegar hún hafi mætt til vinnu þann dag hafi framkvæmdastjórinn beðið hennar í anddyri vinnustaðarins og sagt henni að taka saman dótið sitt og koma út í bíl þar sem hann ætlaði að keyra hana heim og ræða við hana á leiðinni. Hann hafi afhent henni uppsagnarbréfið þegar hún settist í bílinn og ekið af stað. Hafi hann talað alla leiðina, ausið yfir hana fúkyrðum og tilkynnt henni að hún fengi ekki að tjá sig. Þegar heim var komið hafi hann viljað að hún skrifaði undir uppsagnarbréfið. Hún vildi hins vegar lesa það fyrst yfir en kvaðst ætla að senda honum það síðar í pósti.
  9. Kærandi bendir á að lögmaður BHM hafi með bréfi, dags. 30. mars 2022, vakið athygli kærða á að uppsögnin væri ólögmæt og hefði hann jafnframt óskað eftir fundi með fyrirsvarsmönnum kærða. Hafi lögmaðurinn og framkvæmdastjórinn rætt saman í síma þar sem m.a. hafi komið fram að framkvæmdastjóranum hafi ekki verið kunnugt um að kærandi hefði verið barnshafandi þegar uppsögnin átti sér stað. Hafi hann sagt að eiginkona sín og einn meðeigandi kærða hafi ekki heldur vitað af þunguninni. Hafi hann aftur á móti gengist við því að þriðji meðeigandinn hafi vitað af þunguninni en nefnt að starfsmanni væri skylt að tilkynna það til framkvæmdastjóra. Þar sem það hefði ekki verið gert hefði kærði ekki brotið gegn lögum. Hafi hann engu skeytt um þá staðreynd að sami meðeigandi og fékk upplýsingar um þungunina hafi skrifað undir uppsagnarbréfið. Bendir kærandi á að hún geti ekki borið ábyrgð á miðlun upplýsinga innan fyrirtækisins. Að auki bendir hún á að eiginkona framkvæmdastjórans hafi vitað um þungunina þar sem það hafi komið upp atvik um mánaðamótin janúar/febrúar þegar einn starfsmaðurinn notaði röntgentæki að kæranda og eiginkonunni viðstöddum. Hefði eiginkonan hughreyst kæranda. Hafi meirihluti eigenda kærða því vitað af þunguninni.
  10. Kærandi bendir á að fyrrum samstarfskona hennar hafi vottað skriflega að sá eigandi sem hafi gengið í störf framkvæmdastjóra í fjarveru hans hafi upplýst hana um þungun kæranda. Jafnframt hafi hún vottað að kærandi hafi tilkynnt henni viku síðar um þungunina og að hún hafi hvorki notað röntgenvélar við vinnuna né tiltekin lyf sem teljast hættuleg þeim sem er þungaður.
  11. Kærandi heldur því fram að umfjöllun kærða um tekjufall þar sem vinnu fyrir tiltekið fyrirtæki við blóðtöku úr merum hafi verið hætt standist ekki skoðun. Í fyrsta lagi hafi ekki legið fyrir þegar henni var sagt upp að kærði myndi hætta að vinna við blóðtöku. Bendir kærandi á að samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu hafi kærði ætlað að taka blóð hjá því sumarið 2022. Framkvæmdastjóri kærða hafi tilkynnt fyrirtækinu í júní 2022 að kærði myndi ekki taka blóð. Kærða hafi því staðið til boða mikil vinna fyrir fyrirtækið sem hann hætti við einhverjum dögum áður en blóðtaka átti að hefjast en ekki var komið að þeim tímapunkti þegar kæranda var sagt upp störfum. Ætluð skipulagsbreyting hafi því ekki verið ákveðin fyrr en löngu eftir að kæranda var sagt upp. Í öðru lagi bendir kærandi á að verkefni hennar hafi ekki verið við blóðtöku heldur almennar dýralækningar með vitjunum. Aðrir starfsmenn hafi haft blóðtökuna með höndum. Ætluð skipulagsbreyting hafi því ekki tekið til starfa kæranda. Í þriðja lagi fari blóðtaka fram síðsumars og á haustin, nánar tiltekið frá seinni hluta júlímánaðar og fram í október til nóvember. Uppsögnin hafi því ekki getað haft neitt með viðskipti við umrætt fyrirtæki að gera. Í fjórða lagi hafi rekstur kærða skilað honum góðum hagnaði samkvæmt framlögðum ársreikningi 2021. Hafi rekstrarlegar ástæður því ekki réttlætt uppsögnina.
  12. Kærandi tekur fram að það sé rangt að hún hafi haft stystan starfsaldur hjá fyrir­tækinu. Hafi hún haft lengstan starfsaldur útskrifaðra dýralækna hjá kærða. Nefnir hún dæmi um dýralækni sem hafi útskrifast í apríl 2019 en hún hafi hafið störf hjá kærða í mars 2019. Þá hafi annar dýralæknir hafið störf hjá kærða í júlí 2021 en hún hafi útskrifast sem dýralæknir í sama mánuði. Kærandi hafi aftur á móti hafið störf hjá kærða í október 2020 en hún hafi útskrifast sem dýralæknir í desember 2017. Hefði kærandi því lengstan starfsaldur og mestu reynsluna en hún hefði tekið virkan þátt í að kenna og leiðbeina fyrrnefndum tveimur dýralæknum, auk þess að sinna fleiri og flóknari verkefnum en þær. Tekur kærandi fram að fyrst nefndi dýralæknirinn hafi sagt upp störfum hjá kærða eftir að hún heyrði að kæranda hefði verið sagt upp störfum.
  13. Kærandi bendir á að ekki hafi verið rökstutt hvers vegna henni hafi verið sagt upp fremur en öðrum dýralæknum með styttri starfsaldur og minni starfsreynslu. Telur kærandi því að kærði hafi ekki fært fullnægjandi sönnur á að uppsögnin hafi verið grundvölluð á málefnalegum ástæðum eins og gera verður kröfur til þannig að uppsagnarvernd þungaðra kvenna virki í reynd.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  14. Kærði hafnar því að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við uppsögn kæranda þegar hún var barnshafandi.
  15. Kærði tekur fram að félagið sinni dýralækningum, auk þess að starfrækja dýraspítala og verslun. Kærði sé í eigu þriggja einstaklinga sem starfa hjá félaginu, þar af séu tveir dýralæknar. Hafi dýralæknar á vegum kærða sinnt blóðtöku á merum tiltekins fyrirtækis um árabil samhliða því að veita almenna dýralæknaþjónustu. Þessi þjónusta við blóðtöku hafi skilað kærða góðum tekjum. Í kjölfar neikvæðrar umræðu í samfélag­inu og andstöðu starfsmanna kærða við blóðtökuna hafi kærði hætt þessari þjónustu. Þetta hafi verið afdrifarík ákvörðun sem hafi haft í för með sér verulegt tekjutap fyrir kærða og ekki fyrirséð hvernig því yrði mætt enda stór hluti af heildartekjum kærða.
  16. Kærði bendir á að á árinu 2021 hafi sex starfsmenn starfað hjá kærða, þar af fimm konur og einn karl. Af þessum starfsmönnum hafi verið fimm dýralæknar. Hafi kærði greitt háar fjárhæðir í laun og launatengd gjöld. Ljóst hafi verið að hann þyrfti að bregðast við tugmilljóna tekjutapi sem blasti við í kjölfar þess að vinnu við blóðtöku hafi verið hætt, m.a. með fækkun dýralækna á launaskrá. Áður en ákvörðun var tekin um hvort starfsfólki yrði sagt upp hefði kærði farið gaumgæfilega yfir aðra möguleika sem hann hafði til að hagræða í rekstri og naut þar m.a. aðstoðar bókhalds- og ráðgjafarþjónustu. Niðurstaðan hefði orðið sú að grípa þyrfti til uppsagna en engar ákvarðanir hefðu verið teknar fyrr en framkvæmdastjóri kærða, sem beri ábyrgð á starfs­mannahaldi, hefði komið aftur til vinnu að loknu veikindaleyfi sem hann var í frá jólum og út febrúarmánuð 2022. Ákveðið var að segja kæranda upp störfum en um svipað leyti lá fyrir að annar dýralæknir hafði hætt störfum að eigin frumkvæði. Var m.a. horft til þess að kærandi hafði stystan starfsaldur hjá kærða. Hefði sú sem hélt starfinu hafið störf sem dýralæknanemi sumarið 2020 og þegar hún var á fjórða og fimmta ári í háskólanum hefði hún hlotið tímabundið leyfi til að sinna dýralækningum á ábyrgð kærða, sbr. 6. mgr. 6. gr. laga nr. 66/1998. Kærði tekur fram að eftir þessar breytingar starfi þrír dýralæknar hjá honum í stað fimm eins og áður, þar af tveir eigendur. Þá lægi fyrir að sú sem hélt starfinu sem dýralæknir ætti von á barni og myndi hefja fæðingarorlof í janúar 2023. Til marks um minnkandi verkefnastöðu hefði kærði ekki í hyggju að ráða annan dýralækni í afleysingar á meðan á fæðingarorlofinu stendur.
  17. Kærði tekur fram að það sé rétt að kærandi hafi ekki komið að blóðtökum með beinum hætti. Hins vegar sinni allir dýralæknar kærða almennum dýralæknastörfum, þar með talið vitjunum, en slíkt hafi ekki aðeins verið á könnu kæranda.
  18. Kærði tekur fram að þegar framkvæmdastjóri hans tilkynnti kæranda um uppsögnina hafi hann ekki vitað að hún gengi með barn. Hvorki hafi kærandi tilkynnt honum það né höfðu aðrir starfsmenn sagt honum frá því. Eins og komi fram í uppsagnarbréfi hafi ástæða uppsagnarinnar verið nauðsynlegar skipulagsbreytingar og fyrirsjáanlegur samdráttur. Uppsögnin hafi tekið gildi 28. febrúar 2022 og starfslok verið sama dag. Kærandi hafi fengið greiddan uppsagnarfrest en henni hafi ekki verið gert að vinna út uppsagnarfrestinn. Kærði mótmælir því að framkvæmdastjórinn hafi ausið yfir kæranda fúkyrðum þegar hann ók henni heim eftir uppsögnina, hann hafi þvert á móti reynt að útskýra þá stöðu sem upp var komin í rekstri dýralæknastofunnar. Tekur hann fram að kærandi hafi, eins og gefur að skilja, verið ósátt með uppsögnina enda erfitt að missa vinnu, hver sem ástæða uppsagnarinnar er. Á hinn bóginn hafi kæranda mátt vera ljóst að rót ákvörðunarinnar hafi verið hagræðing í rekstri af framangreindum ástæðum sem henni hafi verið fyllilega kunnugt um. Hafi uppsögnin því ekki tengst persónu kæranda eða frammistöðu hennar í starfi.
  19. Kærði bendir á að almennt gildi sú meginregla í vinnurétti að atvinnurekandi geti sagt starfsmanni upp án þess að réttlæta eða rökstyðja uppsögnina. Þessi meginregla sæti að lögum ýmsum undantekningum, þar með talið á grundvelli 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Í þessu felist m.a. að óheimilt sé að mismuna starfsfólki eftir kynferði við ákvörðun um hverjum skuli sagt upp störfum og óheimilt sé að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar ástæður séu fyrir hendi. Af þessu leiði einnig að uppsögn þungaðrar konu telst ekki brot á ákvæðum jafnréttislaga er atvinnurekandi sýnir fram á að aðrar ástæður en kynferði, þar á meðal meðganga eða fyrirhugað fæðingarorlof starfsmanns, hafi ráðið ákvörðun hans.
  20. Kærði tekur fram að kæranda hafi mátt vera ljóst hvaða afleiðingar það hefði fyrir kærða að hætta að sinna blóðtöku fyrir þetta tiltekna fyrirtæki og að ekki yrði grund­völlur til að hafa áfram fimm dýralækna á launaskrá. Ástæða uppsagnarinnar var einnig tiltekin sérstaklega í uppsagnarbréfinu, þar sem beinlínis hafi komið fram að ástæða uppsagnarinnar hafi verið skipulagsbreytingar og fyrirsjáanlegur samdráttur. Því til stuðnings bendir kærði á afrit ársreikninga vegna 2021 og útgefna reikninga á umrætt fyrirtæki árið 2021 sem hann hefur lagt fram fyrir kærunefndina. Þá bendir kærði á að hann sé ekki opinber stofnun og hafi því að meginstefnu til frjálsar hendur um það hvernig hann hagi starfsmannamálum.
  21. Kærði bendir á að það sé ekki hlutverk kærunefndar jafnréttismála að endurmeta faglegt og rekstrarlegt mat kærða um hagræðingu í rekstri eða hvort þörf hafi verið á uppsögnum starfsfólks. Á hinn bóginn er gögnunum ætlað að sýna að ákvörðun kærða hafi ekki beinst að kyni kæranda, meðgöngu eða fyrirhuguðu fæðingarorlofi heldur hafi hún verið tekin á rekstrarlegum forsendum. Þessu til viðbótar verði að horfa til þess að framkvæmdastjóri kærða, sem tók ákvörðun um uppsögn kæranda, vissi ekki af þungun hennar þegar hann tók ákvörðun um uppsögn. Þegar af þeirri ástæðu hafi mátt vera ljóst að meðganga kæranda eða fyrirhugað fæðingarorlof hafi ekki haft áhrif á ákvörðun um uppsögn.
  22. Kærði hafnar því að hafa mismunað kæranda á grundvelli kyns. Jafnframt mótmælir hann að fæðingar- eða foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barns­burði hafi haft áhrif á ákvörðun um að segja kæranda upp störfum. Hafi kæranda ekki verið sagt upp störfum á grundvelli þess að hún hafði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs. Gildar ástæður voru fyrir uppsögn kæranda sem helguðust fyrst og fremst af fyrirsjáanlegum samdrætti og rekstrarlegum forsendum.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  23. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með því að hafa látið fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa áhrif á uppsögn kæranda úr starfi dýralæknis hjá kærða.
  24. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, og fjölþætt mismunun óheimil. Þá teljast fyrirmæli um mismunun á grundvelli kyns einnig mismunun sam­kvæmt lögunum.
  25. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  26. Í 1. mgr. 19. gr. laganna er tekið fram að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðu­breytingar, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnu­aðstæður og vinnuskilyrði starfsmanna. Þá er óheimilt að láta fæðingar- og foreldra­orlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir samkvæmt 1. mgr., sbr. 2. mgr., ákvæðisins. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. kemur það í hlut starfsmanns sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að ákvörðun um uppsögn hafi grundvallast á öðrum ástæðum en fæðingar- og foreldraorlofi, með­göngu eða barnsburði. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að fæðingarorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á uppsögn hennar hjá kærða.
  27. Fyrir liggur að kærði sagði kæranda upp störfum þegar hún var barnshafandi. Við úr­lausn þess hvort uppsögn kæranda hafi farið gegn lögum nr. 150/2020 verður að hafa í huga að ekki er ólögmætt að segja starfsmanni upp störfum þegar hann er barnshafandi sé það gert á grundvelli annarra ástæðna en sem tengjast fæðingar- og foreldraorlofi, meðgöngu eða barnsburði, sbr. 1. og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Verða því aðrar ástæður að liggja til grundvallar uppsögn starfsmanns. Hér vísast einnig til 50. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof, um sambærileg sjónarmið.
  28. Í ljósi þess að kærði sagði kæranda upp störfum þegar hún var barnshafandi og að hún var eini starfsmaðurinn sem sagt var upp störfum á þeim tíma verður fallist á að kær­andi hafi leitt líkur að því að fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafi haft áhrif á þá ákvörðun kærða að segja henni upp störf­um, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 1. og 2. mgr. sama ákvæðis. Hér ber að hafa í huga að a.m.k. einum eiganda kærða, þeim sama og gekk í störf framkvæmdastjóra í forföllum hans og sem skrifaði undir uppsagnarbréfið ásamt öðrum eigendum kærða, var kunnugt um þungun kæranda. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu eða barnsburði hafi ekki legið til grundvallar ákvörðun hans um uppsögn kæranda.
  29. Í uppsagnarbréfinu voru ástæður uppsagnarinnar sagðar nauðsynlegar skipulags­breytingar og fyrirsjáanlegur samdráttur í rekstri kærða. Hefur kærði lýst því að þegar hann sagði kæranda upp störfum hafi legið fyrir verulegur samdráttur í rekstri fyrir­tækisins þar sem hann hafi hætt tilteknum viðskiptum. Hefur kærði m.a. lagt fram ársreikning félagsins fyrir árið 2021 því til stuðnings, auk útgefinna reikninga vegna fyrrgreindra viðskipta fyrir árið 2021.
  30. Ekki verður véfengt það mat kærða að honum hafi verið nauðsynlegt að endur­skipuleggja rekstur fyrirtækisins á grundvelli þess að fyrirsjáanlegt væri að tekjur minnkuðu eins og kærði heldur fram, en jafnvel þótt játa verði kærða rúmt svigrúm við slíkar aðgerðir er ljóst að það takmarkast af ákvæðum jafnréttislaga, m.a. 19. gr. laga nr. 150/2020. Í því felst að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið verða að hafa legið uppsögn kæranda til grundvallar.
  31. Í máli þessu hefur ekki komið skýrt fram í hverju endurskipulagning kærða á rekstri félagsins fólst í upphafi árs 2022 að öðru leyti en því að segja kæranda upp störfum. Þá liggur ekki heldur fyrir að fram hafi farið mat af hálfu kærða á því að segja kæranda upp störfum frekar en öðrum dýralæknum sem störfuðu hjá kærða á þeim tíma sem kæranda var sagt upp en ágreiningslaust er að einn þeirra sagði sjálfur starfi sínu lausu síðar sama dag og kæranda var afhent uppsagnarbréf. Hér ber og að hafa í huga að kærandi hafði ekki sinnt þeirri vinnu fyrir kærða sem ákvörðun var tekin um að hætta að sinna og olli ætluðu tekjutapi fyrirtækisins. Skiptir í því sambandi ekki máli að aðrir dýralæknar hafi einnig sinnt sambærilegum störfum og kærandi gerði hjá kærða. Þá liggur fyrir að kærandi hafði starfað lengur eftir nám sem dýralæknir hjá kærða en annar dýralæknir sem ekki var sagt upp störfum. Verður því hvorki fallist á að kærði hafi gert grein fyrir hvaða mat lá til grundvallar ákvörðun hans um uppsögn kæranda né að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið því til grundvallar. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að ákvörðun um uppsögn kæranda hafi grundvallast á öðrum ástæðum en fæðingar- og foreldraorlofi, meðgöngu eða barnsburði, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  32. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Dýralæknar Sandhólaferju ehf., braut gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við uppsögn kæranda, A.

 

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta