Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2002. Úrskurður kærunefndar

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 28. október 2002

í máli nr. 18/2002:

Flutningatækni ehf.

gegn

Ríkiskaupum.

Með bréfi 15. ágúst 2002, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Flutningatækni ehf. samningskaup Ríkiskaupa nr. 13083 auðkennt „Incineration Station for SIA" (sorpbrennslustöð fyrir Sorpeyðingarstöð Suðurnesja).

Kærandi krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ákvörðun kærða 24. júlí 2002 um að hafna tilboði kæranda og lagt verði fyrir kærða að ganga til samninga við kæranda. Til vara er þess er krafist að lagt verði fyrir kærða að láta nýtt mat fara fram á tilboðum. Kærandi krefst þess að tekin verði afstaða til þess hvort heimilt hafi verið að efna til framangreindra samningskaupa. Hann krefst þess einnig að nefndin tjái sig um bótaskyldu kærða. Þá krefst hann kostnaðar við að hafa kæruna uppi.

Af hálfu kærða er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Af hálfu kæranda er þess krafist að samningsgerð í framhaldi af samningskaupaferlinu verði stöðvuð um stundarsakir. Samkvæmt upplýsingum sem kærunefnd útboðsmála aflaði þegar eftir móttöku kærunnar var gengið frá samningum við Héðinn hf. 20. ágúst 2002. Að þessu virtu var ekki talin ástæða til að fjalla um kröfu um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir í sérstakri ákvörðun.

I.

Með framangreindum samningskaupum óskaði kærði, fyrir hönd Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf., eftir tilboðum í hönnun, byggingu, búnað og uppsetningu á flokkunar og sorpeyðingarstöð í Helguvík. Kaup á stöðinni voru upphaflega boðin út með útboði nr. 12429 sem lyktaði með því að samið var við Heklu hf. og Járnbendingu ehf. 15. apríl 2002, en kærandi átti þá næsthagstæðasta tilboð. Í byrjun maí 2002 kom í ljós að Hekla hf. og Járnbending ehf. voru ófær um að efna þennan samning og lýstu fyrirtækin því yfir að þau myndu ekki efna samninginn. Af hálfu kærða var kannað hvort bjóðendur endurvektu tilboð sín, en um sex mánuðir voru þá liðnir frá opnun upphaflegra tilboða. Kærandi gaf kærða formlega staðfestingu þessa efnis með bréfi 3. júní 2002. Með símbréfi 12. og bréfi 13. sama mánaðar var kæranda hins vegar tilkynnt að kærði hefði ákveðið að hefja samningskaupaferli með heimild í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Í bréfinu 13. júní 2002 segir að í ljós hafi komið að hagkvæmni af stærri stöðvum sé mun meiri en reiknað hafi verið með í fyrstu auk þess sem ljóst hafi orðið að ýmsar fæðibúnaðarlausnir séu mun lakari í rekstri en aðrar og vothreinsibúnaður hafi yfirburði yfir þurrhreinsibúnað. Samkvæmt þessu sé það ljóst að öll tilboð séu óaðgengileg þar sem þau séu annað hvort háð tæknilegum annmörkum eða utan fjárhagsramma kaupanda.

Í gögnum hinna kærðu samningskaupa er um heimild vísað til 19. gr. laga nr. 94/2001 og 7. gr. tilskipunar nr. 93/37/EBE um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga. Þar koma efnislega fram sömu rök fyrir því að heimild laganna eigi við og í áðurgreindu bréfi til kæranda 13. júní 2002. Þá segir að öllum bjóðendum úr útboði nr. 12429 sé boðin þátttaka í samningskaupunum og að gögn þess útboðs eigi jafnframt við um samningskaupin með ákveðnum skýringum (clarifications). Samkvæmt þessum skýringum er m.a. vikið frá umræddum útboðsgögnum með því að þess er óskað að vinnslugeta verði á milli 11.500 og 12.500 tonn á ári með 7.200 stunda vinnslutíma á ári og hitagildi brennslu 12.500 kJ/kg auk þess sem aðrar kröfur koma fram um fæðibúnaðarlausn, hreinsibúnað o.fl. Nánar tiltekið er gerð krafa um vothreinsibúnað (wet scrubber system) sem hafði ekki verið áskilinn í gögnum útboðsins. Um einkunnir segir í lið 2.4 að tekið verði tillit til eftirfarandi fjögurra atriða : Verð pr. tonn (40%), tæknileg lausn (25%), sveigjanleiki í rekstri (20%) og rekstrarkostnaður (15%). Þá segir að þessi viðmið séu þau sömu og í gögnum útboðs nr. 12429, enda þótt umrædd hlutföll hafi ekki komið fram í gögnum útboðsins. Loks segir að einkunnir fyrir einstaka þætti verði gefnar á bilinu 1-5, þar sem lægsta tilboð fái einkunnina 1 og það hæsta (hagkvæmasta) 5.

Samkvæmt lið 1.3 í gögnum samningskaupanna skyldu bjóðendur skila endurskoðuðum tilboðum auk nánar tilgreindra fylgigagna til kærða kl. 15.00 28. júní 2002. Tilboðum skyldi gefa einkunn, eins og nánar væri tilgreint í lið 2.4., og þrjú hagkvæmustu tilboðin valin til frekari umræðu og upplýsingar. Frá þessu stigi skyldi vera óheimilt að breyta kröfum um tæknilega útfærslu (technical specifications). Í liðnum segir svo orðrétt eftirfarandi :

„Ríkiskaup will then undertake clarification talks with the selected bidders, in which technical details and prices will be discussed and the technical and financial ability of the bidder will be ascertained. Each of the bidders will be informed of the pro´s [sic] and con´s [sic] of his bid, with regard to the aim and conditions of the negoitated procedure and the buyer´s needs. Particiapants will be given directions as to how they can better fullfil the buyer´s requirements in the next round. The selected bidders will then be invited to deliver revised bids, within a short time limit. Upon receiving that revised bid, the grading will be redone and this process will be repeated as often as needed. When further rounds are deemed unnecessary, a decision will be made on which offer to accept, based on a calculation of the ranking factors."

Samkvæmt því sem fram kemur í athugasemdum kærða hófst samningskaupaferlið á fundi með bjóðendum 14. júní 2002. Á þeim fundi var gerð grein fyrir ferlinu og þeim m.a. afhentar almennar upplýsingar um samningskaup útbúnar af kærða („Kynning á fyrirkomulagi samningskaupa án undangenginnar auglýsinga").

Af hálfu kærða hefur verið upplýst að einn þátttakenda í samningskaupaferlinu hafi sent inn spurningu vegna tilvísunar gagna samningskaupanna til vothreinsibúnðar. Í svari kærða 21. júní 2002, sagði eftirfarandi :

„Varðandi tegund hreinsibúnaðar skal tekið fram að vothreinsibúnaður er tekinn fram yfir aðrar lausnir á fjárhagslegum og rekstrarlegum forsendum en ekki tæknilegum. Í því felst ekki sú krafa að vothreinsibúnaður sé skilyrðislaust notaður, heldur þótti rétt að upplýsa bjóðendur um það mat kaupanda að vothreinsibúnaður væri að öðru jöfnu hagstæðari lausn en þurrhreinsibúnaður. Tilboð með þurrhreinsibúnaði verða hins vegar ekki skilgreind sem ófullnægjandi en metin á grundvelli heildarhagkvæmni viðkomandi lausnar og á grundvelli þeirra forsendna um reksturskostnað sem framleiðendur gefa upp."

Kærandi hefur jafnframt upplýst að þetta svar hafi verið sent öllum þátttakendum með símbréfi 21. júní 2002 eða áður en fyrstu tilboð í samningskaupunum voru lögð fram.

Kærandi lýsir málsatvikum svo að eftir að tilboð voru lögð fram 28. júní 2002 hafi matsnefnd á vegum kærða rætt tilboðin með bjóðendum og sagt á þeim kost og löst, en ekki gefið þeim eiginlegar einkunnir eftir hverja viðræðuumferð, eins og ráð hafi verið gert fyrir í kynningunni 14. júní 2002. Um miðjan júlímánuð hafi verið efnt til skoðunarferðar til Florida í Bandaríkjunum, en fulltrúar matsnefndarinnar hafi óskað að skoða hluta þess búnaðar sem kærandi bauð fram. Fyrir þá ferð hafi fulltrúa kæranda verið tjáð að hann hefði hæstu einkunn þeirra bjóðenda sem enn voru eftir í ferlinu án þess þó að tekið væri fram hver sú einkunn væri.

Kærði lýsir málsatvikum þannig að bjóðendum hafi verið fækkað í fimm 1. júli 2002 og fundað með fulltrúum þeirra fimm að morgni 2. sama mánar. Bjóðendur hafi sent inn endurskoðuð tilboð síðdegis miðvikudaginn 3. sama mánaðar og hafi verið boðaðir fundir með fjórum þeirra síðdegis þann 4. sama mánaðar. Fyrir þá fundi hafi komið fulltrúar tveggja bjóðenda erlendis frá og boðið hafi verið upp á símafundi með framleiðendum annarra bjóðenda. Fulltrúar þessara fjögurra bjóðenda hafi svo sent inn endurskoðuð tilboð á hádegi föstudaginn 5. sama mánaðar og á grundvelli þeirra hafi verið ákveðið að velja þrjá bjóðendur til lokaumferðar. Vegna athugasemda eins bjóðanda við mögulegt vanhæfi Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra kaupandans, til setu í matsnefnd 9. sama mánaðar hafi Guðjón ákveðið að segja sig frá frekari þátttöku og hafi ný matsnefnd verið skipuð og valferillinn endurtekinn að loknum fundum með bjóðendum 12. sama mánaðar. Eftir yfirferð þeirra tilboða hafi legið fyrir að 3 aðilar, þar á meðal kærandi, yrðu valdir til frekari skoðunar og funda. Kæranda hafi verið tilkynnt um þá niðurstöðu undir kvöld sama dag. Skoðaðar hafi verið aðstæður hjá framleiðendum sem stóðu að baki tilboði kæranda í Bandaríkjunum 16. og 17. sama mánaðar. Að lokinni skoðun hafi verið boðað til lokafunda með bjóðendunum að morgni 22. sama mánaðar. Í kjölfar þess sendu bjóðendurnir þrír inn lokatilboð daginn eftir.

Þann 24. júlí 2002 var kæranda tilkynnt símleiðis um endanlega niðurstöðu útboðsins, það er að tilboð hans hefði verið metið næst hagkvæmast. Með bréfi 29. sama mánaðar var kæranda sendur rökstuðningur um niðurstöðu útboðsins. Samkvæmt því sem þar kemur fram var heildareinkunn kæranda 4,06, en einkunn Héðins hf. 4,19.

II.

Kærandi byggir kæru sína í fyrsta lagi á því að ekki hafi verið gætt réttra aðferða við mat á tilboðum. Hann vekur athygli á því að í samningskaupunum hafi átt að meta tilboð samkvæmt sömu viðmiðum og í útboði nr. 12429. Í samningskaupunum hafi lokaeinkunn fyrir rekstrarkostnað brennslustöðvar, sem kærandi bauð fram, verið 2,20 þar sem 5,0 hafi verið hæsta einkunn. Í útboðinu hafi hins vegar sami ofn fengið einkunnina 4,00 fyrir rekstur, en hann hafi þá verið boðinn fram af Heklu hf. og Járnbendingu ehf. Kærandi gerir einnig athugasemd við þá fullyrðingu í rökstuðningi matsnefndar fyrir einkunnum þess efnis að einkunn kæranda enduspegli þá staðreynd að nefndin hafi ekki séð þann ofn og vothreinsibúnað, sem tiltekin var í tilboðinu, saman í rekstri. Að sögn kæranda var þess aldrei óskað að sjá þennan búnað verka saman, en slíkt hefði verið auðsótt mál.

Í annan stað telur kærandi að kærða hafi skort heimild til að hefja samningskaup samkvæmt 19. gr. laga nr. 94/2001. Í þessu sambandi vekur kærandi athygli á því að skýra beri heimildir til samningskaupa þrengjandi. Kærandi vísar einnig til þess að vikið hafi verið í verulegum atriðum frá skilmálum í útboði nr. 12429 í samningskaupunum með því að brennslustöðin skyldi nú hafa brennslugetu 11.500 til 12.500 tonn á ári í stað a.m.k. 6.000 tonna, sérstakur krani skyldi innifalinn, vothreinsibúnaður var áskilinn og heitavatnsketill skyldi vera lóðréttur.

Í þriðja lagi gerir kærandi atugasemdir við framkvæmd samningskaupanna. Þannig hafi verið gerðar breytingar á tæknilegum kröfum fram undir það síðara. Í lokaathugasemdum sínum vekur kærandi sérstaka athygli á því í þessu sambandi að ákveðið hafi verið að taka tilboði sem gerði ráð fyrir þurrhreinsikerfi í stað vothreinsikerfis. Þá telur kærandi að ekki hafi verið fylgt ákvæðum gagna samningskaupanna um að einkunnir væru kynntar eftir framlagningu frumtilboða, en kæranda hafi ekki verið kunnugt um einkunnir sínar, hvorki heildareinkunn né einkunn fyrir einstaka þætti, fyrr en eftir að búið var að hafna tilboði hans.

III.

Kærði mótmælir því að einkunn fyrir rekstrarkostnað ofns hafi verið óeðlileg þótt einkunn fyrir sama ofn hafi verið önnur í útboði nr. 12429 en í samningskaupaferlinu. Í þessu sambandi vísar hann til þess að í umræddu útboði hafi uppgefnar tölur ekki verið endurreiknaðar með neinum hætti og hafi áreiðanleiki þeirra því verið minni en í samningskaupaferlinu. Einnig nefnir kærði að rekstrartölur kæranda hafi verið hærri en uppgefnar rekstrartölur frá Heklu/Járnbendingu sem lagðar voru fram í útboðinu. Þá vísar kærði til þess að í upphaflegu útboði hafi viðhaldskostnaður verið reiknaður inn í rekstrarkostnað sem 2% af stofnkostnaði, sem leiddi til þess að dýrari lausnir voru sjálfkrafa með hærri rekstrarkostnað, án þess að neinar efnislegar ástæður lægju þar að baki. Í samningskaupaferlinu hafi verið ákveðið að sleppa því að reikna áætlaðan viðhaldskostnað inn í rekstrarkostnað og föst fjárhæð ákveðin fyrir alla bjóðendur. Samkvæmt þessu hafi grundvöllur einkunna verið annar en í upphaflegu útboði. Að lokum kemur fram í athugasemdum kærða að þar sem mun betur hafi verið farið yfir rekstrartölur í samningskaupaferlinu og þær þannig verið áreiðanlegar hafi verið óhætt að nýta einkunnaskalann til fulls. Á hinn bóginn hafi verið ákveðið að takmarka hann í neðri mörkum við 2 og nýta einungis bilið frá 2-5, enda hefðu allflestir bjóðendur annars raðast milli 1 og 2, en Héðinn á 5. Það hafi verið álit matsnefndar að með þessari aðferð væri fundið réttara vægi á innbyrðis hlutfall rekstrarkostnaðarins, þar sem kostnaðartölur Héðins væru almennt um helmingur til þriðjungur á við tölur annarra bjóðenda. Notkun skalans niður í 1 hefði að áliti matsnefnar verið ósanngjörn gagnvart öðrum bjóðendum en Héðni. Samkvæmt öllu þessu byggi einkunn kæranda í samningskaupaferlinu á fyrrgreindum forsendum, sem séu nokkuð aðrar en í upphaflega útboðinu. Þetta breyti því þó ekki að í samningskaupaferlinu hafi fyrirframgefnum viðmiðum verið fylgt og jafnræðis gætt.

Kærði telur athugasemd kæranda um að matsnefnd hafi ekki óskað eftir því að fá að skoða brennsluofn og vothreinsibúnað saman í rekstri tilhæfulausa. Hann vísar til þess að á þeim þremur stöðum í Florida sem skoðaðir voru hafi hreinsibúnaðurinn hvergi verið til í einni heilli einingu. Samkvæmt þessu telur kærði að ekkert sé fram komið um að til sé ofn, af þeirri gerð sem kærandi bauð fram (frá Texas Incinerators) sem sé tengdur með þeim vothreinsibúnaði og vatnshreinsunareiningu sem gert hafi verið ráð fyrir í tilboðinu.

Kærði mótmælir fullyrðingum kæranda um að honum hafi verið óheimilt að efna til samningskaupa. Í fyrsta lagi vísar kærði til þess að ákvörðun um að hefja samningskaupin hafi verið kynnt kæranda og öðrum þátttakendum á fundi 12. júní. Þrátt fyrir að kærandi hafi þá gert almennan fyrirvara um heimildir verkkaupa til samningskaupa, framlengi sá fyrirvari ekki hinn lögbundna fjögurra vikna frest sem kærandi er bundinn af skv. 78. gr. laga nr. 94/2001. Fjögurra vikna kærufrestur vegna umræddrar ákvörðunar hafi þá verið löngu liðinn. Þá verði að telja að jafnvel þótt hann væri ekki liðinn, hefði kærandi fyrirgert rétti sínum til kæru með því að taka þátt í samningskaupaferlinu.

Í tengslum við heimild kærða til samningskaupa bendir hann á að upphaflegt tilboð kæranda hafi verið óaðgengilegt. Við nánari athugun kærða og þegar frekari upplýsingar hafi fengist frá kæranda, m.a. um að bjóða þyrfti fram algerlega nýja lausn, hafi niðurstaðan orðið að lög og tillit til annarra bjóðenda leyfðu ekki svo umfangsmiklar breytingar á tilboði. Kærða hafi verið heimilt að viðhafa samningskaup samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 94/2001 með því skilyrði að upphaflegum skilmálum útboðsins væri ekki breytt í verulegum atriðum. Ekki hafi þurft að auglýsa slík samningskaup ef öllum bjóðendum í útboðinu, sem uppfylltu skilyrði VI. kafla laganna um hæfi og lögðu fram gild tilboð, var boðið að taka þátt í útboði, eins og gert hafi verið.

Kærði mótmælir því að ekki hafi verið fylgt áskilnaði útboðsgagna og viðmiðum kærða sjálfs um að útboðskröfum væri ekki breytt eftir að aðili hefði verið felldur burt úr samningskaupaferlinu. Kærði telur að kærandi geri hér ekki mun á útboðskröfum og tæknilegum útskýringum. Útboðskröfum hafi aldrei verið breytt, en rætt hafi verið um tæknilegar útfærslur, spurst fyrir og fengnar lýsingar bjóðenda á tæknilegum útfærslum allt fram að því að bjóðendur sendu inn síðasta boð. Matsnefnd hafi aldrei óskað eftir einni eða annari lausn og forræði á tilboðinu hafi í öllum tilvikum verið hjá bjóðendum. Matsnefnd hafi hins vegar sagt kost og löst á lausnum, eins og samningskaupaferlið og 19. gr. laga nr. 94/2001 gerir ráð fyrir.

Kærði tekur undir með staðhæfingu kæranda um að viðræðufundir hafi ekki verið formlega bókaðir, en segir ástæðu þess vera þá að þetta hafi verið skýringarfundir, en ekki formlegir samningafundir. Hin efnislega staðfesting á umræðuefni fundanna hafi svo komið í tilboðum bjóðenda í framhaldi af fundunum. Engum athugasemdum hafi verið hreyft við þessum skilningi á eðli skýringarfundanna eða eftir því sem samningsferlinu vatt fram. Það sé einnig rangt að ekki hafi verið bókaður fundur með bjóðendum vegna vanhæfismáls, 11. júlí. Hann hafi verið bókaður og fundargerð send öllum bjóðendum.

Kærði mótmælir því að einkunnir hafi ekki verið gefnar í kjölfar hverrar umferðar samningskaupanna í samræmi við þær viðmiðunarreglur sem settar höfðu verið. Þá mótmælir hann því einnig sem röngu að einkunnir hafi ekki verið birtar og að kæranda hafi ekki verið kunnugt um einkunnir fyrir einstaka þætti eða heildareinkunnir fyrr en í endanlegum rökstuðningi. Þess hafi verið gætt á öllum fundum að upplýsa bjóðendur í upphafi um heildareinkunn úr síðustu umferð ásamt því hvar þeir stæðu í röðinni, hvar þeir stæðu í einstökum þáttum og hvar þeir gætu bætt sig.

IV.

Samkvæmt 78. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í máli þessu er ágreiningslaust að kæranda var tilkynnt ákvörðun kærða um að hefjast handa um samningskaup með símbréfi 12. júní 2002. Kæra kæranda barst kærunefnd útboðsmála hins vegar ekki fyrr 15. ágúst 2002. Samkvæmt framangreindu var þá liðinn frestur kæranda til að kæra umrædda ákvörðun kærða. Verður lögmæti ákvörðunar kærða um að hefja samningskaup nr. 13083 af þessum sökum ekki borið undir nefndina af kæranda. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu að kærandi gerði fyrirvara við lögmæti umræddrar ákvörðunar undir rekstri samningskaupanna.

Eins og áður greinir giltu gögn útboðs nr. 12429 um samningskaup nr. 13083 með frávikum sem talin voru upp í gögnum með samningskaupunum. Meðal þessara frávika var ákvæði um að hreinsikerfi skyldi vera svokallað vothreinsikerfi, en í gögnum útboðs nr. 12429 var gert ráð fyrir því að hægt væri að bjóða fram hvort heldur þurrhreinsikerfi eða vothreinsikerfi að uppfylltum nokkrum almennum skilyrðum, sbr. nánar lið 3.1.8 útboðsgagna. Að mati nefndarinnar verður að líta svo á að þetta ákvæði gagna samningskaupa nr. 13083 hafi falið í sér lágmarkskröfur með tilliti til tæknilegrar útfærslu, sem almennt hafi verið óheimilt að víkja frá með frávikstilboði, sbr. 27. gr. laganna. Samkvæmt þessu er ekki unnt að fallast á þá staðhæfingu kærða að frávik frá áskilnaði um vothreinsikerfi hafi einungis falið í sér mismunandi tæknilegar lausnir (eða tæknilegar útskýringar) á sömu útboðskröfum.

Samningskaup fela ekki í sér eiginlegt útboð þar sem endanlegir útboðsskilmálar eru kynntir bjóðendum fyrirfram og kaupanda eru settar mjög þröngar skorður við hvers konar breytingar á þeim eftir á. Getur kaupandi í samningskaupum þannig rætt við bjóðendur um skilmála og nánari eiginleika hins keypta. Þetta verður hins vegar að gerast samkvæmt fyrirfram ákveðnu ferli sem kynnt hefur verið bjóðendum. Sömuleiðis ber við samningskaup, eins og við önnur opinber innkaup, að gæta jafnræðis bjóðenda, sbr. 11. gr. laga nr. 94/2001, en í þessu felst að allir þátttakendur í samningskaupum verða að hafa sömu möguleika til þess að nýta sér hugsanleg frávik frá þeim skilmálum sem kynntir eru í upphafi. Í samræmi við þetta bar kærða skylda til þess að gefa öllum þátttakendum kost á því að víkja frá framangreindum áskilnaði um vothreinsikerfi, ef slík breyting var á síðara stigi talin þjóna þörfum umbjóðanda hans.

Í lið 1.3 í gögnum samningskaupa nr. 13083 kemur fram að þrír til fimm bjóðendur verði valdir til viðræðna og frekari upplýsingagjafar eftir að frumtilboðum hafi verið skilað 28. júní 2002. Þá segir að frá þessu tímamarki verði útboðsskilmálum ekki breytt. Er þessi áskilnaður í samræmi við þau sjónarmið um jafnræði bjóðenda við samningskaup sem fram koma hér að framan. Samkvæmt upplýsingum kærða var öllum þátttakendum samningskaupanna tilkynnt með símbréfi 21. júní 2002 að tilboð með þurrhreinsibúnaði myndu ekki verða skilgreind sem ófullnægjandi heldur metin á grundvelli heildarhagkvæmni viðkomandi lausnar og á grundvelli þeirra forsendna um rekstrarskostnað sem framleiðendur gæfu upp. Þótt telja verði að með þessu hafi kærði breytt áður tilkynntum skilmálum samningskaupanna, liggur fyrir að öllum þátttakendum samningskaupanna var gefið jafnt færi á að haga tilboðum sínum í samræmi við þessa breytingu. Að mati nefndarinnar var þessi breyting gerð svo snemma að öllum þátttakendum gafst kostur á haga tilboðum í samræmi við hana, ef hugur þeirra stóð til þess, sbr. til hliðsjónar fresti í 41. gr. laga nr. 94/2001. Samkvæmt þessu verður ekki talið að kærði hafi brotið gegn jafnræði bjóðenda samkvæmt 11. gr. laga nr. 94/2001 við framkvæmd samningskaupanna.

V.

Eins og áður greinir virðist matsnefnd kærða hafa áskilið sér rétt til að skilgreina nánar vægi atriða fyrir mati á hagkvæmasta tilboði, sem fram komu í gögnum útboðs nr. 12429, án þess að vísbending um mismunandi vægi atriða kæmi fram í útboðsgögnum.Samkvæmt þessu byggðist einkunn á fjórum atriðum: Verð pr. tonn (40%), rekstrarkostnaður (15%), tæknileg lausn (25%) og sveigjanleiki í rekstri (20%). Í lið 2.4 í gögnum samningskaupanna var þessum hlutföllum hins vegar slegið föstum. Var kærði því ótvírætt bundinn við þessi viðmið, þannig skilgreind, við hin kærðu samningskaup.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að lokaeinkunnargjöf kærða hafi verið óeðlileg. Er í þessu sambandi annars vegar bent á að lokaeinkunn fyrir rekstrarkostnað sambærilegrar brennslustöðvar og kærandi bauð fram hafi verið 4,0 í útboði nr. 12429, en lokaeinkunn kæranda í samningskaupunum hafi einungis verið 2,20. Hins vegar er því haldið fram að matsnefnd hafi ekki verið rétt að draga einkunn kæranda niður með vísan til þess að nefndin hafði ekki átt þess kost að sjá búnaðarsamsetningu kæranda uppsetta í framkvæmd.

Samkvæmt gögnum, sem kærði hefur lagt fram, var kærði talin vera með hagkvæmasta tilboðið eftir að tilboð höfðu verið lögð fram í annað sinn í samningskaupaferlinu. Var einkunn kæranda fyrir verð 4,63, einkunn fyrir rekstrarkostnað 2,0, einkunn fyrir tæknilega lausn 4,36, einkunn fyrir sveigjanleika 3,70 og heildareinkunn 3,98. Einkunn Héðins fyrir verð var hins vegar 2,99, einkunn fyrir rekstrarkostnað 5,0, einkunn fyrir tæknilega lausn 4,56, einkunn fyrir sveigjanleika 4,20 og heildareinkunn 3,93. Við lokaniðurstöðu samningskaupanna hafði einkunn kæranda fyrir rekstrarkostnað hækkað í 2,20, einkunn fyrir tæknilega lausn lækkað í 3,90 og einkunn fyrir sveigjanleika hækkað í 4,50. Samkvæmt þessu var lokaeinkunn hans 4,06. Einkunn Héðins hf. fyrir verð hafði þá hækkað í 3,44, einkunn fyrir tæknilega lausn hækkað í 4,89. Heildareinkunn félagsins samkvæmt þessu var 4,19.

Í gögnum matsnefndar kærða um lokamat á tilboði kæranda segir að einkunnargjöf endurspegli þá staðreynd að nefndin hafi ekki séð þann búnað, sem kærandi bauð fram (þ.e. ofn, mötun og hreinsibúnað), settan upp í framkvæmd. Þá segir að ofn kæranda sé ásættanlegur, en krefjist mikils eldsneytis til þess að halda viðhlítandi brennslustigi. Fram kemur að hreinsikerfið sé ásættanlegt og muni standast kröfur um útblástur, en sé frekar flókið með tilliti til affallsvatns úr kerfinu. Hins vegar gefi þetta kerfi möguleika á meiri sveigjanleika. Aðflutningskerfi (transfer station) sé frábært. Samkvæmt þessu er einkunn fyrir tæknilega lausn í háu meðallagi og kærandi fær hæstu einkunn fyrir sveigjanleika. Verð kæranda er það lægsta og fær hann því hæstu einkunn fyrir verð. Hann fær hins vegar frekar lága einkunn fyrir rekstrarkostnað. Til samanburðar segir um tilboð Héðins hf. að einkunn endurspegli þá staðreynd að nefndin hafi séð búnaðarsamsetningu uppsetta í framkvæmd. Þá segir að ofn fyritækisins hafi tæknilega yfirburði, þar sem hann starfi á lágum hita og þurfi ekki auka eldsneyti í síðara eldhólfi (second combustion chamber). Þessi tækni hafi í för með sér lægri rekstrarkostnað. Einkunn fyrir aðflutningskerfi er lækkuð þar sem nefndin hafi ekki séð ítarlega lokaútfærslu. Samkvæmt þessu er einkunn tilboðsins fyrir tæknilega lausn mjög há. Einkunn fyrir sveigjanleika er í 2. til 3. sæti. Þá fái tilboðið lægstu einkunn fyrir verð.

Að öllu virtu telur nefndin eðlilegt að einkunn Heklu/Járnbendingar fyrir rekstur brennsluofns í útboði nr. 12429 hafi ekki verið lögð óbreytt til grundvallar í hinu kærða samningskaupaferli. Er þá bæði litið til þess að einkunn í útboðinu kann að hafa stuðst við rangar forsendur og að í samningskaupaferlinu gafst kostur á að kanna tilboð nánar með tilliti til rekstrarkostnaðar, m.a. með skoðun uppsetts búnaðar. Nefndin telur einnig að eðlilegt hafi verið að taka tillit til þess við einkunnargjöf hvort unnt var að skoða starfsemi uppsetts búnaðar og hvernig mismunandi hlutar búnaðarins unnu saman. Samkvæmt öllu þessu telur nefndin að ekki séu komnir fram verulegir annmarkar á mati kærða á einkunn fyrir tæknilega lausn eða rekstarkostnað. Þá telur nefndin að ekki hafi verið leiddar líkur að því að einkunn fyrir aðra þætti hafi verið óeðlileg eða í ósamræmi við ákvæði gagna samningskaupanna.

Samkvæmt framangreindu verður kröfum kæranda hafnað.

Það athugast að nefndin telur það í samræmi við vandaða útboðshætti að haldnar séu fundargerðir á viðræðufundum með þátttakendum í samningskaupum, sérstaklega þegar um er að ræða fundi, þar sem þátttakendum eru kynnt atriði sem kunna að hafa áhrif á möguleika þeirra í ferlinu. Nefndin telur einnig rétt að taka fram að sem umsjónarmanni samningskaupa stendur það kærða næst að halda fundargerðir sem þessar.

Úrskurðarorð :

Kröfum kæranda, Flutningatækni ehf., vegna samningskaupa kærða, Ríkiskaupa, nr. 13083 auðkennt „Incineration Station for SIA" er hafnað.

Reykjavík, 28. október 2002.

Páll Sigurðsson

Sigfús Jónsson

Auður Finnbogadóttir

Rétt endurrit staðfestir.

28.10.02


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta