Hoppa yfir valmynd

Nr. 373/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 16. september 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 373/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22070033

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 12. ágúst 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. apríl 2021, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Súdan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 16. ágúst 2021. Hinn 25. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Hinn 13. janúar 2022 hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 13/2022. Hinn 18. júlí 2022 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum.

Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hann telur að ákvörðun í máli sínu hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. 

Í greinargerð kæranda er vísað til úrskurðar kærunefndar frá 12. ágúst 2021 þar sem fjallað var um rannsókn lögreglu á skjali sem kærandi framvísaði við meðferð máls síns, en niðurstaða rannsóknarinnar var sú að skjalið væri líklega falsað. Kærandi telur mat lögreglu fráleitt og telur jafnframt öfugsnúið að íslensk stjórnvöld hafi snúið sönnunarbyrðinni á kæranda um það hver hafi breytt skjalinu. Slík vinnubrögð myndu ekki ganga ef um opinbert mál væri að ræða og telur kærandi að gera megi sömu kröfur þegar um jafn íþyngjandi ákvörðun sé að ræða og raun beri vitni, þ.e.a.s að synja kæranda um dvalarleyfi á Íslandi. Þá má ráða af greinargerð kæranda að hann geri athugasemd við að kærunefnd hafi ekki lagt til grundvallar skjal sem kærandi lagði fram og sem lögregla hafi talið að væri líklega falsað.

Fram kemur að kærandi hafi nú lagt á sig afar mikla og tímafreka vinnu við að fá annað skjal frá stjórnvöldum í Súdan. Skjalinu hafi ekki verið breytt á nokkurn hátt. Með þessu telji kærandi sig hafa sýnt fram á að hann hafi ekki breytt hinu upprunalega skjali og að þannig hafi hann mætt þeirri öfugsnúnu sönnunarbyrði um hvort skjal það sem hann lagði fram til Útlendingastofnunar hafi verið falsað eða ekki. Kærandi telur að kærunefnd beri nú að endurupptaka mál hans, fella hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi, rannsaka hið nýja skjal og í framhaldinu fela stofnuninni að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Verði ekki fallist á það telur kærandi að kærunefnd beri að fela Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til nýrrar meðferðar.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 12. ágúst 2021, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Líkt og rakið er í úrskurði kærunefndar frá 12. ágúst 2021 lagði kærandi fram skjal sem hann kvað vera tilkynningu frá lögreglu um að lýst væri eftir honum. Skjalið var sent til rannsóknar hjá lögreglu og kom fram í rannsóknarskýrslu að skjalið gæti ekki talist öryggisskjal og hafi það flúrljómað skært í útfjólubláu ljósi. Ekki hafi verið að finna samanburðargögn í þeim gagnagrunnum sem lögreglan noti. Þá hafi skjalinu verið breytt á þann hátt að skrifað hafi verið með penna ofan í tvo síðustu stafina á ártalinu 2020 og því breytt í 2019. Fram kom í skýrslu lögreglu að ótrúverðugt væri að mati hennar að eyðublað sem ætlað hafi verið til notkunar árið 2020 hafi verið í notkun árið 2019. Þá hafi tvær talnarunur verið afmáðar með einhvers konar leiðréttingarvökva og aðrar tölur skrifaðar í staðinn með penna. Grunsamlegt væri að mati lögreglu að þrír mismunandi pennar hafi verið notaðir við útfyllingu skjalsins. Var niðurstaða lögreglu sú að líta bæri á breytingar sem þessar sem fölsun, enda væri ekkert sem gæfi til kynna að breytingarnar væru gerðar af opinberum aðila. Með vísan til rannsóknar lögreglu var litið svo á að kærandi hafi framvísað fölsuðu skjali og var það því ekki lagt til grundvallar í málinu. Þá var það mat kærunefndar að hann hefði lagt fram skjalið með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd, sbr. a-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Eins og áður greinir hefur kærandi nú lagt fram skjal sem hann kveður vera frumrit af tilkynningu lögreglu í Súdan um að lýst sé eftir honum þar í landi. Skjalið sem barst kærunefnd var ritað á arabísku og var það sent til þýðingar 30. ágúst 2022. Kærunefnd barst þýðingarskjal hinn 2. september s.á. þar sem fram kemur að kæranda sé saknað. Hann hafi síðast sést 25. maí 2019 um klukkan þrjú að nóttu og ekki sést síðan. Kæranda er lýst í útliti og er fólk hvatt til þess að hafa samband […] á lögreglustöðinni í […]. Að mati kærunefndar ber skjalið ekki með sér að kærandi sé eftirlýstur vegna glæps heldur vegna þess að hans sé saknað. Skjalið er nær samhljóða framangreindu skjali sem kærandi lagði fram við meðferð máls síns hjá Útlendingastofnun árið 2021 og talið var að væri líklega falsað. Munurinn á skjölunum virðist einkum vera sá að í eldra skjalinu kemur fram að hafa skuli samband við […], en ekki […] eins og í nýja skjalinu. Þá skýtur skökku við að mati kærunefndar að umræddur […], sem kærandi kveður leita sín, sé titlaður yfirmaður í lögreglunni en samkvæmt frásögn kæranda við efnismeðferð málsins var […] málaliði í vopnahópi í heimaríki kæranda. Kærandi kvað hann hafa borið á sig rangar sakargiftir og því væri kærandi eftirlýstur af súdönskum yfirvöldum. Þá kemur fram í beiðni kæranda um endurupptöku að hann hafi lagt á sig mikla vinnu við hafa samband við stjórnvöld í heimaríki og afla þessa nýja skjals en athygli vekur að það er dagsett með ártalinu 2019, líkt og fyrra skjalið, en ekki 2022.

Í ljósi framangreinds var kæranda veitt tækifæri til að bera fram andmæli og skýringar, m.a. á því hvernig hann hafi aflað þessa skjals. Í svari kæranda, sem barst kærunefnd hinn 12. september 2022, kemur m.a. fram að kærandi hafi leitað til súdanskra yfirvalda og fengið þar útgefna yfirlýsingu sem sé samhljóða þeirri fyrri. Með því leitist kærandi við að sýna fram á að hann hafi ekki falsað fyrra skjalið. Það sé því afar mikilvægt að kærunefnd láti lögregluna á Íslandi kanna skjalið m.t.t. fölsunar því ef það teljist ófalsað hafi það vissulega áhrif á mat íslenskra stjórnvalda á hinu fyrra skjali. Þá kemur fram að kærandi hafi greint frá því hjá Útlendingastofnun að ofsækjandi sinn heiti […]. Hann sé ýmist kallaður […] eða […] og því sé augljóslega um sama mann að ræða í báðum skjölum, en hafa verði í huga að verið sé að þýða frá handskrifaðri arabísku svo ekki sé tilefni til að draga ályktanir af því að smávægilegur munur sé á eftirnöfnunum. Þá gerir kærandi athugasemd við að kærunefnd telji skjalið bera með sér að kæranda sé leitað vegna þess að hann sé týndur en ekki eftirlýstur. Kærandi hafi greint frá því að […] leiti hans og hafi fengið gefnar út handtökuskipanir á hendur sér og látið lýsa eftir sér. Kærandi telur eitt ekki útiloka annað heldur sýni þetta hversu langt […] sé tilbúinn að ganga. Þá reki hann ekki minni til að kærunefnd hafi gert athugasemdir við þetta áður. Í sambandi við athugasemd kærunefndar um að kærandi hafi greint frá því að […] hafi verið málaliði í vopnuðum hóp en sé núna titlaður „captain“ á framlögðu skjali bendir kærandi á að „captain“ geti verið titill í hernum. Varðandi það hvernig kærandi hafi útvegað skjalið frá súdönskum stjórnvöldum í ljósi þess að hann kveðst vera eftirlýstur af þarlendum stjórnvöldum kveður kærandi frænda sinn hafa útvegað skjalið, líkt og fyrra skjalið. Þá telur kærandi að notað hafi verið eyðublað frá árinu 2019 sem útskýri hvers vegna það sé ekki dagsett með ártalinu 2022. Um sé að ræða afrit af skjali sem rekja megi til ársins 2019 og því geti það ekki talist óeðlilegt að notast hafi verið við eyðublað frá þeim tíma. Loks tekur kærandi fram að hann telji lögregluna ranglega hafa talið skjalið falsað. Lögreglan hafi ekki stuðst við faglegt mat þegar hún hafi komist að þeirri niðurstöðu. Íslensk stjórnvöld megi ekki leggja vestræna mælikvarða á skjöl sem komi frá ríkjum eins og Súdan. Þá verði að meta vafa kæranda í hag.

Að mati kærunefndar er framlagt skjal ótrúverðugt með tilliti til þeirra þátta sem að framan eru raktir og eru skýringar kæranda ekki til þess fallnar að auka trúverðugleika frásagnar hans og skjalsins. Kærunefnd telur þær skýringar kæranda að […] og […] séu sami maðurinn vera ótrúverðugar. Nöfnin eru ólík og verður að teljast ólíklegt að rekja megi það til þýðinga skjalanna, einkum í ljósi þess að önnur nöfn sem fram koma í fyrra skjalinu eru rituð á svipaðan hátt í seinna skjalinu. Auk framangreinds telur kærunefnd ótrúverðugt að lögreglustöðin í […] hafi gefið út tvær nær samhljóða tilkynningar árið 2019 um að leitað væri að kæranda en einungis breytt nafni þess sem beina skuli ábendingum til. Þá fellst kærunefnd ekki á að rekja megi titil […] sem „captain“ til hersins enda greindi kærandi frá því að hann væri málaliði innan vopnaðs hóps en ekki meðlimur lögreglu eða hersins í Súdan.

Líkt og fjallað var um í úrskurði kærunefndar, dags. 12. ágúst 2021, var það mat kærunefndar að framburður kæranda væri að mestu ótrúverðugur og að framlögð skjöl kæranda styddu ekki við frásögn kæranda af ástæðu flótta hans frá heimaríki. Var sú niðurstaða byggð á heildarmati á gögnum málsins og framburði kæranda en ekki eingöngu á því að eitt af þeim skjölum sem kærandi lagði fram væri að öllum líkindum falsað.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að framlagt skjal og framburður og skýringar kæranda sé í heildina ótrúverðugt og sé því ekki til þess fallið að breyta fyrra mati kærunefndar. Verður því ekki fallist á það að úrskurður kærunefndar frá 12. ágúst 2021 hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta