Hoppa yfir valmynd

Nr. 442/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 442/2018

Þriðjudaginn 12. mars 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. desember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. nóvember 2018 um að synja kæranda um greiðslu uppbótar á lífeyri vegna rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíunotkunar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 22. nóvember 2018, sótti kærandi um uppbót á lífeyri vegna rafmagnskostnaðar vegna á súrefnissíunotkunar til Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 23. nóvember 2018, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að tekjur hans væru yfir viðmiðunarmörkum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. desember 2018. Með bréfi, dags. 18. desember 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 14. janúar 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlega kröfu í málinu en ráða má af kæru að óskað sé eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja honum um uppbót á lífeyri verði felld úr gildi og að fallist verði á umsókn hans.

Í kæru kemur fram að kærandi telji sig eiga rétt á að fá súrefni frítt. Þá segir að hafi hann ekki efni á að keyra umrædda vél þá fái hann ekkert súrefni sem hann þurfi á að halda allan sólarhringinn. Tryggingastofnun telji kæranda vera með of miklar tekjur til að fá uppbótina en hann geti ómögulega komið auga á það, hann fái X kr. útborgað í […] á mánuði. Þá segir kærandi að hafi hann einhverjar tekjur sem hann viti ekki um þætti honum vænt um að fá að vita um þær. Fólk hljóti að sjá að þessi fjárhæð dugi ekki fyrir framfærslu, hvað þá rafmagni fyrir vélina.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á greiðslu uppbótar á lífeyri vegna súrefniskostnaðar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. nóvember 2018, hafi kæranda verið synjað þar sem tekjur hafi verið yfir viðmiðunarmörkum.

Í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi að heimilt sé að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fáist greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skuli taka tillit til eigna og tekna. Kostnaður sem komi til álita í þessu sambandi sé einkum umönnunarkostnaður, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiði ekki, sjúkra- eða lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiði ekki, rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar, húsaleigukostnaður sem falli utan húsaleigubóta og dvalarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafi starfsleyfi frá ráðuneyti eða reki sambærilega starfsemi.

Í 3. mgr. 9. gr. segi að til tekna samkvæmt ákvæðinu teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð sem og erlendar tekjur sem ekki séu taldar fram hér á landi.

Í 12. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé fjallað um tekju- og eignamörk. Þar segi að uppbætur á lífeyri skuli aldrei greiddar til lífeyrisþega sem eigi eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hafi heildartekjur yfir 2.827.779 kr. á ári.

Kærandi hafi sótt um uppbót á lífeyri vegna súrefniskostnaðar með umsókn, dags. 22. nóvember 2018. Samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 1052/2009, sem í gildi hafi verið á síðasta ári þegar umsókn kæranda barst, sé ekki heimilt að greiða uppbót á lífeyri til einstaklings ef mánaðartekjur hans séu hærri en 235.648 kr. á mánuði. Til tekna teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar hafi mánaðarlegar tekjur kæranda samtals verið um X kr. á mánuði árið 2018. Tryggingastofnun hafi því ekki heimild til að greiða kæranda uppbót á lífeyri vegna súrefniskostnaðar og hafi honum því verið synjað.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um uppbót á lífeyri vegna rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíunotkunar.

Í 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir:

„Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna. Kostnaður sem kemur til álita í þessu sambandi er einkum umönnunarkostnaður, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki, sjúkra- eða lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiða ekki, rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar, húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta og dvalarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti eða reka sambærilega starfsemi.

[…]

Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi.

Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.“

Þegar kærandi sótti um uppbót á lífeyri var í gildi reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1052/2009, með síðari breytingum, sem sett var með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir:

„Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.“

Í 5. tölul. 2. mgr. sömu greinar segir að heimilt sé að greiða uppbót á lífeyri vegna rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíunotkunar.

Um tekju- og eignamörk segir í 12. gr. reglugerðarinnar að uppbætur á lífeyri skulu aldrei greiddar til lífeyrisþega sem eigi eignir í peningum eða verðbréfum yfir 4.000.000 kr. eða hafi heildartekjur yfir 2.827.779 kr.

Eins og áður hefur komið fram segir í 5. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð að ráðherra skuli með reglugerð meðal annars kveða nánar á um tekju- og eignamörk. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að í framangreindu ákvæði felist skýr heimild til handa ráðherra til að tilgreina tekjuviðmið umsækjanda um uppbót á lífeyri sem Tryggingastofnun þurfi að fylgja við mat á umsóknum um greiðslu uppbóta á lífeyri.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra var kærandi með X kr. að meðaltali í mánaðartekjur á árinu 2018 eða X kr. í greiðslur yfir árið. Kærandi uppfyllir þar af leiðandi ekki tekjuskilyrði 12. gr. framangreindrar reglugerðar til að fá greidda umbeðna uppbót á lífeyri þar sem kveðið er á um að einstaklingur eigi ekki rétt á að fá uppbót á lífeyri hafi hann heildartekjur yfir 2.827.779 kr. á ári.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót á lífeyri vegna rafmagnskostnaðar vegna súrefnissíunotkunar er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um uppbót á lífeyri frá 23. nóvember 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta