Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. júlí 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 4/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að þann 17. október 2007 samþykkti Vinnumálastofnun umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur frá 18. september 2007. Réttur kæranda til atvinnuleysisbóta var hins vegar felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna upplýsinga sem fram komu á vinnuveitandavottorði, dagsettu 18. september 2007, um starfslok hennar hjá X. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 10. febrúar 2008.

Í erindinu kemur fram að kæranda hafi ekki borist bréf um ákvörðun Vinnumálastofnunar og hafi það sennilega týnst í pósti. Kærandi kveðst í framhaldi umsóknar sinnar hafa fengið eitthvað greitt í atvinnuleysisbætur þannig að hún hafi búist við því að umsókn hennar hafi verið samþykkt þrátt fyrir að fá ekki skriflega staðfestingu á því. Það hafi síðan verið um miðjan janúar 2008 sem hún hafi komist að því að réttur hennar til bóta hafi verið felldur niður í 40 daga.

Í bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. mars 2008, var vakin athygli á því að kærufrestur í málinu hafi runnið út 18. janúar 2008 en samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar skuli kæra berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Teljist kæran því hafa borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögbundnum kærufresti. Síðan kemur eftirfarandi fram í bréfi úrskurðarnefndarinnar: „Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laganna fer um kæru yðar að öðru leyti samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í kæru yðar er tekið fram að yður hafi ekki borist bréf um ákvörðun Greiðslustofu Vinnumálastofnunar þar sem það hafi væntanlega misfarist í pósti. Úrskurðarnefndin óskar eftir nánari upplýsingum og gögnum þessu til staðfestingar.“

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar dagsettu 17. mars 2008 segir að hún hafi haft samband við Vinnumálastofnun hinn 9. janúar 2008 þegar engar greiðslur höfðu borist henni fyrir desember 2007 og hafi henni þá verið tjáð af starfsmanni að það hafi verið mistök að greiða henni út bætur 1. nóvember 2007. Henni var jafnframt tjáð að réttur hennar til atvinnuleysisbóta hefði verið skertur um 40 daga og ætti bréf þar að lútandi að vera komið til hennar.

 

2.

Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar varðandi niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 daga er frá 17. október 2007. Í bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 18. október 2007, er tilkynnt um ákvörðunina og leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið það bréf. Kæra kæranda er dagsett 10. febrúar 2008. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs­aðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kæra í máli þessu barst því að liðnum kærufresti.

Ósannað er að kæranda hafi ekki borist bréf Vinnumálastofnunar, dags. 18. október 2008. Auk þess viðurkennir kærandi að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi tjáð sér hinn 9. janúar 2008 að réttur sinn til atvinnuleysis­bóta hafi verið skertur um 40 daga. Voru þá 9 dagar eftir af kærufrestinum. Máli þessu er því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


Úr­skurðar­orð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta