Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. júlí 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 5/2008.

   

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. febrúar 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 13. febrúar 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 8. janúar 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi sem var móttekið 27. febrúar 2008.

Kærandi hafði síðan haustið 2006 starfað hjá X þegar ráðningarslit urðu í desember 2007. Með umsókn, dags. 8. janúar 2008, sótti kærandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Vottorð vinnuveitanda kæranda er dagsett 10. janúar 2008 og er það á stöðluðu eyðublaði þar sem meðal annars er spurt um tildrög þess að launþegi hafi látið af störfum. Á eyðublaðinu er hægt að haka við þann valkost að launþegi hafi sjálfur sagt upp. Vinnuveitandi kæranda kaus á hinn bóginn að gefa upp þá ástæðu starfsloka að starfsmaður hafi brotið á ráðningarsamningi. Á ódagsettu upplýsingablaði starfsmanns Vinnumálastofnunar er fullyrt að kærandi hafi hætt að mæta til vinnu. Sú fullyrðing er byggð á símtali starfsmanns Vinnumálastofnunar við yfirmann á fyrrverandi vinnustað kæranda.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. janúar 2008, var kæranda tilkynnt að afgreiðslu á umsókn hans hafi verið frestað vegna upplýsinga um starfslok sem fram kæmu á áðurnefndu vottorði vinnuveitanda. Fram kom í bréfinu að líkur væru á að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma, sbr. X. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 22. janúar 2008, var vísað til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 og greinir kærandi þar frá því að honum hafi verið sagt upp en hann hafi ekki sagt upp sjálfur. Vinnumálastofnun aflaði ekki frekari gagna um málið áður en hún tók hina kærðu ákvörðun sem birt var kæranda með bréfi dagsettu 14. febrúar 2008.

Í kærunni kom fram að kæranda hafi komið á óvart að ósk hans um atvinnuleysisbætur skyldi vera hafnað á þeim forsendum að hann hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Honum hafi verið sagt upp fyrirvaralaust án skriflegrar aðvörunar og þess óskað sérstaklega að hann ynni ekki uppsagnarfrestinn. Það hafi verið gert símleiðis þegar kærandi var ekki í vinnu sökum veikinda. Hann hafi aldrei sagt starfi sínu lausu. Það sé með ólíkindum að opinber stofnun eins og Vinnumálastofnun skuli annað hvort ekki lesa þau gögn sem málið varða eða taka afstöðu í deilumáli kæranda við X án þess að færa fyrir því nokkur rök. Við það verði ekki unað og gerir hann skilyrðislausa kröfu um að úr þessu verði bætt með því að greiða honum umræddar bætur. Sá dráttur sem orðinn er á þessu máli sé farinn að valda kæranda verulegum óþægindum og það sé honum heldur ekki ljúft að standa í svona bréfaskriftum.

Fram kemur í athugasemdum Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi byggst á 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 þar sem kærandi hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Að mati Vinnumálastofnunar hafi kærandi hætt að mæta til vinnu sem jafngildir uppsögn í starfi. Í ljósi þess að uppsögn kæranda hafi átt rót sína að rekja til ágreiningsefna við vinnuveitanda teljist hún ekki gild í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Starfsmaður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ræddi símleiðis við kæranda þann 27. júní sl. Kærandi kvaðst hafa verið veikur í einn dag og hafi bróðir hans, sem einnig vann á sama stað, borið þau boð á vinnustaðinn. Hafi þá verið hringt í hann af vinnustaðnum og honum sagt að hann þyrfti ekki að mæta framar. Aðspurður hvort ágreiningur hafi verið á vinnustaðnum kvað hann já við því og sagði verkstjórann hafa verið leiðinlegan og afskiptasaman. Kærandi sagðist ekki neita því að komið hafi fyrir að hann hafi mætt of seint til vinnu.

Starfsmaður nefndarinnar ræddi einnig við fyrrverandi yfirmenn kæranda. Þeir töldu kæranda ekki hafa staðið sig í vinnu, hann hafi mætt seint og hafi ekki bætt sig þrátt fyrir ítrekaðar munnlegar aðvaranir. Í símtali starfsmanns úrskurðarnefndarinnar við starfsmannastjóra X kom fram að mætingar kæranda hafi verið lélegar og hann hafi fengið ítrekaðar munnlegar aðvaranir vegna þess. Hins vegar hafi láðst að senda honum aðvaranir skriflega.

 

2.

Niðurstaða

Þegar Vinnumálastofnun, með bréfi dags. 17. janúar 2008, veitti kæranda kost á að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun um að fresta bótagreiðslum til hans um 40 daga var eingöngu vísað til X. kafla laga nr. 54/2006. Rétt hefði verið að tilgreina þá lagareglu sem hin fyrirhugaða ákvörðun átti að byggjast á, þar sem í 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 er hægt að fresta bótagreiðslum um 40 daga á ólíkum forsendum, þ.e. annars vegar sökum þess að umsækjandi hafi sagt upp starfi án gildra ástæðna og hins vegar á grundvelli þess að umsækjandi hafi misst starf af ástæðum sem hann sjálfur á sök á. Kærandi andmælti fyrirhugaðri ákvörðun á þeim grundvelli að hann hefði ekki sagt upp sjálfur, sbr. tölvupóst kæranda til Vinnumálastofnunar dags. 22. janúar 2008.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. febrúar 2008, var kæranda kynnt hin kærða ákvörðun með eftirfarandi hætti:

„Með vísan til upplýsinga á vinnuveitandavottorði, dags. 10.01.08, um starfslok þín hjá X er réttur þinn til atvinnuleysisbóta [...] felldur niður í 40 bótadaga í upphafi bótatímabils. Ákvörðun þessi er tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar en þar segir:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur.

Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á biðtímanum skv. 1. mgr.

Ekki verður önnur ályktun dregin af framangreindu en að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi grundvallast á þeirri forsendu að kærandi hafi sagt upp starfi sínu án gildra ástæðna. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur afstaða Vinnumálastofnunar einnig grundvallast á að kærandi hafi sagt upp án gildra ástæðna og því verður úrskurðarnefndin að haga úrlausn málsins í samræmi við það. Þótt málsatvik kunni að benda til þess að kærandi hafi sjálfur átt sök á því að hann missti starfið er ekki unnt að leysa málið á þeim grundvelli.

Ekkert í umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur né heldur í vottorði vinnuveitanda hans gaf til kynna að hann hafi sagt ráðningarsamningi sínum upp. Eina heimildin fyrir því að hann hafi sagt upp sjálfur er símtal starfsmanns Vinnumálastofnunar við yfirmann á fyrrverandi vinnustað kæranda. Þessum skilningi var mótmælt af hálfu kæranda. Þrátt fyrir að brýn ástæða hafi verið til að rannsaka málið frekar var hin kærða ákvörðun tekin án þess að slík könnun færi fram. Öll gögn sem lögð hafa verið fram fyrir úrskurðarnefndinni benda til þess að kæranda hafi verið sagt upp störfum. Lagt er til grundvallar að svo hafi verið og var því ekki rétt að beita 1. ml. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 til að fresta bótagreiðslum til kæranda.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fella beri úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 bótadaga.

 

Úr­skurðar­orð

Felld er úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. febrúar 2008 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta