Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. nóvember 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 14/2008.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. júlí 2008 var kæranda, A, tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir, frá og með 2. maí 2008. Ákvörðunin var byggð á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006. Kærandi kærði niðurstöðu Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu þann 22. júlí 2008. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá og með 2. maí 2008. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi starfaði hjá X sem vaktstjóri frá árslokum 2006. Honum var sagt upp á árinu 2008 og lauk uppsagnarfresti þann 30. apríl 2008. Kærandi þurfti ekki að sinna skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi á meðan á uppsagnarfrestinum stóð. Þann 7. apríl 2008 réði kærandi sig til starfa hjá Y ehf. Hann sagði upp því starfi frá og með 30. apríl 2008.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 2. maí 2008 eftir að hann hætti störfum hjá Y ehf. og uppsagnarfresti hjá X lauk. Í umsókn sinni til Vinnumálastofnunar sagðist kærandi hafa starfað hjá X sem vaktstjóri frá árinu 2006 þar til honum var sagt upp störfum. Á uppsagnarfrestinum hafi hann fengið vinnu í mötuneyti (hjá Y ehf.) en hafi einungis starfað þar í nokkra daga þar sem það starf hafi ekki verið það sem hann leitaði að.

Með bréfi til kæranda, dags. 5. júní 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun honum að umsókn hans hafi verið tekin til greina en að líkur væru á því að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að loknum biðtíma skv. X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfinu var kæranda gefinn kostur á að koma með skýringar vegna væntanlegrar ákvörðunar. Þann 6. júní 2008 sendi kærandi athugasemdir sínar þar sem sagði að hann hafi ekki átt neina sök á uppsögn sinni hjá síðasta vinnuveitanda sem hann sagði vera X.

Með bréfi, dags. 19. júní 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda þá ákvörðun sína að með hliðsjón af vinnuveitendavottorði frá Z ehf. hefjist greiðsla atvinnuleysisbóta að loknum 40 daga biðtíma. Kærandi sendi bréf til Vinnumálastofnunar, dags. 24. júní 2008, þar sem því var haldið fram að ákvörðunin byggðist á röngum forsendum þar sem hann hafi starfað hjá Y ehf. en ekki hjá Z ehf. Sama dag, þann 24. júní 2008, sendi Vinnumálastofnun bréf til kæranda þar sem ákvörðunin var afturkölluð á þeim grundvelli að kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla upplýsingum í vinnuveitendavottorði Y ehf. Jafnframt var honum gefinn kostur á að koma fram andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um 40 daga biðtíma atvinnuleysisbóta vegna starfsloka sinna hjá Y ehf.

Þann 8. júlí 2008 sendi kærandi bréf til Vinnumálastofnunar þar sem ítrekuð voru mótmæli hans í bréfum, dags. 6. og. 10. júní 2008, auk þess sem hann kvartaði yfir vinnubrögðum Vinnumálastofnunar. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 9. júlí 2008, var honum tilkynnt að ákvörðun vegna umsóknar hans um atvinnuleysisbætur hafi verið frestað og var honum enn gefinn kostur á að koma fram frekari andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar um 40 daga biðtíma atvinnuleysisbóta.

Þann 17. júlí 2008 var kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar tilkynnt sú ákvörðun að fresta greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á grundvelli upplýsinga í vinnuveitandavottorði Y ehf. um starfslok hans hjá fyrirtækinu.

Eftir að kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. júlí sl. leitaði nefndin eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til málsins. Í bréfi Vinnumálastofnunar, mótteknu 17. september 2008, kom fram að kærandi hafi sagt upp störfum hjá Y ehf. þar sem vinnan hafi ekki verið sú vinna sem hann var að leita að. Umsókn hans um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt en þar sem kærandi hafi sagt upp störfum sjálfur hafi bótaréttur hans verið felldur niður í 40 daga. Það sé mat Vinnumálastofnunar að ástæður þær sem kærandi gaf upp fyrir uppsögn sinni geti ekki talist gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, mótteknu 9. október 2008, hélt hann því fram að hann hefði ekki getað unnið áfram hjá Y ehf. vegna líkamlegs ástand síns og að X hafi verið sinn síðasti vinnustaður.

 

2.

Niðurstaða

Við meðferð málsins hjá Vinnumálastofnun urðu mistök sem leiddu til þess að afgreiðsla umsóknar kæranda tafðist. Í því skyni að gæta andmælaréttar kæranda var þessi dráttur á meðferð málsins þó nauðsynlegur. Telja verður að Vinnumálastofnun hafi rannsakað málið nægjanlega og veitt kæranda fullnægjandi rétt til að andmæla áður en hin kærða ákvörðun var tekin.

Fyrsta mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Í máli þessu verður lagt til grundvallar að síðasti vinnustaður kæranda hafi verið Y ehf. Óumdeilt er að kærandi sagði sjálfur upp starfi sínu hjá síðasta vinnuveitanda, þ.e. Y ehf. Það var fyrst fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi hélt því fram að hann hefði hætt störfum hjá Y ehf. sökum þess að hann hefði ekki líkamlega getað sinnt starfinu. Engin gögn málsins staðfesta þessa fullyrðingu kæranda. Vinnuveitendavottorð gefur ekki til kynna að kærandi hafi hætt störfum vegna líkamlegra kvilla. Umkvartanir kæranda vegna líkamlegrar getu sinnar til að sinna starfinu hjá Y ehf. verða því ekki taldar leiða til þess að hann hafi haft gildar ástæður fyrir uppsögn sinni.

Samkvæmt ódagsettu bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, sem barst stofnuninni á meðan mál hans var þar enn til meðferðar, kom fram að hann hafi unnið í nokkra daga í mötuneyti og það hafi verið starf sem hann hafi ekki verið að leita að. Með hliðsjón af þessu verður lagt til grundvallar að kærandi hafi hætt störfum hjá Y ehf. vegna óánægju með eðli starfsins. Það samrýmist einnig minnispunktum starfsmanns Vinnumálastofnunar, dags. 11. júlí 2008, um efni símtals hans við forsvarsmann Y ehf.

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar var 1. mgr. 54. gr. laganna skýrð nánar og það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins væri að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því væri ekki gefinn kostur á að fólk segði upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður lægi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf væri ekki í boði.

Að framangreindu virtu verður talið að kærandi hafi ekki haft gildar ástæður til að segja upp starfi sínu hjá Y ehf. Samkvæmt því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. júlí 2008 um frestun á greiðslu atvinnuleysisbóta til A í 40 daga.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta