Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 52/2007

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 1. júlí 2008 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 52/2007.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með rafpósti til skrifstofustjóra Greiðslustofu Vinnumálastofnunar, dags. 1. október 2007, fór kærandi, A, meðal annars fram á að bótahlutfall hennar, sem var 30%, yrði endurmetið. Beiðni hennar var tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar hinn 9. október 2007 og var þar samþykkt að bótahlutfall hennar yrði áfram 30%. Kærandi lagði af þessu tilefni fram kæru, dags. 24. október 2007, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsgerða. Sá skilningur er lagður til grundvallar að kærandi krefjist þess að áðurnefnd samþykkt Vinnumálastofnunar hinn 9. október 2007 verði felld úr gildi og að bótahlutfall hennar hækki úr 30% í 100%. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða samþykkt verði staðfest.

Kærandi rak X í Reykjavík í 18 ár eða allt þar til að rekstrinum var hætt árið 2006. Í ljósi þess að reksturinn hafði gengið illa í nokkur ár hafði kærandi greitt sjálfri sér lágt reiknað endurgjald. Þar sem reiknað endurgjald kæranda var mun lægra en viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra sögðu til um var bótahlutfall hennar í atvinnuleysistryggingakerfinu ákveðið 30% þegar umsókn hennar um atvinnuleysisbætur var afgreidd í apríl 2006. Enginn ágreiningur er um að þessi niðurstaða hafi verið í samræmi við þau lög sem giltu þá.

Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 tóku gildi 1. júlí 2006 og leystu þá af hólmi eldri lög um sama efni nr. 12/1997. Í bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 54/2006 var meðal annars kveðið á um að þeir sem hafi í fyrsta skipti skráð sig atvinnulausa hjá svæðisvinnumiðlun 15. nóvember 2005 eða síðar, og voru skráðir atvinnulausir 1. júlí 2006, væri heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. laganna fyrir 1. september 2006. Bærist umsókn fyrir 1. september 2006 skyldi fara um réttindi bótaþega og skyldur innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt lögum nr. 54/2006. Ágreiningur máls þessa lýtur meðal annars að því að kærandi vill að tekin verði afstaða til bótahlutfalls hennar á grundvelli gildandi laga þó að hún hafi ekki sótt um það fyrr en eftir 1. september 2006.

Kærandi telur að hún hafi verið í fullu starfi áður en hún hætti rekstri X og að hún uppfylli öll skilyrði 18. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 54/2006, um að fá 100% atvinnuleysisbætur. Engu máli skipti þótt hún hafi sótt um bæturnar eftir 1. september 2006 þar sem hún hafi fengið ófullnægjandi upplýsingar á sínum tíma af hálfu Vinnumálastofnunar um réttarstöðu sína. Samskipti hennar við starfsmenn Vinnumálastofnunar höfðu eingöngu verið munnleg.  Kærandi telur að stofnunin hafi brotið á leiðbeiningarskyldu sinni þótt henni hafi ásamt öðrum bótaþegum verið sent dreifibréf sumarið 2006 um gildistöku hinna nýju laga. Augljóst hafi verið að lög nr. 54/2006 hafi haft í för með sér umtalsverðan aukinn rétt fyrir fjölda bótaþega sem var í svipaðri aðstöðu og hún, ef þeir vissu að sækja þurfti um slíkt fyrir 1. september 2006. Vinnumálastofnun hafi hins vegar ekki fjallað um það í áðurnefndu bréfi sínu til bótaþega. 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar er bent á þá vinnureglu stofnunarinnar að fullyrða ekkert um rétt fólks án þess að öll viðeigandi gögn liggi fyrir. Umsóknir sem berast stofnuninni frá einstaklingum geta verið jafn ólíkar og þær eru margar. Af þeim sökum er fólki bent á að sækja formlega um þau réttindi sem það hyggst sækja til stofnunarinnar svo meta megi rétt þess. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á að skilgreining á sjálfstætt starfandi einstaklingi skv. b-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 taki meðal annars hliðsjón af viðmiðunarreglum fjármálaráðherra um skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingargjaldi. Einstaklingar þurfa að sækja um undanþágu til skattstjóra ef standa á skil á lægra endurgjaldi en heimilað er samkvæmt viðmiðunar­reglunum. Óvíst er því að kærandi hafi uppfyllt skilyrði samkvæmt nýju lögunum til að vera sjálfstætt starfandi einstaklingur. Óháð því álitaefni er það mat Vinnumálastofnunar að hún hafi ekki brugðist leiðbeiningarskyldu sinni í þessu máli. Stofnunin hafi upplýst alla atvinnuleitendur um gildistöku hinna nýju laga, meðal annars með dreifibréfi. Þar sem aðstæður einstaklinga geta verið svo ólíkar hafi þeir þurft að kanna rétt sinn nánar hjá starfsmönnum Vinnumálastofnunar. Það hafi síðan verið ákvörðun hvers og eins bótaþega hvort sótt væri um innan þess frests sem getið var í bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 54/2006.

 

2.

Niðurstaða

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er æðra sett stjórnvald sem tekur á móti kærum aðila sem telja að endurskoða þurfi ákvörðun sem Vinnumálastofnun hefur tekið samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 eða lögum um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006. Það leiðir af stöðu úrskurðarnefndarinnar að vinnsla og meðferð mála eiga ekki að hefjast hjá henni heldur verður Vinnumálastofnun að hafa lagt  viðhlítandi grundvöll undir sérhvert mál með því að leiðbeina einstaklingum, rannsaka mál þeirra og eftir atvikum veita þeim andmælarétt áður en ákvörðun er tekin um réttarstöðu þeirra.

Í þessu máli lagði kærandi fram beiðni hinn 1. október 2007 til Vinnumálastofnunar um breytt bótahlutfall. Á engan hátt er hægt að skilja þetta rafbréf kærandans með þeim hætti að hún ætti rétt samkvæmt bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 54/2006. Sá skilningur kemur ekki fram fyrr en í greinargerð kæranda fyrir úrskurðarnefndinni hinn 4. febrúar 2008. Engin rannsókn virðist hafa farið fram af hálfu Vinnumálastofnunar áður en hin kærða ákvörðun var tekin hinn 9. október 2007. Skömmu eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar lá fyrir hófst mál þetta fyrir úrskurðarnefndinni. Öll rannsókn málsins hefur farið fram á vegum hennar en ekki hjá hinu lægra setta stjórnvaldi. Rétt hefði verið af hálfu úrskurðarnefndarinnar að vísa þessu máli strax aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar. Ef sú skipan væri lögleg að vinnsla mála færi eingöngu fram hjá úrskurðarnefndinni, væri útilokað fyrir nefndina að uppfylla þá frávíkjanlegu kröfu að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða eftir að henni berst mál. Nú, meira en átta mánuðum eftir að málið hófst fyrir úrskurðarnefndinni, er ekki réttlætanlegt gagnvart hagsmunum kæranda, að vísa málinu aftur til Vinnumálastofnunar. Málið þykir nú nægjanlega rannsakað í ljósi þeirra fjölmörgu gagna sem aðilar máls hafa lagt fram.

Óumdeilt er að bótaréttur kæranda fór eftir settum reglum áður en lög nr. 54/2006 tóku gildi 1. júlí 2006 og samkvæmt þeim var bótahlutfallið réttilega ákveðið 30%. Ef kærandi hafði hug á að fá því breytt á grundvelli hinna nýju laga stóð henni til boða að láta á það reyna fyrir 1. september 2006. Hún kaus hins vegar að gera það ekki fyrr en löngu eftir að sá frestur var liðinn. Taka þarf þá afstöðu til þess hvort hún geti eigi að síður fengið úrlausn sinna mála á grundvelli hinna nýju laga sökum þess að leiðbeiningarskylda hafi verið brotin gagnvart henni.

Lög um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 voru birt í samræmi við landslög. Vinnumálastofnun sendi út dreifibréf meðal atvinnuleitenda sumarið 2006 um hin nýju lög. Telja verður að efni dreifibréfsins hafi verið eðlilegt miðað við það hversu aðstæður einstaklinga sem eru í atvinnuleysiskerfinu geta verið ólíkar. Í dreifibréfinu var vakin sérstök athygli á að þeir sem sóttu í fyrsta sinn um atvinnuleysisbætur 15. nóvember 2005 eða síðar og voru skráðir atvinnulausir 1. júlí 2006 gætu sótt um tekjutengdar atvinnuleysisbætur á grundvelli hinna nýju laga. Tekið var fram að umsóknarfrestur vegna þessa væri til 1. september 2006. Þessar upplýsingar gáfu til kynna að einstaklingar í sambærilegri stöðu og kærandi hefðu frest til 1. september 2006 til að sækja um bótarétt á grundvelli laga nr. 54/2006.  Engin bein lagaskylda hvíldi á Vinnumálastofnun að standa að kynningu laganna. Þegar framanritað er virt í heild verður ekki annað séð en að Vinnumálastofnun hafi staðið að kynningu laganna í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Kærandi telur sig hafa gert reka að því að afla sér frekari upplýsinga um lög nr. 54/2006 fyrir 1. september 2006. Ósannað er að þær munnlegu upplýsingar sem hún fékk frá Vinnumála­stofnun hafi verið rangar. Einnig verður að líta til þess að strangt til tekið lék vafi á að kærandi félli undir skilgreiningu b-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 um sjálfstætt starfandi einstaklinga og því gat verið erfitt að veita kæranda ráðgjöf án þess að ítarleg gögn lægju fyrir um aðstöðu hennar. Það var því fyrst og fremst á hennar ábyrgð að leggja fram gögn til að starfsmenn Vinnumála­stofnunar gætu fyrir 1. september 2006 leiðbeint henni með nákvæmum hætti.

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. október 2007 verður samkvæmt framanrituðu staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Staðfest er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. október 2007 um að bótahlutfall A verði áfram 30%.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta