Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 187/2013

Mál nr. 187/2013

Fimmtudaginn 10. desember 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. desember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. desember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 6. janúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 12. janúar 2015. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 14. janúar 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón, fædd 1947 og 1944. Þau búa í 206 fermetra eigin einbýlishúsi að C í Hafnarfirði. Kærendur eiga einnig 90 fermetra íbúð að D í Hafnarfirði.

Kærandi A starfar sem E. Kærandi B er F. Tekjur kærenda eftir greiðslu skatta eru samtals 643.966 krónur á mánuði vegna launa og slysabóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 86.159.993 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007. Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru 23.872.046 krónur vegna reksturs á eigin fyrirtæki.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til hækkana á lánum vegna byggingar þeirra á einbýlishúsi sínu. Þá hafi kærandi B keypt litla íbúð þegar þau slitu tímabundið samvistir árið 2009 en íbúðina hafi þau svo ekki getað selt. Þá hafi kærandi B fengið heilablóðfall árið 2009 og verið óvinnufær síðan.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 3. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. júlí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 19. ágúst 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja fyrir fé á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls. Kærendur hafi verið í greiðsluskjóli, þ.e. þau hafi ekki mátt greiða af skuldbindingum sínum meðan á því stóð. Hafi kærendur því eingöngu þurft að greiða kostnað vegna heimilis og tengd útgjöld. Kærendur hefðu átt að getað lagt til hliðar 8.400.000 krónur á tímabilinu en þau hefðu einungis lagt til hliðar 1.200.000 krónur. Kærendur hafi lagt fram kvittanir að fjárhæð 3.911.840 krónur vegna ýmiss kostnaðar sem fallið hafi til í greiðsluskjóli. Sé það kostnaður vegna lækna- og tannlæknaþjónustu, lyfja, bílaviðgerða og viðhalds á fasteign þeirra, samtals að fjárhæð 2.234.620 krónur. Einnig hafi kærendur lagt fram kvittanir að fjárhæð alls 1.677.220 krónur vegna kaupa á sjónvarpi, þurrkara, þvottavél, eldavél og kæliskáp. Þá hafi kærendur flísalagt og endurnýjað hjá sér baðherbergi. Loks hafi báðir kærendur farið í hvíldarinnlögn á G og hafi það kostað alls 381.360 krónur.

Að mati umsjónarmanns sé ekki unnt að taka tillit til allra þeirra útgjalda sem kærendur hafi tiltekið, enda sé gert ráð fyrir sumum þessara kostnaðarliða í framfærslukostnaði kærenda. Einnig leiki vafi á því að önnur útgjöld hafi verið nauðsynleg. Auk þess vanti upp á að kærendur hafi gert grein fyrir 4.488.160 krónum af því fé sem þau hafi átt að hafa aflögu á tímabilinu. Umsjónarmaður telji því að kærendur hafi ekki fullnægt skyldu sinni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hafi ekki lagt nægilega mikið fé fyrir á tímabili greiðsluskjóls. Því telji hann að fella eigi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 13. nóvember 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda kom fram að þau teldu umsjónarmann hafa brugðist skyldum sínum gagnvart sér þar sem hann hefði átt að láta þau vita mun fyrr í greiðsluaðlögunarferlinu að þau hefðu ekki lagt næga fjármuni til hliðar. Því væri ósanngjarnt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra.

Með ákvörðun 5. desember 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera þá kröfu að máli þeirra verði vísað á ný til umboðsmanns skuldara til frekari umfjöllunar og afgreiðslu. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Kærendur krefjast þess að þeim verði skipaður nýr umsjónarmaður.

Kærendur kveðast ósátt við að umsjónarmaður hafi ekki unnið málið sjálfur heldur starfsmaður hans. Það komi skýrt fram í 9. gr. lge. að umsjónarmaður skuli vera lögmaður sem umboðsmaður skuldara ráði til verksins en ekki aðstoðarmaður lögmanns. Telji kærendur að með þessu hafi þau ekki notið sanngjarnrar málsmeðferðar.

Af gögnum málsins sé ljóst að meginreglum lge. og upplýsingalaga um hraða og nákvæma málsmeðferð hafi ekki verið fylgt. Tími við úrvinnslu málsins hafi verið mjög langur og sýnu lengri en almennt sé ætlað. Þá sé mikið ósamræmi og villur í umfjöllun og framsetningu gagna. Þannig verði ekki séð hvenær umsókn kærenda til að leita greiðsluaðlögunar hafi verið samþykkt. Úr gögnum megi lesa tvær ef ekki þrjár dagsetningar þar um frá umboðsmanni skuldara. Sama sé með skipan umsjónarmanns og séu að minnsta kosti tvær dagsetningar nefndar í því sambandi og tveir umsjónarmenn. Kærendur telja að utanumhald á málinu hafi verið ónákvæmt og losaralegt auk þess sem málið hafi tekið óeðlilega langan tíma.

Það er mat kærenda að mikið þurfi að koma til svo að þau teljist hafa brotið gegn skyldum sínum enda áskilji 15. gr. lge. að skuldari víki augljóslega og með vísvitandi hætti frá skyldum sínum til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir falli niður.

Í málatilbúnaði sínum hafi umboðsmaður skuldara útlistað vinnureglur í tilkynningum til kærenda um sparnað í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. Þar sé greint frá því að þeim hafi verið send bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012. Einnig hafi þau fengið skriflegar leiðbeiningar 18. maí 2011 þar sem tilkynnt hafi verið um samþykkt umsóknar. Engin gögn séu um þessi bréfaskipti. Þá segi embættið að reglur 12. gr. lge. séu ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Um þann fund liggi ekkert fyrir en kærendur kveða eina fund sinn með umsjónarmanni hafa verið 2. mars 2012. Þar hafi þetta atriði ekki fengið sérstaka umfjöllun. Verði því að telja óljóst og ósannað hvort slík kynning hafi farið fram. Samkvæmt þessu telji kærendur óljóst hvaða aðhald og leiðbeiningar þau hafi fengið um hversu mikið þau skyldu leggja til hliðar.

Af málatilbúnaði umboðsmanns skuldara megi skilja að um 4.500.000 króna vanti upp á sparnað kærenda sé miðað við hið knappa framfærsluviðmið embættisins. Þó að framfærsluviðmiðið byggi að nokkru á lögum um greiðsluaðlögun verði að telja ljóst að viðmiðinu sé ekki ætlað að gilda í langan tíma. Kærendur vísa í því sambandi til framfærsluviðmiðs velferðarráðuneytisins sem sé mun hærra en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Telja kærendur að aukin neysluþörf í anda viðmiðs velferðarráðuneytisins eyði að mestum hluta þeim mismun sem talinn sé á innkomu nettótekna og sparnaði kærenda.

Kærendur kveða tekjur sínar töluvert misskiptar og þar af leiðandi væntanlega líka kröfur til þeirra um sparnað. Ekkert liggi fyrir um skiptingu skulda á milli kærenda. Því telja þau ósanngjarnt að þau skuli meðhöndluð hjá umboðsmanni skuldara sem einn aðili þótt þau séu hjón því skárra væri ef annað þeirra fengi greiðsluaðlögun ef hitt færi í gjaldþrot.

Að lokum benda kærendur á að markmið lge. sé að gera fólki kleift að njóta skuldaaðlögunar með greiðsluaðlögun í stað gjaldþrots. Í ljósi þeirra annmarka sem orðið hafi á málsmeðferð og þess að líklegt sé að brot kærenda á 12. gr. lge. sé lítils háttar er það því krafa kærenda að kærunefndin vísi málinu að nýju til umboðsmanns skuldara.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 3. desember 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa. Í því sambandi skipti ekki máli hvenær umsjónarmaður innti kærendur eftir fjárhæð sparnaðar.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 34 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. október 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. janúar 2011 til 31. október 2013 að frádregnum skatti 14.474.200
Vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla og endurgreidd opinber gjöld 2.714.438
Leigutekjur 3.643.199
Samtals 20.831.837
Mánaðarlegar meðaltekjur 612.701
Framfærslukostnaður á mánuði 303.062
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 309.640
Samtals greiðslugeta í 34 mánuði 10.527.760

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 612.701 krónu í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 34 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 303.062 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað nóvember 2013 fyrir hjón/sambúðarfólk. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 10.527.760 krónur á fyrrnefndu tímabili, sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 309.640 krónur á mánuði í 34 mánuði.

Kærendur kveðast hafa orðið fyrir auknum kostnaði á tímabili greiðslufrestunar vegna læknis- og lyfjakostnaðar, viðhalds bifreiðar og fasteignar, samtals að fjárhæð 2.060.959 krónur. Hluti útgjalda þeirra falli innan framfærsluviðmiða umboðsmanns skuldara og hafi því þegar verið gert ráð fyrir þeim hluta í áætluðum framfærslukostnaði þeirra samkvæmt greiðsluáætlun, sem fylgt hafi bréfi umboðsmanns skuldara 13. nóvember 2013. Utan kostnaðar sem gert sé ráð fyrir í greiðsluáætlun kærenda falli þó 1.923.276 krónur, sem umboðsmaður skuldara hafi tekið tillit til við útreikninga sína.

Kærendur hafi lagt fram kvittanir vegna endurnýjunar heimilistækja á tímabili greiðsluaðlögunar að fjárhæð alls 1.677.220 krónur. Kærendur hafi þó ekki sýnt fram á nauðsyn þess að endurnýja heimilistæki á greiðsluaðlögunartímanum og því verði ekki tekið tillit til þeirra útgjalda við útreikning á sparnaði kærenda.

Kærendur hafi greint frá því að þau hefðu lagt til hliðar 1.200.000 krónur. Að frádregnum sparnaði og óvæntum kostnaði að fjárhæð 1.923.276 krónur lækki sú fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar úr 10.527.760 krónum í 7.404.484 krónur. Hafi kærendur ekki gert grein fyrir því hvernig þau hafi ráðstafað þeirri fjárhæð, að undanskildum 1.677.220 krónum vegna endurnýjunar á heimilistækjum.

Umboðsmaður tekur þó fram að þrátt fyrir að tekið yrði tillit til alls þess kostnaðar sem kærendur hafi tiltekið, alls 4.293.200 króna auk þeirra 1.200.000 króna sem þau hafi lagt fyrir, standi enn eftir 5.034.760 krónur sem kærendum hafi borið að leggja til hliðar.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með í vinnslu umsókn um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að standa við gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja ósanngjarnt að þau skuli meðhöndluð sem einn aðili hjá umboðsmanni skuldara þó að þau séu hjón. Þau telja að skoða beri stöðu hvors þeirra fyrir sig þar sem niðurstaða útreikninga um hversu mikið þau hafi getað lagt fyrir á tíma greiðsluaðlögunar gæti orðið önnur. Kærendur leituðu sameiginlega greiðsluaðlögunar, eins og þeim er heimilt að gera samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge., en virðast þrátt fyrir það telja að afgreiða eigi mál þeirra sérstaklega og óháð stöðu meðumsækjanda. Þar sem kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem hjón og uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess verður leyst úr máli þeirra í samræmi við það. Mál hvors kæranda um sig kemur því ekki til úrlausnar við þær aðstæður sem eru í máli þessu.

Kærendur gera athugasemd við það að þó svo að framfærsluviðmiðið, sem notað sé í málinu byggist að nokkru á lögum um greiðsluaðlögun, þá telja kærendur ljóst að viðmiðinu sé ekki ætlaður eins langur tími og málið hafi tekið. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Hér verður að hafa í huga að aðstæður, sem 12. gr. lge. varðar, eru þær að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa en um er að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi, er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að skuldara takist að leggja fyrir er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í 2. mgr. 16. gr. lge. kemur fram að lengd greiðsluaðlögunartímabils skuli að jafnaði vera eitt til þrjú ár frá því að samningur tekur gildi og á þeim tíma er gert ráð fyrir að framfærslukostnaður skuldara sé samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skal umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur þegar frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun er samið. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, hvorki á tímabili greiðsluskjóls né á tímabili greiðsluaðlögunarsamnings, en ljóst er að sá tími getur verið nokkuð langur. Telur kærunefndin því að við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli beri að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur.

Kærendur telja að Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni varðandi skyldu þeirra að leggja til hliðar fjármuni samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þau kveðast ekki hafa fengið upplýsingar um þetta þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 3. desember 2010, ekki í bréfum frá umboðsmanni skuldara og ekki á fundi með umsjónarmanni með greiðsluaðlögunarferlinu.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar, komið fram í bæklingum eða á vefsíðum.

Með setningu laga nr. 128/2010, sem birt voru 18. október 2010, tók gildi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hjá þeim einstaklingum sem sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar fram til 1. júlí 2011. Þegar umsókn var lögð fram afhenti umboðsmaður skuldara þessum umsækjendum sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að umsækjendum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að umsækjendur mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimils og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti umsækjandi ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á.

Þá sendi umboðsmaður skuldara umsækjendum, sem voru í greiðsluskjóli, bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem meðal annars var minnt á skyldur umsækjenda að leggja til hliðar fjármuni sem voru umfram framfærslu samkvæmt 12. gr. lge. Bendir ekkert til annars en að þau bréf hafi verið send kærendum eins og öðrum skuldurum sem voru í greiðsluskjóli á þeim tíma.

Á vefsíðu umboðsmanns skuldara á þeim tíma er kærendur sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar voru upplýsingar um skyldur umsækjenda við greiðsluaðlögunar-umleitanir. Eftirfarandi texta var að finna á vefsíðunni undir liðnum greiðsluaðlögun einstaklinga:

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin af umboðsmanni skuldara hefst frestun greiðslna. Með frestuninni eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar kröfuhöfum og umsækjendum. Á fresttíma má umsækjandi einungis greiða það sem viðkemur rekstri heimilsins og framfærslu. Framfærslan innifelur mat, hreinlætisvörur, tómstundir, fatnað, lækniskostnað skv. neysluviðmiði umboðsmanns og fastra liða í framfærslu s.s. síma, hita, rafmagn, dagvistun og fleira. Umsækjandi þarf einnig að leggja til hliðar allar afgangstekjur sínar. Á fresttíma er kröfuhöfum óheimilt að taka við greiðslum vegna skulda hvort sem umsækjandi er í skilum eða vanskilum. Þetta á við um greiðslur af veðlánum og öðrum lánum s.s. bílakaupalánum, yfirdráttarlánum og fleira. Þá er kröfuhöfum einnig óheimilt að krefjast nauðungarsölu á eigum umsækjenda og hjá þeim sem kynnu að vera í ábyrgðum fyrir umsækjenda. Frestun greiðslna lýkur með samningi, afturköllun eða synjun umsóknar.“

Kærunefndin telur að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun. Í því sambandi var sérstaklega tilgreint í umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun hvaða fjárhæðir framfærsla þeirra skyldi miðast við og að frekari upplýsingar um framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara væri að finna á vefsíðu embættisins. Í umsókninni segir „Þú finnur framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara á heimasíðunni www.ums.is

Samkvæmt gögnum málsins voru kærendur einnig upplýst um skyldur sínar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. lge. með skriflegum leiðbeiningum sem fylgdu með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. júlí 2011 þar sem þeim var veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem einnig fylgdi ákvörðun umboðsmanns skuldara, var mánaðarleg greiðslugeta kærenda eftir greiðslu framfærslukostnaðar tiltekin 394.930 krónur.

Kærunefndin telur að Embætti umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt framansögðu leiðbeint kærendum þegar þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar með fullnægjandi hætti með því að veita upplýsingar við móttöku umsóknar, í tilkynningu sem send var kærendum á tímabili greiðsluskjóls, á vefsíðu embættisins og með upplýsingum á umsóknareyðublaði um greiðsluaðlögun. Var um að ræða útskýringar á

afdráttarlausu lagaákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þar sem segir að á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Eins og fram kemur í leiðbeiningunum er þar enn fremur útskýrt að skylda til að leggja fé til hliðar hefst frá því að umsókn um greiðsluaðlögun er móttekin þegar frestun greiðslna hefst. Að þessu virtu er það álit kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi framfylgt leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga við meðferð málsins. Kærendum bar því að virða skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. frá þeim tíma er þau sóttu um heimild til greiðsluaðlögunar 3. desember 2010.

Kærendur kveðast ósátt við að umsjónarmaður hafi ekki unnið málið sjálfur heldur starfsmaður hans. Fyrir liggur að löglærður aðstoðarmaður skipaðs umsjónarmanns kom fram í nokkrum mæli gagnvart kærendum fyrir hönd umsjónarmanns og á hans ábyrgð. Að mati kærunefndarinnar er ekkert við það fyrirkomulag að athuga.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 19. ágúst 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Tilkynnti hann umboðsmanni skuldara að líkur væru á að umræddar upplýsingar hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 5. desember 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar alla þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 3. desember 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt því sem að framan er rakið hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 10.527.760 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 3. desember 2010 til 31. október 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 309.640 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 1.923.276 krónur og sýnt fram á sparnað að fjárhæð 1.200.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa launatekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.086.910
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 257.243
Nettótekjur B 2.697.764
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 224.814
Nettótekjur alls 5.784.674
Mánaðartekjur alls að meðaltali 482.056
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.426.497
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 285.541
Nettótekjur B 1.022.954
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 85.246
Nettótekjur alls 4.449.451
Mánaðartekjur alls að meðaltali 370.788
Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. nóvember 2013: 11 mánuðir
Nettótekjur A 3.054.679
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 277.698
Nettótekjur B 1.574.218
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 143.111
Nettótekjur alls 4.628.897
Mánaðartekjur alls að meðaltali 420.809
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 14.863.022
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 424.658

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur, fjármagnstekjur kærenda, bætur og endurgreiðslu oftekinna skatta var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 30. nóvember 2013: 35 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 14.863.022
Opinbergjöld, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2.161.212
Leigugreiðslur 3.182.074
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 20.206.308
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 577.323
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 303.062
Greiðslugeta kærenda á mánuði 274.261
Alls sparnaður í 35 mánuði í greiðsluskjóli x 274.261 9.599.138

Við meðferð málsins hjá umsjónarmanni lögðu kærendur fram upplýsingar og kvittanir vegna útgjalda að fjárhæð samtals 4.293.200 krónur sem sundurliðast svo:

Útgjaldaliður Fjárhæð
Læknis- lyfja- og tannlæknakostnaður 1.386.779
Viðgerðir á bifreið 674.180
Viðhald á fasteign 173.661
Kaup á heimilistækjum 1.677.220
Hvíldarinnlögn 381.360
Samtals 4.293.200

Vegna fyrstu þriggja útgjaldaliðanna kveðast kærendur hafa borið straum af auknum kostnaði samtals að fjárhæð 2.234.620 krónur (1.386.779 + 674.180 + 173.661). Í útreiknuðum framfærslukostnaði umboðsmanns skuldara fyrir kærendur, hefur þegar verið gert ráð fyrir hluta þessa kostnaðar undir liðunum „læknis- og lyfjakostnaður“ og „rekstur bíls/almenningssamgöngur“. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn vegna þessa kostnaðar. Verður því ekki tekið tillit til hans í málinu að öðru leyti en að framan greinir.

Kærendur kveða að þau hafi þurft að endurnýja heimilistæki og hafi það kostað samtals 1.677.220 krónur. Hafi umboðsmaður óskað eftir útskýringum á nauðsyn þessara kaupa, en kærendur hafi þó ekki gefið upp ástæður endurnýjunar tækjanna. Þar sem kærendur hafa ekki lagt fram kvittanir né önnur gögn vegna þessa kostnaðar er það mat kærunefndarinnar að ekki sé hægt að fallast á að tekið verði tillit til hans. Loks hafa kærendur að eigin sögn þurft að greiða 381.260 krónur vegna hvíldarinnlagnar þeirra beggja á G. Þar sem kærendur hafa ekki heldur lagt fram nein gögn vegna þessa er það mat kærunefndarinnar að ekki beri að líta til kostnaðar vegna þessa.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að öllu framangreindu virtu verður að telja að kærendum hafi borið skylda til að leggja til hliðar samtals 9.599.138 krónur á tímabilinu.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Þar sem kærendur brugðust skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. bar umboðsmanni skuldara samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta