Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 5/2014

Mál nr. 5/2014

Fimmtudaginn 10. desember 2015

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. janúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Greinargerð kæranda til kærunefndarinnar barst með bréfi 3. mars 2014. Með bréfi 7. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 11. apríl 2014. Með bréfi 14. apríl 2014 voru Embætti umboðsmanns skuldara send viðbótargögn í málinu og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1954. Hann býr í eigin 193,2 fermetra íbúð að B í Reykjavík.

Kærandi er atvinnulaus og þiggur framfærslustyrk frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 48.861.216 krónur.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til ársins 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. febrúar 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 7. ágúst 2013 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar yrði felld niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem kærandi hefði ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu fasteignarinnar að B.

Í bréfinu er því lýst að kærandi hafi greint umsjónarmanni frá því að hann væri atvinnulaus og illa gengi að fá starf við hæfi, en kærandi hafi verið atvinnulaus frá árinu 2008 þrátt fyrir virka atvinnuleit. Kærandi ætti 193,2 fermetra íbúð að B í Reykjavík. Hann byggi einn í íbúðinni en hefði áður leigt út hluta hennar og þannig haft leigutekjur. Einnig hafi kærandi greint frá því að húsfélag eignarinnar hefði ákveðið viðgerðir á sameign þrátt fyrir mótmæli hans þar um.

Ráðstöfunartekjur kæranda væru 151.051 króna á mánuði en framfærslukostnaður hans 174.614 krónur. Mánaðarleg greiðslugeta hans væri því neikvæð um 23.563 krónur á mánuði. Hafi umsjónarmaður því talið að kærandi væri ekki fær um að greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af fasteigninni samkvæmt 21. gr. lge. Í 13. gr. lge. sé áskilið að umsjónarmaður geti ákveðið að selja eignir sem hann af sanngirni og með hliðsjón af fjölskylduaðstæðum telji að skuldari geti verið án. Á þeim grundvelli hafi umsjónarmaður mælst til þess að fasteign kæranda yrði seld á tímabili greiðsluaðlögunar. Hafi umsjónarmaður skorað á kæranda að samþykkja sölu eignarinnar og tilnefna fasteignasölu til að annast sölu hennar. Á fundi með umsjónarmanni 1. ágúst 2013 hafi kærandi neitað að verða við áskoruninni og kvaðst geta sýnt fram á tekjur „í haust“ til að halda eftir eigninni. Þá hafi kærandi talið að máli skipti hvernig málalok yrðu á deilu hans við húsfélagið í kjölfar viðgerða á eigninni.

Á eigninni hvíli 49.646.568 krónur og telji umsjónarmaður að með sölu hennar myndu veðhafar að öllum líkindum fá fullnustu krafna sinna af söluandvirðinu. Umsjónarmaður telji óraunhæft að áætla að á næstunni sé þeirra breytinga að vænta á högum kæranda að hann standi undir afborgunum af svo háum fasteignaveðlánum. Jafnvel þótt tekjur kærenda hækkuðu „í haust“ þannig að hann gæti mætt fjárskuldbindingum sínum sé til þess að líta að eignin sé verðmikil. Auk þess sé eignin dýr í rekstri en staðið hafi yfir dýrar framkvæmdir á sameign. Þá sé nauðsynlegt að líta til þess að eignin sé óhæfilega stór fyrir kæranda. Í þessu samhengi sjái umsjónarmaður ekki hvernig úrslit á ágreiningi kæranda og húsfélagsins gæti breytt þeim staðreyndum sem mæli með sölu eignarinnar.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 8. nóvember 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Vísað er til þess af hálfu umboðsmanns skuldara að í svari kæranda hafi komið fram að hann hafnaði því að svo stöddu að íbúð hans yrði seld og hann teldi sig hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge.

Með ákvörðun 6. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og málið tekið upp aftur af hans hálfu.

Kærandi mótmælir því að hafa ekki uppfyllt skyldur sínar. Hann segir rangt að hann hafi hafnað því að setja fasteign sína í sölumeðferð. Hann hafi hafnað því að svo stöddu í ágúst 2013 vegna umfangsmikilla og umdeildra framkvæmda á eigninni, en ekki liggi enn fyrir hvernig eigi að gera upp kostnað vegna þessa.

Þá mótmælir kærandi verðmati fasteignarinnar. Telji kærandi að sá sem setti fram verðmatið hafi ekki haft til þess forsendur, en ekki hafi verið um löggiltan fasteignasala að ræða.

Kærandi mótmælir því að hafa verið atvinnulaus frá 2008. Verkefnastaða hafi þó verið léleg árin 2012 og 2013.

Kærandi telur að góðir stjórnsýsluhættir hafi ekki verið viðhafðir við meðferð málsins. Hann gerir athugasemdir við málsmeðferð umsjónarmanns sem kærandi telur að hafi ekki staðið rétt að málinu. Hann kveður umsjónarmann hvorki hafa hringt í sig né átt með sér fund. Ekkert frumvarp hafi verið lagt fyrir hann um hvernig fara eigi með skuldir sem ekki séu tryggðar með veði í fasteign hans. Þá hafi ekki verið tekið tillit til ráðagerða ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í lánamálum.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Að sögn umsjónarmanns hafi kærandi ekki fallist á sölu fasteignar sinnar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skuli skuldari greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Þessar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina, nema sérstakar tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Fyrir liggi að greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 23.563 krónur á mánuði. Það sé mat umsjónarmanns að söluandvirði fasteignarinnar geti staðið undir þeim veðlánum sem á eigninni hvíli. Einnig telji umsjónarmaður að eignin sé óhóflega stór fyrir kæranda en hún sé 193 fermetrar að stærð og búi kærandi einn í henni. Kærandi hafi hafnað því að svo stöddu að selja eignina þar sem óljóst sé hver verði niðurstaða í ágreiningsmáli hans við húsfélagið B. Umsjónarmaður telji niðurstöðu þess máls ekki hafa þýðingu við mat á því hvort selja skuli fasteign kæranda.

Umboðsmaður skuldara tekur undir þá ákvörðun umsjónarmanns að selja skuli fasteign kæranda. Kærandi hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu eignarinnar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar, nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu, ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði er almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Eins og áður hefur komið fram lagði umsjónarmaður til að fasteign kæranda að B í Reykjavík yrði seld. Var það mat umsjónarmanns að kærandi hefði ekki fjárhagslegt svigrúm til að greiða fastar mánaðargreiðslur af veðkröfum innan matsverðs eignarinnar.

Í málinu liggur fyrir yfirlit ríkisskattstjóra sem sýnir að laun kæranda á árinu 2013 voru alls 2.004.528 krónur eða 167.044 krónur á mánuði að meðaltali. Framfærslukostnaður hans á sama tíma var 174.113 krónur á mánuði. Greiðslugeta kæranda á árinu 2013 var því neikvæð um 7.069 krónur á mánuði og því ljóst að kærandi hefur ekki fjárhagslegt bolmagn til að greiða af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar. Þrátt fyrir það féllst kærandi ekki á að eignin yrði seld og sendi umsjónarmaður málið þá til umboðsmanns skuldara til niðurfellingar.

Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Þá telur kærunefndin að ekki sé unnt að líta öðruvísi á málavexti, meðal annars með hliðsjón af frásögn kæranda sjálfs, en að hann hafi hafnað því að framfylgja fyrirmælum umsjónarmanns um sölu á eigninni.

Við þessar aðstæður verður að telja að umsjónarmanni hafi borið að leggja til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge. Staðhæfingar kæranda um að góðir stjórnsýsluhættir hafi ekki verið viðhafðir við meðferð málsins eru órökstuddar og ber með vísan til þess að hafna þeim. Fram kemur í gögnum málsins að umsjónarmaður átti fund með kæranda 1. ágúst 2013 og að hann lagði til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með bréfi 8. sama mánaðar. Eins og málið liggur fyrir verður að telja að skilyrði 5. mgr. 13. gr. lge. hafi verið uppfyllt en samkvæmt orðalagi ákvæðisins skiptir ekki máli við úrlausn á því hvort frumvarp hafi verið lagt fyrir kæranda um hvernig fara ætti með skuldir sem ekki séu tryggðar með veði í fasteign hans eða hvort tekið hafi verið tillit til ráðagerða ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í lánamálum.

Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggð á því að skilyrði framangreindra lagaákvæða séu uppfyllt og ber með vísan til atvika málsins, sem hér að framan eru rakin, að staðfesta úrlausn hans á því. Samkvæmt því og með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge., er staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta