Hoppa yfir valmynd

Nr. 106/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 106/2018

Miðvikudaginn 9. maí 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur. Með kæru, dags. 12. mars 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 2. mars 2018 um að synja umsókn hans um uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 16. febrúar 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 2. mars 2018, var umsókn kæranda synjað. Í bréfinu kemur fram að kærandi sé ekki með lífeyrisgreiðslur frá stofnuninni. Aðeins sé heimilt að greiða uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar þeim sem fái greiddan elli- og örorkulífeyri.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. mars 2018. Með bréfi, dags. 19. mars 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 10. apríl 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. apríl 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í málinu verði felld úr gildi og umsókn hans um bifreiðastyrk verði samþykkt.

Í kæru segir að með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð frá B lækni þar sem fram komi umsögn um líkamlegt ástand kæranda. Heilsufar hans sé þannig að vinstri hönd sé að mestu leyti lömuð og alveg upp að olnboga vegna slyss frá X. Sú lömun muni ekki ganga til baka.

Frá því í apríl 2017 hafi kærandi verið heimilismaður á C, heimili aldraða á D, þar sem hann fái ekki inni á hjúkrunarheimilum E. Ættingjar hans, þar á meðal móðir hans, börn og barnabörn, búi á E og hafi hann því mikla þörf fyrir að komast til E til að rækta samband sitt við fjölskyldu sína. Hann reki eigin bifreið, sem sé F [...], og skuldi hann enn þá X kr. vegna bifreiðarkaupanna.

Við innritun kæranda á C hafi greiðslur frá Tryggingastofnun flust þangað. Þrátt fyrir veru hans þar hafi hann engu minni þörf fyrir að eiga bifreið og rekstur hennar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnun ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- og örorkulífeyrisþegar eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Nánar sé kveðið á um uppbætur vegna reksturs bifreiðar í 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Þar segi að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega eða örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt sé að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar.

Nánar sé kveðið á um uppbætur vegna kaupa á bifreið í 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Þar komi fram að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega eða örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar.

Hugtakið lífeyrisþegi sé skilgreint í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, en þar segi að lífeyrisþegi sé einstaklingur sem fái greiddan lífeyri sem hann hafi sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Orðskýringin hafi komið inn í lögin með lögum nr. 88/2015. Í frumvarpinu sem hafi orðið að lögum nr. 88/2015 segi meðal annars að hugtakið lífeyrisþegi taki til þeirra sem fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögunum sem ætlaðar séu þeim sjálfum, þ.e. ellilífeyrisþegum og örorkulífeyrisþegum.

Kærandi hafi sótt um uppbót til bifreiðakaupa og uppbót til reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 16. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 2. mars 2018, hafi umsókn kæranda verið synjað þar sem hann njóti ekki lengur ellilífeyrisgreiðslna.

Ekki sé deilt um það hvort kærandi teljist hreyfihamlaður í skilningi 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Ekki sé heldur deilt um það hvort kærandi uppfylli skilyrði hreyfihömlunar samkvæmt 4. gr. sömu reglugerðar. Í 1. og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé gerð sú skýra og ófrávíkjanlega krafa að til þess að eiga rétt á uppbót vegna kaupa eða rekstrar á bifreið þá skuli umsækjandi vera lífeyrisþegi. Sömu skilyrði séu ítrekuð í 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá þessu skilyrði.

Kærandi hafi notið ellilífeyris til 31. maí 2017. Frá 1. júní 2017 hafi kærandi notið greiðslna ráðstöfunarfjár þar sem að hann sé inniliggjandi á stofnun. Það sé því alveg ljóst að hann uppfylli ekki það skilyrði að vera ellilífeyrisþegi. Sú niðurstaða Tryggingastofnunar sé ekki bara í samræmi við skýr ákvæði laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð heldur einnig í samræmi við túlkun úrskurðarnefndar á sambærilegum ákvæðum, til dæmis úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 419/2009.

Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun á umsókn kæranda um uppbót til kaupa og rekstrar á bifreið.

Að lokum vilji Tryggingastofnun taka það fram að í bréfi stofnunarinnar frá 2. mars 2018 komi fram að kæranda sé synjað um uppbót til kaupa og reksturs á bifreið þegar af þeirri ástæðu að hann uppfylli ekki það skilyrði að vera lífeyrisþegi. Umsókn kæranda hafi því ekki verið tekin til frekari efnislegrar meðferðar og því hafi ekki verið kannað hvort að kærandi uppfylli önnur skilyrði þess að fá uppbót vegna kaupa eða rekstrar á bifreið.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbóta til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu. Í 1. og 2. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.“

Í 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna er mælt fyrir um að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu. Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hefur verið sett með stoð í 3. mgr. 10. gr. laganna. Í 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbætur vegna reksturs bifreiðar. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að greiða elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót til að mæta kostnaði við rekstur bifreiðar ef bótaþega sé nauðsyn að hafa bifreið vegna hreyfihömlunar og sýnt sé að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 3. gr. er fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er heimilt að greiða elli- og örorkulífeyrisþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar.

Í 48. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er fjallað um ósamrýmanleg réttindi og skörun bóta. Þar segir í 5. mgr. ákvæðisins:

„Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef dvölin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar. Heimilt er þó að víkja frá tímamörkum í 1. málsl. þessarar málsgreinar ef sérstaklega stendur á og skal við mat á framlengingu á greiðslu lífeyris og bótum honum tengdum höfð hliðsjón af tekjum skv. 16. gr.“

Af gögnum málsins, meðal annars ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. ágúst 2017 um útreikning á þátttöku í dvalarkostnaði, verður ráðið að ellilífeyrisgreiðslur kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins hafi fallið niður á árinu 2017 vegna dvalar hans á C, heimili aldraða í D, sbr. 48. gr. laga um almannatryggingar. Þann 16. febrúar 2018 sótti kærandi um uppbætur vegna kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar hjá Tryggingastofnun ríkisins. Umsókn kæranda var synjað af stofnuninni á þeim forsendum að umræddar uppbætur væri aðeins heimilt að greiða þeim sem fái greiddan elli- og örorkulífeyri, sbr. 1. og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi uppfylli skilyrði 10. gr. laganna, sbr. 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009, fyrir uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar.

Hugtakið lífeyrisþegi er ekki skilgreint í lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt 14. gr. laganna gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Við túlkun á því hvaða skilning beri að leggja í orðin ellilífeyrisþegi í 10. gr. laganna telur úrskurðarnefnd velferðarmála því að líta verði til laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar segir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. að lífeyrisþegi sé sá einstaklingur sem fái greiddan lífeyri sem hann hafi sjálfur áunnið sér samkvæmt lögum þessum. Ákvæðið kom inn í lögin með breytingarlögum nr. 88/2015 en í athugasemdum við frumvarp laganna segir að hugtakið taki til þeirra sem fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögunum sem ætlaðar séu þeim sjálfum.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að með orðinu ellilífeyrisþegi í 10. gr. laga um félagslega aðstoð felist það skilyrði að viðkomandi njóti ellilífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Sem fyrr segir féllu lífeyrisgreiðslur kæranda frá Tryggingastofnun niður á árinu 2017 þegar hann hóf dvöl á C, heimili aldraða í D. Að mati nefndarinnar telst kærandi því ekki vera ellilífeyrisþegi í skilningi laga um félagslega aðstoð og uppfyllir hann því ekki skilyrði 10. gr. laganna, sbr. 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009, fyrir því að fá uppbætur til kaupa á bifreiða og vegna reksturs bifreiðar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar er staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um uppbætur til kaupa á bifreið og vegna reksturs bifreiðar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta