Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 37/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 37/2020

Miðvikudaginn 16. september 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 12. janúar 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. janúar 2020, um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar afturvirkt frá 1. nóvember 2018 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar með 15% álagi.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að kærandi hefur fengið greidda heimilisuppbót frá árinu 1999 með hléum. Með bréfi, dags. 14. júlí 2015, var kæranda tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar á þeim grundvelli að eldri sonur hennar væri skráður til heimilis á sama stað og hún. Í kjölfarið var lögheimili eldri sonar kæranda í Þjóðskrá breytt og hún sótti um heimilisuppbót að nýju með umsókn, 17. júlí 2015, sem var samþykkt. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. mars 2018, var heimilisuppbót kæranda stöðvuð á ný á þeim grundvelli að yngri sonur kæranda væri skráður til heimilis á sama stað og hún. Nokkrum mánuðum síðar var lögheimili yngri sonar kæranda breytt og kærandi sótti um heimilisuppbót að nýju með umsókn, dags. 4. júlí 2018, sem var samþykkt. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. nóvember 2019, var kærandi upplýst um að ábending hefði borist stofnuninni um að báðir synir hennar væru skráðir til heimilis á sama stað og hún. Fram kom að greiðslur heimilisuppbótar yrðu stöðvaðar á þeim forsendum að hún byggi ekki ein á skráðu lögheimili. Kæranda var veittur fjórtán daga frestur til að andmæla og senda gögn sem staðfestu að synir hennar byggju ekki hjá henni. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2020, var kæranda tilkynnt um stöðvun greiðslna heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2018 og um endurgreiðslukröfu að fjárhæð 623.391 kr. með 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. janúar 2020. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 17. febrúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. febrúar 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2020, var kæranda veittur kostur á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að synir hennar hefðu ekki verið búsettir hjá henni. Frekari upplýsingar eða athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæru kæranda að farið sé fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um sviptingu heimilisuppbótar til hennar og endurgreiðslukröfu með álagi verði felld úr gildi.

Í kæru er rakið að kærandi sé öryrki með þrjú uppkomin börn, eina X stúlku, sem sé búsett á […], og tvo fullorðna syni. Dóttir kæranda hafi fyrir mörgum árum flutt á […] og synir hennar hafi ekki búið hjá henni síðan í byrjun árs 2018, nema ef það væri sá yngri sem sé með […]. Hann hafi verið […] og hafi hún þurft að taka hann heim […]. Eldri sonur hennar sé löngu farinn að búa sjálfur. Þar sem kærandi lifi eingöngu á örorku og geti enga björg sér veitt úti á vinnumarkaðinum vegna heilsu sinnar geti hún engan veginn séð sig borga alla þessa upphæð. Það sé nógu erfitt að ná endum saman daglega og hún sé í eilífðarbasli þar sem leiga sé há og húsaleigubætur hafi verið skertar mikið. Kærandi hafi sótt um minni íbúð en það gangi mjög hægt. Einhver mistök hafi greinilega átt sér stað. Hún hafi ekki vitað betur en að synir hennar væru skráðir á sitt lögheimili, en hafi átt að fylgja því betur eftir.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé stöðvun og endurkrafa á ofgreiddri heimilisuppbót.

Málavextir séu þeir að stöðvuð hafi verið heimilisuppbót til kæranda sem hafi verið örorkulífeyrisþegi hjá Tryggingastofnun ríkisins frá 10. ágúst 2000 þar sem í ljós hafi komið við reglubundið eftirlit hjá stofnuninni að kærandi hafi ekki verið ein um heimilisrekstur. Nánar tiltekið hafi synir kæranda einnig verið til heimilis á sama stað og hún. Annar þeirra sé líka bótaþegi hjá stofnuninni og sé þar af leiðandi einnig með fjárhagslega innkomu vegna þess. Áður hafi kæranda með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. nóvember 2019, verið tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun og verið boðið að koma á framfæri andmælum vegna fyrirhugaðrar stöðvunar en engin andmæli hafi borist. Með bréfi Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 6. janúar 2020, hafi heimilisuppbót kæranda þannig verið stöðvuð og kærandi krafin um endurgreiðslu á ofgreiddum greiðslum þar sem hún hafi ekki lengur talist uppfylla það skilyrði laga og reglugerðar um félagslega aðstoð að vera ein um heimilishald.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða einhleypingi, sem njóti óskertrar tekjutryggingar, heimilisuppbót til viðbótar við tekjutryggingu samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga um almannatryggingar nr. 100/2007 gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 sé greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um greiðslur. Ef breytingar verði á stöðu og högum sem geti haft áhrif á greiðslur, beri bótaþega að tilkynna þær til stofnunarinnar.

Þá segi í 2. mgr. 45. gr. sömu laga að heimilt sé að endurskoða bótarétt hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót þar sem kærandi sé ekki ein um heimilishald, en það sé eitt af þeim skilyrðum sem bótaþegi þurfi að uppfylla til þess að eiga rétt á heimilisuppbót.

Þegar svo hátti til sem hér segi, þ.e. þegar tveir eða fleiri einstaklingar deili heimili, þá hljótist af því töluvert hagræði í formi ódýrari rekstrarkostnaðar heimilisins, enda deilist þá rekstur heimilisins að öllu jöfnu niður á fleiri aðila.

Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum einstaklingum hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Því til stuðnings bendi Tryggingastofnun á úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 45/2017 og aðra sambærilega úrskurði þar sem staðfest hafi verið að ef fleiri en einn séu í heimili þá séu skilyrði heimilisuppbótar ekki uppfyllt.

Á þeim forsendum sem hafi verið raktar telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni varðandi heimilisuppbót kæranda. Að auki skuli á það bent að bæði þann 14. júlí 2015 og 15. mars 2018 hafi verið um sömu stöðu að ræða hjá kæranda, þ.e. þá var tilkynnt um stöðvun heimilisuppbótar þar sem kærandi var ekki heldur ein um heimilisrekstur á þeim tíma. Einnig skal tekið fram að stofnunin hafi sent kæranda málsins annað bréf, dags. 8. janúar 2020, þar sem ofgreiddu bótunum sé dreift á lengri tíma til að aðstoða kæranda við að greiða ofgreiddu bæturnar til baka. Þá sé bent á að hægt sé að óska eftir enn lengri tíma til endurgreiðslu kröfunnar með beiðni til Tryggingastofnunar þar um.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar frá 1. nóvember 2018 með 15% álagi.

Kveðið er á um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, en þar sem segir í 1. mgr.:

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð. Í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segir að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um:

„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.

2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 45. gr. laganna sem er jafnframt í V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Einnig segir í 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Þá segir svo í 5. mgr. 45. gr. laganna:

„Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót frá 1. mars 1999.

Samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands voru synir kæranda, sem eru fæddir árin X og X, skráðir til heimilis á sama lögheimili á nær sama tímabili frá 10. október 2018, sá yngri til 27. nóvember 2019, en sá eldri til 26. nóvember 2019. Kærandi heldur því fram að synir hennar hafi ekki búið hjá sér síðan í byrjun árs 2018, nema sá yngri sem sé […]. Kæranda var veittur kostur á að leggja fram frekari gögn sem stutt gætu þær fullyrðingar, en engin gögn bárust frá kæranda þar að lútandi. Úrskurðarnefndin telur því að ráðið verði af gögnum málsins að synir kæranda hafi búið hjá henni á því tímabili sem er skráð í Þjóðskrá. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er yngri sonur kæranda öryrki og þiggur örorkugreiðslur frá Tryggingastofnun.

Úrskurðarnefndin telur að einstaklingar eldri en 18 ára sem búi saman teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Synir kæranda eru báðir á fullorðinsaldri og fyrir liggur að annar þeirra hafði að minnsta kosti tekjur á því tímabili sem um ræðir. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ekkert í gögnum málsins sem bendir til annars en að kærandi hafi notið einhvers fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð á tímabilinu 1. nóvember 2018 til 30. nóvember 2019.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda heimilisuppbót vegna tímabilsins 1. nóvember 2018 til 30. nóvember 2019, þrátt fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum. Tryggingastofnun á því endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Þá var kæranda skylt að upplýsa Tryggingastofnun um breytingu á heimilisaðstæðum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna. Úrskurðarnefndin telur að kærandi hafi verið meðvituð um þá skyldu sína, enda hefur hún fengið greidda heimilisuppbót með hléum frá árinu 1999 og upplýst er um slíka skyldu í umsóknum til Tryggingastofnunar, meðal annars umsóknum kæranda frá 2015 og 2018. Auk þess hafa greiðslur heimilisuppbótar til kæranda tvívegis verið stöðvaðar áður sökum þess að synir hennar hafi verið skráðir til heimilis á sama stað. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur. Því er fallist á að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar bætur vegna tímabilsins 1. nóvember 2018 til 30. desember 2019 með 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja hana um ofgreiddar bætur frá 1. nóvember 2018 með 15% álagi staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja hana um ofgreiddar bætur frá 1. nóvember 2018 með 15% álagi, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta