Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2019 - Úrskurður

.

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 20/2019

Miðvikudaginn 16. október 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Ásmundur Helgason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 16. janúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2018 um meðhöndlun tekna kæranda frá Noregi við útreikning bóta almannatrygginga á árinu 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi, […], hefur þegið ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá árinu X. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2018, var kæranda tilkynnt að stofnuninni hafi borist ný tekjuáætlun frá honum og að bótaréttur ársins hafi verið endurreiknaður í kjölfarið. Meðfylgjandi var greiðsluáætlun vegna ársins 2018 og þær tekjuforsendur sem lágu henni til grundvallar. Með tölvupósti til velferðarráðuneytisins 14. nóvember 2018 óskaði kærandi eftir að fá úr því skorið hvort Tryggingastofnun væri heimilt að notfæra sér greiðslur frá NAV í Noregi til þess að skerða ellilífeyrisgreiðslur til hans. Erindið var framsent Tryggingastofnun með tölvupósti 17. desember 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. desember 2018, var greint frá því hvaða áhrif greiðslur frá NAV í Noregi hefðu á greiðslur frá stofnuninni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. janúar 2019. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2019. Með tölvupósti 3. mars 2019 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. mars 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins á útreikningum ellilífeyris fyrri ára og að þar sem uppgjör ársins 2017 sé í vinnslu hjá stofnuninni sé þess óskað að nefndin úrskurði í málinu eins fljótt og hægt sé.

Tryggingastofnun falsi niðurstöður ársuppgjörs og tekjuáætlunar með því að færa hluta af norskum lágmarkslífeyri (basispensjon) sem íslenskar lífeyrissjóðstekjur til að geta skert ellilífeyri kæranda. Í tengslum við fyrirhugað uppgjör ársins 2017 hafi Tryggingastofnun kallað eftir gögnum frá kæranda sem hann hafi orðið við ásamt því að gefa nákvæmar skýringar. Það komi hvergi fram í skattskýrslum kæranda að hann hafi haft tekjur frá lífeyrissjóði, en hann vilji geta þess að hann fái lífeyrissjóðsgreiðslur frá íslenskum lífeyrissjóði.

Í norskum tryggingalögum § 19-5 Basispensjon (lágmarkslífeyrir) komi fram að basispensjon samanstandi af grunnlífeyri (grunnpensjon) og viðbótarlífeyri (tilleggspensjon). Samkvæmt norskum tryggingalögum hafi allir norskir ríkisborgarar rétt á opinberum lífeyri frá 67 ára aldri. Grunnlífeyrir notist sem grunnur til útreikninga norskra almannatrygginga. Kærandi bendi jafnframt á EES samninginn varðandi útreikning lífeyris en hann finni ekkert sambærilegt á íslensku.

Kærandi óski einnig eftir áliti nefndarinnar varðandi meðhöndlun Tryggingastofnunar á gjöfum. Kærandi hafi starfað X í Noregi hjá B sem hafi á sínum tíma stofnað eftirlaunasjóðinn C. Öll fyrirtæki B gefi starfsmönnum X% af launum þeirra sem C ávaxti. Við starfslok hjá fyrirtækinu fái starfsmenn greitt mánaðarlega úr þessum sjóði. Kærandi áliti að rétt sé að kalla þetta gjöf sem eigi ekki að skerða ellilífeyri hans.

Í Noregi sé mjög algengt að menn ljúki störfum 62 ára og þá bjóði B upp á svokallaðan gjafalífeyri (gavepensjon) en þeirri gjöf sé ætlað að sjá til þess að menn hafi X% af sínum hæstu launum í ellinni en Tryggingastofnun skerði einnig ellilífeyri kæranda vegna þeirrar gjafar.

Að mati kæranda hafi Tryggingastofnun ekki aðstöðu til að færa þessar gjafir sem tekjur samkvæmt 10. gr. laga um almannatryggingar. Þar segi að þegar um ellilífeyrisbætur sé að ræða teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt. Kærandi greiði hvorki skatta á Íslandi né í Noregi og vísi í meðfylgjandi gögn.

Í athugasemdum kæranda, dags. 3. mars 2019, segir að hann hafi ekki áður gert neinar athugasemdir við þessar lífeyrissjóðstekjur sem stofnunin hafi tilgreint þar sem hann hafi fengið greiddar lífeyrissjóðstekjur úr lífeyrissjóði á Íslandi. Honum hafi ekki komið til hugar á sínum tíma að stofnunin væri að falsa upplýsingar. Þegar kærandi hafi fundið að áðurnefndar lífeyrissjóðstekjur hafi verið mjög háar hafi hann komist að hinu sanna.

Kærandi vilji undirstrika að hann fái engar lífeyrissjóðsgreiðslur og hafi aldrei fengið í Noregi. Hins vegar fái hann ellilífeyri (basispensjon) frá NAV. Norskum ellilífeyri sé ætlað nákvæmlega sama hlutverk og íslenskum ellilífeyri.

Kærandi vísar til upplýsinga frá Tryggingastofnun þar sem tilteknar eru undantekningar frá því hvað hafi áhrif á útreikning ellilífeyris og tengdra greiðslna „Undantekningar eru þó greiðslur frá Tryggingastofnun, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og úttekt á séreignarlífeyrissparnaði“. Með öðrum orðum hafi greiðslur frá Tryggingastofnun ekki áhrif á útreikning ellilífeyris og það sé ekki tekið sérstaklega fram að hér sé átt við greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á Íslandi, enda ætti öllum að vera ljóst að ellilífeyrir frá Tryggingastofnunum Norðurlandanna sé ætlað nákvæmlega sama hlutverk. Að lokum kveður kærandi það vera fölsun af hálfu Tryggingastofnunar að breyta orðinu ellilífeyri í orðið lífeyrissjóðstekjur.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé afgreiðsla stofnunarinnar á ellilífeyri, auk endurreikninga og uppgjöra tekjutengdra greiðslna fyrri ára.

Kærandi hafi notið ellilífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun frá árinu X. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í kærumáli nr. 149/2017 staðfest endurreikning stofnunarinnar vegna ársins 2015.

Endurreikningur og uppgjör greiðslna vegna ársins 2016 hafi verið birt kæranda 24. júlí 2017 sem hafi leitt til inneignar til útborgunar að fjárhæð X kr. eftir að inneign hafi verið ráðstafað til greiðslu eldri skulda að fjárhæð X kr. Kærandi hafi ekki andmælt þeirri ákvörðun og telji stofnunin að uppgjöri vegna ársins 2016 sé að fullu lokið.

Endurreikningur og uppgjör greiðslna vegna ársins 2017 hafi verið birt kæranda 7. febrúar 2019 og hafi samanburður greiðslna og réttinda leitt til inneignar að upphæð X kr. Þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir við upphaf þessa kærumáls.

Því sé haldið fram í kæru að Tryggingastofnun falsi niðurstöður ársuppgjörs og tekjuáætlunar með því að færa hluta af norskum lífeyri sem íslenskar lífeyrissjóðstekjur. Þessu sé vísað alfarið á bug og kæranda sé bent á að stofnunin fari eingöngu að lögum og kalli eftir tekjuupplýsingum frá innlendum og erlendum skattyfirvöldum til að reikna út þann lífeyri sem kærandi eigi rétt á hverju sinni. Tryggingastofnun hafi verið falið það hlutverk að annast endurútreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og sé því eingöngu að sinna því hlutverki lögum samkvæmt.

Tryggingastofnun bendi á að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skuli til tekna teljast tekjur samkvæmt II. kafla 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í II. kafla 7. gr. laganna komi eftirfarandi fram varðandi hvað teljist til tekna.

„A.
    1. Endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Hér með teljast til dæmis hvers konar biðlaun, starfslaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, eftirlaun og lífeyrir, fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki. Hafi verið gerður samningur um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, telst ellilífeyrir til tekna hjá þeim sem fær hann greiddan.“

Þá sé tekið fram að norskur grunnlífeyrir kæranda skerði ekki greiðslur hans hér á landi heldur einungis viðbótarlífeyrir sem hann njóti. Skattskyldar gjafir hafi áhrif á lífeyrisréttindi almannatrygginga til lækkunar samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið vísi til II. kafla laga um tekjuskatt um hvað teljist til tekna og undanþáguákvæða 28. gr. svo og tiltekinna töluliða A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. laganna um tekjuskatt.

Kærandi fái greiðslur frá eftirlaunasjóðnum C í Noregi og reikni Tryggingastofnun einungis þær greiðslur sem komi fram á opinberu skattframtali kæranda. Skipti þar engu hvort kærandi telji þær greiðslur vera gjöf eða ekki (gavepensjon). Samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt séu eftirlaun og lífeyrir, framlög og gjafir sem sýnilega séu gefnar sem kaupauki flokkaðar sem tekjur. 

Tryggingastofnun sé falið það hlutverk að sinna endurútreikningi og uppgjöri hjá þeim sem fái greiðslur hjá stofnuninni. Þegar endanlegar tekjur og upplýsingar bótagreiðsluársins liggi fyrir hjá skattyfirvöldum eftir að álagningu ljúki endurreikni stofnunin bótafjárhæðir samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Endurreikningur sé því byggður á álagningu skattyfirvalda um endanlegar tekjur hjá viðkomandi einstaklingi og teljist réttmætar að öllu leyti.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um útreikning tekjutengdra bóta. Fram komi í 2. mgr. ákvæðisins að til tekna skuli teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli tekjuáætlunar viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Ábyrgð á tekjuáætlun sé í höndum bótaþega sem beri að upplýsa stofnunina um allar breytingar sem kunni verða á högum hans, sbr. 1. mgr. 39. gr. um almannatryggingar og 3. gr. reglugerðar nr. 568/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta.

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Jafnframt komi fram í 6. mgr. 16. gr. sömu laga að stofnunin skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda. 

Tryggingastofnun hafi framkvæmt endurútreikning og uppgjör lögum samkvæmt vegna áranna 2015, 2016 og 2017 og fylgi endurútreikningar og uppgjör áranna 2016 og 2017 með greinargerð stofnunarinnar, en vegna ársins 2015 sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 149/2017 þar sem nefndin hafi staðfest útreikning stofnunarinnar. Eins og áður hafi komið fram telji Tryggingastofnun uppgjöri vegna ársins 2016 vera lokið. Tryggingastofnun hafi einnig lokið uppgjöri vegna ársins 2017, en sá útreikningur hafi ekki legið fyrir þegar kærandi hafi sent inn kæru. Hann sýni inneign til kæranda, sbr. bréf, dags. 7. febrúar 2019.

Samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að framkvæma endurútreikning með tilliti til endanlegra tekna sem kærandi hafi fengið á árunum 2016 og 2017. Ef um misræmi sé að ræða á milli tekjuáætlunar og raunverulegra tekna geti myndast mismunur sem kærandi þurfi síðan að standa skil á.

Niðurstaðan vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna á árinu 2016 hafi leitt til inneignar að fjárhæð X kr. hjá kæranda þegar ráðstöfun á skuld hafi verið greidd upp, sbr. bréf, dags. 24. júlí 2017.

Niðurstaða vegna endurreiknings og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2017 hafi leitt til inneignar að fjárhæð X kr. Andmælafrestur vegna endurreiknings í því máli sé hins vegar ekki liðinn sbr. bréf, dags. 7. febrúar 2019.  

Að framansögðu telji Tryggingastofnun að framkvæmd endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna hafi verið framkvæmt á réttmætan hátt samkvæmt lögum um almannatryggingar og telji stofnunin að við úrvinnslu málsins hafi hvorki verið beitt neinum óréttmætum aðferðum né upplýsingafölsun eins og kærandi haldi fram. Upplýsinga sem aflað hafi verið að hálfu stofnunarinnar séu opinberar upplýsingar, sbr. upplýsingar á skattframtali kæranda.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur málsins snýr að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um meðhöndlun á tekjum kæranda frá Noregi við útreikning tekjutengdra greiðslna á árinu 2018, dags. 18. október 2018. Kærandi fer einnig fram á að endurreikningar fyrri ára verði endurskoðaðir.

Varðandi kröfu kæranda um að eldri endurreikningar Tryggingastofnunar á tekjutengdum greiðslum verði endurskoðaðir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála þegar úrskurðað um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2015 þann 17. janúar 2018, í máli nr. 149/2017. Þá er þriggja mánaða kærufrestur varðandi endurreikning ársins 2016, dags. 24. júlí 2017, löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Ekki verður ráðið af kæru að hún lúti að endurreikningi vegna ársins 2017, enda hafði hann ekki farið fram þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Með vísan til framangreinds er kröfu kæranda um endurskoðun eldri endurreikninga vísað frá.

Að því er varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. október 2018 um meðhöndlun á norskum tekjum kæranda vegna ársins 2018 liggur fyrir að kærandi skilaði inn nýrri tekjuáætlun 25. september 2018, ásamt ódagsettu bréfi frá B. Í tekjuáætluninni gerði kærandi ráð fyrir eftirfarandi tekjum frá Noregi á árinu 2018:

Lífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóðum: X NOK

Erlendur lífeyrir: X NOK

Erlendur grunnlífeyrir: X NOK

Laun: X NOK

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. október 2018, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur ársins hafi verið endurreiknaður. Meðfylgjandi var greiðsluáætlun vegna ársins 2018 og þær tekjuforsendur sem lágu henni til grundvallar. Tekjuforsendurnar voru eftirfarandi:

Launatekjur: X NOK

Lífeyrissjóðstekjur: X NOK

Lífeyrissjóðstekjur séreign: X NOK

Erlendur grunnlífeyrir: X NOK

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að Tryggingastofnun meðhöndlaði „erlendan lífeyri“ kæranda að fjárhæð X NOK sem lífeyrissjóðstekjur við ákvörðun greiðslna ársins 2018. Að öðru leyti lagði stofnunin nákvæmlega þær tekjur og þá tekjuflokka, sem fram komu í tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2018, til grundvallar ákvörðun greiðslna. Úrskurðarnefndin telur því að ágreiningur þessa máls varði einungis meðhöndlun Tryggingastofnunar á framangreindum erlendum lífeyri kæranda og að aðrar málsástæður kæranda varði eldri endurreikninga sem verða ekki teknir til skoðunar eins og áður hefur komið fram. Úrskurðarnefndin telur ljóst af gögnum málsins að þessi erlendi lífeyrir, sem kærandi vísar til, sé „tilleggspensjon“ frá NAV í Noregi.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt skal telja til tekna eftirlaun og lífeyri. Í 2. málsl. 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar segir að ellilífeyri skuli lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris. Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr., tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert ellilífeyri. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki ellilífeyri og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Noregi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki ellilífeyri. Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá NAV vegna „tilleggspensjon“ séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á rétt kæranda til ellilífeyris.

Við mat á því hvort „tilleggspensjon“ sé sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að réttur lífeyrisþega til „tilleggspensjon“ miðast við áunnin lífeyrisstig sem reiknast að meginstefnu til út frá tekjum bótaþega á vinnumarkaði og fjölda ára á vinnumarkaði, sbr. greinar 3-8 til 3-16 í norsku almannatryggingalögunum nr. 5/1997 (n. lov om folketrygd). Því miðast greiðslurnar meðal annars við þær tekjur sem bótaþegi hefur aflað á vinnumarkaði. Ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taka aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir einnig til þess að samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, er aðildarríki ekki heimilt að beita skerðingarákvæðum í sinni eigin löggjöf þegar um ræðir skörun hlutfallslegra bóta sömu tegundar. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu í forúrskurðum sínum að um bætur sömu tegundar sé að ræða þegar tilgangur þeirra, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna sé sá sami, sbr. efnisgrein 24 í forúrskurði dómstólsins í máli nr. C-107/00. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þar sem grundvöllur útreiknings „tilleggspensjon“ og ellilífeyris er mjög ólíkur teljist bæturnar ekki vera sömu tegundar í skilningi EB reglugerðar nr. 883/2004.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „tilleggspensjon“ sé ekki alveg sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar í skilningi 4. mgr. 16. gr. laganna. Aftur á móti telur úrskurðarnefndin „tilleggspensjon“ ekki heldur vera alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur iðgjalda ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Í Noregi er greiddur skattur af tekjum sem er kallaður „trygdeavgift“ og er hann notaður til að fjármagna almannatryggingakerfið, sbr. 23. kafla norsku almannatryggingalaganna. Skatturinn stendur á hinn bóginn ekki undir kostnaði NAV og norska ríkið fjármagnar almannatryggingakerfið að öðru leyti, sbr. ákvæði 23-10.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólík skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að þrátt fyrir að framangreindar tekjur kæranda frá NAV séu hvorki alveg sambærilegar við ellilífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar né greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þá hafi tekjurnar mest líkindi við framangreinda tekjuflokka. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði komist hjá því að jafna tekjum kæranda við annan hvorn flokkinn, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um bótagreiðslur til kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur þegar tekið afstöðu til framangreinds álitaefnis. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 32/2012 frá 3. október 2012 féllst úrskurðarnefndin á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að „tilleggspensjon“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og skyldi skerða bótaréttindi frá stofnuninni lögum samkvæmt. Með vísan til þess og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að „tilleggspensjon“ kæranda frá NAV í Noregi falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða ellilífeyri með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki tilefni til að fjalla nánar um greiðslur til kæranda vegna ársins 2018 að svo stöddu, enda hefur endurreikningur og uppgjör vegna greiðslna ársins 2018 nú farið fram og kærandi hefur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. kærumál nr. 354/2019.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2018 um meðhöndlun á tekjum kæranda frá Noregi við útreikning tekjutengdra greiðslna á árinu 2018 staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um meðhöndlun tekna A, frá Noregi við útreikning á ellilífeyrisgreiðslum, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta