Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 50/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 50/2023

Fimmtudaginn 23. mars 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. janúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 29. maí 2021 og var umsóknin samþykkt 21. júní 2021. Þann 7. nóvember 2022 var ferilskrá kæranda send til B ehf. vegna starfs hjá fyrirtækinu. Þann 4. janúar 2023 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði ekki mætt í boðað viðtal hjá B ehf. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. janúar 2023, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá umræddu fyrirtæki. Skýringar bárust frá kæranda 18. janúar 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. janúar 2023. Með bréfi, dags. 3. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 21. febrúar 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið boðaður í atvinnuviðtal rétt fyrir áramót sem hann hafi gleymt. Um áramótin hafi kærandi tapað símtæki sínu og ekki fengið nýtt fyrr en í fyrstu viku janúarmánaðar. Kærandi hafi því ekki með neinum hætti getað séð stafræna pósta og skilaboð. Skýring kæranda hafi ekki verið tekin gild og það eigi að beita hann viðurlögum með því að svipta hann atvinnuleysisbótum í tvo mánuði. Við þá refsingu muni kærandi enda á götunni með tvær dætur sem búi mikið hjá honum. Kærandi hafi svo bætt við sína skýringu að hann glími við þunglyndi og skammdegið leggist þungt á hann á þessum tíma árs. Jólin dragi kæranda mikið niður og það sé stór þáttur í að koma honum af stað út í daginn. Kærandi vilji trúa því að mannlegi þátturinn verði skoðaður í þessu máli. Það sé ekki hægt að svipta atvinnulausa manneskju bótum í tvo mánuði. Kærandi geti alveg hugsað sér að taka út einhverja refsingu sem skerðingu á bótum sem yrði skipt niður á nokkra mánuði. Að refsingin sé um 550.000 kr. nettó sé mjög hörð refsing.

Kærandi hafi alltaf verið heiðarlegur og komið hreint fram. Hann hafi sótt öll skyldunámskeið sem hann hafi verið boðaður í og sótt um mörg námskeið sem hafi verið í boði. Eflaust sé hægt að orða þetta betur og faglegra en í hreinskilni sagt sé kærandi í áfalli. Honum líði mjög illa, hann sé með gífurlegar áhyggjur yfir þessu máli og hvernig þetta komi niður á honum ef af verði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 29. maí 2021. Með erindi, dags. 21. júní 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 4. janúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði ekki mætt í atvinnuviðtal hjá B ehf. en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun. Með erindi, dags. 13. janúar 2023, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á atvinnuviðtali hjá B ehf. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að höfnun á atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti valdið biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Skýringar hafi borist frá kæranda 18. janúar 2023. Þar komi fram að kærandi hafi gleymt að mæta í umrætt atvinnuviðtal. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hefði glatað farsíma sínum og hefði því ekki séð skilaboð um atvinnuviðtalið. Jafnframt hafi kærandi sagst ekki eiga tölvu og því hafi hann ekki getað nálgast pósthólf sitt. Kærandi hafi jafnframt óskað eftir upplýsingum um hvort hann gæti fengið annað tækifæri til að mæta í atvinnuviðtal hjá umræddum atvinnurekanda.

Með erindi, dags. 20. janúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hans vegna höfnunar á atvinnuviðtali hjá B ehf. hefðu ekki verið metnar gildar. Af þeirri ástæðu væri réttur hans til greiðslu atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 25. janúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar frá kæranda vegna höfnunar á atvinnuviðtali. Kærandi hafi greint frá því að hann glímdi við þunglyndi en einkenni þess aukist í skammdeginu. Desember hafi verið honum einkar erfiður. Skýringum kæranda hafi fylgt læknisvottorð, útgefið þann 26. janúar 2023, en þar komi fram að kærandi hafi verið með öllu óvinnufær vegna sjúkdóms á tímabilinu 28. desember 2022 til 10. janúar 2023. Í kjölfar þessara skýringa kæranda hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2023, verið tekin til endurumfjöllunar. Með erindi, dags. 31. janúar 2023, hafi kæranda hins vegar verið tilkynnt að það væri niðurstaða stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hans, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöður, þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist. Jafnframt hafi kærandi verið skráður veikur í kerfum stofnunarinnar með vísan til læknisvottorðsins sem hafi borist stofnuninni og greiðslur atvinnuleysisbóta skertar til hans í samræmi við það. Vinnumálastofnun hafi ekki verið meðvituð um að mál kæranda hafi verið komið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þegar umrædd ákvörðun hafi verið tekin.

Þann 31. janúar 2023 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hann hafi óskað eftir ítarlegum skýringum á ákvörðun stofnunarinnar. Stofnuninni hafi borist annar tölvupóstur frá kæranda þann 2. febrúar 2023 þar sem hann hafi ítrekað að ákvörðunin væri mikið áfall fyrir hann og hefði slæmar afleiðingar. Þá hafi kærandi gert athugasemd við það að stofnunin hefði metið læknisvottorðið gilt vegna veikinda hans en ekki sem gilda ástæðu fyrir því að hann hafi ekki mætt til atvinnuviðtalsins. Kærandi hafi sagst ekki vera sammála þessari niðurstöðu stofnunarinnar og talið að ekki væri tekið mark á því sem hann greindi stofnuninni frá. Í kjölfar þessara tölvupósta hafi kæranda þann 14. febrúar 2023 verið veittur rökstuðningur samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga á ákvörðun stofnunarinnar um viðurlög á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt til atvinnuviðtals hjá B ehf. og hafi hann veitt skýringar á ástæðum fjarveru sinnar. Því komi til álita hvort skýringar hans séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna því að mæta í atvinnuviðtal hafi verið réttlætanleg en í 4. mgr. segi orðrétt:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á því að mæta í atvinnuviðtal með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Skýringar kæranda lúti meðal annars að því að hann hafi gleymt að mæta til atvinnuviðtalsins.  Að mati Vinnumálastofnun geti þær skýringar kæranda ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Gera verði þær kröfur til atvinnuleitenda að þeir sinni atvinnuleit sinni af kostgæfni og til að mynda gleymi ekki að mæta til atvinnuviðtals. Þá sé að mati Vinnumálastofnunar ekki gild skýring að kærandi hafi glatað farsíma sínum og hafi því ekki séð skilaboð frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi greint frá því að hann hafi glatað farsíma sínum um áramótin en samkvæmt skýringum kæranda hafi hann verið boðaður til atvinnuviðtals hjá umræddum atvinnurekanda fyrir áramót. Að mati Vinnumálastofnunar sé því óljóst með hvaða hætti þau atvik hafi haft áhrif á getu hans til að mæta til atvinnuviðtals.

Kærandi hafi jafnframt greint frá því að hann hafi glímt við þunglyndi á tímabilinu 28. desember 2022 til 10. janúar 2023 og hafi framvísað læknisvottorði, dags. 26. janúar 2023, því til stuðnings. Að mati Vinnumálastofnunar geti þær skýringar að sama skapi ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til 2. og 4. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. beri atvinnuleitendum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum þeirra að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segi í 4. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Að mati Vinnumálastofnunar geti tilkynningar um veikindi sem berist stofnuninni mörgum dögum eftir uppphaf veikinda og eftir að viðkomandi hafi hafnað því að mæta í atvinnuviðtal ekki talist til fullnægjandi tilkynningar í skilningi 14. gr. laganna, enda sé sérstaklega áréttað í 2. og 4. mgr. 14. gr. að tilkynna beri um tilfallandi veikindi án ástæðulausrar tafar.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á því að mæta í atvinnuviðtal, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í athugasemdum við 57. gr. í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram:

„Enn fremur þykir mikilvægt að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Ástæðan er einkum sú að atvinnuviðtal er venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykir það mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi. Verður að teljast óeðlilegt að hinn tryggði geti neitað því að fara í atvinnuviðtal án viðbragða frá kerfinu en þeir sem fóru í viðtalið og var boðið starfið þurfi að þola biðtíma eftir atvinnuleysisbótum taki þeir ekki starfinu.“

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda þann 7. nóvember 2022 miðlað í starf hjá B ehf. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 4. janúar 2023 að kærandi hefði ekki mætt í viðtal vegna starfsins. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi verið boðaður í atvinnuviðtalið rétt fyrir áramót sem hann hafi gleymt. Um áramótin hafi kærandi tapað símtæki sínu og ekki fengið nýtt fyrr en í fyrstu viku janúarmánaðar. Kærandi hafi því ekki með neinum hætti getað séð stafræna pósta og skilaboð. Einnig hefur kærandi vísað til þess að hann glími við þunglyndi og að skammdegið leggist þungt á hann á þessum tíma árs. 

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að þær ástæður og skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti það að hafa ekki mætt í atvinnuviðtal hjá B ehf. Þar sem kærandi mætti ekki í atvinnuviðtalið kom réttilega til viðurlaga á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta