Hoppa yfir valmynd

Nr. 223/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 223/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU19110019

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. nóvember 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. október 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum veitt réttarstaða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 8. maí 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 19. og 23. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. október 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 12. nóvember 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 28. nóvember 2019. Kærunefnd bárust frekari upplýsingar frá kæranda dagana 26. febrúar og 26. maí 2020. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. maí 2020.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana og kynhneigðar sinnar.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í borginni [...] sem sé í nágrenni við Moskvu og hafi verið búsettur þar alla tíð. Kærandi hafi búið við góðan efnahag í heimaríki. Kærandi sé vinstrisinnaður í stjórnmálum og stuðningsmaður stjórnarandstöðunnar í Rússlandi. Þá sé kærandi samkynhneigður og hafi gagnrýnt opinberlega stefnu stjórnvalda í málefnum hinsegin fólks. Kærandi hafi einnig lýst yfir stuðningi við ýmsa aðra aðgerðarsinna í þágu málefna hinsegin fólks. Kærandi hafi til langs tíma glímt við vandamál í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að árið 2012 hafi hann byrjað að koma fram á samfélagsmiðlum undir dulnefni og síðar hafi hann breytt nafni sínu formlega. Árið 2013 hafi kærandi verið í sambandi með manni og það ár hafi hann einnig byrjað að tjá sig opinberlega um málefni hinsegin fólks og hvatt fólk til að sækja samkomur baráttumanna fyrir réttindum hinsegin fólks. Hafi fjöldi fylgjenda á bloggsíðu kæranda verið orðinn þrjú þúsund árið 2014. Kæranda hafi borist margar hótanir vegna skrifa sinna og verið kallaður illum nöfnum á götum úti. Árið 2015 þegar kærandi hafi hafið háskólanám hafi fjöldi fylgjenda síðu hans verið orðinn 15 þúsund manns og hafi kærandi verið að fá um 100 hótanir í hverri viku. Eitt sinn þegar kærandi hafi borist hótun um ofbeldi hafi hann brugðist við með að birta ljósmynd af sér þar sem orðið „hommi“ hafi verið ritað á enni hans og hafi sú mynd farið í dreifingu á ýmsum miðlum á netinu. Í kjölfarið hafi fylgjendum bloggsíðu kæranda fjölgað í 25 þúsund manns og um það leyti hafi honum borist þúsundir hótana. Á þessum tíma hafi kærandi verið orðinn það þekktur að fólk hafi borið kennsl á hann á götum úti.

Þá heldur kærandi því fram að breytingar á lífi hans hafi orðið þegar stjúpfaðir hans sem hafi starfað fyrir yfirvöld hafi hlotið stöðuhækkun og hafið störf hjá seðlabanka, en þá hafi yfirvöld hafið að hafa nánara eftirliti með stjúpföðurnum og fjölskyldu hans. Móðir kæranda og stjúpfaðir hafi sagt honum að upp frá þessu yrði fylgst með þeim, þ.m.t. ferðum þeirra, símanotkun og netnotkun og hafi þau beðið kæranda um að loka bloggsíðu hans og hætta að tjá sig opinberlega. Þau hafi óttast að opinber vitneskja um samkynhneigð kæranda hefði skaðleg áhrif á starfsframa stjúpföður kæranda. Hafi stjúpfaðir kæranda gengið hart að kæranda og hótað honum með ýmsum hætti og hafi kærandi stundum þurft að verjast árásum frá honum. Árið 2016 hafi kærandi látið undan þrýstingi og hótunum og lokað bloggsíðu sinni. Þrátt fyrir það hafi hótanir haldið áfram að berast kæranda. Hafi kærandi verið í slæmu andlegu ástandi árið 2017 þar sem hann hafi orðið fyrir ítrekuðum hótunum og áreiti á götum úti. Þá hafi upplýsingum um símanúmer og heimilisfang hans verið lekið á netið sem hafi aukið hótanirnar og áreitið. Í mars 2018 hafi kærandi orðið fyrir árás af hálfu ókunnugs manns og hafi kærandi farið til lögreglu og viljað leggja fram kæru. Daginn eftir hafi móðir kæranda komið til hans og hafi haft undir höndum frumrit lögregluskýrslunnar sem kærandi hafi gefið lögreglunni. Hafi hún verið kæranda reið vegna þess að hún hafi ekki viljað að kærandi leitaði til yfirvalda vegna kynhneigðar sinnar. Ekkert framhald hafi orðið á málinu hjá lögreglu.

Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður í Rússlandi og stöðu mannréttinda þar í landi og vísað í því sambandi til fjölda alþjóðlegra skýrslna. Fram komi m.a. í skýrslunum að heimildir séu um handahófskenndar og óréttlátar varðhaldsvistanir, fangelsun fólks af pólitískum ástæðum, ólögmæt afskipti af einkalífi fólks og stórfelldar þvinganir á fundafrelsi. Þá gangi stjórnvöld æ lengra í að takmarka tjáningarfrelsi og beita fjölmiðla og einstaklinga sem tjái skoðanir sem séu andsnúnar stjórnvöldum ritskoðun. Yfirvöld hafi smám saman aukið lagaleg völd FSB til að hafa afskipti af einkalífi fólks og um leið skert grundvallarmannréttindi sem viðurkennd séu samkvæmt alþjóðalögum. Völd FSB séu orðin svo mikil að stofnuninni hafi verið líkt við forvera hennar, sovésku leyniþjónustuna KGB.

Í greinargerðinni er jafnframt fjallað um stöðu samkynhneigðra í Rússlandi. Vísað er m.a. til þess að í landinu séu í gildi lög sem geri „áróður“ til barna um „óhefðbundin kynferðisleg sambönd“ saknæman. Hafi lögin verið notuð til að koma í veg fyrir að einstaklingar tjái sig opinberlega um hinsegin málefni. Þá kemur fram að opinberlega samkynhneigðir menn hafi sérstaklega verið skotmörk borgara í landinu sem beiti þá ofbeldi sem lögreglan bregðist ekki við. Einnig komi fram að hinsegin einstaklingar veigri sér við að leita til lögreglu um aðstoð af ótta við að verða fyrir illri meðferð af hálfu starfsmanna innan hennar eða að upplýst verði um kynhneigð þeirra eða kynvitund. Hinsegin einstaklingar hafi greint frá því að upplifa mikla fordóma og mismunun sem sumir telji að stafi af því að yfirvöld ýti undir hatur og umburðaleysi í þeirra garð. Þá hafi friðsamlegar samkomur hinsegin einstaklinga verið bannaðar eða leystar upp af yfirvöldum. Beri heimildir þá með sér að hatursglæpum hafi fjölgað gagnvart hinsegin einstaklingum í Rússlandi á síðustu árum.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Meðal annars gerir kærandi athugasemd við mat Útlendingastofnunar á stöðu samkynhneigðra í Rússlandi, mat á stöðu kæranda sem opinber persóna og mat stofnunarinnar á möguleikum kæranda að fá vernd hjá yfirvöldum í heimaríki. Þá gerir kærandi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi, þann 28. nóvember 2018 í máli nr. 2018-00980, veitt samkynhneigðum manni frá Rússlandi vernd hér á landi og m.a. sagt í ákvörðuninni að samkynhneigðir einstaklingar gætu ekki vænst tilhlýðilegrar verndar hjá lögreglu og stjórnvöldum þar í landi. Kærandi telur með vísan til framangreindrar niðurstöðu Útlendingastofnunar og versnandi ástands í heimaríki að enn ólíklegra sé að hann geti, sem samkynhneigður einstaklingur, lifað eðlilegu lífi og notið verndar lögreglu í Rússlandi.

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi, með vísan til kynhneigðar hans og vegna stjórnmálaskoðana hans. Kærandi byggir á því að vegna kynhneigðar sinnar hafi hann orðið fyrir alvarlegum fordómum, áreiti, hótunum og ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar, skólafélaga og ókunnugra einstaklinga, hvort sem er á götum úti eða á netinu. Kærandi heldur því fram að vegna þess að hann hafi verið orðinn þekktur fyrir skrif sín á samfélagsmiðlum þá hafi hann orðið fyrir mun verri meðferð en aðrir samkynhneigðir einstaklingar í Rússlandi. Þá hafi kærandi einnig orðið fyrir áreiti af hálfu stjúpföður síns sem gegni háttsettri stöðu innan rússneska stjórnkerfisins. Vísar kærandi til þess að samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar séu ofsóknir sem umsækjandi hafi orðið fyrir ekki ákvörðunarástæða við mat á grundvelli umsóknarinnar heldur þurfi við mat á ástæðuríkum ótta að skoða almennt stöðu hinsegin einstaklinga í landinu og hvaða aðstæður bíði umsækjanda við endursendingu þangað. Kærandi telur, með vísan til framangreinds, að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna kynhneigðar en vitneskja um samkynhneigð hans sé opinber og hann megi því eiga von á áframhaldandi ofsóknum í heimaríki.

Þá byggir kærandi einnig á því að hann eigi á hættu ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana, sbr. e-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi greint frá því að skoðanir hans á stefnu stjórnvalda séu þeim kunnar en hann hafi lýst þeim opinberlega á vinsælli bloggsíðu. Hafi móðir hans og stjúpfaðir upplýst hann um að yfirvöld hafi haft eftirlit með athæfi hans á veraldarvefnum. Þá óttist kærandi að hann verði fyrir ofbeldi, mannréttindabrotum eða settur í fangelsi fyrir tjáningu sína á internetinu.

Telur kærandi að heimildir sem vísað er til í greinargerð styðji framburð hans um að hann sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir slíkri meðferð. Kærandi telur að þeir sem hann óttist falli undir a og c lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Telur kærandi að hann eigi ekki raunhæfa möguleika á vernd yfirvalda en hann hafi reynt að leita til lögreglu vegna ofbeldis í sinn garð án árangurs. Fái það stuðning í heimildum sem vísað hafi verið til í greinargerð en þar komi m.a. fram að lögreglan neiti oft að móttaka kvartanir hinsegin einstaklinga, áreiti þá og neiti að viðurkenna brot gegn þeim sem hatursglæpi.

Til vara gerir kærandi kröfu um viðbótarvernd hér á landi. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í greinargerð í tengslum við aðalkröfu telur kærandi að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Rússlandi. Kærandi telur að sýnt hafi verið fram á að hann hafi þegar orðið fyrir slíkri meðferð auk þess sem heimildir bendi til þess að samkynhneigðir og einstaklingar sem yfirvöld í Rússlandi telji andsnúna sér verði fyrir slíkri meðferð.

Þá telur kærandi að með endursendingu hans til Rússlands yrði brotið gegn meginreglunni um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun muni brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Heimilt sé samkvæmt ákvæðinu að veita útlendingi dvalarleyfi á þeim grundvelli ef hann sé staddur hér á landi og geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra eða almennra aðstæðna viðkomandi í heimaríki. Með vísan til umfjöllunar í greinargerð telur kærandi að líta beri svo á að hann hafi verið þolandi viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sem yfirvöld verndi hann ekki gegn. Þá telur kærandi að þær heimildir sem hann hafi vísað til sýni að samkynhneigðir einstaklingar sæti fordómum og mismunun á öllum stigum þjóðfélagsins í Rússlandi, þ.m.t. af hálfu fjölskyldna, almennings, á vinnustöðum og heilbrigðisstofnunum. Þá verði samkynhneigðir einstaklingar fyrir ýmiskonar ofbeldi og séu lögregluyfirvöld óviljug að veita þolendum aðstoð vegna þess ofbeldis. Kærandi sé [...] ára gamall karlmaður sem tilheyri þeim hópi sem mæti hvað mestum fordómum og áreiti í Rússlandi. Kærandi hefur lagt fram bréf frá ráðgjafa hjá Samtökunum ´78 sem hafi metið andlegt ástand hans slæmt vegna þeirra áfalla sem hann hafi gengið í gegnum og að mati ráðgjafans muni kærandi lifa við afar erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki. Með vísan til framangreinds telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt og að verði aðal- og varakröfur hans ekki samþykktar beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað rússnesku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé rússneskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Rússlandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Annual Report 2019 (Russian LGBT Network, 2019);
  • Annual review of the human rights situation of lesbian, gay, bisexual, trans and intersex people in Europe and Central Asia – Russia 2020 (ILGA, 4. febrúar 2020);
  • Annual review of the human rights situation of lesbian, gay, bisexual, trans and intersex people – Russia 2019 (ILGA, 20. mars 2019);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Russia Federation (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Challenging hate: Monitoring anti-LGBT “hate speech” and responses to it in Belarus, Kyr-gyzstan, Moldova, Russia and Ukraine (Article 19, febrúar 2018);
  • Country Report on Human Rights Practices 2019 - Russia (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Criminal Activity of the Ultra-Right. Hate Crimes and Counteraction to Them in Russia in 2019 (SOVA, Center for Information and Analysis, 5. febrúar 2020);
  • Freedom in the World 2020 - Russia (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Freedom in the World: Nations in Transit 2018 – Russia (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • In Brief – Human Rights and Democracy in Russia (Helsinki Commission Report, 20. septem-ber 2017);
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Ryssland 2015–2016 (Utrikesdepartementet, 26. apríl 2017);
  • Monitoring of Discrimination and Violence based on Sexual Orientation and Gender Identity in Russia in 2016-2017 (Russian LGBT Network, 26. apríl 2018);
  • Nations in Transit 2017 - Russia (Freedom House, 3. apríl 2017);
  • No Support, Russia´s “Gay Propaganda” Law Imperils LGBT Youth (Human Rights Watch, 11. desember 2018);
  • Russian Federtion. Health system review (European Observatory on Health Systems and Policies, 2011);
  • The World Factbook - Russia (vefsíða CIA, sótt 11. júní 2020);
  • World Report 2018 – Russia (Human Rights Watch, 18. janúar 2018) og
  • World Report 2019 – Russia (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Rússland sambandsríki með um 144 milljónir íbúa. Eftir fall Sovétríkjanna árið 1991 gerðist Rússland aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið gerðist aðili að alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 1973 og alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1976. Rússland gerðist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987 og samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006. Þá er Rússland aðili að Evrópuráðinu og samþykkti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1998.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að staða mannréttinda í Rússlandi hafi versnað í kjölfar endurkjörs Vladimirs Pútíns sem forseta Rússlands árið 2012. Þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins mæli fyrir um þrískiptingu ríkisvalds þá bendi allt til þess að viðvarandi vandi sé í stjórnkerfi Rússlands vegna samþjöppunar valds í höndum forseta landsins. Með aðstoð lögreglu, áróðri og löggjöf kúgi stjórnvöld íbúa landsins. Yfirvöld hafi þrengt að borgaralegum réttindum í Rússlandi m.a. með lagasetningu sem takmarki möguleika erlendra stofnanna og jafnvel frjálsra félagasamtaka til að aðhafast í landinu þar sem yfirvöld líti á starfsemi þeirra sem ógn við ríkið. Þrátt fyrir að stjórnarskrá Rússlands tryggi sjálfstæði dómstóla landsins þá sé spilling viðvarandi vandamál í dómskerfinu. Bæði dómstólar og löggæsla séu notuð af stjórnvöldum til að kúga íbúa ríkisins. Samkvæmt ofangreindum gögnum sé algengt að dómarar láti undan pólitískum þrýstingi þegar dæmt sé í málum andófsmanna sitjandi yfirvalda í Rússlandi. Rússneska stjórnsýslukerfið einkennist að miklu leyti af embættisglöpum, óhagkvæmni, geðþóttaákvörðunum og spillingu. Þrátt fyrir að Rússland hafi samþykkt samning Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum árið 2012 þá sjáist engar marktækar framfarir í þeim efnum þar sem stjórnvöld hafi ekki framfylgt samningnum með fullnægjandi hætti. Þessi víðtæka spilling grafi undan trausti almennings á stjórnkerfi landsins.

Starfandi sé umboðsmaður mannréttinda í Rússlandi (e. Commissioner of Human Rights) sem hafi gefið út þá yfirlýsingu að hún hyggist einbeita sér að félagslegum réttindum og því að styðja rússneska ríkisborgara utan Rússlands. Borgarar geti beint kvörtunum til embættisins telji þeir að brotið sé gegn réttindum þeirra af hálfu ríkisins, þ. á m. embættismanna. Víða í Rússlandi séu svæðisbundnar skrifstofur umboðsmanns mannréttindamála, en gögn bendi til þess að stjórnvöld grafi undan sjálfstæði skrifstofanna jafnframt sem skilvirkni þeirra sé ábótavant. Þá hafi mannréttindaráð (e. Council for Civil Society and Human Rights) heimild til að fylgjast með störfum umboðsmannsins.

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að stjórnarskrá Rússlands banni pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þrátt fyrir það kveði heimildir á um að lögregluyfirvöld grípi til pyndinga, illrar meðferðar og ofbeldis til að þvinga grunaða einstaklinga til játningar. Þá séu lögreglumenn sem grípi til slíkra framkvæmda sjaldnast sóttir til saka og í þau fáu skipti sem það hafi gerst sé refsingin væg. Þá komi jafnframt fram í ofangreindum gögnum að stjórnarskrá og önnur landslög kveði á um tjáningar- og fjölmiðlafrelsi en á undanförnum árum hafi stjórnvöld takmarkað þennan rétt í auknum mæli, þar með talið frelsi til tjáningar á internetinu. Ýmis umræðuefni á internetinu, og þá helst gagnrýni á stjórnvöld, hafi m.a. leitt til lokunar á vefsíðum, sekta og jafnvel fangelsisvistar. Löggjöf gegn t.d. öfgahreyfingum, landráði og hryðjuverkum hafi verið notuð til að þagga niður í baráttufólki fyrir mannréttindum og meðlimum stjórnarandstöðunnar. Ríkið eigi stóran hlut í hinum ýmsu fjölmiðlum landsins og hafi töluverð áhrif á það sem þar komi fram.

Alríkislögregla Rússlands nefnist FSB (e. Federal Security Service) og hafi forseti Rússlands yfirumsjón með starfsemi stofnunarinnar. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað beri innanríkisráðuneytið, FSB, rannsóknarnefnd (e. the Investigative Committee), skrifstofa saksóknara (e. the Office of the Prosecutor General) og þjóðvarðarliðið (e. the National Guard) ábyrgð á löggæslu í öllu ríkinu. Þá sé FSB ábyrgt fyrir öryggi landsins og sinni stofnunin gagnnjósnum, innra öryggi og eftirliti, öryggi landamæra, baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi og skipulagðri glæpastarfsemi. Samkvæmt lögum hafi FSB m.a. aðgang að öllum símtölum, smáskilaboðum, tölvupósti og öðrum aðgerðum sem framkvæmdar séu á netinu í Rússlandi. Fjarskiptafélög séu skyldug til að koma upp búnaði sem auðveldi tengingu FSB jafnframt sem símafyrirtæki þurfi að vista gögn viðskiptavina sinna svo að FSB hafi aðgang að þeim. Í apríl 2012 hafi verið stofnuð undirnefnd innan rannsóknarnefndarinnar sem sérhæfi sig í rannsókn mála þar sem lögreglumenn hafi mögulega brotið af sér í starfi. Sama ár hafi nefndin sent frá sér 174 sakamál til dómstóla ríkisins. Almennir borgarar geti tilkynnt misferli lögreglunnar til nefndarinnar án takmarkana telji þeir brotið á réttindum sínum og hægt er að áfrýja ákvörðunum nefndarinnar til dómstóla. Alþjóðleg samtök hafi þó gagnrýnt það hvernig unnið sé úr tilkynningunum.

Samkvæmt framangreindum gögnum hafi samkynhneigð sambönd verið ólögleg og refsiverð í Rússlandi til ársins 1993. Þá hafi samkynhneigð verið tekin af lista yfir geðsjúkdóma árið 1998. Þrátt fyrir það ríki íhaldssöm gildi í landinu og mæti samkynhneigðir einstaklingar miklum fordómum og verði fyrir mismunun af hálfu almennings, stjórnvalda og á ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Fram kemur í ofangreindum gögnum að árið 2013 hafi lögum nr. 436-FZ um vernd barna fyrir skaðlegum upplýsingum (e. Law on Protection of Children From Information Harmful to Their Health and Development) verið breytt á þá vegu að hvers kyns áróður um óhefðbundin kynferðisleg sambönd teljist skaðlegar upplýsingar. Hafi þessi viðbót við lögin verið umdeild og samkvæmt framangreindum skýrslum verið beitt gegn hinsegin einstaklingum í þeim tilgangi að hefta tjáningarfrelsi þeirra og halda þeim á jaðri samfélagsins. Samkvæmt mannréttindaskýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 hafi stjórnvöld haldið áfram að takmarka rétt hinsegin einstaklinga og stuðningsmanna þeirra til að koma saman á friðsaman hátt og hafi yfirvöld í Moskvu m.a. hafnað því að heimila að gleðiganga fengi að fara fram, 14. árið í röð. Þá kemur fram í skýrslunni að opinberlega samkynhneigðir menn hafi orðið fyrir ofbeldi frá samborgurum sínum og hafi lögreglan oft ekki brugðist við slíkum atvikum með viðeigandi hætti. Í ársskýrslu ILGA-Europe fyrir árið 2019 er vísað til nokkurra tilvika þar sem að brot gegn hinsegin einstaklingum sem rekja megi til hatursglæpa hafi verið tekin til rannsóknar og sakfellt í þeim. Þá séu í Rússlandi nokkur frjáls félagasamtök sem starfi í þágu hinsegin fólks, svo sem Russian LGBT Network; Together – Russian National GLBT center og Coming Out. Félagasamtökin Russian LGBT Network og Comming Out samtökin bjóði hinsegin einstaklingum í vanda upp á lagalega aðstoð, svo sem aðstoð við málarekstur, og ráðgjöf (og sálfræðiþjónustu).

Í gögnunum kemur fram að í Rússlandi sé til staðar félagslegt kerfi sem ætlað sé að tryggja þeim einstaklingum aðstoð sem á þurfi að halda. Mismunandi geti þó verið eftir svæðum landsins hversu auðvelt sé að sækja um og fá slíka aðstoð. Aðgangur að heilbrigðiskerfinu, svo sem geðheilbrigðisþjónustu, sé jafnframt tiltölulega greiður, en kostnaður við lyf geti verið mikill.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærunefnd hefur jafnframt litið til til leiðbeininga Flóttamannastofnunarinnar er varða kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar (Guidelines on International Protection No. 9: Claims to Refugee Status based on Sexual Orientation and/or Gender Identity within the context of Article 1A (2) of the 1951 Convention and/or its 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, UN High Commissioner for Refugees, október 2012).

Kærandi byggir kröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi, með vísan til kynhneigðar hans, og vegna stjórnmálaskoðana hans. Kærandi kveðst hafa haldið úti vinsælli bloggsíðu á spjallmiðlinum [...] frá árinu 2013 til 2016 þar sem hann hafi tjáð sig um málefni samkynhneigðra og afstöðu stjórnvalda til þeirra og hafi honum verið hótað vegna þeirra skoðana, bæði á netinu og í daglegu lífi. Þá hafi kærandi einnig orðið fyrir áreiti af hálfu stjúpföður síns sem sé háttsettur starfsmaður hjá FSB. Hafi stjúpfaðir hans hótað að senda hann í herinn [...], loka hann í húsi fyrir utan bæinn og sjá til þess að kærandi myndi lenda í fangelsi á grundvelli laga tengdum kynhneigð hans.

Við úrlausn máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin á því að hann væri samkynhneigður karlmaður sem kynni að hafa sætt áreiti í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar. Með vísan til gagna málsins og framburðar kæranda í viðtali hjá kærunefnd verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi sé samkynhneigður einstaklingur.

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki vegna kynhneigðar sinnar, en almenn vitneskja sé meðal almennings um að hann sé samkynhneigður. Í viðtali hjá kærunefnd greindi kærandi frá því aðspurður að fólk hafi vitað af kynhneigð hans vegna þess hvernig hann klæddi sig, kom fram og tjáði sig, bæði þegar hann hafi verið í skóla og í vinnu. Þá hefur kærandi greint frá því að hafa eignast kærasta árið 2013 sem hann hafi síðan búið með um tíma. Samkvæmt framansögðu má því leggja til grundvallar að kærandi hafi lifað opinberlega sem samkynhneigður maður í heimaríki um árabil og hafi ekki talið ástæðu til að fara í felur með kynhneigð sína. Með vísan til leiðbeininga Flóttamannastofnunar er varða kröfur um alþjóðlega vernd á grundvelli kynhneigðar og kynvitundar leggur kærunefnd til grundvallar að kærandi, sem samkynhneigður einstaklingur, teljist til sérstaks þjóðfélagshóps, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Það eitt að teljast til sérstaks þjóðfélagshóps leiðir ekki sjálfkrafa til þess að einstaklingur teljist eiga rétt á alþjóðlegri vernd heldur verður að skoða hvert mál fyrir sig og meta aðstæður og stöðu einstaklingsins í heimaríki.

Í greinargerð gerir kærandi m.a. athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki lagt mat á stöðu kæranda sem opinberrar persónu í heimaríki. Kærunefnd hefur farið yfir öll gögn málsins og fengið kæranda til viðtals. Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að hann hafi að einhverju leyti verið þekktur hjá ákveðnum hópi einstaklinga á árunum 2013 til 2016 þegar hann hafi haldið úti síðu á samskiptamiðlinum [...] og tjáð skoðanir sínar um réttindi samkynhneigðra, femínisma og fjölskyldumálefni. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá kærunefnd þann 7. maí sl. að vinsældir hans hafi dalað eftir að hann hafi lokað reikningi sínum á [...] í mars 2016. Kærandi kvaðst aðspurður einnig vera með aðgang á Twitter þar sem hann hafi sett inn færslur um ýmis málefni eftir að hann hafi lokað aðgangi sínum á [...]. Í kjölfarið hafi dregið úr þeim hótunum sem kærandi hafi sætt þó hafi símanúmeri hans og heimilisfangi verið lekið á netið í lok árs 2016 og hafi kærandi orðið fyrir áreiti í gegnum síma og einhverjir aðilar hafi komið að heimili hans. Kærandi kvaðst ekki hafa leitað til lögreglu vegna þessa atvika né þeirra hótana sem hann hafi fengið í gegnum samfélagsmiðla. Kvaðst kærandi aðallega hafa leitt þetta hjá sér en einnig haft samband við stjórnendur á síðunum, [...] og stefnumótasíðum og kvartað yfir þessu áreiti. Kærandi kvaðst aldrei hafa orðið fyrir áreiti eða ofbeldi af hálfu stjórnvalda vegna skoðana sinna sem hann hafi tjáð á þessum síðum.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa orðið fyrir ofbeldi árið 2018 af hálfu manns sem hafi reynt að fá hann til lags við sig. Kærandi kvaðst hafa farið til lögreglu vegna árásarinnar sem hafi tekið af honum skýrslu. Kærandi kvað lögreglumennina hafa skoðað vegabréf hans og litið skringilega á hann. Degi síðar hafi móðir kæranda komið til hans og þá haft undir höndum gögnin í málinu og hafi hún skammað hann fyrir að hafa farið til lögreglunnar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun var kærandi spurður að því hvort hann væri með gögn varðandi kæruna sem hann lagði fram. Kærandi kvaðst ekki hafa fengið staðfestingu á að hafa lagt fram kæru. Móðir hans hafi fengið pappírana til baka og kærandi teldi að það væri mjög heimskulegt að taka myndir af þeim. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður um það hvort hann gæti beðið móður sína að senda honum afrit af lögregluskýrslunni og gögnum málsins. Kærandi svaraði því að móðir hans hafi eyðilagt gögnin þar sem hún og stjúpfaðir hans hafi verið mótfallin því að hann leitaði aðstoðar lögreglu þar sem að samfélagið sé með fordóma gegn samkynhneigðum karlmönnum. Samkvæmt framansögðu liggur því fyrir að lögreglan hafi tekið af honum skýrslu og virðist sem svo að lögreglumennirnir hafi ekki komið illa fram við hann eða áreitt hann vegna kynhneigðar hans. Óljóst er af gögnum málsins af hverju móðir hans hafi fengið veður af kærunni og af hverju hún hafi fengið gögnin í hendur. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn um að lögreglan hafi lokað málinu eða fellt niður rannsókn á því og þá verður ekki séð af gögnum málsins að afdrif málsins hafi að einhverju leyti verið tengd kynhneigð kæranda.

Þá hefur kærandi borið fyrir sig að óttast stjúpföður sinn sem gegni valdamiklu embætti í Rússlandi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að stjúpfaðir hans hafi fengið stöðuhækkun í desember 2015. Kærandi kvað stjúpföður sinn hafa unnið hjá héraðsdómi en fengið stöðu í seðlabanka. Á sama tíma hafi fjölskyldan frétt af bloggsíðu kæranda á [...] og athöfnum hans á síðunni. Hafi móðir hans og stjúpfaðir þrýst á hann að loka síðunni og hafi hann látið undan þeim þrýstingi í mars 2016. Samkvæmt framburði kæranda virðist stjúpfaðir hans þó enn hafa verið ósáttur við kæranda og hótað honum eins og fram hefur komið. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa beðið móður sína um að finna fyrir sig upplýsingar um starf og stöðu stjúpföður síns en það hafi ekki tekist hjá henni. Þann 24. febrúar 2020 óskaði kærunefnd eftir því að kærandi legði fram upplýsingar um stöðu stjúpföður síns og gögn því til stuðnings. Í svari frá kæranda sem barst þann 26. mars sá. kom fram að kærandi skildi ekki hvernig bankar virkuðu og að hann væri ekki viss um að seðlabanki hafi verið rétt þýðing. Stjúpfaðir hans væri háttsettur starfsmaður FSB í gjaldeyrisforðadeild (e. currency reserve). Kærandi lagði engin gögn fram til stuðnings um framangreint. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi aðspurður ekki vita hvort stjúpfaðir hans starfaði enn þá í framangreindu starfi þar sem að kærandi væri í engum samskiptum við hann. Af sömu ástæðu kvaðst kærandi ekki vita hvort stjúpfaðir hans væri á Facebook eða öðrum samskiptamiðlum. Í viðtalinu hjá kærunefnd var kærandi spurður að því hvort hann gæti beðið móður sína um að afla upplýsinga um stjúpföður sinn, kærandi svaraði því að hún viti ekki að því að hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og að hann hafi lofað henni að byggja slíka umsókn ekki á fjölskyldumálefnum eða heimilisofbeldi og þess vegna gæti hann ekki beðið hana um það. Þann 20. maí 2020 óskaði kærunefnd eftir því að kærandi athugaði betur hvort móðir hans gæti aðstoðað hann við að útvega gögn um stjúpföður hans, svo sem um embætti hans og hvort hann væri á einhverjum samskiptamiðlum. Þann 26. maí s.á. barst tölvupóstur frá talsmanni kærandi þar sem meðfylgjandi voru tenglar inn á tvær greinar á netmiðlum, annars vegar varðandi fyrra starf stjúpföður kæranda, ásamt mynd af honum, og hins vegar grein um að sú stofnun hafi verið lögð niður. Í gögnum málsins liggja fyrir margar fjölskylduljósmyndir, þar á meðal af manni sem kærandi kveður vera stjúpföður sinn. Þá er einnig ljósmynd af þeim manni í einkennisbúningi. Það er mat kærunefndar að þær ljósmyndir og önnur gögn sem kærandi hefur lagt fram renni ekki stoðum undir þá staðhæfingu kæranda að stjúpfaðir hans gegni háttsettri stöðu hjá stjórnvöldum, sé starfsmaður FSB eða sé að öðru leyti það valdamikill innan rússneska stjórnkerfisins að hann geti komið því til leiðar að kærandi verði vistaður í fangelsi án dóms og laga. Í ljósi reikuls framburðar kæranda um hvaða stöðu stjúpfaðir hans gegni, sem og skorts á haldbærum gögnum því til stuðnings, er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stjúpfaðir kæranda sé háttsettur í embættismannakerfinu í Rússlandi eða starfi hjá FSB. Þá verður auk þess ekki lagt til grundvallar að ómögulegt sé fyrir kæranda, vegna stöðu stjúpföður hans, að leita verndar hjá yfirvöldum vegna hótana stjúpföður hans og áreiti. Kærunefnd telur hins vegar ekki ástæðu til að draga í efa að stjúpfaðir hans hafi verið ósáttur við kæranda og að það megi m.a. rekja til kynhneigðar kæranda. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að atvikalýsing kæranda um hótanir stjúpföður hans og ósætti þeirra á milli verði ekki talið ná því alvarleikastigi að það jafngildi ofsóknum sem 1. mgr. 38. gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga kveður á um.

Fram hefur komið að kærandi hafi fengið hótanir vegna tjáningar sinnar um samkynhneigð málefni á bloggsíðu sinni árin 2013 til 2016. Skýrslur um aðstæður hinsegin einstaklinga í Rússlandi gefa til kynna að þeir geti mætt neikvæðu viðhorfi af hálfu samfélagsins, hópurinn sé að mörgu leyti jaðarsettur og þá hafi stjórnvöld ýtt undir enn frekari fordóma í þeirra garð með setningu laga um bann við áróðri um óhefðbundin kynferðisleg sambönd. Þá kemur fram að hinsegin einstaklingar geti ekki alltaf reitt sig á stuðning vina og vandamanna þegar þeir opinbera kynhneigð eða kynvitund sína. Fram kemur að samkynhneigðir einstaklingar, einkum karlmenn, eigi á hættu að verða fyrir félagslegri mismunun en hins vegar sé ekki um kerfisbundnar ofsóknir af hálfu stjórnvalda að ræða. Upplýsingar í skýrslum gefa hins vegar ekki til kynna að ómögulegt sé fyrir samkynhneigða karlmenn eða hinsegin einstaklinga sem telja á réttindum sínum brotið að leita sér aðstoðar og verndar yfirvalda í Rússlandi og fá lausn sinna mála. Viðmót yfirvalda geti verið mismunandi, m.a. eftir því hvar í Rússlandi leitað sé eftir aðstoð þeirra. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að ætla að hinsegin einstaklingar eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum á grundvelli kynhneigðar sinnar einnar sér sem nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki lagt fram gögn eða að öðru leyti gert nægilega líklegt að aðstæður hans séu ólíkar þeim sem almennt eiga við um einstaklinga í hans stöðu. Verður því ekki talið að kærandi eigi á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda vegna kynhneigðar sinnar eða annarra ástæðna sem vísað er til í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga.

Þá hefur kærandi byggt á því að hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana hans. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki hafa fjallað djúpt um stjórnmál á bloggsíðu sinni þar sem hann skorti þekkingu á stjórnmálum. Kærandi hafi á bloggsíðunni tjáð sig um skoðanir sínar á löggjöf um samkynhneigða og þá hafi hann árið 2015 hvatt fólk til að mæta á mótmæli og sett fram ýmsar upplýsingar um það. Þá kvaðst kærandi hafa gagnrýnt stjórnvöld á Twitter og líka á rússneskri samfélagsmiðlasíðu. Í viðtali hjá kærunefnd kvaðst kærandi ekki hafa verið áreittur eða hótað af yfirvöldum í heimaríki en þar sem stjúpfaðir hans væri starfsmaður yfirvalda teldi kærandi sér hafa verið hótað af hálfu yfirvalda. Á grundvelli gagna málsins og upplýsinga um heimaríki kæranda telur kærunefnd að áhyggjur hans af ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana hans séu ekki ástæðuríkar. Við það mat hefur kærunefnd litið til þess að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir að hann hafi verið virkur í mótmælum gegn stjórnvöldum og stefnu þeirra eða gert að öðru leyti líklegt að athygli stjórnvalda í Rússlandi hafi beinst eða beinist sérstaklega að honum. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn eða annað sem bendi til þess að staða hans í heimaríki sé önnur en annarra einstaklinga sem almennt séu mótfallnir eða ósammála stefnu stjórnvalda. Kærunefnd telur því, með hliðsjón af framburði kæranda og þeim gögnum sem hann hefur lagt fram, að kærandi hafi ekki sýnt fram á með nægilega skýrum hætti að hans bíði ofsóknir í heimaríki á grundvelli stjórnmálaskoðana. Að mati kærunefndar verður heldur ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir áreiti af hálfu stjórnvalda vegna stjórnmálaskoðana hans sem nái því marki að teljast ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga eða eigi á hættu að verða fyrir slíkum ofsóknum af öðrum ástæðum, m.a. vegna tjáningar á samskiptamiðlum.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um hvernig skal meta hvort kærendur séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærendur verði þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir kröfu um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að hans bíði erfiðar félagslegar aðstæður þar sem hann sé [...] ára samkynhneigður karlmaður og tilheyri því þeim hópi sem mæti hvað mestum fordómum og áreiti í Rússlandi. Þá styðji fjölskylda hans hann ekki í því að vera opinberlega samkynhneigður. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi sé framhaldsskólamenntaður og hafi einnig stundað nám í háskóla. Þá hafi kærandi verið með atvinnu í heimaríki. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður hans séu ekki slíkar að tilefni sé til að veita honum dvalarleyfi vegna framangreindrar málsástæðu.

Þá er krafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða einnig byggð á því að hann hafi ríka þörf fyrir vernd vegna andlegrar heilsu hans sem sé bágborin. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.

Í gögnum málsins er bréf frá ráðgjafa hjá Samtökunum ´78. Þar kemur fram að kærandi glími við andlega erfiðleika. Kærandi er ekki í meðferð hér á landi sem læknisfræðilega óforsvaranlegt er að rjúfa. Þá má af skýrslum um heimaríki kæranda og framburði hans ráða að honum standi til boða aðgangur að heilbrigðisþjónustu þar í landi, þ. á m. að geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Athugasemdir kærunefndar

Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísaði kærandi í ákvörðun Útlendingastofnunar nr. 2018-00980 frá 28. nóvember 2018. Hvað varðar vísun kærandi í umrædda ákvörðun þá tekur kærunefnd það fram að ákvarðanir Útlendingastofnunar eru hvorki bindandi né fordæmisgefandi fyrir nefndina. Þá er það mat kærunefndar, m.a. með vísan til framangreinds trúverðugleikamats kærunefndar, að aðstæður aðila þess máls og málsatvik séu ekki sambærileg aðstæðum í máli kæranda.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 8. maí 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 460/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júlí 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga.  

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                          Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta