Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 53/2012

Mánudaginn 3. mars 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 29. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. febrúar 2012 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var synjað.

Með bréfi 5. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. apríl 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 26. apríl 2012 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 31. október 2012.

Athugasemdirnar voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 5. nóvember 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1964, fráskilinn og býr ásamt tveimur uppkomnum börnum sínum í eigin 140 fermetra íbúð að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu D. Kærandi er kennari og nema útborguð laun hans að meðaltali 214.856 krónum á mánuði. Kærandi á einnig fasteign að C götu nr. 23 í sveitarfélaginu D og var sú eign í útleigu þar til í júlí 2011.

Kærandi tilgreinir tekjulækkun sem aðalástæðu greiðsluerfiðleika sinna. Þá kveður hann hækkandi afborganir af lánum og aukinn kostnað við rekstur heimilis ekki síður hafa haft mikil áhrif á fjárhag hans. Nokkrum árum fyrir bankahrun hafi kærandi keypt 70 fermetra íbúð á neðri hæð að C götu nr. 23 í sveitarfélaginu D. Íbúðin hafi verið full lítil fyrir fjölskylduna og árið 2004 hafi hann keypt 50 fermetra íbúð við hliðina á með aðstoð foreldra sinna. Auðvelt hafi verið talið að sameina íbúðirnar þannig að hver fjölskyldumeðlimur gæti haft eigið herbergi. Árið 2006 hafi kærandi keypt nýuppgert parhús. Hafi hann talið það ódýrari kost en að sameina íbúðirnar að C götu, enda líklegt að það yrði dýrara en talið hafi verið. Kærandi hafi fengið hagstæð lán en að auki hafi hann átt talsvert sparifé enda í tveimur störfum. Í byrjun árs 2008 hafi stærri íbúðin við C götu verið seld og söluhagnaður notaður til að greiða niður skuldir. Ákveðið hafi verið að bíða með að selja minni eignina en eftir bankahrunið hafi hún verið orðin yfirveðsett. Nú sé nauðsynlegt að ráðast í endurbætur á eigninni með tilheyrandi kostnaði.

Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kæranda 52.512.847 krónur og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) ef undan eru skildar skuldir við Lánasjóð íslenskra námsmanna að fjárhæð 2.291.667 krónur. Til helstu skulda var stofnað á árunum 2005 og 2006.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 8. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara úr gildi og sendi málið aftur til umboðsmanns til efnislegrar meðferðar. Þannig verði fjallað um hvernig kærandi geti komið skuldum sínum í það horf að hann geti greitt af þeim og haldið heimili sínu en sé ekki í bókhaldslegum loftfimleikum með tekjur sínar. Einnig er þess krafist að nefndin beini því til umboðsmanns skuldara að gjafagerningi, sem kærandi gerði í apríl 2011 um sumarbústaðalóð sé rift. Enn fremur er þess krafist að kærunefndin beini því til umboðsmanns skuldara að „fullorðin manneskja með fjármálavit“ annist mál kæranda hjá embættinu en kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð embættisins.

Kærandi hafi sótt um hjálp umboðsmanns þar sem skuldir hans höfðu vaxið langt umfram það sem eðlilegt geti talist en einnig hafi tekjur kæranda minnkað verulega. Sé tekjulækkun bæði vegna þess að hann hafi misst aukavinnu en einnig vegna þess að þær hækkanir sem átt hafi sér stað langt umfram kaupmátt hljóti að skoðast sem tekjuskerðing. Sé það mat kæranda að samskipti sín við embætti umboðsmanns skuldara hafi snúist um að koma með skýringar á launum sem kærandi hafi haft fyrir efnahagshrunið 2008. Telji kærandi að embætti umboðsmanns skuldara haldi því fram að hann hafi 214.000 krónur á mánuði en í raun hafi hann ekki nema 170.000 til 180.000 krónur á mánuði. Sé þetta lygi sem segi ýmislegt um vinnubrögðin hjá embættinu. Kærandi kveður starfsmenn umboðsmanns ekki hafa talað við sig við vinnslu málsins.

Telji kærandi að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki haft áhuga á að skoða hvernig hægt væri að koma því þannig fyrir að kærandi gæti greitt af húsnæðislánum en miðað við núverandi laun hafi hann ekki möguleika til þess. Að mati kæranda hafi samskipti embættisins við sig snúist um hvernig unnt væri að finna glufu til að hafna erindi hans og það hafi að sjálfsögðu tekist. Sjáist þetta af tölvupóstsamskiptum kæranda og starfsmanns umboðsmanns. Hafi synjunin byggst á því að kærandi hafi gert gjafagjörning en kærandi hafi gert embættinu grein fyrir því hvernig það mál sé vaxið. Það sé út í hött að hann hafi komið eignum undan hugsanlegum kröfuhöfum. Hann hafi selt dóttur sinni sumarhúsalóð sem hún hafi staðgreitt. Hafi starfsmaður umboðsmanns fullyrt að lóðin hafi verið seld á undirverði án þess að hafa kynnt sér hana eða söluverð jarða í kring. Umboðsmaður meti verðgildi lóðarinnar út frá fasteignamati sem gefi enga raunverulega mynd af verðmæti hennar. Kærandi spyrji sig jafnframt hvers vegna embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki óskað eftir því að gjörningnum yrði rift. Þegar hann hafi óskað svara við því hjá starfsmanni umboðsmanns hafi hann fengið þau svör að það væri ekki verk umboðsmanns. Að mati kæranda sé þetta útúrsnúningur því það sé hlutverk umboðsmanns skuldara að ráðleggja fólki og hjálpa.

Sé 6. gr. lge. skoðuð megi sjá af fyrirliggjandi gögnum að mál kæranda falli ekki undir þá grein. Tiltekur kærandi sérstaklega d-lið vegna þeirra ógeðfelldu aðdróttana umboðsmanns um að hann hafi reynt að koma undan eignum. Í umsókn kæranda til umboðsmanns sé sala lóðarinnar sérstaklega tekin fram en hann hafi fengið leiðbeiningar um það hjá þjónustufulltrúa embættis umboðsmanns skuldara.

Í tilefni af þessu nefnir kærandi 13. gr. lge. þar sem sérstaklega sé tekið fram hvernig umboðsmaður geti farið fram á sölu eigna, þ.e. ráðstafað eignum einstaklinga í greiðsluaðlögun. Þar af leiðandi hljóti það líka að vera hlutverk hans að mæla fyrir um riftun á sölu eigna svo ráðstafa megi þeim á annan hátt. Kærandi kveðst ekki munu rifta sölu lóðarinnar að eigin frumkvæði heldur bíða eftir fyrirmælum umboðsmanns skuldara þar sem umsókn hans sé enn í vinnslu. Líti hann svo á að hann verði enn að hlíta fyrirmælum lge. um frystingu á öllum fjárhagslegum ákvörðunum en eiga ella á hættu að ógilda umsókn sína.

Kærandi telur að meðferð málsins hjá embætti umboðsmanns skuldara hafi af framangreindum ástæðum verið í andstöðu við anda laga um umboðsmann skuldara en í a-lið 1. gr. þeirra laga segi að umboðsmaður eigi að hjálpa einstaklingum sem séu í verulegum greiðsluerfiðleikum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Segi þar jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í 131. gr. sé fjallað um gjafagerninga en þar segir í 1. mgr. að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Í 2. mgr. segir að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex til tólf mánuði fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafi verið afhentar sex til tuttugu og fjóra mánuði fyrir frestdag. Í 3. mgr. segi að ekki verði krafist riftunar venjulegra tækifærisgjafa, svipaðra gjafa eða styrkveitinga ef gerningar sem þessir hafi ekki verið kostnaðarsamari en svarað hafi til aðstöðu þrotamannsins.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 teljist frestdagur vera sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti. Samkvæmt þessu þyki rétt að líta svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Af skattframtali vegna tekjuársins 2010 verði ráðið að sumarhúsalóð að F í G-hreppi, fastanúmer X, hafi verið í eigu kæranda í lok þess árs. Kærandi hafi afsalað eigninni til dóttur sinnar 30. apríl 2011. Í afsalinu komi fram að kaupverð sé að fullu greitt. Starfsmaður embættis umboðsmanns skuldara kynnti kæranda ákvæði e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. með tölvupósti 10. janúar 2012. Samhliða var óskað eftir því að hann legði fram kaupsamning, gögn er sýndu fram á að kaupverð hafi verið greitt, gögn um hvort kaupverð væri enn í vörslu kæranda og hvort hann teldi að eðlilegt verð hefði komið fyrir eignina. Kærandi hafi svarað með tölvupósti sama dag. Hann kvað kaupsamning hafa verið munnlegan, að kaupverð hefði verið 400.000 krónur og það yrði greitt í einu lagi ári seinna eða 30. apríl 2012 þegar dóttir kæranda hefði safnað peningum fyrir greiðslunni. Að mati kæranda hafi söluverðið verið sanngjarnt. Kærandi taki sérstaklega fram að ákvörðun hans um að selja lóðina hafi ekki tengst ákvörðun hans um að sækja um greiðsluaðlögun en þá ákvörðun hafi hann tekið í byrjun júní 2011. Hann hafi getið sérstaklega um sölu lóðarinnar í greinargerð sinni þegar hann óskaði greiðsluaðlögunar.

Starfsmaður embættisins hafi aftur sent kæranda tölvupóst 11. janúar 2012. Þar hafi kærandi verið spurður að því hvort hann hefði látið verðmeta lóðina áður en hann seldi hana. Ef svo hefði ekki verið, var óskað upplýsinga um það hvaða gögn um verðmæti eignarinnar hefðu legið til grundvallar söluverði. Í svari kæranda sem barst samdægurs segi að hann hafi ekki talið ástæðu til að leggja í kostnað við verðmat fasteignasala en hann hafi stuðst við fasteignamat. Einnig hafi hann litið til þess að hann gæti ekki fengið það verð sem hann vildi fá fyrir lóðina vegna staðsetningar hennar.

Með tölvupósti 17. janúar 2012 hafi kærandi verið beðinn um skýringar á því misræmi sem fælist annars vegar í upplýsingum sem hann hafi gefið í tölvupósti 10. janúar 2012 um að kaupverð lóðarinnar yrði greitt í apríl 2012 og hins vegar á því að í afsali frá 30. apríl 2011 segði að kaupverð væri að fullu greitt. Svaraði kærandi því til að afsalið hefði verið útbúið með aðstoð starfsmanns hjá sýslumanninum í H umdæmi.

Afsalið var móttekið til þinglýsingar 3. júní 2011 og 8. júní 2011 sótti kærandi um greiðsluaðlögun.

Þrátt fyrir að greiðsla fyrir lóðina hefði ekki verið innt af hendi hafi kærandi afsalað lóðinni til dóttur sinnar 30. apríl 2011 án nokkurs fyrirvara um greiðslu kaupverðs. Þannig hafi engin greiðsla borist fyrir lóðina ennþá þótt tekið sé fram í afsali að kaupverð sé að fullu greitt. Samkvæmt fasteignamati er verðmæti lóðarinnar 838.000 krónur og því ljóst að umsamið kaupverð er einungis 47,73% af fasteignamati.

Telja verði að ofangreind ráðstöfun rýri eignir kæranda og feli jafnframt í sér eignaaukningu fyrir dóttur hans jafnvel þótt hún greiddi umsamda fjárhæð. Þá sé til þess að líta að vorið 2011 hafi að sögn kæranda legið fyrir að þörf væri á verulegum endurbótum á íbúð hans, hann hafi verið orðinn ófær um að standa skil á afborgunum af húsnæðislánum og ekki verði séð að fjárhagsstaða hans að öðru leyti hafi gefið honum tilefni til þess að ráðast í örlætisgerning. Þannig þyki ljóst að ráðstöfun kæranda á fasteign sinni að F sé riftanleg ráðstöfun í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Vegna ummæla kæranda um riftun á sölu lóðar tekur umboðsmaður fram að hvorki umboðsmaður skuldara né kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi heimildir til að rifta þeim ráðstöfunum umsækjenda um greiðsluaðlögun sem talið sé að væru riftanlegar við gjaldþrotaskipti. Einnig sé þess getið að upplýsingar um tekjur kæranda séu fengnar frá staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vegna september til nóvember 2011.

Af framangreindu virtu og að teknu sérstöku tilliti til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggist á e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar.

Af málatilbúnaði kæranda verður ekki annað skilið en að hann telji sig eiga skilyrðislausan rétt til greiðsluaðlögunar. Hefur sú skoðun skuldara hvorki stoð í lge. né lögum um umboðsmann skuldara nr. 100/2010.

Þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur borist skal umboðsmaður skuldara ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar svo sem tilgreint er í 1. mgr. 5. gr. lge. Ef þörf krefur getur hann farið fram á að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. lge. skal umboðsmaður skuldara auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli, meðal annars upplýsinga um eignir og framferði skuldara, áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Að upplýsingaöflun lokinni ber umboðsmanni skuldara að kanna hvort fyrir hendi eru einhverjar þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð. Eru þær aðstæður tilgreindar í 6. gr. lge. Séu slíkar aðstæður fyrir hendi er ýmist skylt eða heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Regla e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. vísar um efni sitt til riftunarreglna gjaldþrotaréttar en þær eru í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Varða þau sjónarmið sem þar eru að baki jafnræði kröfuhafa en eitt af þeim skilyrðum sem eru fyrir riftun er að möguleiki kröfuhafa á fullnustu á kröfum sínum aukist við endurgreiðslu í kjölfar riftunar. Með öðrum orðum þarf hin riftanlega ráðstöfun að hafa orðið þrotabúi (hér kröfuhöfum kæranda) til tjóns.

Að því er varðar mál þetta kemur 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 til skoðunar, en hún varðar gjafagerninga. Riftunar má krefjast á ráðstöfunum sem gerðar voru allt að 24 mánuðum fyrir frestdag þegar um er að ræða menn nákomna skuldaranum. Í þessu tilviki verður að miða við að frestdagur sé sá dagur sem umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram. Undir hugtakið gjafagerning falla einnig svokallaðir örlætisgerningar, þ.e. þegar verulegur munur er á því verðmæti sem afhent er og endurgjaldinu sem skuldarinn fær.

Almennt er frjálst að gefa verðmæti í sinni eigu. Löggjafinn hefur þó sett því takmarkanir þegar gjöf er að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Ein þessara takmarkana er 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Meðal þeirra skilyrða sem þurfa að vera uppfyllt er að gjöfin skerði eignir skuldarans og auðgi móttakandann. Einnig skiptir máli á hvaða tíma ráðstöfunin er gerð og er þá einkum miðað við gjaldfærni skuldarans á þeim tíma er verðmæti er afhent.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi afsalaði dóttur sinni sumarbústaðalóð tæpum sex vikum áður en hann óskaði greiðsluaðlögunar. Kærandi var ógjaldfær á þeim tíma og styðst það annars vegar við gögn málsins og hins vegar við orð kæranda sjálfs. Einnig liggur fyrir að lóðin skyldi ekki greidd fyrr en ári eftir að henni var afsalað til dóttur kæranda þrátt fyrir að afsal kvæði á um að lóðin væri fullgreidd við útgáfu þess. Að sögn kæranda var söluverðið 400.000 krónur en engin gögn liggja fyrir er styðja þá fullyrðingu. Fasteignamat lóðarinnar var 838.000 krónur. Verðmat var ekki gert fyrir lóðina.

Kærandi lítur svo á að starfsmaður umboðsmanns skuldara hafi fullyrt að lóðin hafi verið seld á undirverði án þess að hafa kynnt sér hana eða söluverð jarða í kring. Umboðsmaður meti verðgildi lóðarinnar út frá fasteignamati sem gefi ekki raunverulega mynd af verðmæti hennar. Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram samkvæmt 5. gr. lge., sem reifuð er hér að framan, verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Með vísan til þessa telur kærunefndin að kæranda hafi borið að sýna fram á að markaðsverð lóðarinnar væri í samræmi við það verð er hann kvaðst mundu fá fyrir hana.

Kærandi telur það á verksviði umboðsmanns skuldara að hlutast til um að ráðstöfun sumarbústaðalóðarinnar verði rift. Hann stendur jafnframt í þeirri trú að kærunefndin geti gefið embætti umboðsmanns skuldara fyrirmæli í þeim efnum. Kærunefndin bendir af þessu tilefni á að umboðsmaður skuldara hefur ekki lagaheimild til að  aðhafast fyrir hönd skuldara á þann hátt sem kærandi telur að honum beri að gera. Af því leiðir að slík úrlausnarefni koma ekki til álita fyrir kærunefndinni.

Loks gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð umboðsmanns skuldara sem hann telur hafa beinst að því að finna ástæðu til að synja umsókn kæranda. Undir þetta getur kærunefndin ekki tekið en gögn málsins benda ekki til annars en að starfsmenn umboðsmanns skuldara hafi fylgt fyrirmælum lge. við meðferð málsins.

Að öllu ofangreindu virtu telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta