Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 142/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 142/2024

Fimmtudaginn 16. maí 2024

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. mars 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 3. janúar 2024, um uppsögn á húsaleigusamningi hans við sveitarfélagið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er með leigusamning við Kópavogsbæ vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Með bréfi velferðarsviðs Kópavogsbæjar, dags. 7. nóvember 2023, var leigusamningi kæranda sagt upp með 12 mánaða uppsagnarfresti á þeirri forsendu að hann væri yfir skilgreindum eignamörkum reglna um úthlutun á félagslegum leiguíbúðum bæjarsjóðs Kópavogs. Velferðarráð Kópavogs staðfesti þá ákvörðun á fundi 11. desember 2023 sem kæranda var kynnt með bréfi, dags. 3. janúar 2024.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 20. mars 2024. Með bréfi, dags. 9. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 23. apríl 2024, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. apríl 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa í meðfylgjandi bréfi til Velferðarráðs gert nokkuð ítarlega grein fyrir stöðu sinni en í stuttu máli eigi hann nú 25% hlut í íbúð sem hann hafi erft eftir lát móður sinnar. Þrjú systkini kæranda eigi svo hvert sín 25%. Þau geti ekki selt íbúðina því faðir þeirra, fæddur 1939, búi í henni og systkini kæranda hafi ekki tök á að kaupa hans hluta. Kæranda sé því ómögulegt að selja sinn eignarhluta eins og núverandi staða sé.

Kærandi bendi á að aukin eða betri eignastaða leiði oftast til betri lífsskilyrða hjá fólki og vegna þess séu reglurnar um eignastöðu í félagslegu húsnæði líklega eins og þær séu.  Í tilviki kæranda hafi þessi breyting á eignastöðu hins vegar ekki orðið honum til góðs heldur þvert á móti. Kærandi hafi glatað því mikilvæga öryggi sem félagslega íbúðin hafi veitt honum og þar með stöðugleika sem sé honum svo mikilvægur vegna veikinda og stór forsenda heilsunnar og þess að hann geti verið í einhverri virkni. Meðfylgjandi læknisvottorð lýsi veikindum kæranda og meðferð á geðdeild Landspítalans á árunum 2005 til 2017 en eftir það hafi kærandi verið í þjónustu hjá heilsugæslu. Í þessu samhengi sé rétt að taka fram að kærandi fái aðstoð ættingja við samskipti og bréfaskipti varðandi stöðu sína þar sem hann sé ekki fær um að sjá um það sjálfur.

Kærandi sé með örorkubætur vegna geðfötlunar og fjárhagsstaða hans sé því ekki góð og hann eigi ekki von á að það verði breyting á þeirri stöðu á næstunni. Tekjur kæranda séu langt undir því sem sé leyfilegt samkvæmt reglum Kópavogsbæjar um félagslegt húsnæði og hann hafi ekki möguleika á að skapa sér bærileg lífskjör án aðstoðar með húsnæði.

Kæranda sé ljóst að samkvæmt skattframtali séu eignir hans of miklar samkvæmt reglum Kópavogsbæjar um félagslegt húsnæði. Með því að óska eftir aðkomu úrskurðarnefndar sé það von kæranda að horft verið til þess að stuðningur skuli vera einstaklingsmiðaður og þannig taka mið af raunverulegri stöðu hans í lífinu sem hafi ekkert breyst við arfinn. Þegar komi að því að faðir kæranda þurfi ekki á íbúðinni að halda muni staða hans auðvitað breytast en þar til að því komi óski kærandi þess einlæglega að hægt sé að finna leið sem heimili honum búsetu í félagslegu íbúðinni áfram.

III.  Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kæranda hafi þann 7. nóvember 2023 verið tilkynnt um uppsögn á húsaleigusamningi við Kópavogsbæ þar sem tekju- og eignastaða kæranda væri yfir settum viðmiðunarfjárhæðum til búseturéttar í félagslegu leiguhúsnæði. Kæranda hafi verið veittur 12 mánaða uppsagnarfrestur.

Um félagslegar leiguíbúðir Kópavogsbæjar gildi reglur um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogs sem hafi verið samþykktar í Bæjarstjórn Kópavogs þann 9. júní 2020. Reglurnar séu settar með stoð í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1991 um málefni aldraðra.

Samkvæmt 1. gr. reglna um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogsbæjar séu félagslegar leiguíbúðir ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið sérstaka aðstoð til að sjá fyrir sér húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra erfiðleika. Réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar sé samkvæmt 2. gr. bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk svo og félagslegum aðstæðum sem séu metnar út frá ákveðnum viðmiðum samkvæmt matsreglum í viðauka við reglurnar. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. reglnanna fari um tekjur og eignamörk leigjenda eftir ákvæðum 6. gr. reglugerðar nr. 183/2020 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir, með síðari breytingum. Kveðið sé á um leigutíma, endurskoðun og uppsagnir í 13. gr. reglna Kópavogs og þar sé kveðið á um að á 12 mánaða fresti sé leigutaka skylt að leggja fram gögn um tekjur og eignir og gangast undir mat á félagslegum aðstæðum. Uppfylli leigjandi ekki lengur viðmið um tekju- og eignamörk og félagslegar aðstæður sé leigusamningi sagt upp með þeim uppsagnarfresti sem við eigi hverju sinni samkvæmt XI. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994.

Samkvæmt staðfestu skattframtali hafi kærandi verið með 4.587.948 kr. í tekjur á árinu 2023 og eignir verið 18.614.346 kr. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 183/2020 skuli árstekjur leigjenda almennra íbúða ekki nema hærri fjárhæð en 7.696.000 kr. fyrir hvern einstakling á árinu 2023 og samanlögð heildareign að frádregnum heildarskuldum skuli ekki nema hærri fjárhæð en 8.307.000 kr.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að eignir leigjanda séu ofar samþykktum eignarviðmiðum þótt skattskyldar tekjur séu undir tekjumörkum. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2023, hafi kæranda verið tilkynnt um uppsögn á húsaleigusamningi. Á fundi Velferðarráðs Kópavogs þann 11. desember 2023 hafi verið tekin fyrir áfrýjun kæranda þar sem hann hafi óskað eftir endurskoðun ákvörðunar á uppsögn húsaleigusamnings. Kærandi hafi lagt fram greinargerð vegna áfrýjunarinnar með upplýsingum um heilsufar og skýringum á aðstæðum. Engin önnur ný gögn hafi verið lögð fram. Á fundinum hafi Velferðarráð Kópavogs staðfest afgreiðslu velferðarsviðs á uppsögn á húsaleigusamningi kæranda.

Ljóst sé að uppsögn á húsaleigusamningi kæranda byggi á tekju- og eignaupplýsingum hans en ekki heilsufari, óvinnufærni eða öðru. Engar nýjar upplýsingar liggi fyrir sem styðji við endurupptöku á ákvörðun sem þegar hafi verið áfrýjað og staðfest af Velferðarráði Kópavogs.

Með vísan til framangreinds krefjist velferðarsvið Kópavogs að ákvörðun Velferðarráðs verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Kópavogsbæjar um uppsögn á húsaleigusamningi kæranda við sveitarfélagið vegna félagslegs leiguhúsnæðis með vísan til þess að hann væri yfir skilgreindum eignamörkum reglna um úthlutun á félagslegum leiguíbúðum bæjarsjóðs Kópavogs.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á húsnæðismálum einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í reglum Kópavogsbæjar um útleigu á félagslegum leiguíbúðum er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 1. gr. reglnanna segir að félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra erfiðleika. Samkvæmt 2. gr. reglnanna er réttur til að komast á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði, fá úthlutað leiguhúsnæði og til áframhaldandi leiguréttar bundinn skilyrðum um tekju- og eignamörk og félagslegum aðstæðum sem séu metnar út frá ákveðnum viðmiðum, sbr. matsreglur í viðauka við reglurnar.

Í 13. gr. reglnanna er meðal annars fjallað um uppsögn húsaleigusamnings en þar segir í 3. mgr.:

„Á tólf mánaða fresti er leigutaka skylt að leggja fram gögn um tekjur og eignir og gangast undir mat á félagslegum aðstæðum. Uppfylli leigjandi ekki lengur viðmið um tekju- og eignamörk og félagslegar aðstæður er leigusamningi sagt upp með þeim uppsagnafresti sem á við hverju sinni skv. XI. kafla húsaleigulaga. Þeir leigjendur sem uppfylla skilyrði sem fram koma í reglum Kópavogsbæjar um kaup á félagslegum leiguíbúðum skulu upplýstir um þann rétt sinn.“

Þá er í 14. gr. reglnanna kveðið á um meðferð vegna sérstakra aðstæðna. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Úthlutunarhópur skal meta hvort tilefni sé til að veita undanþágu frá settum skilyrðum um tekju- og eignaviðmið s.s. þegar umsækjandi um leiguíbúð hefur orðið fyrir meiri háttar röskun á stöðu og högum vegna atvinnuleysis, veikinda, fráfalls maka eða af öðrum ástæðum.

Í sérstökum rökstuddum tilvikum getur úthlutunarhópur ákveðið að leigusamningur verði framlengdur tímabundið vegna sérstakra eða tímabundinna aðstæðna.“

Kópavogsbær hefur vísað til þess að uppsögn á húsaleigusamningi kæranda byggi á tekju- og eignaupplýsingum hans en ekki heilsufari, óvinnufærni eða öðru.

Í framangreindri 13. gr. reglna Kópavogsbæjar um félagslegt leiguhúsnæði kemur skýrt fram að áður en til uppsagnar á húsaleigusamningi kemur þarf bæði að kanna hvort leigutaki uppfylli enn viðmið um tekju- og eignamörk og meta félagslegar aðstæður hans. Þá er einnig heimild í 14. gr. reglnanna til að gera undanþágu frá settum skilyrðum um tekju- og eignamörk vegna ákveðinna aðstæðna leigutaka.

Af þeim gögnum sem hafa verið lögð fram í málinu og afstöðu Kópavogsbæjar verður ekki séð að lagt hafi verið mat á félagslegar aðstæður kæranda. Þá verður ekki séð að ákvæði 14. gr. reglnanna hafi komið til skoðunar í kjölfar áfrýjunar kæranda til velferðarráðs. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Kópavogsbæ að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 3. janúar 2024, um uppsögn á húsaleigusamningi A, við sveitarfélagið er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta