Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 111/2013

Fimmtudaginn 11. júní 2015

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 19. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. september 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. september 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014, en engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1977. Hún er einhleyp og býr í eigin 78,1 fermetra íbúð að B götu nr. 2 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er skrúðgarðyrkjufræðingur og hefur einnig starfað við ljósmyndun. Hún hefur tekið að sér ljósmyndaverkefni bæði sem verktaki og einnig í sjálfboðavinnu en hefur að mestu verið óvinnufær vegna veikinda frá árinu 2010. Hún hefur fengið greiðslur úr sjúkrasjóði verkalýðsfélagsins Hlífar og endurhæfingalífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til tekjulækkunar í kjölfar slyss og veikinda.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 29.639.833 krónur og falla 27.578.047 krónur þar af innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. mars 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 21. desember 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann hefði gert frumvarp til greiðsluaðlögunar í samráði við kæranda og sent til kröfuhafa. Hafi athugasemdir borist frá Arion banka þar sem bankinn óskaði upplýsinga um hvort kærandi hefði fengið greiddar út vaxtabætur 1. ágúst 2012. Við skoðun hefði umsjónarmaður komist að því að kærandi hefði fengið bæturnar greiddar út. Hefði hún eytt hluta þeirra og hafnað því að láta afganginn renna til kröfuhafa. Eftir samningaviðræður við umsjónarmann hefði Arion banki þó samþykkt frumvarpið með þeim fyrirvara að vaxtabótum árið 2013 yrði ráðstafað til veðkröfuhafa utan matsverðs og samningskröfuhafa. Þegar frumvarpið hafi verið tilbúið til undirritunar hafi kærandi neitað að undirrita það. Hafi hún meðal annars gert athugasemdir við fyrrnefnda ráðstöfun vaxtabóta og sparnað sem hafi átt að renna til kröfuhafa með eingreiðslu í upphafi greiðsluaðlögunartímabilsins þrátt fyrir að þetta hafi legið fyrir frá upphafi. Hafi umsjónarmaður átt nokkur símtöl við kæranda vegna þessa og þótt ljóst að verulega skorti á samningsvilja kæranda. Hafi umsjónarmaður einkum bent á ákvæði 16. gr. lge. í því sambandi. Samkvæmt þessu taldi umsjónarmaður að kæranda væri ekki heimil greiðsluaðlögun og beindi því til umboðsmanns skuldara að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 19. mars 2013 þar sem henni var kynnt framkomið bréf umsjónarmanns. Var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram gögn áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild til greiðsluaðlögunar. Kærandi svaraði með bréfi þar sem hún gerði grein fyrir veikindum sínum síðastliðin ár, tekjulækkun og auknum kostnaði vegna veikindanna. Kærandi segist ekki hafa sett út á þann samning sem gerður hafi verið vegna íbúðar hennar.

Í framhaldi af þessu sendi embætti umboðsmanns skuldara tölvupóst til kæranda þar sem hún var meðal annars beðin um að svara því hvort hún hefði neitað að undirrita frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Kærandi hafi beðið um frest til að svara þessu og í tvígang verið veittur frestur en ekkert svar hafi borist frá henni.

Með bréfi til kæranda 24. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 17. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar á þann veg að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst glíma við minnisleysi og orkuleysi. Hún sé í endurhæfingu eftir mikil áföll og veikindi síðastliðin ár.

Kærandi kveður Landsbankann hafi selt eign í hennar nafni ólöglega til þriðja aðila. Hún hafi aldrei verið boðuð á fund eða samningur útskýrður.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 1. mgr. 16. gr. lge. segi að umsjónarmaður skuli eins fljótt og auðið sé eftir að kröfulýsingarfrestur sé liðinn gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Skuli frumvarpið samið í samráði við skuldara. Verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli svo unnt sé að ljúka greiðsluaðlögunarumleitunum. Sérstaklega verði talið að athafnaskylda kæranda í máli þessu hafi verið mikilvæg þar sem beðið var um afstöðu hennar til atriða varðandi greiðsluaðlögunarumleitanir hennar sjálfrar og aðeins hún ein gat veitt. Sé þessi athafnaskylda leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge.

Í 5. mgr. 17. gr. lge. segi að til að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun teljist samþykkt skuli skuldari, umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara undirrita það og taki samningurinn þá þegar gildi. Samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns hafi frumvarp sem kröfuhafar hafi samþykkt, verið tilbúið fyrir kæranda og umsjónarmann til undirritunar. Kærandi hafi ekki fallist á að undirrita frumvarpið. Umsjónarmaður hafi átt símtöl við kæranda vegna þessa og hafi að lokum talið að verulega skorti á samstarfsvilja kæranda í málinu. Í andmælum kæranda frá 2. apríl 2013 hafi eftirfarandi komið fram: „Sá samningur sem gerður hefur verið vegna íbúðarinnar hef ég aldrei sett út á eða gert neina athugasemd við eða gagnrýnt nema í formi spurninga til að vita um hvað málið snýst.“ Starfsmaður umboðsmanns skuldara hafi sent kæranda tölvupóst 12. apríl 2013 og spurt hana hvort hún hefði neitað að undirrita frumvarp það sem umsjónarmaður hafi lagt fyrir hana til samþykktar. Kærandi hafi ekki svarað þessu þrátt fyrir að fyrirspurnin hefði verið ítrekuð með tölvupóstum 24. apríl og 3. maí 2013. Kærandi hafi þannig í þrígang fengið tækifæri til þess að koma því á framfæri hvort hún hafi neitað að undirrita frumvarpið eða ekki. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. lge. verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann undirriti frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun þegar það sé fullgert. Vilji skuldari ekki undirrita frumvarp verði að draga þá ályktun að hann samþykki það ekki.

Hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 17. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 17. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Í 1. mgr. 16. gr. lge. kemur fram að umsjónarmaður skuli, eins fljótt og auðið er eftir að kröfulýsingarfrestur er liðinn, gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Frumvarpið skuli samið í samráði við skuldara. Í 5. mgr. 17. gr. lge. segir að ef frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun teljist samþykkt skulu skuldari, umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara undirrita það og taki samningurinn þá þegar gildi.

Í máli þessu telur umsjónarmaður að verulega hafi skort á samstarfsvilja kæranda þar sem hún hafi hafnað því að undirrita fyrirliggjandi frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Af þessum ástæðum hafi umsjónarmaður beint því til umboðsmanns skuldara að rétt væri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 19. mars 2013 þar sem henni var kynnt það álit umsjónarmanns að fella bæri greiðsluaðlögunarumleitanir hennar niður. Var kæranda boðið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Kærandi svaraði með ódagsettu bréfi þar sem hún rekur aðallega sjúkrasögu sína, útgjaldaaukningu og tekjuskerðingu vegna veikinda. Einnig greinir hún frá því að hún sé ósátt við vörslusviptingu og skuldauppgjör vegna bifreiðar sinnar. Undir lok bréfsins segir kærandi: „Sá samningur sem gerður hefur verið vegna íbúðarinnar hef ég aldrei sett út á eða gert neina athugasemd við eða gagnrýnt nema í formi spurninga til að vita um hvað málið snýst.“ Starfsmaður umboðsmanns skuldara óskaði þess með tölvupósti 12. apríl 2013 að kærandi svaraði því hvort skilja bæri þessi orð hennar þannig að það væri rangt að hún hefði neitað að undirrita frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Fyrirspurnin var ítrekuð 24. apríl 2013 og þá óskaði kærandi eftir fresti til að svara. Aftur var fyrirspurnin ítrekuð 3. maí 2013 og kæranda greint frá því að til stæði að taka ákvörðun í málinu í vikunni á eftir. Kærandi svaraði ekki. Með ákvörðun 24. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður.

Kærunefndin telur ekki unnt að skilja framgöngu kæranda í málinu á annan veg en þann að hún hafni því að undirrita það frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings sem gert hafði verið. Ber í því sambandi að benda á þær skyldur sem hvíla á skuldara samkvæmt lge. að taka virkan þátt í greiðsluaðlögunarferli sínu og hlutast til um að gefa þær upplýsingar sem ekki er á færi annarra að veita. Verður að telja kæranda hafa brugðist þessum skyldum. Er það því mat kærunefndarinnar að framganga hennar hafi ekki verið í samræmi við 1. mgr. 16. gr. lge. Þegar þetta er virt verður að telja að skort hafi á samstarfsvilja kæranda í málinu en undirritun kæranda var nauðsynleg til að frumvarpið tæki gildi samkvæmt 5. mgr. 17. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. og 5. mgr. 17. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta