Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 69/2013

Fimmtudaginn 11. júní 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 21. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. mars 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 21. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. júní 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. júní 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1969. Hann er einhleypur og býr í eigin 55,3 fermetra íbúð við B götu nr. 74 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er lagerstjóri í dagvöruverslun. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans eru 255.146 krónur vegna launa og vaxtabóta.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 22.370.965 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína einkum til atvinnuleysis.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 8. mars 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 6. september 2011 var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með greinargerð umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 26. júní 2012 kom meðal annars fram að kærandi hefði ekki lagt til hliðar í samræmi við skyldur sínar samkvæmt lge. Kærandi hafi komið til fundar við umsjónarmann 25. október 2011 en hann hafi notið frestunar greiðslna, verið í svokölluðu greiðsluskjóli, frá 8. mars 2011. Kærandi hafi verið spurður um sparnað sinn frá upphafi greiðsluskjólsins og kvaðst hann hafa lagt fyrir um 80.000 krónur. Hann hafi gert grein fyrir því að útgjöld hans vegna bifreiðar hefðu gengið á sparnaðinn og kvaðst mundu senda umsjónarmanni afrit af reikningum sem sýndu það, en umsjónarmaður hafi ekki fengið afritin. Umsjónarmaður hafi brýnt fyrir kæranda að leggja fyrir í greiðsluskjólinu en samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara hefði greiðslugeta kæranda átt að vera 101.046 krónur á mánuði. Umsjónarmaður hafi aflað gagna frá viðskiptabanka kæranda 11. maí 2012 en á þeim tíma hefði kærandi verið 14 mánuði í greiðsluskjóli. Í ljós hafi komið að kærandi hafði ekki lagt fyrir en innstæða á reikningi hans þann dag hafi verið 3.647 krónur. Umsjónarmaður hafi rætt við kæranda símleiðis 14. maí 2012. Kærandi kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um hvaða fjárhæð hann ætti að leggja til hliðar mánaðarlega þrátt fyrir að honum hefði verið kynnt áætlun um greiðslugetu frá umboðsmanni skuldara. Samdægurs hafi umsjónarmaður sent kæranda tölvupóst þar sem honum hafi verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum og útskýringum ásamt skriflegum gögnum. Á fundi sem kærandi og umsjónarmaður hafi átt 5. júní 2012 hafi kærandi greint frá því að sú greiðslugeta sem umboðsmaður skuldara miðaði við væri röng. Kvaðst kærandi í besta falli geta lagt fyrir 40.000 til 50.000 krónur á mánuði.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki rækt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem kveði á um að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærandi hafi ekkert lagt til hliðar og ekki lagt fram gögn er styðji aukinn kostnað hans þrátt fyrir áskoranir þar um. Umsjónarmaður lagði því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður meðal annars með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 2. júlí 2012 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kæranda hafi komið fram að hann hefði ekki getað lagt til hliðar þar sem viðgerðarkostnaður á bifreið hans hefði numið um 300.000 krónum. Hafi verið um nótulaus viðskipti að ræða. Þá hefði ófyrirséð slit dekkja orðið til þess að kaupa hefði þurft fjögur ný dekk undir bifreiðina og hafi það kostað 40.000 krónur.

Með bréfi til kæranda 14. mars 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 14. mars 2013 um að fella niður umsókn hans verði felld niður. Jafnframt er þess krafist að umsókn kæranda verði aftur færð í eðlilegt greiðsluaðlögunarferli.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu áætlaðar ráðstöfunartekjur kæranda vegna launa 220.000 krónur að meðaltali á mánuði og mánaðarlegur framfærslukostnaður 191.063 krónur á mánuði. Byggist fjárhæð framfærslukostnaðar annars vegar á neysluviðmiðunum umboðsmanns skuldara en hins vegar á gögnum frá kæranda sjálfum. Ljóst sé að framfærslukostnaður kæranda sé mun hærri en embætti umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Samkvæmt þessu sé mánaðarleg greiðslugeta kæranda 28.937 krónur en það sé sú fjárhæð sem honum beri að leggja til hliðar í mánuði hverjum. Á þeim 16 mánuðum sem kærandi hafi verið í greiðsluskjóli hafi honum því borið að leggja til hliðar 464.000 krónur af launatekjum en ekki 790.048 krónur eins og umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir.

Á tímabilinu hafi bifreið kæranda bilað og hafi viðgerðarkostnaður numið 450.000 krónum samkvæmt yfirlýsingu viðgerðarmanns. Viðskiptin hafi verið nótulaus. Þá hafi kærandi þurft að kaupa ný dekk undir bifreiðina og hafi þau kostað 63.000 krónur. Mágur kæranda hafi keypt dekkin fyrir hönd kæranda en kærandi hafi síðan endurgreitt mági sínum fjárhæðina. Allur sparnaður af launatekjum kæranda, og gott betur, hafi þannig farið til greiðslu þessara óvæntu útgjalda.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að kærandi hafi fengið 400.000 krónur í vaxtabætur og 100.042 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Kærandi kveður umsjónarmann hafa brýnt fyrir sér að leggja til hliðar af launum en ekki hafi verið minnst á að leggja til hliðar af vaxtabótum. Þá hafi kærandi ekki fengið bækling sem skýrði skyldur hans við upphaf greiðsluaðlögunarumleitana og hann hafi ekki farið á heimasíðu embættis umboðsmanns skuldara. Kæranda þyki þessi misskilningur mjög leiðinlegur og því hafi hann rætt við fjársterkan ættingja sem hafi lýst sig fúsan til að veita honum 250.000 króna styrk svo umsókn kæranda um greiðsluaðlögun verði ekki felld niður.

Með tilliti til ofangreindra raka hafi kærandi að langmestu leyti útskýrt hvers vegna hann hafi ekki lagt til hliðar en aðeins séu rúmlega 250.000 krónur af vaxtabótum óútskýrðar. Ekki verði talið að það sé slík fjárhæð að leiða eigi til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. séu tilteknar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun á meðan frestun greiðslna standi yfir. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 6. september 2011 sem borist hafi kæranda með ábyrgðarbréfi. Hafi kæranda því mátt vera ljóst frá upphafi að honum bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem hann hefði aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Fyrir liggi að frestun greiðslna hafi staðið yfir frá 8. mars 2011. Greiðsluskjól kæranda hafi þannig staðið yfir í 16 mánuði miðað við tímabilið frá 1. apríl 2011 til 31. júlí 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. apríl 2011 til 31. júlí 2012 að frádregnum skatti 3.543.927
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 500.042
Samtals 4.043.969
Mánaðarlegar meðaltekjur 252.748
Framfærslukostnaður á mánuði 172.120
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 80.628
Samtals greiðslugeta í 16 mánuði 1.290.048

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 252.748 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 16 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærandi naut greiðsluskjóls.

Kærandi telji framfærslukostnað sinn hærri en umboðsmaður skuldara leggi til grundvallar. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Embættinu þyki ekki fært að miða framfærslukostnað kæranda við aðra fjárhæð en þá sem byggja megi á gögnum og framfærsluviðmiðum embættisins.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 172.120 krónur á mánuði á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum marsmánaðar 2013 fyrir einstakling. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kæranda í hag. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 1.290.048 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 80.628 krónur á mánuði í 16 mánuði. Í kæru sinni til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála miði kærandi greiðslugetu sína einungis við útborguð laun. Kæranda hafi þó vel mátt vera ljóst að hann skyldi halda til haga öllum þeim fjármunum sem hann hafi haft aflögu í lok hvers mánaðar.

Kærandi hafi ekki framvísað haldbærum gögnum sem veitt gætu tæmandi skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við 1.290.048 krónur í greiðsluskjólinu. Kærandi hafi borið því við að hann hafi greitt 300.000 krónur vegna viðgerðar á bifreið sinni. Að mati umboðsmanns skuldara teljist þeir viðskiptahættir sem kærandi lýsi í tengslum við viðgerðina þess eðlis að ekki sé hægt að telja að haldbær gögn hafi verið lögð fram. Þá kveðist kærandi hafa keypt dekk undir bifreið sína en sú fullyrðing hafi heldur ekki verið staðfest með fullnægjandi gögnum. Þótt tekið væri tillit til útskýringa kæranda sé ljóst að sá kostnaður skýri aðeins að hluta til vöntun á sparnaði.

Fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi kærandi lagt fram yfirlýsingu frá bifvélavirkja um að gert hafi verið við bíl kæranda fyrir 450.000 krónur. Yfirlýsingin ein og sér teljist að mati embættisins ekki fullnægjandi staðfesting á því að umrædd viðskipti hafi átt sér stað en áður hafi kærandi haldið því fram að viðgerðin hefði kostað 300.000 krónur. Einnig hafi kærandi lagt fram kvittun frá Vöku hf. vegna dekkjakaupa að fjárhæð 63.000 krónur en áður hafi kærandi greint frá því að dekkin hafi kostað 40.000 krónur.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og fer jafnframt fram á að umsókn hans verði aftur færð í eðlilegt greiðsluaðlögunar­ferli. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Verði fallist á kröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi leiðir það sjálfkrafa til þess að umboðsmaður skuldara fjalli um umsókn kæranda að nýju. Kröfugerð kæranda ber því að skilja með hliðsjón af því.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með greinargerð 26. júní 2012 mæltist umsjónarmaður til þess að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda 14. mars 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga, sbr. lög nr. 128/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 1.290.048 krónur frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var móttekin, eða allt frá 1. apríl 2011 til 31. júlí 2012. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kæranda hafi að meðaltali verið 80.628 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærandi hafi ekki lagt fram viðhlítandi gögn er sýni hvernig hann hafi ráðstafað fjármununum.

Kærandi kveður framfærslukostnað sinn hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Þá kveðst hann hafa greitt fyrir viðgerð á bíl sínum og kaup á dekkjum.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindum tímabilum:

 

Tímabilið 1. apríl 2011 til 31. desember 2011: Níu mánuðir  
Nettótekjur alls 1.954.280
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 217.142


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir  
Nettótekjur alls 2.829.784
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 235.815


Tímabilið 1. janúar 2013 til 28. febrúar 2013: Tveir mánuðir  
Nettótekjur alls 457.214
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 228.607


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.241.278
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 227.882

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. apríl 2011 til 28. febrúar 2013: 23 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 5.241.278
Bótagreiðslur 500.042
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 5.741.320
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 249.623
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 172.120
Greiðslugeta kæranda á mánuði 77.503
Alls sparnaður í 23 mánuði í greiðsluskjóli x 77.503 1.782.560

 

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hann fékk í hendur, að honum hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Kærandi kveðst ekki hafa áttað sig á því að honum bæri að leggja til hliðar vaxtabætur á sama hátt og launatekjur. Í fyrrgreindri greiðsluáætlun, sem dagsett er 6. september 2011, má glögglega sjá að bæði vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla eru hluti þeirrar fjárhæðar sem lögð er til grundvallar við útreikning á greiðslugetu kæranda. Þar með eru þessir fjármunir hluti þess fjár sem kæranda bar að leggja til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Mótbára kæranda að því er þetta varðar er því að mati kærunefndarinnar haldlaus.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er sýna fram á að framfærslukostnaður hans sé hærri en neysluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Er því ekki unnt að taka tillit til fullyrðingar hans þar um.

Kærandi hefur lagt fram yfirlýsingu frá bifvélavirkja 21. maí 2013 þar sem fram kemur að bifvélavirkinn hafi gert við bifreið kæranda og hafi það kostað 450.000 krónur með varahlutum. Ekki kemur fram á hvaða tíma viðgerðin fór fram, hvort fyrir hana hafi verið greitt og þá hver greiddi fyrir hana. Að sögn kæranda var um nótulaus viðskipti að ræða. Kærunefndin telur að nefnd yfirlýsing sýni ekki með fullnægjandi hætti fram á að kærandi hafi greitt 450.000 króna viðgerðarkostnað á tímabilinu.

Þá hefur kærandi lagt fram kvittun fyrir kaupum D á átta sumardekkjum að fjárhæð 63.000 krónur. Engin gögn liggja fyrir um að kærandi hafi keypt þessi dekk. Er því ekki unnt að taka tillit til þessa kostnaðar.

Samkvæmt framansögðu hefur kærandi hvorki lagt fram haldbær gögn um óvænt útgjöld né aukinn framfærslukostnað sinn á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hefur ekki lagt neina fjármuni til hliðar í greiðsluskjólinu en samkvæmt framangreindu hefði hann átt að getað lagt til hliðar 1.782.560 krónur á tímabilinu.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta