Nr. 176/2018 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 176/2018
Þriðjudaginn 28. ágúst 2018
A
gegn
Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.
Með kæru, dags. 15. maí 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. apríl 2018.
I. Málavextir og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 22. febrúar 2018, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2018. Umsókn kæranda var samþykkt og henni kynnt greiðsluáætlun með ákvörðun, dags. 23. apríl 2018, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði 171.711 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 15. maí 2018. Með bréfi, dags. 16. maí 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 6. júní 2018, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. júní 2018. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi þegið foreldragreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins í X ár vegna langveiks barns hennar. Eftir að barnið hafi byrjað á leikskóla hafi hún farið aftur út á vinnumarkaðinn og unnið í sex mánuði eða þar til hún hafi eignast annað barn. Kærandi kveðst ósátt við að greiðslur hennar frá Fæðingarorlofssjóði séu reiknaðar út frá launum á tímabilinu X 2016 til X 2017. Á því tímabili sé einungis einn launaseðill og foreldragreiðslur komi ekki fram í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Kærandi fer fram á að foreldragreiðslurnar verði teknar með í útreikning á fæðingarorlofsgreiðslunum.
III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs
Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr. laganna. Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna.
Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns eða þann mánuð er barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur samkvæmt a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðarsjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e liði 2. mgr. 13. gr. a laganna. Í 2. mgr. 13. gr. segi enn fremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 sé kveðið á um að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.
Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2018 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem hún hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið X 2016 til X2017. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá um tekjur hennar á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á því að þær hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Þá liggi fyrir greiðsluáætlanir frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir árin 2016 og 2017 ásamt skýringum á þeim greiðslum sem þar komi fram.
Fæðingarorlofssjóður tekur fram að á tímabilinu X 2016 til X 2017 hafi kærandi ekki verið á innlendum vinnumarkaði. Kærandi hafi á því tímabili þegið greiðslur frá Tryggingastofnun sem séu undanskildar greiðslu tryggingagjalds samkvæmt 9. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald og falli ekki undir stafliði a-e í 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Því komi þær greiðslur ekki til útreiknings á meðaltali heildarlauna kæranda samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laganna. Í X 2017 hafi kærandi þegið greiðslu frá vinnuveitanda sínum sem sé tekin með við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í samræmi við reglu 2. mgr. 13. gr. um að aldrei skuli miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna reiknist meðaltal heildarlauna kæranda 83.404 kr. Sú fjárhæð hafi verið hækkuð í 171.711 kr. á grundvelli 7. mgr. 13. gr. laganna, sbr. einnig 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 og b-lið 1. gr. reglugerðar nr. 1188/2017, sem eigi við í tilviki kæranda. Í kæru fari kærandi fram á að einungis sé horft á launaseðla hennar og reiknað sé út frá þeim. Hvorki í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1218/2008 sé að finna heimild til að reikna meðaltal heildarlauna kæranda með þeirri aðferð sem hún óski eftir eða til að víkja frá þeim lagaákvæðum sem rakin hafi verið hér að framan.
Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. [23. apríl] 2018, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hennar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 23. apríl 2018, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 171.711 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.
Í 1. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, greiðslur samkvæmt a- og b-lið 5. gr. laga um Ábyrgðarsjóð launa, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a-e liði 2. mgr. 13. gr. a laganna. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun samkvæmt 2. málsl. eða reiknað endurgjald samkvæmt 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.
Samkvæmt 1. mgr. 13. a laga nr. 95/2000 felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna, en þar segir að starfsmaður sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá kemur fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist enn fremur:
a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,
b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,
c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til [sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga],2) eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,
d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,
e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.
Barn kæranda fæddist X 2018. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum skal því mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið X 2016 til X 2017. Á tímabilinu X 2016 til X 2017 fékk kærandi greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli IV. kafla laga nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, en í X 2017 starfaði hún hjá vinnuveitanda sínum. Í ljósi framangreindra lagaákvæða telst kærandi því einungis hafa verið á innlendum vinnumarkaði síðasta mánuð viðmiðunartímabilsins.
Kærandi hefur óskað eftir að greiðslur til hennar úr Fæðingarorlofssjóði verði reiknaðar út frá framangreindum greiðslum frá Tryggingastofnun. Skýrt er kveðið á um það í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 að einungis greiðslur samkvæmt III. kafla laga nr. 22/2006 teljist til launa sem fæðingarorlofsgreiðslur skuli taka mið af. Foreldragreiðslur sem kærandi hefur fengið eru greiddar samkvæmt IV. kafla laganna. Ljóst er því að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 23. apríl 2018, er í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 95/2000. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 23. apríl 2018, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson