Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 561/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 561/2020

Föstudaginn 29. janúar 2021

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 2. nóvember 2020, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, úrskurð Barnaverndarnefndar B, dags. 13. október 2020, um að eftirlit verði haft með heimili drengsins, D, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er á X aldursári en hann er sonur kæranda og E. Foreldrar drengsins fara með sameiginlega forsjá hans. Fjölskyldan er frá F og búa þau mæðgin á Íslandi.

Mál drengsins hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum og hafa alls borist tólf tilkynningar vegna málsins. Barnavernd hefur tvisvar þurft að taka drenginn af heimili móður vegna óviðunandi aðstæðna.

Samkvæmt hinum kærða úrskurði var ákveðið að óboðað eftirlit skuli haft með heimili kæranda og sonar hennar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Barnaverndarnefnd B ákveður að eftirlit verði haft með heimili drengsins D, sbr. a liður 1. mgr. 26. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Úrskurður þessi gildir í fjóra mánuði.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 10. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Barnaverndarnefndar B vegna kærunnar. Greinargerð Barnaverndarnefndar B barst með bréfi, dags. 11. desember 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2020, var hún send lögmanni kæranda til kynningar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B verði felldur úr gildi.

Í kæru kemur fram að afskipti barnaverndar af málefnum kæranda hafi frá upphafi einkennst af óhóflega hörðum aðgerðum og kröfum til kæranda. Kærandi byggi á því að sú ráðstöfun að úrskurða um eftirlit með heimili sínu sé tvímælalaust óþörf og úr hófi. Kærandi telji ljóst að þær meginreglur sem gildi um barnaverndarstarf, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), hafi hvorki verið í hávegum hafðar í starfi barnaverndar né í úrskurði Barnaverndarnefndar B.

Líkt og fram komi í dómi héraðsdóms, þar sem fallist hafi verið á tímabundna vistun barnsins utan heimilis, hafi þau tilvik sem barnavernd reisti mál sitt á verið smávægileg og ekki til þess fallin að vera grundvöllur ákvörðunar um vistun utan heimilis. Eina atvikið sem héraðsdómur hafi álitið alvarlegt hafi verið atvik sem átti sér stað í desember 2019 þar sem byggt hafi verið á því að kærandi hefði skilið drenginn eftir einan heima þegar hún hafi farið út að skemmta sér. Hið sanna í málinu sé að drengurinn hafi ekki verið skilinn eftir einn heima. Barnfóstra hafi verið á staðnum en hún hafi verið úti að reykja þegar lögreglan kom á staðinn. Barnfóstran, sem sé af erlendu bergi brotin, hafi starfað hér á landi án leyfis og ekki þorað að snúa aftur í íbúð kæranda þegar hún hafi séð lögregluna. Kærandi hafi í upphafi skýrt frá þessu og svo hafi drengurinn einnig gert þegar loksins hafi verið talað við hann með aðstoð túlks í apríl 2020. Í gögnum málsins komi fram að í desember 2019 hafi barnið ekki enn öðlast góða færni í íslensku. Það hafi því vitanlega átt að ræða við barnið í öndverðu með aðstoð túlks ef byggja ætti að einhverju leyti á frásögn þess. Í upphafi virðast viðbrögð barnaverndar hafa byggst á misskilningi vegna tungumálaörðugleika. Eftir að kærandi hafi skýrt rétt frá hafi aldrei verið tekið mark á henni og upplifi hún vissa fordóma í sinn garð. Kærandi hafi lagt fram sterk sönnunargögn á fundi Barnaverndarnefndar B 6. október 2020 sem hefðu átt að taka af allan vafa um að í reynd hafi drengurinn aldrei verið skilinn eftir einn heima. Þar sem umrætt tilvik hafi byggst á misskilningi og önnur tilvik fram að þessu hafi verið smávægileg telji kærandi ljóst að afskipti barnaverndar hafi verið óþörf.

Varðandi tilvik þann 26. mars 2020 hafi barnavernd haldið því ranglega fram að kærandi hafi verið undir slíkum áhrifum áfengis að hún gæti ekki séð um drenginn. Þá sé það orðum aukið að halda því fram að um hafi verið að ræða „neyslu og partý“, eins og það hafi verið orðað í bókun Barnaverndarnefndar B, dags. 8. apríl 2020. Hið sanna í málinu sé að kærandi hafi fengið fáeina vini í heimsókn og áfengi verið haft um hönd. Um rólega stemningu hafi verið um að ræða. Vinir kæranda þekki drenginn og hafi leikið við hann. Kærandi hafi drukkið einn kokteil. Á fundi Barnaverndarnefndar B hafi einnig verið lögð fram sterk sönnunargögn sem styðji frásögn hennar varðandi þetta tilvik. Það að áfengi hafi mælst í kæranda daginn eftir sé ekki til sönnunar um að hún hafi verið drukkin þegar barnavernd bar að garði. Jafnvel þó að barnavernd telji óæskilegt að börn séu viðstödd þegar áfengi sé haft um hönd, sé ljóst að slíkt sé ekki ólöglegt og engin spurning að stór hluti fólks neyti áfengis í návist barna sinna án þess að það teljist barnaverndarmál. Kærandi telji sig ekki njóta jafnræðis á við hinn almenna borgara í þessum efnum sem sé í andstöðu við 6. mgr. 4. gr. bvl.

Kærandi upplifi afskipti barnaverndar af málum hennar og drengsins sem gerræðisleg og lituð af fordómum í hennar garð. Hún telji barnavernd og Barnaverndarnefnd B ítrekað hafa gerst brotleg við meðalhófsreglu barnaverndarréttar, sbr. 7. mgr. 4. gr. bvl., enda hafi ekki verið leitast eftir því að beita vægustu mögulegu úrræðum. Augljóst dæmi um óhóflegar aðgerðir barnaverndarnefndar sé krafa um að kærandi leggist inn á G vegna meintrar áfengissýki. Kærandi mótmæli því að vera haldin áfengissýki en hún hafi sagst tilbúin að leita annarra vægari úrræða en að leggjast inn á meðferðardeild. Sá möguleiki hafi aldrei staðið kæranda til boða. Í ljósi þessa dæmi fordómafull orð barnaverndar um meint innsæisleysi kæranda sig því sjálf. Kærandi telji einnig bersýnilegt að barnavernd hafi ekki sýnt vilja til samvinnu og hafi því gerst brotleg við 4. mgr. 4. gr. bvl.

Kærandi sé góð móðir. Hún sinni drengnum sínum vel og þekki þarfir hans. Drengurinn sé hamingjusamur með móður sinni og dafni vel. Þetta komi skýrt fram í gögnum málsins. Engin dæmi séu um vanrækslu af hálfu móður sem réttlæti afskipti barnaverndarnefndar. Kærandi telji engan fót fyrir aðgerðum þeim sem hún sé látin sæta. Óboðað eftirlit á heimili kæranda sé alvarlegt inngrip í friðhelgi einkalífs hennar og barns hennar sem njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Það hljóti einnig að samræmast hagsmunum barnsins og vera því fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl., að svo mikilvæg mannréttindi sem um ræði séu ekki af óþarfa takmörkuð.

III.  Sjónarmið Barnaverndarnefndar B

Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð barnaverndarnefndar kemur fram að um sé að ræða sjö ára gamlan dreng sem lúti sameiginlegri forsjá foreldra sinna, A og E. Fjölskyldan sé frá F og hafi mæðginin verið á Íslandi í þrjú ár samkvæmt upplýsingum frá kæranda. Faðir búi í F. Alls hafi tólf tilkynningar borist í máli drengsins sem snúi allar að áfengisneyslu móður hans eða heimilisofbeldi. Barnavernd hafi í tvígang þurft að taka drenginn af heimili kæranda vegna óviðunandi aðstæðna og áfengisdrykkju, í desember 2019 og aftur í mars 2020. Í desember 2019 hafi kærandi skilið drenginn eftir einan heima að nóttu til á meðan hún hafi farið út að skemmta sér. Drengurinn hafi í kjölfarið, með samþykki kæranda, verið vistaður á H frá 21. desember 2019 til 8. janúar 2020. Kærandi sinnti drengnum vel á meðan á vistuninni stóð. Könnun hafi verið lokið og gerð hafi verið meðferðaráætlun með kæranda, dags. 8. janúar 2020, þar sem meðal annars komi fram að hún myndi sækja viðtöl með áfengis- og vímuefnaráðgjafa og halda algjörri edrúmennsku. Drengnum yrði fylgt eftir í umsjá kæranda með óboðuðu eftirliti og í skóla.

Tilkynning hafi borist 22. janúar 2020 undir nafnleynd um að drengurinn væri skilinn eftir einn heima á kvöldin og um helgar á meðan kærandi fari út að skemmta sér. Kærandi væri í neyslu áfengis og fíkniefna. Í samtali við starfsmann hafi kærandi neitað allri neyslu og í óboðuðu eftirliti hafi ekkert komið fram sem benti til neyslu kæranda. Önnur tilkynning hafi borist 26. mars 2020 þegar neysla og partý hafi verið á heimili móður og drengsins um miðjan dag á virkjum degi. Bakvakt barnaverndar hafi farið á heimilið og kærandi augljóslega verið undir áhrifum áfengis og ófær um að annast drenginn. Drengurinn hafi verið færður úr umsjá kæranda. Daginn eftir þegar starfsmenn hafi farið á heimili kæranda hafi hún mælst með áfengi í sér. Óskað hafi verið eftir samvinnu hennar um vistun drengsins en kærandi hafi hafnað því. Þann 27. mars 2020 hafi neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. bvl. verið beitt þar sem kærandi samþykkti ekki að drengurinn yrði vistaður utan heimilis. Málefni drengsins hafi farið fyrir fund Barnaverndarnefndar B þann 8. apríl 2020 þar sem úrskurðað hafi verið um vistun drengsins í tvo mánuði og borgarlögmanni falið að gera kröfu um áframhaldandi vistun í tvo mánuði til viðbótar. Kærandi hafi kært úrskurðinn til Héraðsdóms B sem staðfesti úrskurð nefndarinnar þann 2. júní 2020 og samþykkti vistun drengsins til 8. ágúst 2020. Drengurinn hafi dvalið allan tímann á H og farið aftur í umsjá kæranda 8. ágúst 2020. Hann hafi verið í umgengni við kæranda á tímabilinu sem hafi gengið vel. Á tímabili áætlunar leitaði kærandi sér ekki meðferðar eins og lagt hafi verið upp með í áætlun um meðferð máls en áhyggjur hafi verið um edrúmennsku kæranda. Í eitt skipti hafi áfengisneysla verið staðfest þegar drengurinn hafi verið í umgengni hjá kæranda frá H. Fjórar tilkynningar hafi borist á tímabili vistunar. Þegar vistun hafi lokið þann 8. ágúst 2020 hafi ekki verið talin ástæða til þvingunar, þrátt fyrir áhyggjur starfsmanna af áfengisneyslu og innsæisleysi kæranda. Það hafi verið lagt til að gerð yrði meðferðaráætlun með kæranda. Reynt hafi verið að fá kæranda til að gera meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. bvl. en afstaða kæranda hafi verið skýr um að hún vilji enga samvinnu við barnavernd. Við vinnslu málsins hafi komið fram í samtölum starfsmanns barnaverndar við kæranda innsæisleysi hennar í eigin vanda. Hún telji sig ekki eiga við áfengisvanda að stríða og telji sig ekki þurfa meðferð. Ítrekað hafi verið rætt við kæranda að hún verði að láta af allri áfengisdrykkju og búa drengnum öruggt heimili.

Eins og fram hafi komið þótti ekki tilefni til frekari vistunar þegar vistun hafi lokið samkvæmt niðurstöðu Héraðsdóms B 8. ágúst 2020. Engu að síður hafi verið miklar áhyggjur af drengnum í umsjá kæranda og uppeldisaðstæðum hans. Í ljósi samvinnuleysis kæranda hafi málið verið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B þann 6. október 2020. Fyrir fundinn hafi legið fyrir greinargerð starfsmanna, dags. 28. september 2020, þar sem hafi verið lagt til að gerð yrði meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. bvl. til fjögurra mánaða þar sem fram komi að óboðað eftirlit verði haft með heimili kæranda og tekin verði vímuefnapróf af henni ef þurfa þyki, kærandi sæti þjónustu á göngudeild I og samvinna verði við meðferðaraðila kæranda og þjónustumiðstöð. Drengnum yrði fylgt eftir í listmeðferð og skóla. Ef kærandi yrði ekki til samvinnu um fyrrgreint hafi verið lagt til að gerð yrði einhliða áætlun um meðferð máls samkvæmt 4. mgr. 23. gr. bvl. Enn fremur hafi verið lagt til að Barnaverndarnefnd B myndi úrskurða í málinu um óboðað eftirlit á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl. ef kærandi yrði ekki til samvinnu.

Kærandi hafi mætt á fund nefndarinnar 6. október 2020 ásamt lögmanni sínum. Lögmaður hafi gert grein fyrir afstöðu kæranda sem samþykkti hvorki gerð áætlunar um meðferð máls né óboðað eftirlit.

Á fundi sínum þann 6. október 2020 hafi það verið niðurstaða Barnaverndarnefndar B í ljósi allra gagna málsins og þess sem hafi komið fram á fundi nefndarinnar að ástæða væri til að hafa áhyggjur af uppeldisaðstæðum drengsins í umsjá móður sinnar. Nefndin hafi ítrekað mikilvægi þess að kærandi verði til samstarfs um að bæta uppeldiaðstæður drengsins í sinni umsjá, viðhalda edrúmennsku og þiggja stuðningsúrræði sér og drengnum til handa. Í ljósi þess að kærandi hafi ekki verið til samvinnu um gerð áætlunar um meðferð máls samkvæmt 23. gr. bvl. hafi starfsmönnum verið falið að gera einhliða meðferðaráætlun í málinu til þriggja mánaða þar sem meðal annars komi fram að drengurinn fái notið listmeðferðar, samvinna verði við meðferðaraðila, þjónustumiðstöð og drengnum fylgt eftir í skóla. Þá taldi nefndin nauðsynlegt að fylgst verði með edrúmennsku kæranda, meðal annars með óboðuðu eftirliti til þess að tryggja viðunandi uppeldisaðstæður fyrir drenginn. Þar sem kærandi hafi ekki verið samþykk því að óboðað eftirlit verði á heimili hennar hafi málið verið tekið til úrskurðar og úrskurður verið kveðinn upp þann 13. október 2020.

Í samræmi við bókun nefndarinnar frá 6. október 2020 hafi verið gerð einhliða áætlun um meðferð máls samkvæmt 4. mgr. 23. gr. bvl. Frá úrskurði nefndarinnar hafi verið unnið að því að fá kæranda til að samþykkja viðtöl hjá listmeðferðarfræðingi fyrir drenginn og hafi það tekist að lokum. Hann hafi fyrst fengið viðtöl í gegnum internetið en efasemdir hafi verið um að hann hafi nýtt sér það. Nú hafi beiðni um viðtöl verið send að nýju og kærandi hafi samþykkt það.

Við ritun greinargerðar barnaverndar hafi frá úrskurði nefndarinnar óboðað eftirlit átt að fara fram átta sinnum á heimili kæranda. Í þrjú skiptanna hafi eftirlitið farið fram en ekki gengið í fimm skipti. Þá beri gögn málsins með sér að þann 25. nóvember 2020 hafi kærandi blásið í áfengismæli og í henni mælst áfengismagn. Kærandi hafi viðurkennt að hún hafi drukkið eitt glas. Bakvakt hafi verið kölluð til á heimilið, kærandi hafi þá ekki verið heima en móðir kæranda hafi verið með drenginn. Síðar um kvöldið hafi kærandi haft samband við bakvakt og kvaðst vera komin heim og hætt að drekka.

Fyrir liggi í máli drengsins að ýmis úrræði og stuðningur samkvæmt 24. og 25. gr. bvl. hafi verið reynd að hálfu barnaverndar til þess að tryggja viðunandi uppeldisaðstæður drengsins í umsjá kæranda. Samkvæmt 26. gr. barnaverndarlaga geti nefndin úrskurðað meðal annars um eftirlit með heimili, hafi úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. ekki skilað árangri að mati nefndarinnar eða eftir atvikum komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Í máli þessu sé það mat starfsmanna Barnaverndar B, sem unnið hafi málefni drengsins, og jafnframt mat Barnaverndarnefndar B að mikilvægt sé að eftirlit sé haft með heimili drengsins og þannig reynt eftir fremsta megni að tryggja viðunandi uppeldisaðstæður hans og öryggi. Kærandi hafi ekki verið til samvinnu um áframhaldandi stuðning eftir að vistunartíma hafi lokið en áfram séu miklar áhyggjur af stöðu drengsins í hennar umsjá en ekki hafi þótt tilefni til áframhaldandi vistunar. Barnaverndarnefnd hafi því ekki haft önnur úrræði en þau að kveða á um eftirlit eins og gert hafi verið með hinum kærða úrskurði sem sé ætlað að tryggja að grunnþörfum drengsins sé mætt á heimilinu.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn D er fæddur árið X og fara foreldrar hans með sameiginlega forsjá. Kærandi er móðir drengsins. Með hinum kærða úrskurði Barnaverndarnefndar B var ákveðið að eftirlit verði haft með heimili drengsins á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. bvl.

Kærandi krefst þess að úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 13. október 2020 verði felldur úr gildi. Kærandi telur að barnavernd hafi ekki sýnt vilja til samvinnu við kæranda og hafi því brotið gegn 5. mgr. 4. gr. bvl. Þá telur kærandi að hvorki jafnræðis né meðalhófs hafi verið gætt við meðferð málsins, sbr. 6. og 7. mgr. 4. gr. bvl. Barnaverndarnefnd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í 26. gr. bvl. er fjallað um úrræði án samþykkis foreldra. Í a-lið 1. mgr. 26. gr. bvl. segir að hafi úrræði samkvæmt 24.og 25. gr. ekki skilað árangri að mati barnaverndarnefndar, eða eftir atvikum að barnaverndarnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi, getur nefndin gegn vilja foreldra með úrskurði kveðið á um eftirlit með heimili. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. bvl. kemur fram að ráðstafanir samkvæmt 1. mgr. skuli ávallt vera tímabundnar og eigi standa lengur en þörf krefur hverju sinni og skulu endurskoðaðar eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti. Í athugasemdum við 26. gr. í frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segir að úrræðin sem greinin mælir fyrir um eigi við ef úrræði samkvæmt 24. og 25. gr. hafa ekki skilað árangri eða eftir atvikum barnaverndarnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullnægjandi. Þetta sé í samræmi við þá reglu að ávallt skuli fyrst freista þess að beita þeim úrræðum fyrst sem skemmst ganga.

Í málinu liggur fyrir greinargerð félagsráðgjafa, dags. 28. september 2020, þar sem fram kemur að reynt hafi verið til þrautar að fá kæranda til þess að gera meðferðaráætlun samkvæmt 23. gr. bvl. en án árangurs. Í málinu liggur fyrir að ýmis úrræði og stuðningur samkvæmt 24. og 25. gr. bvl. hafi verið reynd til þess að tryggja viðunandi uppeldisaðstæður fyrir drenginn sem hafa ekki skilað árangri. Það verður því ekki fallist á að barnavernd hafi ekki gætt þess að eiga góða samvinnu við kæranda, sbr. 4. mgr. 4. gr. bvl., við meðferð og úrlausn málsins.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru það hagsmunir drengsins að eftirlit verði haft með heimili hans. Með vísan til þess telur úrskurðarnefnd velferðarmála að úrskurður Barnaverndarnefndar B um að hafa eftirlit með heimili drengsins hafi verið byggður á lögmætum sjónarmiðum og ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af uppeldisaðstæðum drengsins í umsjá kæranda. Því verður engin stoð fundin fyrir því að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 6. mgr. 4. gr. bvl. eða meðalhófsreglu 7. mgr. 4. gr. bvl. Með vísan til alls framangreinds ber að staðfesta hinn kærða úrskurð


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B, dags. 13. október 2020, um að eftirlit verði haft með heimili drengsins D er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta