Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 76/2021 - Úrskurður-Endurupptekin

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 24. janúar 2022

í enduruppteknu máli nr. 76/2021

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögfræðingur og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða tryggingarfé að fjárhæð 60.000 kr.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 2. ágúst 2021, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 6. ágúst 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Bréfið var bæði sent á uppgefið heimilisfang í kæru sem og lögheimili varnaraðila en kom endursent í báðum tilvikum. Þá reyndi kærunefnd ítrekað að ná sambandi við varnaraðila símleiðis til að óska eftir afstöðu hennar til kærunnar en án árangurs.

Með tölvupósti varnaraðila, dags. 12. desember 2021, barst kærunefnd beiðni um endurupptöku málsins á þeirri forsendu að henni hafi ekki borist kæra sóknaraðila. Jafnframt lagði hún fram gögn og rökstuðning fyrir kröfu sinni um að hafna bæri kröfu sóknaraðila. Nefndin féllst á endurupptökubeiðnina með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og fékk sóknaraðili gögn varnaraðila send í gegnum vefgátt kærunefndar 7. janúar 2022 þar sem honum var gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu munnlegan leigusamning frá 1. maí 2021 um leigu sóknaraðila á herbergi varnaraðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að hann hafi greitt tryggingarfé að fjárhæð 60.000 kr. Mánuði áður en hann flutti út náði hann ekki sambandi við varnaraðila og hefur hann árangurslaust reynt það síðan. Hann hafi flutt út 30. júní 2021.

Samkvæmt skilningi sóknaraðila sé uppsagnarfrestur á samningnum en hann hafi með mánaðarfyrirvara reynt að ná sambandi við varnaraðila en án árangurs. Hann hafi reglulega reynt að hringja í hana sem og son hennar.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að sóknaraðili hafi leigt herbergið og greitt 60.000 kr. þann 1. maí 2021. Sóknaraðili hafi greitt 60.000 kr. til sonar varnaraðila síðar, en hann hafi jafnframt búið í íbúðinni. Sóknarraðili hafi látið son varnaraðila hafa lyklana 1. júlí 2021 og upplýst að hann væri farinn úr íbúðinni.

Sóknaraðili hafi hvorki látið varnaraðila né son hennar vita að hann hygðist flytja út. Hann hafi jafnframt gist á gistiheimili varnaraðila úti á landi 24. maí 2021, án þess að upplýsa að hann væri að flytja úr íbúðinni í Reykjavík. Maður varnaraðila hafi gist í íbúðinni í Reykjavík 21. júní 2021 en sóknaraðili hafi ekkert minnst á að hann hygðist flytja.

Það sé með ólíkindum að hann haldi því fram að hafa árangurslaust reynt að ná í varnaraðila allan þennan tíma. Við upphaf leigutíma hafi hann nefnt að hann hafi viljað leigja í að minnsta kosti eitt ár eða lengur. Hann hafi verið í íbúðinni í tvo mánuði, eða frá 1. maí til 1. júlí. Herberginu hafi verið skilað fyrirvaralaust og því hafi ekki verið unnt að leigja það út að nýju fyrr en 16. ágúst 2021.

 

 

IV. Niðurstaða            

Í ákvæði 1. mgr. 10. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að hafi aðilar vanrækt að gera skriflegan leigusamning teljist þeir hafa gert ótímabundinn leigusamning og gilda öll ákvæði laganna um réttarsamband þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. sömu laga skal greiða húsaleigu fyrsta dag hvers mánaðar fyrir fram fyrir einn mánuð í senn, nema um annað sé samið.

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa leigt herbergi innan íbúðar sinnar fyrir 60.000 kr. á mánuði. Eftir að hafa haft afnot af herberginu í tvo mánuði frá 1. maí til 30. júní 2021 hafi sóknaraðili flutt út fyrirvaralaust 1. júlí 2021. Þessu hefur ekki verið mótmælt af hálfu sóknaraðila.

Með hliðsjón af framangreindu verður ráðið að sóknaraðili hafi ekki greitt varnaraðila tryggingarfé heldur leigu fyrir tvo mánuði eða þann tíma sem hann hafði herbergið á leigu. Eru því engin efni til að fallast á kröfu sóknaraðila.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu sóknaraðila er hafnað.

 

Reykjavík, 24. janúar 2022

f.h. kærunefndar húsamála

 

Auður Björg Jónsdóttir formaður

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta