Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 270/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 270/2020

Miðvikudagurinn 7. október 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 3. júní 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. apríl 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 6. febrúar 2020. Með örorkumati, dags. 7. apríl 2020, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. janúar 2020 til 30. apríl 2022. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar með fyrirspurn þann 21. apríl 2020 og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 22. apríl 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. júní 2020. Með bréfi, dags. 4. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. júlí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júlí 2020. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærandi fari fram á að hún verði metin til fullrar örorku.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún sé með rökstuðning eða vottorð frá tveimur öðrum læknum um hærra örorkumat. Þá hafi hún verið óvinnufær í tvö ár.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 7. apríl 2020, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en veita henni örorkustyrk.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. 

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyri frá 1. júlí 2018 til 31. desember 2019. Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 6. febrúar 2020. Niðurstaða örorkumats hafi verið sú að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar en hafi hins vegar verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Kæranda hafi verið tilkynnt um matið með bréfi, dags. 7. apríl 2020. Matið hafi gilt frá 1. janúar 2020 til 30. apríl 2022.

Kærandi hafi sent beiðni um rökstuðning þann 21. apríl 2020 og verið svarað með bréfi stofnunarinnar þann 22. sama mánaðar.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Í örorkumatinu þann 7. apríl 2020 hafi meðal annars legið fyrir læknisvottorð, dags. 24. febrúar 2020, umsókn kæranda, dags. 6. febrúar 2020, svör kæranda við spurningalista, dags. 17. febrúar 2020, starfsgetumat VIRK, dags. 15. janúar 2020, og skoðunarskýrsla, dags. 7. apríl 2020. Einnig hafi legið fyrir nokkur fjöldi eldri gagna.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurf umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái 6 stig í hvorum hluta staðalsins.

Kærandi sé X ára gömul kona, gift og eigi X börn, þar af […]. Hún hafi verið á vinnumarkaði og starfað við X og á X allan seinni hluta ársins 2017. Hún hafi ekki verið á vinnumarkaði síðan. Kærandi hafi sögu um slæmt mígreni. […]. Hún hafi langa sögu um kvíða og þunglyndi. Mikið álag sé á heimilinu vegna […]. Einnig sé verkjasaga. Vísað sé til læknisvottorðs og skoðunarskýrslu varðandi frekari lýsingu á heilsufari kæranda.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi engin líkamleg vandamál verið nægileg til þess að hafa áhrif á mat skoðunarlæknis.

Þegar andlegi hlutinn hafi verið skoðaður hafi komið fram að kærandi ergi sig yfir því sem hefði ekki angrað hana áður en hún varð veik og að andlegt álag hafi átt þátt í því að hún lagði niður starf. Einnig komi fram að hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. 

Í örorkumati Tryggingastofnunar hafi kærandi ekkert stig hlotið í líkamlega hlutanum en fjögur stig í þeim andlega. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt, en færni kæranda til almennra starfa hafi talist skert að hluta og henni hafi verið metinn örorkustyrkur, 50% örorka, frá 1. janúar 2020 til 30. apríl 2022.

Við vinnslu kærunnar hafi verið farið ítarlega yfir öll fyrirliggjandi gögn málsins, en kærandi hafi ekki sent inn nein ný gögn með kæru. Eftir þá yfirferð hafi Tryggingastofnun ekki talið ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun. Tryggingastofnun leggi skoðunarskýrslu, dags. 7. apríl 2019, til grundvallar í málinu. Ekki sé annað að sjá en að skýrsla skoðunarlæknis sé í samræmi við þau gögn sem liggi fyrir í málinu. Ef skoðunarskýrslan sé borin saman við læknisvottorð sem liggi fyrir í málinu þá sé ekki hægt að sjá ósamræmi á milli þeirra og niðurstöðu skoðunarlæknis. Hið sama gildi um gögn frá VIRK. Tryggingastofnun hafi sérstaklega farið yfir svör kæranda við spurningalista, dags. 17. febrúar 2020.

Í svörum við nokkrum liðum í líkamlega hlutanum komi fram að kærandi telji sig eiga erfitt með þá en fái þó ekki stig fyrir þá. Þó að fram komi í svörum kæranda í spurningalistanum að hún eigi í einhverjum erfiðleikum með þessi þætti listans, séu lýsingar hennar á þeim þess eðlis að kærandi eigi ekki rétt því að fá stig fyrir þá og stigagjöf skoðunarlæknis sé mjög vel rökstudd. Skuli sérstaklega bent á þættina að standa, að nota hendurnar, að teygja sig eftir hlutum, að lyfta og bera, sjón og heyrn.

Í þeim þremur liðum, sem taki á notkun og beitingu handa komi fram almenn lýsing kæranda á því að geta átt erfitt með að nota hendurnar vegna vöðvabólgu og verkja. Við öllum þremur liðunum komi skýrt og afdráttarlaust mat skoðunarlæknis sem sé í fullu samræmi við fyrirliggjandi læknisfræðileg gögn. 

Einnig sé rétt að minnast á svar kæranda við spurningunni um að standa. Ekki sé hægt að sjá að kærandi eigi í það miklum erfiðleikum með að standa að hún eigi að fá stig fyrir þann þátt staðalsins með hliðsjón af læknisfræðilegum gögnum og rökstuðningi skoðunarlæknis við þeim þætti staðalsins og almennum athugasemdum hans um líkamsskoðun í skoðunarskýrslu.

Kærandi fái fjögur stig í andlega hlutanum. Kærandi geri í kæru sinni ekki neinar sérstakar athugasemdir við mat stofnunarinnar í andlega hlutanum. Stigagjöf skoðunarlæknis í andlega hlutanum sé einnig mjög vel rökstudd og í samræmi við fyrirliggjandi gögn.

Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda þess efnis að synja henni um örorkulífeyri en veita örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Ákvörðun sú, sem kærð sé, hafi byggst á faglegum sjónarmiðum, gildandi lögum og reglugerðum.

Telji kærandi að þau gögn, sem hafi legið fyrir við örorkumatið, gefi ranga mynd af ástandi hennar, sé kæranda alltaf frjálst að senda inn nýja umsókn með nýjum gögnum.

Að lokum vilji Tryggingastofnun taka það fram að þegar kærandi hafi sótt um örorkulífeyri þá hafi verið í gangi meðferð á nýlegri umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri og búið hafi verið að óska eftir frekari gögnum til þess að hægt væri að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar. Þau gögn hafi ekki borist svo að þeirri umsókn hafi verið vísað frá.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. apríl 2020, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 24. febrúar 2020. Þar kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. desember 2017 en að búast megi við að færni aukist með tímanum.

Í vottorðinu segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„MIGRAINE

SPENNUHÖFUÐVERKUR

ÞUNGLYNDI

KVÍÐI

MYALGIA

STREITURÖSKUN EFTIR ÁFALL“

Um fyrra heilsufar segir í vottorðinu:

„Var áður almennt hraust byrjar að fá mígreni um X árs, eftir það fer hún að eiga í vanda“.

Um núverandi heilsuvanda og færniskerðingu segir í vottorðinu:

„Hefur lengi verið með mígreni og höfuðverkjavanda. Mikil álag í fjölskyldu vegna […] hefur valdið henni miklum kvíða. Er greind með þunglyndi og áfallastreitu. Hefur verið í endurhæfingu á vegum VIRK en sú staða uppi að endurhæfing er fullreynd í bili og ekki forsendur til að hún komist aftur á vinnumarkaðinn í bili.

Daglegir slæmir höfuðverkir og lamandi kvíði og vanlíðan.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„flatur affect, verulega stífni í hálsi og milli heðrablaða. Mikil eymsli við þreifingu“

Við örorkumatið lá fyrir starfsgetumat VIRK, dags. 15. janúar 2020, og segir þar um ástæðu þjónustuloka:

„Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin fullreynd. Ekki er talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.“

Í samantekt og áliti segir:

„X ára gömul kona með sögu um slæmt mígreni frá X. […] Lengst af verið að vinna við X en síðast í X á X. Löng saga um kvíða og þunglyndiseinkenni. Verið hjá Virk síðan X 2018. Hefur m.a. verið í sálfræðiviðtölum sem hafa nýst henni vel. Kvíða- og þunglyndiseinkenni þó áfram til staðar.[…] Megin orsök óvinnufærni hinsvegar mígreniköstin sem farið hafa versnandi með árunum. Að fá slæm köst 1-2 í viku er auk þess með verki þar á milli. Köstin standa yfir í nokkrar klst. og upp í heilan dag, misslæm, oft að kasta upp, ljósfælin og þarf helst að vera í myrkri. Álagsþol hennar takmarkað og orkuleysi til staðar. Einnig með vöðvabólgueinkenni.

Þrátt fyrir starfsendurhæfingarúrræði litlar breytingar og ekki að færast nær vinnumarkaði. Starfsendurhæfing því fullreynd á þessum tímapunkti og mikilvægt að meiri stöðugleiki náist, sérstaklega varðandi mígreniköstin og í nærumhverfi hennar. . Ljóst að mati undirritaðs að starfsgeta þessarar konu er mikið skert. Mælt með áframhaldandi eftirliti innan heilbrigðiskerfisins.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með mígreni sem hún fái oft í mánuði, vefjagigt og mikinn kvíða sem fylgi því. Þá sé hún með áfallastreitu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að hún eigi erfitt með að standa lengi í einu, hún fái verki í fæturna og orkan sé ekki mikil. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beita höndunum þannig að hún geti átt erfitt með að nota hendur vegna vöðvabólgu og verkja í öxlum sem leiði niður í hendur. Þá fái hún reglulega náladofa í hendurnar og sé mjög oft illt í höndunum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að hún geti átt erfitt með að nota hendur og teygja sig eftir hlutum vegna vöðvabólgu og verkja í öxlum sem leiði niður í hendur. Hún fái reglulega náladofa í hendurnar og sé mjög oft illt í höndunum. Þess vegna geti verið erfitt að lyfta og bera. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með sjón þannig hún sé að fara að fá gleraugu. Hún sé mjög nærsýn og sjái mjög illa í myrkri. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með heyrn þannig að hún þurfi að láta athuga heyrnina, hún heyri illa. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi. Nefnir hún þar þunglyndi, mikinn kvíða og áfallastreitu. Í athugasemd segir kærandi að hún sé búin að þjást af miklum hausverk og mígreni síðustu ár. Þetta hafi truflað hana mikið og hún komist sjaldan í vinnu. Þetta hafi mikil áhrif á líf hennar og séu einfaldir hlutir eins og að sinna heimilisstörfum, fara í búðir og þess háttar oft mjög erfiðir fyrir hana.

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 27. mars 2020. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik. Þá hafi andlegt álag átt þátt í því að kærandi hafi lagt niður starf. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„[…] Situr í viðtali í 40 mín án óþæginda að því er virðist og stendur upp auðveldlega úr stólnum án þess að styðja sig við. Góðar hreyfingar í öxlum og kemur höndum aftur fyrir hnakka og aftur fyrir bak. Nær í 2kg lóð frá gólfi án vandkvæða og heldur á 2kg lóði með hægri og vinstri hendi án vandkvæða

Nær í og handfjatlar smápening með hægri og vinstri hendi án vandkvæða. Eðlilegt göngulag og gönguhraði. Ekki saga um erfiðleika með að ganga upp og niður stiga og það því ekki testað í viðtali.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Löng saga einnig um kvíða og þunglyndi. Verið greind með þunglyndi og áfallastreitu. Verið í sálfræðiviðtölum sem að hafa nýst henni vel , en þunglyndis og kvíðaeinkenni ennþá til staðar.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Vaknar um 7.30 . […]. Hefur verið að fara í sjúkraþjálfun x1-2 í viku á morgnana […]. Verið hjá sálfræðing einu sinni í viku í X nú eftir að hún hætti hjá Virk. Þá annar sálfræðingur en hún hafði þar. Verið að sinna heimilisstörfum . Getur sinnt heimilisstörfum en mikill dagamunur og getur misst heilu dagana í mígreni. Geta verið 2-3 dagar í röð ca einu sinni í mánuði. Þess á milli minni köst og hausverkir sem eru að hefta þá það séu ekki þessi slæmu köst og ástæða þess að hún gat ekki unnið lengur. Fer í göngur flesta daga og er þá í ca 1 klst. Var að fara í ræktina nokkrum sinnum í viku en versnaði af verkjum og hætti því. […] Ekki að leggja sig yfir daginn nema að hún sé í mígreniskasti. Verður þá að fara upp í rúm og vera í myrkri. Les aðeins en hlustar meira á hljóðbækur. […]. Hausverkur haft áhrif á andlega heilsu og verið talsvert ein en hefur verið að reyna að gera það ekki. Á það til að vera heima og verður að taka sig taki til að brjóta það upp. Áhugamál. Blóm og mikið af blómum inni. Hreyfing. Bækur. Útivera. Hefur ánægju af þessu en erfiðara vegna óþæginda og mikið að gera á heimili. Fer í búðina og kaupir inn. […] Eldar og allt í lagi við að standa við það. Fer að sofa um kl. 23-24. Gengur yfirleitt vel að sofna. Allt í lagi að sofa og ekki að vakna ef ekki hausverkur eða mígreni.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu býr kærandi ekki við líkamlega færniskerðingu og því fær kærandi ekkert stig vegna líkamlegrar færniskerðingar á grundvelli skoðunarskýrslu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá telur skoðunarlæknir að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til fjögurra stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Kærandi byggir á því að hún hafi verið óvinnufær í tvö ár. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að örorka samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er ekki metin með hliðsjón af starfsgetu umsækjanda heldur er hún ávallt metin samkvæmt örorkustaðli, nema framangreind undanþága í 4. mgr. reglugerðar nr. 379/1999 eigi við. Því þurfa umsækjendur um örorkulífeyri almennt að uppfylla skilyrði örorkustaðalsins til þess að öðlast rétt til örorkulífeyris, óháð því hvort þeir hafi verið metnir óvinnufærir eða ekki.  

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að misræmis gæti í skoðunarskýrslu varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að geðsveiflur valdi kæranda ekki óþægindum einhvern hluta dags. Í rökstuðningi fyrir þessari niðurstöðu segir á hinn bóginn að það sé mjög misjafnt eftir vikum eða dögum en ekki ákveðinn hluta dagsins. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að framangreint bendi til þess að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dags. Ef fallist yrði á það fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Kærandi gæti því fengið samtals fimm stig vegna andlegrar færniskerðingar. Þrátt fyrir að kæranda væri veitt stig fyrir þetta atriði myndi það hins vegar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins þar sem kærandi fengi einungis fimm stig samtals samkvæmt staðlinum. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk ekkert stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og gæti að hámarki fengið fimm stig úr þeim hluta staðals sem varðar andlega færni, uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. apríl 2020 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. apríl 2020 um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta