Hoppa yfir valmynd

Nr. 109/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 6. mars 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 109/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18020042

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 7. nóvember 2017 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. ágúst 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Svíþjóðar. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 13. nóvember 2017. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 20. nóvember 2017. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 28. janúar 2018.

Þann 15. febrúar 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Greinargerð kæranda, ásamt fylgigögnum, barst kærunefnd þann sama dag. Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá óskar kærandi eftir því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað, í samræmi við 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, á meðan endurupptökubeiðnin sé til meðferðar hjá kærunefnd í ljósi þess að kærandi sé í verulega viðkvæmri stöðu.

Kærandi byggir kröfu sína á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi við töku ákvörðunar ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga og stjórnsýslulaga. Vísar kærandi sérstaklega til 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Þá er m.a. áréttað að hann hafi verið 17 ára gamall þegar hann kom til landsins og hafi lagt fram þýðingu á fæðingarvottorði þess efnis. Með beiðni sinni hafi kærandi nú lagt fram skjal sem hann kveður vera frumrit fæðingarvottorðsins og sé fæðingardagur hans […]. Þá geri kærandi athugasemd við niðurstöðu aldursgreiningar sem hann hafi gengist undir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sé miðað við önnur sambærileg mál. Þá hafi sænsk stjórnvöld breytt skráðum fæðingardegi hans í málsmeðferðinni án þess að gefa upp neinar skýringar á því misræmi. Kæranda hafi verið synjað um alþjóðlega vernd í Svíþjóð eftir að hafa dvalist þar í um tvö ár, er því ljóst að verði hann sendur þangað af íslenskum stjórnvöldum verði hann endursendur til heimaríkis, Sómalíu, þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta um að sæta ofsóknum og verða fyrir ómannúðlegi og vanvirðandi meðferð.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi hefur lagt fram nýtt gagn í málinu, þ.e. fæðingarvottorð. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 7. nóvember 2017, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Svíþjóðar bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar auk þess sem farið hefur verið yfir fæðingarvottorð sem fylgdi með beiðninni. Í úrskurði kærunefndar, dags. 7. nóvember 2017, var lagt til grundvallar að kærandi væri fullorðinn einstaklingur. Útlendingastofnun hafði við meðferð málsins framkvæmt líkamsrannsókn á tönnum hans til greiningar á aldri þar sem niðurstaðan var að hann væri eldri en 18 ára. Þá lá fyrir að kærandi kvaðst vera fæddur þann […], gögn frá Ítalíu og Svíþjóð þar sem uppgefinn fæðingarár hans væri […] og afrit af þýðingu á fæðingarvottorðinu, sem kærandi lagði fram með beiðni sinni um endurupptöku, að sögn í frumriti. Í ljósi gagna málsins, m.a. afrits fæðingarvottorðsins sem kærandi hefur nú lagt fram, var það mat kærunefndar að ljóst væri að kærandi hefði náð 18 ára aldri þegar úrskurður kærunefndar var kveðinn upp og að miðað við uppgefinn fæðingardag hans hafi hann verið fullorðinn einstaklingur þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun í málinu þann 22. ágúst 2017. Fæðingarvottorð sem kærandi hefur nú lagt fram er því í samræmi við þær upplýsingar sem kærunefnd byggði á í úrskurði sínum þann 7. nóvember sl. Mat nefndarinnar á því að endursending kæranda til Svíþjóðar sé ekki andstæð ákvæðum laga um útlendinga og mannréttindasáttmála Evrópu er því óbreytt og telur kærunefnd að það nýja gagn sem beiðninni fylgdi hafi ekki getað haft grundvallarþýðingu fyrir niðurstöðu í máli hans.

Varðandi aðrar málsástæður kæranda í beiðni hans um endurupptöku þá lágu þær fyrir við töku ákvörðunar í máli kæranda. Kærunefnd hefur því þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna og aðstæðna kæranda með úrskurði kærunefndar frá 7. nóvember 2017. Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að úrskurður kærunefndar frá 7. nóvember 2017 hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                           Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta