Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 129/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 129/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. febrúar 2010 og fékk greiddar atvinnuleysistryggingar í samræmi við rétt sinn. Í maí 2010 barst Vinnumálastofnun ábending frá eftirlitsdeild rkisskattstjóra. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra starfaði kærandi hjá fyrirtækinu X ehf. Einnig var hann skráður eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins en kærandi hóf rekstur X ehf. í nóvember 2009. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda því með bréfi, dags. 6. júlí 2010, að stofnunin hefði ákveðið að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans með vísan til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, það er frá 20. febrúar til 19. apríl 2010 að fjárhæð 319.864 kr. með 15% álagi. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 26. júlí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi greinir frá því í kæru að hann hafi ekkert með rekstur fyrirtækisins X ehf. að gera og að hann þiggi ekki laun frá fyrirtæki hans. Til staðfestingar vísar kærandi til bréfs lögmanns fyrirtækis hans. Umrætt bréf hefur aldrei borist úrskurðarnefndinni þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. desember 2010, kemur fram að eftir að stofnunin hafi óskað eftir því að kærandi gerði skriflega grein fyrir afstöðu sinni hafi borist athugasemdir frá kæranda 2. júní 2010. Í skýringum kæranda segist hann vera eigandi og prókúruhafi X ehf. Kveðst hann ekki fá nein laun frá fyrirtækinu og það kosti að byggja fyrirtæki upp. Við frekari athugun Vinnumálastofnunar hafi komið í ljós að kærandi hafi þegið laun frá X ehf. í janúar, febrúar og maí 2010. Í greinargerðinni er vísað til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins verði beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni vísvitandi rangar upplýsingar sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að viðurlög eigi einnig við ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 35. gr. a. eða 10. gr. laganna. Enn fremur segi í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins að breyting á 60. gr. laganna sé „mikilvægur liður í því að sporna við „svartri atvinnustarfsemi“ þar sem atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur verða að tilkynna fyrirfram um hina tilfallandi vinnu eða samdægurs í nánar tilgreindum undantekningartilvikum“.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að af hálfu kæranda komi fram að hann hafi ekkert með rekstur fyrirtækisins að gera og að hann fái ekki greidd laun. Það liggi fyrir að kærandi hafi hvorki tilkynnt um hlutastörf né tilfallandi vinnu áður en stofnunin tók mál hans til skoðunar. Þá liggi það einnig fyrir að kærandi sé skráður eigandi, stofnandi, prókúruhafi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins og honum hafi verið greidd laun frá fyrirtækinu þrátt fyrir að hann hafi ítrekað haldið því fram að svo hafi ekki verið. Vinnumálastofnun telur að öllum ætti að vera ljóst að atvinnuleitandi sem þiggur greiðslu atvinnuleysistrygginga beri skylda til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar um leið og hann hefur störf. Eigi það jafnt við um þá sem taka störf í annarra þágu og þeirra er hefja eigin rekstur. Hafi kæranda borið að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín þegar hann skráði sig atvinnulausan 24. febrúar 2010.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. janúar 2011. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda í tölvubréfi, dags. 6. janúar 2011. Þar greinir kærandi frá því að hann telji ekki ólöglegt að eiga einkahlutafélag og þiggja samhliða bætur. Hann hafi fengið þrisvar greitt frá fyrirtækinu og hafi það verið vegna lagna- og smíðavinnu í verslun. Vinnu sem hann hafi ekki viljað kaupa og hann hafi gefið launin upp. Kærandi kveðst ekki hafa vit á starfsemi fyrirtækisins sem sé kvenfataverslun, en hann sé pípulagningameistari. Fyrirtækið hafi verið stofnað með langtímamarkmið í huga og muni ekki skila inn neinum tekjum nema fyrir ríkissjóð og einn starfsmann og hann sé ekki sá starfsmaður. Kærandi mótmælir því að hann hafi ítrekað haldið því leyndu að hann þiggi ekki laun frá fyrirtækinu eins og sagt sé í greinargerð Vinnumálastofnunar. Hið rétta sé að hann hafi gefið þessar þrjár greiðslur upp og því hafi þær hvorki verið faldar né hafi hann vísvitandi gefið rangar upplýsingar. Enn fremur greinir kærandi frá því að hann hafi aldrei þegið greiðslur frá Vinnumálastofnun á sama tíma og hann hafi fengið tilfallandi vinnu.

 

2.

Niðurstaða

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var móttekin hjá Vinnumálastofnun 26. febrúar 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá ríkisskattstjóra þáði kærandi laun frá X ehf. í janúar og febrúar 2010, alls 101.200 kr. hvorn mánuð og í maí 2010 alls 43.000 kr.

Samkvæmt 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar ber þeim sem telst tryggður samkvæmt lögunum að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.

Ljóst er af gögnum málsins að kærandi tilkynnti ekki til Vinnumálastofnunar um tilfallandi vinnu sína í þágu X ehf. sem honum bar samkvæmt fortakslausu ákvæði 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar. Það að gefa laun fyrir tilfallandi vinnu upp til skatts eins og skylt er samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, telst ekki tilkynning til Vinnumálastofnunar um tilfallandi vinnu skv. ákvæði 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá kemur fram í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Miðað við málavexti og framanrakin lagaákvæði er fallist á þær röksemdir sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir þeirri ákvörðun að svipta kæranda atvinnuleysisbótum og að hann eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Þá ber kæranda samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. þeirra laga, að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, alls 319.864 kr.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. júlí 2010 í máli A að svipta hann atvinnuleysisbótum og hann eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Kæranda ber að endurgreiða Vinnumálastofnun 319.864 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta