Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 137/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 137/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 5. janúar 2010. Umsókn kæranda var synjað þar sem læknisvottorð, dags. 8. desember 2009, barst til stofnunarinnar þar sem fram kemur að kærandi sé óvinnufær a.m.k. til 24. janúar 2010. Eftir að nýtt læknisvottorð, dags. 11. mars 2010, barst stofnuninni þar sem fram kemur að kærandi telji sig hafa verið vinnufæran frá 1. janúar 2010 var umsókn hans samþykkt frá 5. janúar 2010. Í maí 2010 var gerð samkeyrsla á gagnagrunni Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra en þá komu upp tekjur frá Sjúkratryggingum Íslands hjá kæranda í mars 2010. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi myndi gera grein fyrir umræddum tekjum og hinn 14. júní 2010 bárust þær upplýsingar frá kæranda að hann hafi fengið greitt úr sjúkratryggingasjóði fyrir tímabilið 1. janúar til 16. febrúar 2010. Vinnumálastofnun óskaði þá eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands en samkvæmt upplýsingum frá þeirri stofnun þáði kærandi dagpeninga vegna óvinnufærni að fullu á tímabilinu frá desembermánuði 2009 til 31. maí 2010. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda því með bréfi, dags. 12. júlí 2010, að stofnunin hefði ákveðið að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans með vísan til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann þáði bætur frá stofnuninni, það er frá 5. janúar til 31. maí 2010, að fjárhæð 736.948 kr. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 25. júlí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi greinir frá því að þegar hann skoðaði gögnin aftur hafi hann gert sér grein fyrir því að hann hafi gert mistök. Það hafi ekki verið ásetningur hans að svíkja út peninga. Kærandi kveðst hafa lent í vinnuslysi í september 2009 og hann sé ekki sami maður eftir slysið. Slysinu hafi fylgt læknisheimsóknir og hann hafi leitað til lögfræðings. Kærandi greinir frá því að hann hafi eignast barn í júní 2009 og hann hafi tekið fæðingarorlof sitt fyrr en áætlað hafi verið vegna slyssins. Stuttu eftir að hann hafi farið í fæðingarorlof hafi fyrirtækið sem hann vann hjá orðið gjaldþrota. Þetta hafi leitt til þess að hann hafi leitað til stéttarfélags síns, Eflingar, og síðar Ábyrgðasjóðs launa. Því næst hafi hann sótt um atvinnuleysisbætur. Í öllu þessu pappírsflóði hafi hann gert mistök og yfirsést þetta. Hann sé að auki ekki vanur að fylla út eyðublöð.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. mars 2011, kemur fram að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um tekjur frá Sjúkratryggingastofnun Íslands sem komu fram við samkeyrslu gagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra. Vísað er til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bent á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins verði beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni vísvitandi rangar upplýsingar sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta.

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 5. janúar 2010. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands hafi kærandi verið óvinnufær frá 24. september 2009 til 31. maí 2010 og þegið greiðslur slysadagpeninga til 31. maí 2010. Þá segir að ekki verði séð að kærandi hafi gert tilraun til að tilkynna Vinnumálastofnun um vinnufærni sína og af gögnum máls verði ekki annað séð en að kærandi hafi, allan þann tíma sem hann var skráður atvinnulaus hjá stofnuninni, þegið samtímis bætur frá Sjúkratryggingum Íslands vegna óvinnufærni að fullu.

Vinnumálastofnun vísar í 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili. Þá vísar stofnunin til a-liðar 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að það sé skilyrði fyrir því að teljast tryggður samkvæmt lögunum að vera fær til flestra almennra starfa. Skýrt sé kveðið á um í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að greiðslur sem eiga að bæta óvinnufærni að fullu, séu ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þá segi í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. h-lið 1. mgr. án ástæðulausrar tafar.

Vinnumálastofnun bendir á að öllum ætti að vera ljóst að atvinnuleitandi sem þiggi greiðslu atvinnuleysistrygginga beri skylda til þess að tilkynna, sé hann óvinnufær og þiggi greiðslur slysadagpeninga. Í tilfelli kæranda hafi honum borið að upplýsa Vinnumálastofnun um stöðu sína þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda hafi verið hafnað sökum læknisvottorðs, dags. 8. desember 2009, sem sagði kæranda óvinnufæran a.m.k. til 24. janúar 2010. Vinnumálastofnun hafi borist nýtt læknisvottorð, dags. 11. mars 2010, þar sem fram komi að kærandi teldi sig vinnufæran frá 1. janúar 2010. Í því læknisvottorði sé óskað eftir að kærandi komist á atvinnuleysisbætur frá þeirri dagsetningu. Á sama tíma og nýtt vottorð hafi verið gefið út hafi kærandi verið að þiggja slysadagpeninga hjá Sjúkratryggingum Íslands. Vinnumálastofnun telur af þessum sökum að ekki verði hjá því komist að telja að kærandi hafi reynt að leyna mikilvægum atriðum er komu í veg fyrir að hann uppfyllti skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum til að tilkynna án tafar um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni þeirra, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum. Fellst Vinnumálastofnun ekki á að ósamræmi í læknisvottorðum kæranda sé til komið vegna mistaka kæranda eða vankunnáttu hans við útfyllingu eyðublaða. Sé það eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi með framferði sínu reynt að afla sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. apríl 2011. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var móttekin 6. janúar 2010. Fram kemur í umsókninni að kærandi hafi átt í veikindum. Líkt og fyrr greinir var umsókn kæranda hafnað þar sem Vinnumálastofnun barst læknisvottorð, dags. 8. desember 2009, um að kærandi væri óvinnufær í kjölfar vinnuslyss 24. september 2009 a.m.k. til 24. janúar 2010. Í kjölfarið barst Vinnumálastofnun svo annað læknisvottorð, dags. 11. mars 2010, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið óvinnufær í nokkra mánuði eftir bílslys 24. september 2009 en hann telji sig hafa orðið vinnufæran 1. janúar 2010 og óskað sé eftir atvinnuleysisbótum frá 1. janúar 2010. Á grundvelli þessa læknisvottorðs var umsókn kæranda samþykkt frá 5. janúar 2010.

Í máli þessu liggur fyrir samskiptasaga Vinnumálastofnunar og kæranda á tímabilinu frá 10. apríl 2000 til 23. september 2010. Hvorki í samskiptasögu né í umsókn kæranda getur hann þess að hann sé að þiggja eða hafi þegið greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá þeirri stofnun þáði kærandi greiðslur slysadagpeninga vegna vinnuslyss frá 1. janúar til 31. maí 2010. Greiðslur slysadagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands eru greiddar á grundvelli VI. kafla laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 15. gr. laga nr. 134/2009, um ósamrýmanlegar greiðslur, segir: Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

Samkvæmt framangreindu ákvæði átti kærandi ekki tilkall til hvort tveggja slysadagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands og atvinnuleysisbóta á sama tímabili enda eru báðar greiðslurnar ætlaðar til framfærslu. Enn fremur er ljóst af gögnum málsins að kærandi þáði slysadagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands á sama tíma og hann sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun með umsókn móttekinni 6. janúar 2010 og að kærandi lét þess ekki getið að hann væri að þiggja fyrrgreindar greiðslur. Með þessu telst kærandi hafa brotið gegn svohljóðandi ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009:

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Miðað við málavexti og framanrakin lagaákvæði er fallist á þær röksemdir sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir þeirri ákvörðun að svipta kæranda atvinnuleysisbótum og að hann eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Þá ber kæranda samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. sömu laga, að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, alls 736.948 kr.

 

Úrskurðarorð

Staðfest er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. júlí 2010 í máli A að svipta hann atvinnuleysisbótum og hann eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Kæranda ber að endurgreiða Vinnumálastofnun 736.948 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta