Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 133/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 12. maí 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 133/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með kæru, dags. 27. júlí 2010, kærði A (lögheimili skráð að B-götu nr. 17, sveitarfélaginu C), þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að sá tími sem hann starfar í sérstöku átaksverkefni á vegum stofnunarinnar komi til frádráttar á bótatímabili hans og að hann haldi fullum rétti til atvinnuleysisbóta eftir átaksverkefnið. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi greinir frá því að hann sé í fullu starfi hjá sveitarfélaginu D og að bótaréttur hans skerðist á meðan vinnutímabil hans stendur yfir.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 30. mars 2011, kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni 14. desember 2009. Þann 26. júlí 2010 hafi kærandi hafið störf hjá sveitarfélaginu D en starf hans hafi verið hluti af sérstöku átaksverkefni skv. 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrk. Samkvæmt reglugerðarákvæðinu sé stofnuninni heimilt að gera samning um að fyrirtæki eða stofnun ráði atvinnuleitanda sem skráður er atvinnulaus hjá stofnuninni. Um þríhliða samning milli Vinnumálastofnunar, atvinnuleitanda og atvinnurekanda sé að ræða og að Vinnumálastofnun skuldbindi sig til að greiða þær atvinnuleysisbætur sem atvinnurekandi kann að eiga rétt á beint til fyrirtækis eða stofnunar sem ræður starfsmann á grundvelli ákvæðisins. Kærandi hafi undirritað samning um átaksverkefni á grundvelli 9. gr. reglugerðarinnar 29. júlí 2010. Með því hafi Vinnumálastofnun skuldbundið sig til að greiða á samningstímanum, því sem nemur atvinnuleysistryggingum kæranda til sveitarfélagsins D. Hafi kæranda verið ljóst að atvinnuleysisbætur yrðu greiddar til atvinnurekanda sem svo myndi greiða kæranda laun fyrir vinnu sína.

Vinnumálastofnun vísar í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, um lengd tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar. Stofnunin vísar jafnframt í 30. og 31. gr. þeirra laga þar sem fram kemur að atvinnuleitandi geti áunnið sér rétt til atvinnuleysistrygginga að nýju, hafi hann starfað á innlendum vinnumarkaði í ákveðinn tíma. Samkvæmt e-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé það skilyrði að atvinnuleitandi hafi verið launamaður á ávinnslutímabilinu í starfi sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerðum, svo starfstími komi til ávinnslu.

Stofnunin vísar einnig til þess að í 5. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar segi að sá tími sem þátttaka í átaksverkefni skv. 1. mgr. standi yfir teljist ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna. Það sé því ljóst að sá tími sem þátttaka í vinnumarkaðsúrræði stendur yfir kemur ekki til ávinnslu atvinnuleysistrygginga. Þá vísar stofnunin til þess að í 2. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun veitt heimild til að ráðstafa atvinnuleysisbótum atvinnuleitanda til vinnumarkaðsaðgerða. Skuli það tryggt að hann njóti hærri launa en sem nemur atvinnuleysisbótum hans meðan á vinnumarkaðsaðgerð varir. Það sé því skilyrði fyrir þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsúrræði að hann sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Sá tími sem kærandi teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar sé hluti af bótatímabili hans enda séu atvinnuleysisbætur greiddar, það tímabil sem vinnumarkaðsúrræði varir. Eigi það jafnt á við um námssamninga, samning um þróun eigin viðskiptahugmyndar, sérstök átaksverkefni og önnur úrræði á grundvelli reglugerðar nr. 12/2009.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. apríl 2011, og var honum veittur frestur til 20. apríl 2011 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Kærandi hefur ekki komið frekari gögnum á framfæri.

 

2.

Niðurstaða

Þýðingarmestu atvik þessa máls eru þau að kærandi gerði samning við sveitarfélagið D og Vinnumálastofnun vegna starfs á tímabilinu frá 26. júlí til 25. október 2010. Í samningnum segir meðal annars að atvinnuleitandi samþykki að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til sveitarfélagsins D þann tíma sem ráðning varir. Jafnframt segir að bótahlutfall starfsmanns sé 100%. Þessi samningur var meðal annars reistur á 9. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009.

Markmið lagareglna um atvinnuleysistryggingar er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það er markmið lagareglna um vinnumarkaðsaðgerðir að veita einstaklingum viðeigandi aðstoð til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um vinnumarkaðsgerðir nr. 55/2006.

Samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 9. gr. laga nr. 134/2009, er Vinnumálastofnun heimilt að ráðstafa grunnatvinnuleysisbótum hins tryggða til vinnumarkaðsaðgerða fyrir hlutaðeigandi enda sé það tryggt að hinn tryggði njóti hærri launa meðan þátttaka hans í vinnumarkaðsaðgerð stendur yfir.Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 134/2009 segir um 9. gr. að tíðkast hafi að bjóða atvinnuleitendum reynsluráðningu eða starfsþjálfun innan fyrirtækja að nánari skilyrðum uppfylltum samkvæmt reglugerð nr. 12/2009. Í þeim tilvikum hafi stofnunin greitt til vinnuveitanda sem nemi grunnatvinnuleysisbótum hlutaðeigandi atvinnuleitanda ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð og atvinnuleitandinn fengið í staðinn greidd laun samkvæmt gildandi kjarasamningi í hlutaðeigandi starfsgrein. Markmið þessa sé að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun starfar innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar.

 

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009 kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera sérstakan samning við fyrirtæki, stofnun eða frjáls félagasamtök um að ráða atvinnuleitanda sem sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins til að sinna sérstökum tímabundnum átaksverkefnum sem eru umfram lögbundin og venjuleg umsvif enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Vinnumálastofnun, fyrirtækið, stofnunin eða frjálsu félagasamtökin og atvinnuleitandinn skulu undirrita samninginn um samþykki sitt. Með undirritun sinni samþykkir atvinnuleitandinn að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til fyrirtækis, stofnunar eða frjálsra félagasamtaka sem greiða honum laun. Er markmið reglugerðar nr. 12/2009 skv. 2. gr. hennar að stuðla að þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í 5. mgr. fyrrgreinds ákvæðis 9. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sá tími sem þátttaka í átaksverkefni skv. 1. mgr. standi yfir teljist ekki til ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna. Í 13. gr. laganna, um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, er skilyrði í e-lið 1. mgr. þess efnis að launamaður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. hafi verið í starfi sem sé ekki hluti af sérstökum vinnumarkaðsaðgerðum.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar getur sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Meðan á umræddu átaksverkefni stóð var hluti af launum kæranda fjármagnaður með atvinnuleysisbótum hans og kemur því sá tími til frádráttar bótatímabili hans.

Með hliðsjón af framangreindu og röksemdum þeim sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, að telja þann tíma sem A hefur verið í sérstöku átaksverkefni skv. 9. gr. reglugerðar nr. 12/2009 með sem hluta af bótatímabili hans, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta