Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 36/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. mars 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 36/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Kæra kæranda, A, er þríþætt. Í fyrsta lagi óskar hann leiðréttingar á útreikningum tekjutengdra atvinnuleysisbóta frá 1. desember 2010. Í öðru lagi óskar kærandi greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 31. ágúst–26. október 2010, en það fórst fyrir hjá honum að staðfesta atvinnuleit sína fyrir það tímabil. Í þriðja lagi óskar kærandi leiðréttingar á skerðingu þeirri sem lífeyrissjóðsgreiðslur til hans hafa valdið á atvinnuleysisbótum hans.

Kærandi krefst þess að hann fái 100% tekjutengdar atvinnuleysisbætur frá 1. desember 2010, greiðslur atvinnuleysisbóta fyrir 31. ágúst til 26. október 2010 komi til greiðslu, og loks að lífeyrissjóðsgreiðslur lækki ekki fjárhæð atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun krefst þess að það verði staðfest að rétt hafi verið staðið að greiðslum tekjutengdra atvinnuleysisbóta í málinu, enn fremur að sú ákvörðun verði staðfest að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið 31. ágúst til 26. október 2010 og loks bendir stofnunin á að hin ólögmæta skerðing sem lífeyrissjóðsgreiðslur til kæranda ullu hafi þegar verið leiðrétt.

Starfshlutfall kæranda hjá B ehf. minnkaði um 20% vegna samdráttar í júní 2009 og sótti hann fyrst um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur þann 10. júní 2009. Honum láðist að staðfesta atvinnuleit sína í ágúst 2010, en kveðst hafa haft samband símleiðis strax í næsta mánuði eða september og síðan aftur í október. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 26. október 2010, kemur fram að þegar hann hafi reynt að senda inn staðfestingu á atvinnuleit í september hafi hann ekki getað það og hafi honum verið sagt að hafa samband við stofnunina. Þá hafi komið í ljós að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína í ágúst. Skýringu á því telji kærandi vera þá að seint í ágúst hafi hann fengið uppsagnarbréf vegna samdráttar með þriggja mánaða fyrirvara og verði hann því alveg atvinnulaus 1. desember 2010 að öllu óbreyttu og hafi hann því verið eitthvað annars hugar þegar hann hefði átt að staðfesta atvinnuleit sína. Vinnumálastofnun samþykkti kæranda aftur á atvinnuleysisbætur á fundi þann 4. nóvember 2010. Kröfu hans um greiðslu bóta í september var hafnað. Ekki var fallist á að kærandi hafi ekki getað staðfest atvinnuleit vegna mistaka af hálfu Vinnumálastofnunar. Stofnuninni láðist að tilkynna kæranda um niðurstöðu fundarins, en fram kemur að hann hafi þó fengið nánari upplýsingar um stöðu sinna mála í samtali við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar er hann hafi sótt að nýju um greiðslur atvinnuleysistrygginga í desember 2010. Á fundi Vinnumálastofnunar þann 15. desember 2010 var aftur fjallað um ósk kæranda um greiðslu bóta fyrir það tímabil sem hann staðfesti ekki atvinnuleit sína í ágúst 2010. Niðurstaða fundarins var að kærandi ætti ekki rétt á greiðslu bótanna þar sem ekki hefðu komið fram marktækar skýringar á því hvers vegna hann staðfesti ekki atvinnuleit, en ekki var fallist á að um mistök af hálfu Vinnumálastofnunar hafi verið um að ræða.

Kærandi var sagt upp störfum frá 1. desember 2010 og sótti hann þá um 100% atvinnuleysisbætur.

Í kæru kæranda kemur fram að honum hafi ekki verið kynnt af hálfu Vinnumálastofnunar hver áhrif það hefði á útreikning atvinnuleysisbótanna þegar hann fékk 20% atvinnuleysisbætur, þ.e. að 20% atvinnuleysisbætur teldu í tíma eins og 100% atvinnuleysisbætur og að tekjutengdar atvinnuleysisbætur yrðu reiknaðar eins og hann hefði verið í 20% vinnu á viðmiðunartímanum áður en til atvinnuleysis að hluta hafi komið. Kærandi telur að starfsfólk Vinnumálastofnunar hefði átt að upplýsa hann, en það hafi það gert löngu seinna. Kærandi bendir einnig á að í lögunum sé talað um frestun bóta, sem hann hefði getað nýtt sér gagnvart tekjutengingu þar til hann yrði 100% atvinnulaus. Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við greiðsluseðla frá Vinnumálastofnun, þar sem þeir séu torskildir og rangir vegna lækkunar atvinnuleysisbóta vegna lífeyrissjóðsgreiðslna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. júní 2011, kveður stofnunin að þeim sem eru tryggðir samkvæmt lögunum beri að uppfylla ýmis skilyrði þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun og eitt þeirra grundvallarskilyrða sé að vera í virkri atvinnuleit og staðfesta atvinnuleitina reglulega. Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysistryggingar eða sætir biðtíma eða viðurlögum, hafa reglulega samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Fram kemur að á heimasíðu stofnunarinnar sé meðal annars mælt nánar fyrir um hvernig þessu fyrirkomulagi sé háttað. Þar komi fram að hinum tryggða beri að staðfesta atvinnuleit á tímabilinu 20.–25. hvers mánaðar. Þessar upplýsingar megi einnig finna á umsókn um atvinnuleysisbætur og umsækjendum sé einnig leiðbeint um þessa skyldu á kynningarfundum sem og í kynningarbæklingi sem umsækjendur fái afhentan. Vinnumálastofnun telji að samkvæmt skýringabréfi kæranda, dags. 26. október 2010, megi ráða að ekki hafi verið um tæknileg mistök að ræða af hálfu Vinnumálastofnunar. Þegar kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína í september 2010 hafi hann verið afskráður hjá Vinnumálastofnun frá og með 31. ágúst 2010 og ekki lengur litið svo á að hann væri atvinnulaus.

Fram kemur að kærandi hafi óskað eftir leiðréttingu á greiðslum tekjutengdra atvinnuleysisbóta frá þeim degi er hann hafi orðið alveg án atvinnu þann 1. desember 2010. Meginreglan sé sú að sá sem teljist tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlist rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur hafi verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Þegar kærandi hafi fyrst sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga, þann 10. júní 2009, vegna minnkaðs starfshlutfalls hjá B ehf. á grundvelli 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið í gildi bráðabirgðaákvæði V sem mæli fyrir um greiðslutilhögun á tekjutengdum atvinnuleysisbótum þegar um bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls er að ræða. Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins komi fram að þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. eða 22. gr. sé heimilt að lengja hlutfallslega það tímabil sem heimilt sé að greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. 32. gr. laganna miðað við mismun réttar hins tryggða hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegni áfram.

Í samskiptasögu þann 13. nóvember 2009 kemur fram að starfsmaður hafi farið yfir rétt kæranda og bótatímabil með honum. Honum hafi verið tjáð að 20% atvinnuleysi telji daga af bótatímabili vegna réttar ef hann kæmi til með að missa vinnuna alveg, en hann geti geymt réttinn í allt að tvö ár, þ.e. 100% bótarétt.

Fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar að kærandi hafi fengið greiddar 20% tekjutengdar atvinnuleysisbætur frá þeim tíma er tvær vikur voru liðnar frá fyrri umsóknardegi þann 23. júní 2009 til 30. nóvember 2010. Þegar hann hafi sótt aftur um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 1. desember 2010 hafi hann fengið greiddar 100% tekjutengdar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem vantaði upp á svo hann næði þremur heilum mánuðum í tekjutengingu, sbr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt greinargerð Vinnumálastofnunar átti kærandi rétt á 100% tekjutengdum atvinnuleysisbótum í fjóra daga. Þess ber að geta að Vinnumálastofnun leiðrétti þær upplýsingar fyrir nefndinni, en rétt var að kærandi átti rétt til 100% tekjutengdra atvinnuleysisbóta í tólf daga.

Varðandi kröfu kæranda um leiðréttingu á skerðingu vegna lífeyrisgreiðslna, kemur fram hjá Vinnumálastofnun að athugasemdir þess efnis hafi ekki borist Vinnumálastofnun fyrr en 17. maí 2011 þegar kærandi hafði samband við stofnunina. Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að allar lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda voru skráðar sem ellilífeyrisgreiðslur en þær komu til frádráttar frá greiðslum atvinnuleysisbóta, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun hafði samband við þá lífeyrissjóði sem kærandi fékk greiðslur frá í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að upplýsingar sem stofnunin hefði undir höndum væru réttar. Vinnumálastofnun fékk þær upplýsingar að kærandi væri að fá greiddar greiðslur vegna séreignarlífeyrissparnaðar frá Íslenska lífeyrissjóðnum, Lífeyrisauka KB banka, Frjálsa lífeyrissjóðnum og Lífeyrissjóði verslunarmanna og þær greiðslur komu ekki til frádráttar greiðslum atvinnuleysisbóta samkvæmt bráðabirgðaákvæði VIII. Kærandi fékk einnig greiðslur frá Kili lífeyrissjóði sem eru eftirlaunagreiðslur og þær koma til frádráttar. Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að ólögmæt skerðing vegna séreignarlífeyrissparnaðar hafi nú þegar verið leiðrétt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. júlí 2011. Athugasemdir bárust frá kæranda, þann 28. júlí 2011, að liðnum frestinum til þess að andmæla og verður af þeirri ástæðu ekki tekin afstaða til þess sem þar kemur fram.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari útskýringum á útreikningi tekjutengdra bóta til kæranda frá Vinnumálastofnun og bárust upplýsingnar nefndinni þann 15. febrúar sl. Samkvæmt þeim fékk kærandi 100% tekjutengingu í tólf daga í kjölfar umsóknar sinnar þann 2. desember 2010, en ekki í fjóra daga eins og ranglega kom fram í greinargerð Vinnumálastofnunar. Að auki kom fram að kærandi hafi fengið greiddar 20% tekjutengdar atvinnuleysisbætur í samtals 12 mánuði og 5 daga (265 daga). Í útreikningi sínum á tekjutengdum bótum gekk Vinnumálastofnun út frá því að kærandi ætti rétt á 20% tekjutengingu í 15 mánuði (325 daga), sem jafngildir 100% tekjutengingu í þrjá mánuði. Þegar kærandi sótti um 100% atvinnuleysis­bætur þann 1. desember átti hann því eftir tæplega þrjá mánuði á 20% tekjutengingu (60 daga), sem jafngildir 12 dögum á 100% tekjutengingu.

Úrskurðarnefndin óskaði einnig eftir nánari upplýsingum vegna þeirrar fullyrðingar kæranda að hann hafi ekki getað stimplað sig inn í september vegna bilunar og að hann hafi í kjölfarið haft samband við stofnunina símleiðis. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar datt kærandi af skrá þar sem hann stimplaði sig ekki í ágúst 2010 og hann hafi af þeim sökum ekki getað stimplað sig sjálfvirkt í september. Þeir sem detta af skrá með þessum hætti þurfa að hafa samband við stofnunina, til dæmis með símtali, til að komast aftur á skrá. Hvergi í gögnum kæranda er að finna staðfestingu á því að hann hafi haft samband í þessum tilgangi og enga staðfestingu er að finna á símtali kæranda til stofnunarinnar. Fullyrt var að Vinnumálastofnun taki slík símtöl mjög alvarlega þar sem þau hafi miklu þýðingu fyrir réttindi bótaþega. Í samskiptasögu kæranda kemur hins vegar skýrt fram að hann hafi hringt þann 26. október 2010 vegna þess að hann hafi gleymt að skrá sig í september.

 

2.

Niðurstaða

 

Í 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að launamaður, sbr. a-lið. 3. gr. laganna, sem missir starf sitt að hluta teljist hlutfallslega tryggður samkvæmt lögunum og nemi tryggingarhlutfallið mismun réttar hans, hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess hlutfalls sem hann gegnir áfram og reiknist það frá þeim tíma sem hann missti starf sitt að hluta nema annað leiði af ákvæðum laganna. Í 1. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tekjutengdar atvinnuleysisbætur, en sá sem er tryggður skv. III. eða IV. kafla laganna öðlast rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur skv. 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð nema annað leiði af lögunum. Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis V sem var í gildi þegar kærandi sótti fyrst um greiðslur atvinnuleysisbóta, þann 10. júní 2009, kemur fram að þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. gr. eða 22. gr. megi lengja hlutfallslega það tímabil sem heimilt er að greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur skv. 1. mgr. 32. gr. miðað við mismun réttar hins tryggða hefði hann misst starf sitt að öllu leyti og þess starfshlutfalls sem hann gegnir áfram.

Kærandi fékk greiddar 20% tekjutengdar atvinnuleysisbætur í samtals 12 mánuði og 5 daga á tímabilinu frá 23. júní til 30. nóvember 2010. Í útreikningi á tekjutengdum bótum var gengið út frá því að kærandi ætti rétt á 20% tekjutengingu í 15 mánuði, sem jafngildir 100% tekjutengingu í þrjá mánuði. Þegar kærandi sótti um 100% atvinnuleysis­bætur þann 1. desember átti hann því eftir tæplega þrjá mánuði á 20% tekjutengingu, sem jafngilti nákvæmlega 12 dögum á 100% tekjutengingu. Ekki verður annað séð en að útreikningur Vinnumálastofnunar á tekjutengdum atvinnuleysisbótum kæranda hafi verið í samræmi við 1. mgr. 32. gr. og bráðabirgðaákvæði V. laga um atvinnuleysistryggingar. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að rétt hafi verið staðið að greiðslum tekjutengdra atvinnuleysisbóta í máli kæranda.

Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum, hafa reglulega samband við Vinnumálastofnun eftir nánari fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar er að finna fyrirmæli um að hinum tryggða beri að staðfesta atvinnuleit á tímabilinu 20.–25. hvers mánaðar, hvort sem er í gegnum síma, á heimasíðu stofnunarinnar eða með komu á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Upplýsingar þessar eru einnig aðgengilegar á umsókn um atvinnuleysisbætur og umsækjendum er einnig leiðbeint um þessa skyldu á kynningarfundum og í kynningarbæklingi. Kæranda voru kynntar þessar reglur þann 12. júní 2009 og aftur þann 4. nóvember 2010. Kærandi skilaði til Vinnumálastofnunar bréfi, dags. 26. október 2010, þar sem hann gaf skýringu á því hvers vegna hann staðfesti ekki atvinnuleit sína í september 2010. Skýringar kæranda voru að hann hefði verið utan við sig vegna uppsagnarbréfs sem honum var afhent 31. ágúst 2010. Í kæru kæranda dags. 1. mars 2011 kemur fram að hann hafi ekki getað skráð sig umrætt skipti vegna þess að læst hafi verið fyrir innskráningu hjá Vinnumálastofnun. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að um mistök af hálfu Vinnumálastofnunar hafi verið um að ræða og að auki hefði kærandi getað tilkynnt atvinnuleit sína með öðrum hætti en með innskráningu á vef stofnunarinnar. Kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína líkt honum bar að gera og á þar af leiðandi ekki rétt greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 31. ágúst–26. október 2010.

Í kæru eru gerðar athugasemdir við að lífeyrissjóðsgreiðslur hafi skert atvinnuleysistryggingu kæranda. Greiðslur vegna séreignarlífeyrissparnaðar koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum en eftirlaunagreiðslur koma til frádráttar skv. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt greinargerð Vinnumálastofnunar hefur þessi ólögmæta skerðing verið leiðrétt.

 

Úr­skurðar­orð

 

Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að greiðslum tekjutengdra atvinnuleysisbóta í máli kæranda er staðfest.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið 31. ágúst til 26. október 2010 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta