Mál nr. 66/2011
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 2. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 66/2011.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 11. janúar 2011. Þann 2. febrúar 2011 skilaði kærandi vottorði vinnuveitanda, B ehf., dags. 27. janúar 2011. Þar kemur fram að kærandi starfaði sem rafvirki í 100% starfi frá árinu 1995 til 31. desember 2010. Við vinnslu umsóknarinnar var kæranda reiknaður með 58% bótaréttur. Kærandi krefst þess að fá greiddar fullar atvinnuleysisbætur. Kæra hans barst til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. apríl 2011. Vinnumálastofnun krefst þess að staðfest sé að rétt hafi verið staðið að útreikningi bótaréttar kæranda og hann skuli vera 58%.
Af hálfu kæranda er þess krafist að bótaréttur hans sé endurskoðaður og honum reiknaðar fullar atvinnuleysisbætur. Í rökstuðningi með kæru, dags. 25. apríl 2011, kemur fram að fyrir mistök hafi verið ritað á vinnuveitendavottorð að kærandi starfaði sem rafvirki frá 1995 til 31. desember 2010. Kærandi er menntaður rafvirki. Hann heldur því fram að hann hafi síðastliðin tíu ár starfað sem launþegi og verkamaður hjá B ehf. Kærandi tilgreinir störf unnin árin 2009 og 2010 þar sem hann hafi ekki unnið sem rafvirki. Kærandi er einnig í framkvæmdastjórn félagsins og prókúruhafi. Hann hefur greitt og skrifað út reikninga í nafni félagsins. Kærandi telur að bótaréttur hans skuli þar af leiðandi vera miðaður við að hann hafi unnið sem verkamaður en ekki rafvirki eins og Vinnumálastofnun miðar við, þegar bótaréttur hans er reiknaður.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. júní 2011, kemur fram að kærandi sé launamaður samkvæmt 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerðinni kemur einnig fram að Vinnumálastofnun hafi óskað eftir frekari upplýsingum frá skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar sem koma fram í vinnuveitendavottorði, dags. 27. janúar 2011, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í vottorði vinnuveitanda kemur fram að kærandi hafi starfað sem rafvirki hjá fyrirtækinu. Við mat á réttindum launamanns sem starfað hefur hjá eigin hlutafélagi eða félagi tengdu eða skyldu atvinnuleitanda er meðal annars litið til kjara launafólks þegar starfshlutfall þess er kannað. Miðað er við lágmarksákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein eða viðmiðunarfjárhæðir sem fjármálaráðherra gefur út opinberlega fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun þessa lágmarksgjalds er höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt skal endurgjald fyrir vinnu manns ekki vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Við útreikning bótaréttar kæranda var litið til viðmiðunarfjárhæðar þeirrar sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt. Samkvæmt útskrift úr hlutafélagaskrá er tilgangur félagsins vinna við raforkuvirki, raflangir, háspennulínur, lýsingu þjóðvega, vatnsveituframkvæmdir, hitaveituframkvæmdir, húsbyggingar, nýbyggingar og fleira. Var starfsemi kæranda sem rafvirkja, talin falla undir tekjuflokk D2 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald skv. 2. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt. Í tekjuflokknum nemur lágmarksviðmiðunarfjárhæð 276.000 kr. í launagreiðslur á mánuði. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra nema launagreiðslur kæranda frá B ehf. árin 2009–2011, 160.000 kr. á mánuði. Vinnumálastofnun komst þar af leiðandi að þeirri niðurstöðu að bótaréttur kæranda væri 58%. Í greinargerðinni felst Vinnumálastofnun ekki á að reiknað endurgjald skuli miðað við reiknað endurgjald fyrir starfsemi án fagmenntunar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 30. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 14. júlí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með rafrænum hætti þann 11. janúar 2011. Hann staðfesti umsóknina með undirritun sinni, dags. 31. janúar 2011, og var hún mótttekin 2. febrúar 2011. Í kjölfarið var umsókn hans afgreidd þannig að hann ætti rétt til 58% fullra atvinnuleysisbóta. Kærandi telur að hann eigi rétt á greiðslu 100% atvinnuleysisbóta.
Fyrir úrskurðarnefndinni hefur Vinnumálastofnun réttlætt hina kærðu ákvörðun með vísan til svohljóðandi 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 11. gr. laga nr. 37/2009:
Vinnumálastofnun er heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram koma í vottorði skv. 1. mgr. Þegar staðreyna skal starfshlutfall hins tryggða sem tilgreint er í vottorði vinnuveitanda skv. 1. mgr. skal Vinnumálastofnun meðal annars líta til þess hvort laun hins tryggða hafi verið í samræmi við tilgreint starfshlutfall á ávinnslutímabilinu og skal þá miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem hinn tryggði starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.
Af þessu ákvæði leiðir meðal annars að Vinnumálastofnun er heimilt að afla upplýsinga um starfshlutfall umsækjanda um atvinnuleysisbætur og hvort þær upplýsingar séu í samræmi við vinnuveitendavottorð sem aflað er skv. 1. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við mat á starfshlutfalli á ávinnslutímabila skal miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem atvinnuleitandi starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð viðkomandi ráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein. Af þessum lagatexta leiðir að Vinnumálastofnun ber fyrst að rannsaka ákvæði viðeigandi kjarasamnings áður en rýnt er í viðmiðunarfjárhæðir stjórnvalda fyrir reiknað endurgjald. Þessi skilningur er ekki í ósamræmi við ummæli sem er að finna í athugasemdum greinargerðar um 11. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/2009.
Áður en hin kærða ákvörðun var tekin fór engin rannsókn fram á efni þeirra kjarasamninga sem gætu gilt í máli kæranda. Við töku ákvörðunarinnar var því brotið á rannsóknareglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að Vinnumálastofnun hafi gefið kæranda kost á því að andmæla hinni fyrirhugaðu ákvörðun áður en hún var tekin þrátt fyrir að ákvörðunin væri óhjákvæmilega íþyngjandi fyrir kæranda. Telja verður slíkt brot á andmælareglunni, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Stjórnsýsla hins opinbera er lögbundin. Við töku stjórnvaldsákvarðana þarf í senn að gæta að réttum málsmeðferðareglum og haga ákvörðunartöku í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma. Vinnumálastofnun ber því að taka sínar ákvarðanir samkvæmt gildandi lögum og á grundvelli meginreglna stjórnsýsluréttar. Í þessu tiltekna máli var farið á svig við þessi grundvallaratriði og því er nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Það athugast að gögn skortir til að úrskurðarnefndin geti tekið nýja ákvörðun í málinu, þ.e. Vinnumálastofnun ber að taka málið fyrir að nýju og gæta að réttum málsmeðferðarreglum við afgreiðslu þess.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar að reikna kæranda A 58% bótarétt er felld úr gildi.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson