Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 142/2013

Fimmtudaginn 10. september 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 18. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 25. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 30. október 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1969. Hann á lögheimili að B götu nr. 16 í sveitarfélaginu C sem er 150 fermetra íbúð. Kærandi á íbúðina að 50% hluta á móti fyrrum sambýliskonu sinni.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda eða starf.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 59.741.452 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2005.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til skilnaðar, atvinnuleysis og mikillar hækkunar lána í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. mars 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 23. maí 2013 lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 1. og 5. mgr. 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að samkvæmt 13. gr. lge. skuli umsjónarmaður meta hverju sinni hvort selja eigi fasteign skuldara, meðal annars með tilliti til stærðar, afborgana og verðmætis. Hann skuli meðal annars gæta þess að jafnræðis sé gætt á milli skuldara í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Í athugasemdum við 13. gr. lge. sé að finna frekari leiðbeiningar sem umsjónarmaður skuli horfa til við þetta mat. Í máli þessu mæli umsjónarmaður fyrir um sölu fasteignar kæranda í ljósi þess að kærandi hafi ekki sýnt fram á greiðslugetu til þess að halda eigninni. Einnig telji umsjónarmaður eignina óhóflega að stærð. Kærandi sé eigandi 50% eignarinnar á móti fyrrum sambýliskonu sinni en hún hafi lagst gegn sölu eignarinnar. Umsjónarmaður hafi því lagt til að fasteignin yrði ekki hluti af greiðsluaðlögun kæranda en kærandi hafi lagst gegn því. Hafi kæranda því verið gefinn frestur til að fá fyrrum sambýliskonu sína til að fallast á sölu eignarinnar. Ekki hafi tekist að fá undirritað söluumboð frá henni og verði því að líta svo á að hún sé mögulega mótfallin sölunni. Kærandi sé á hinn bóginn tilbúinn til þess að selja eignina með fyrirvara um uppgjör þriggja lána. Tvö þeirra séu tryggð með 1. og 2. veðrétti í eigninni en það þriðja með lánsveði. Umsjónarmaður hafi ítrekað kynnt kæranda að greiðsluaðlögun kveði á um að söluandvirði eignar sé fyrst ráðstafað til greiðslu sölukostnaðar, þá næst lögveðskrafna og að lokum komi veðkröfur í veðröð. Miðað við gróflega áætlun á söluverði eignarinnar muni krafa á 1. veðrétti ekki fást greidd að fullu. Ekkert komi því upp í kröfu á 2. veðrétti. Hafi kæranda verið gerð grein fyrir því að söluandvirði muni ekki undir neinum kringumstæðum verða ráðstafað upp í lánsveðskröfuna, sem teljist samningskrafa í greiðsluaðlögun kæranda, nema þá til jafns við aðrar samningskröfur.

Kærandi hafi ekki viljað gefa upp launatekjur sínar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi hann engin laun haft í marga mánuði á ári. Þetta telji umsjónarmaður ólíklegt þar sem kærandi stundi atvinnu. Kærandi hafi borið fyrir sig að hann muni getað sýnt fram á það sem hann þurfi að sýna fram á þegar að því komi.

Í 1. mgr. 13. gr. lge. sé meðal annars mælt fyrir um að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli eignir skuldara og að eignir skuli selja þannig að tryggt sé að sem hæst verð fáist fyrir þær. Í 5. mgr. ákvæðisins sé mælt fyrir um skyldu umsjónarmanns til þess að óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. ef skuldari kemur með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna. Umsjónarmaður telji kæranda koma í veg fyrir sölu eignarinnar með því að samþykkja ekki söluna, nema með því skilyrði að söluandvirði verði ráðstafað með öðrum hætti en lög geri ráð fyrir.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 13. ágúst 2013 þar sem honum var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hans til greiðsluaðlögunar. Sérstaklega hafi verið óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt árið 2012 til ágúst 2013. Einnig hafi verið óskað eftir því að kærandi upplýsti um heimilishagi og dvalarstað. Þennan sama dag hafi embættið einnig haft samband við kæranda símleiðis og óskað eftir þessum upplýsingum. Hafi kærandi verið ófús til að gefa nokkrar upplýsingar um sig. Embættinu hafi síðan borist svar frá kæranda 16. ágúst 2013. Í svari kæranda hafi hann fjallað um ástæður sínar fyrir greiðsluaðlögunarumleitunum en ekki lagt fram umbeðnar upplýsingar. Kærandi hafi jafnframt óskað eftir fresti til 1. september 2013 til að koma á framfæri endanlegum andmælum sínum. Hafi embættið fallist á frestinn en frekari upplýsingar eða gögn hafi ekki borist frá kæranda.

Með bréfi til kæranda 3. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar endurupptöku á ákvörðun umboðsmanns skuldara sem byggð sé á röngum upplýsingum og gögnum. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vill fá að koma fyrir kærunefndina og kynna mál sitt sem snúist í stuttu máli um þrjú lán sem tekin hafi verið til íbúðarkaupa hjá Spron. Þegar Spron hafi orðið gjaldþrota hafi þessum lánum verið dreift á þrjá staði; Íbúðalánasjóð, Arion banka og Dróma. Þetta rýri veðhæfi íbúðar hans mikið og geri samninga flókna og erfiða. Því miður hafi kærandi ekki efni á að draga Fjármálaeftirlitið og Íbúðalánasjóð til ábyrgðar fyrir að hafa sett fjármál hans í uppnám.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Sömu gagna sé þörf við mat umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge. Athafnaskylda kæranda verði einnig leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið nær tekjulaus frá árinu 2008. Hann hafi að eigin sögn fengið fjárstuðning frá ættingjum og búi ekki lengur á lögheimili sínu að B götu nr. 16 í sveitarfélaginu C. Ekki liggi fyrir hvar kærandi búi. Að mati umboðsmanns skuldara sé hvorki hægt að fá heildaryfirsýn yfir fjárhag kæranda né heimilishagi, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. en tekjur hans samkvæmt skattframtali ársins 2013 vegna tekna ársins 2012 þyki ótrúverðugar. Samkvæmt staðgreiðsluskrá liggi ekki fyrir neinar tekjur vegna ársins 2013. Fjárhag kæranda verði því að telja óljósan en miðað við fyrirliggjandi gögn sé ekki unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til greiðsluaðlögunar.

Umsjónarmaður telji að selja þurfi íbúð kæranda að B götu nr. 16 í sveitarfélaginu C samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. þar sem kærandi hafi ekki sýnt fram á greiðslugetu til að halda eigninni. Umsjónarmaður meti það svo að greiðsluaðlögunarumleitanir geti ekki haldið áfram telji kærandi sig ekki geta framfylgt ákvörðun hans um sölu eignarinnar.

Samkvæmt því sem rakið hafi verið muni greiðsluaðlögunarumleitanir ekki geta haldið áfram telji kærandi sig ekki geta framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu eignar, sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Einnig verði að telja að umboðsmanni skuldara sé skylt að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem fyrirliggjandi gögn gefi ekki rétta mynd af fjárhag kæranda.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Kærandi hefur ekki upplýst um hvaða tekjur hann hafi haft frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt í mars árið 2012 og fram til ágúst 2013. Umboðsmaður skuldara óskaði sérstaklega eftir þessum upplýsingum í bréfi til kæranda 13. ágúst 2013 en kærandi hefur hvorki upplýst um laun sín né lagt fram gögn þar að lútandi.

Í fyrirliggjandi skattframtölum kemur eftirfarandi fram um brúttótekjur kæranda í krónum á tímabilinu 1. janúar 2009 til 31. desember 2012:

 

Tekjuár 2009 2010 2011 2012
Launatekjur 0 0 0 564.000
Bætur 264.944 394.595 0 0
Alls 264.944 394.595 0 564.000
Meðaltekjur á mán. 22.079 32.883 0 47.000

 

Að mati kærunefndarinnar eru framtaldar tekjur kæranda vegna tekjuáranna 2009, 2010 og 2012 ekki trúverðugar, enda hefðu þær með engu móti getað nægt til framfærslu kæranda hvað þá afborgana af þeim lánum sem hann kveðst þó hafa greitt af. Engar upplýsingar liggja fyrir um tekjur kæranda á tímabilinu 1. janúar 2013 til 3. september 2013, er umboðsmaður skuldara tók ákvörðun í málinu. Kærandi hefur ekki framvísað umbeðnum upplýsingum um tekjur sínar.

Samkvæmt þessu hefur kærandi látið hjá líða að upplýsa um tekjur sínar eins og honum er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skortir því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun meðal annars á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur skuldara liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þessu verður að telja að fjárhagur kæranda sé óljós að framangreindu leyti og því hafi umboðsmanni skuldara borið að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í 1. mgr. 13. lge. segir að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í máli þessu hefur umsjónarmaður mælt fyrir um sölu fasteignar kæranda sem er 50% eignarhluti í íbúð að B götu nr. 16 í sveitarfélaginu C en kærandi á eignina á móti fyrrum sambýliskonu sinni. Umsjónarmaður hefur greint frá því að sambýliskonan fyrrverandi hafi ekki fallist á sölu eignarinnar fyrir sitt leyti og að kærandi sé aðeins tilbúinn til að selja eignina með tilteknum skilyrðum um ráðstöfun söluverðs. Í því máli sem hér um ræðir er kærandi aðeins eigandi hluta eignarinnar og þarf meðeigandi hans, eðli málsins samkvæmt, að samþykkja sölu eignarinnar til að hún verði seld við greiðsluaðlögun. Verður ekki séð að einungis eignarhluti kæranda verði seldur, enda um eina íbúð að ræða sem sameiginlegt lán eigenda hvílir á. Er því atbeini meðeiganda kæranda nauðsynlegur til að eignin verði seld. Það kemur samkvæmt þessu fyrst til þess að meta viðhorf kæranda til fyrirhugaðrar sölu eignarinnar þegar meðeigandi hefur samþykkt söluna fyrir sitt leyti. Fáist samþykki meðeiganda á hinn bóginn ekki kemur til kasta kröfuhafa að taka ákvörðun um frumvarp til greiðsluaðlögunar kæranda með hliðsjón af atvikum málsins.

Samkvæmt framansögðu er að mati kærunefndarinnar ómöguleiki fyrir hendi að því er varðar sölu nefndrar fasteignar. Koma ákvæði 1. og 5. mgr. 13. gr. lge. því ekki til skoðunar eins og málið er vaxið.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta