Mál nr. 144/2013
Fimmtudagurinn 10. september 2015
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.
Þann 23. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.
Með bréfi 24. september 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. október 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. október 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 19. nóvember 2013. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 29. nóvember 2013 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.
I. Málsatvik
Kærandi er fædd 1960. Hún er einstæð móðir og býr ásamt syni sínum í leiguhúsnæði að B götu nr. 20 í sveitarfélaginu C.
Kærandi er öryrki og þiggur örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Hún fær einnig meðlag, barnabætur, barnalífeyri og húsaleigubætur. Alls nema mánaðartekjur hennar 257.888 krónum að meðaltali.
Heildarskuldir kæranda, samkvæmt drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunar-samnings, eru 6.495.111 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2009.
Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til tekjulækkunar og veikinda kæranda og sonar hennar.
Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. janúar 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.
Með bréfi til umboðsmanns skuldara 26. júlí 2012 tilkynnti umsjónarmaður að fram hefðu komið atriði sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og því væri framhald málsins í höndum umboðsmanns skuldara. Umsjónarmaður hefði sent kröfuhöfum frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings. Athugasemd hefði borist frá einum kröfuhafa, Bílabúð Benna ehf. Laut athugasemdin að því að þar sem greiðslugeta kæranda væri neikvæð þyrfti hún að skila bifreiðinni V til kröfuhafans en skuld samkvæmt veðskuldabréf í eigu kröfuhafans hvíldi á bifreiðinni. Umsjónarmaður hafi haft samband við kæranda og upplýst hana um fram komin mótmæli. Eftir nokkurra daga umhugsunarfrest upplýsti kærandi að hún myndi ekki skila bifreiðinni þar sem hún gæti ekki án hennar verið. Umsjónarmaður hafi reynt að koma kæranda í skilning um að þar sem greiðslugeta hennar væri neikvæð væru ekki aðrir möguleikar fyrir hendi en að skila bifreiðinni. Kærandi hafi ekki skilað bifreiðinni.
Umsjónarmaður geti tekið ákvörðun um að selja þurfi þær eignir sem af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum hann telji að skuldari geti verið án, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge. Þar sem greiðslugeta kæranda sé neikvæð sé það mat umsjónarmanns að hún þurfi að skila bifreiðinni. Þar sem kröfuhafi hafi krafist þess að bifreiðinni verði skilað sjái umsjónarmaður sig tilneyddan til að nýta heimild 1. mgr. 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Það sé einnig mat umsjónarmanns að kærandi hafi ekki sinnt þeim skyldum sem á henni hvíli samkvæmt lge. Bendi umsjónarmaður í því sambandi á b-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem kveði á um skyldu skuldara til að segja upp þeim leigusamningum sem tengist vöru eða þjónustu sem ekki séu skuldara og fjölskyldu hans nauðsynleg til lífsviðurværis eða eðlilegs heimilishalds.
Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 14. ágúst 2012 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Svör hafi ekki borist frá kæranda.
Með bréfi til kæranda 5. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.
Umsjónarmaður hafi kallað kæranda í viðtal og tilkynnt henni að hún yrði að skila bifreið sinni. Kærandi kveðst hafa álitið að embætti umboðsmanns skuldara ætti að hjálpa sér til þess að semja um skuldir þannig að viðráðanlegt væri. Næg persónuleg gögn hafi fylgt með umsókn kæranda til þess að hægt væri að átta sig á stöðu hennar sem væri þannig að hún gæti ekki bjargað sér með sæmilega mannsæmandi hætti án bifreiðar. Kærandi sé öryrki og gæti ekki hjólað eða gengið með góðu móti án aukakostnaðar. Kærandi hafi ekki óskað milljarða afskrifta heldur aðeins möguleika til að sjá um sig og sinn heimilisrekstur. Hún hafi ekki óskað afskrifta heldur greiðsluaðlögunar.
Embætti umboðsmanns skuldara hafi beðið kæranda um ný gögn í málinu en það hafi verið gögn sem ekki hafi verið til. Kærandi hafi lagt öll sín spil á borðið í upphafi og hefði það átt að duga til að fá heildarmynd af stöðu hennar. Mál kæranda hafi verið unnið út frá viðmiðum um lágmarksframfærslukostnað en þessi viðmið hefðu ekki náð til kæranda.
Kærandi vísar til mannréttindasáttmála sem Ísland sé aðili að máli sínu til stuðnings. Hún eigi rétt á því að hafa mannsæmandi laun til að standa undir heimilishaldi sínu og annast son sinn. Kærandi vísar einnig til 65. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands varðandi jafnrétti þegnanna og réttindi þeirra.
Kærandi er afar ósátt við störf umsjónarmanns í málinu.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.
Umsjónarmaður hafi gert kæranda grein fyrir því að hún þurfi að skila umræddri bifreið þar sem greiðslugeta hennar sé neikvæð. Í lge. sé gert ráð fyrir því að til að halda eftir eignum verði að vera unnt að sýna fram á fullnægjandi greiðslugetu til að standa undir mánaðarlegum greiðslum. Það hafi kæranda ekki tekist.
Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt15. gr.
Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.
Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.
Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé. Við mat á slíku skal umsjónarmaður bera saman hagsmuni lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Skuli þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla lánardrottna. Einnig skuli umsjónarmaður meta hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan skamms tíma, með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Til skoðunar komi fyrst og fremst fasteignir, einkum íbúðarhúsnæði, og verðmætir lausafjármunir eins og bifreiðar. Um lausafjármuni skuli gengið út frá því að skuldari eigi rétt á að halda lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verði undanþegnar við fjárnám samkvæmt 43. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Komi til kröfu um sölu lausafjármuna skuli almennt miðað við að um verðmæta muni sé að ræða, að sala þeirra sé kröfuhöfum verulega til hagsbóta og að skuldari geti bersýnilega verið án þeirra, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Nærtækasta dæmið sé bifreiðir en sé um það að ræða að skuldari hafi sjálfur, eða ásamt fjölskyldumeðlimum, tvær bifreiðir til ráðstöfunar, geti umsjónarmaður eftir atvikum kveðið á um sölu annarrar bifreiðarinnar.
Í málinu liggur fyrir að Bílabúð Benna ehf. hefur farið fram á að kærandi skili bifreiðinni V til sín sem veðhafa en bifreiðin er nýskráð árið 2007. Í fyrirliggjandi drögum að samningi um greiðsluaðlögun er kærandi sögð umráðamaður bifreiðarinnar. Samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá er kærandi eigandi bifreiðarinnar. Kærandi hefur ekki fallist á að skila bifreiðinni. Hún gefur meðal annars þá skýringu að hún sé öryrki og geti ekki hjólað eða gengið með góðu móti án aukakostnaðar.
Það veðskuldabréf sem sagt er vera vegna veðskuldar sem hvíli á bifreiðinni liggur ekki fyrir í málinu og embætti umboðsmanns skuldara hefur ekki getað framvísað því þrátt fyrir beiðni þar um. Í málinu hefur því ekki verið upplýst um þann grundvöll sem krafa um skil á bifreiðinni er byggð á og þar með um skyldu kæranda til þess að skila henni. Áhvílandi lán á bifreiðinni V, samkvæmt fyrirliggjandi kröfulýsingu, nemur 1.080.349 krónum en bifreiðin hefur verið skráð úr umferð. Engar upplýsingar eða kvittanir liggja fyrir um innborganir á skuld samkvæmt veðskuldabréfinu og þá ekki greiðslubyrði. Veðbandayfirlit bifreiðarinnar liggur ekki fyrir. Í málinu eru hvorki gögn né upplýsingar um matsverð bifreiðarinnar og þar af leiðandi liggur ekki fyrir hvort bifreiðin stendur undir áhvílandi veðskuldum að einhverju eða öllu leyti. Leiðir þetta einnig til þess að forsendur skortir til að ákvarða mánaðarlegar greiðslur af veðkröfum innan matsverðs eignar samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge.
Samkvæmt gögnum málsins eru tekjur kæranda 257.888 krónur á mánuði að meðaltali. Framfærslukostnaður hennar er 228.029 krónur á mánuði samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Greiðslugeta kæranda samkvæmt því er 29.859 krónur á mánuði. Samkvæmt drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings er framfærslukostnaður kæranda 292.409 krónur á mánuði og greiðslugeta samkvæmt því neikvæð um 34.521 krónu. Hérna munar rúmum 64.000 krónum á mánuði á greiðslugetu kæranda og hafa ekki komið fram neinar skýringar á þessu misræmi. Verður að telja að sú viðmiðun sem notuð er sé lykilatriði að því er varðar fjárhag kæranda, getu til að halda umræddri bifreið og þar með úrlausn málsins. Því verður að liggja fyrir í málinu hver hin rétta viðmiðun er áður en ákvörðun er tekin í því.
Af ákvörðun umboðsmanns skuldara verður ráðið að embættið hafi ekki rannsakað með sjálfstæðum hætti þau misvísandi og óupplýstu málsatvik sem að ofan greinir eða aflað þeirra gagna sem varpað gætu viðhlítandi ljósi á málið. Engu að síður byggði embættið ákvörðun sína á umræddum atvikum.
Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál. Það er markmið rannsóknarreglunnar að tryggja að ákvarðanir stjórnvalds séu bæði löglegar og réttar. Því hefur verið talið að ekki sé nægilegt að afla upplýsinga heldur verði eftir atvikum að staðreyna hvort þær eru réttar. Á þetta að tryggja að stjórnvaldsákvörðun sé tekin á réttum grundvelli. Að mati kærunefndarinnar hefur embætti umboðsmanns skuldara ekki farið með málið á þann hátt sem rannsóknarreglan mælir fyrir um.
Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, telur kærunefndin að A hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að umboðsmaður skuldara hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er felld úr gildi.
Sigríður Ingvarsdóttir
Eggert Óskarsson
Lára Sverrisdóttir