Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2015

Fimmtudagurinn 10. september 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. mars 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. febrúar 2015 þar sem umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 18. maí 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. maí 2015.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 28. maí 2015 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 26. júní 2015. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1963. Þau eru gift og búa í leiguhúsnæði. Börn þeirra eru fjögur en þar af eru tvö uppkomin. Kærandi A starfar hjá X ehf. og eru mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar 371.265 krónur. Kærandi B er fasteignasali en hann kveðst einungis sinna ólaunuðu starfi hjá hagsmunasamtökum. Kærendur fá barnabætur að fjárhæð 39.546 krónur á mánuði.

Kærendur segja fjárhagserfiðleika sína stafa af atvinnuleysi þeirra beggja, skuldasöfnun vegna náms, tekjulækkun og hækkun erlendra lána í kjölfar efnahagshrunsins.

Heildarskuldir kærenda eru 43.635.688 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Þar af eru skuldir kæranda A 40.006.074 krónur en bú hennar var tekið til gjaldþrotaskipta 21. janúar 2010 og lauk skiptum 21. nóvember 2013. Þær kröfur sem falla undir gjaldþrotaskiptin að fjárhæð 39.630.863 krónur fyrnast að liðnum tveimur árum frá skiptalokum samkvæmt 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Skuldir kæranda B nema 3.629.614 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara. Embætti umboðsmanns skuldara telur að skuldir kærenda, samtals að fjárhæð 320.726 krónur, falli innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Aðrar skuldir þeirra falli utan greiðsluaðlögunar.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en umsókn þeirra var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. júní 2012. Þau kærðu ákvörðun umboðsmanns til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og með úrskurði 18. september 2014 felldi kærunefndin ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi. Málið fór því aftur til meðferðar umboðsmanns skuldara sem tók nýja ákvörðun 16. febrúar 2015. Með hinni nýju ákvörðun umboðsmanns skuldara var umsókn kærenda enn hafnað og nú með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. og d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfu í málinu en skilja verður kæru þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur hafa ekki fært fram málsástæður eða lagarök máli sínu til stuðnings og ekki lagt fram gögn.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Ákvæði 6. gr. lge. heimili umboðsmanni skuldara að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Skuli meðal annars líta til þess hvort skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt svo sem fram komi í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð með frumvarpi til lge. sé tekið fram að ástæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt 5. gr. lge. skuli umboðsmaður skuldara ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og aukinn frest til að afla upplýsinga, sem einungis hafi verið á færi kærenda að veita, hafi þær ekki borist. Hafi það einkum verið upplýsingar um félagslegar aðstæður kærenda svo sem fjölskylduhagi, búsetu og tekjur. Í kjölfar ítrekaðra fyrirspurna með tölvupósti hafi kærendum verið sent bréf í ábyrgðarpósti með sömu fyrirspurnum. Engin svör hafi borist frá kærendum og því hafi verið ákveðið að boða þau til fundar samkvæmt 2. mgr. 5. gr. lge. Kærandi B hafi einn mætt til fundarins sem haldinn hafi verið 27. nóvember 2014 en aðrir fundarmenn hafi verið umboðsmaður skuldara og sviðsstjóri hjá embættinu. Á fundinum hafi meðal annars komið fram að kærandi B hafi verið tekjulaus en starf hans sé ólaunað starf hjá hagsmunasamtökum. Hafi hann greint frá því að tekjur kæranda A væru nýttar til að sjá kærendum og fjölskyldu þeirra farborða. Hafi kærandi B samkvæmt þessu kosið að sinna ólaunuðu sjálfboðaliðastarfi á árinu 2014 og því ekki aflað tekna á árinu.

Í 12. gr. lge. séu skilgreindar skyldur skuldara meðan á greiðsluskjóli standi. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, samskiptakostnað, fasteignagjöld og fleira þess háttar. Á meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að standa við gjöld og kostnað vegna framfærslu í mánuði hverjum þegar greiðslugeta skuldara sé jákvæð, enda markmiðið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu skuldara.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls alls að fjárhæð 772.719 krónur, þrátt fyrir greiðslugetu. Hluti þeirra skulda sé vegna trygginga og kostnaðar við skólagöngu barna en gert sé ráð fyrir þeim kostnaði í greiðsluáætlun fyrir kærendur.

Með ábyrgðarbréfi 12. desember 2014 hafi ofangreind afstaða embættisins verið rakin og kærendum gefinn kostur á að koma andmælum sínum á framfæri. Kærendur hafi ekki komið neinum andmælum á framfæri þrátt fyrir að fá til þess aukinn frest eða til 30. janúar 2015.

Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins telur umboðsmaður skuldara að háttsemi kærenda varði synjun á umsókn um greiðsluaðlögun með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. og d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Sé þar í fyrsta lagi til þess að líta að kærandi B hafi ekki aflað þeirra tekna sem honum hafi verið unnt með því að sinna ólaunuðu starfi og þannig látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og honum hafi framast verið unnt. Í öðru lagi sé litið til þess að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. þar sem þau hafi stofnað til skulda í greiðsluskjóli þrátt fyrir að hafa greiðslugetu samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara í mánuði hverjum.

Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir og ríflega fresti hafi kærendur hvorki lagt fram gögn né skýringar sem varpað geti nánara ljósi á þau atriði sem að framan greini.

Með vísan til ofangreinds hafi umsókn kærenda um greiðsluaðlögun verið synjað á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. og d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f-lið 2. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er fjallað um þær aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð en þar segir að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Ákvæði f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er meðal þeirra atriða sem upp eru talin í lagaákvæðinu og sem leitt geta til þess að synjað verði um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Synjunarástæður af þessum toga eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi B brotið gegn ákvæðinu með því að afla ekki  þeirra tekna sem honum var unnt og sinna einungis ólaunuðu starfi og þannig látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eins og honum framast var unnt. Kærandi B er fasteignasali en í málinu liggja ekki fyrir nein gögn um fjárhag hans árið 2014 og staðgreiðsluyfirlit ríkisskattstjóra hefur ekki verið lagt fram. Á fundi, sem hann átti með starfsmönnum embættis umboðsmanns skuldara 19. nóvember 2014, greindi hann frá því að hann væri tekjulaus en væri í sjálfboðavinnu fyrir hagsmunasamtök. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum kærenda vegna tekjuáranna 2010 til 2013 má sjá að kærandi B þáði atvinnuleysisbætur þessi ár en hafði ekki aðrar tekjur.

Í málinu liggur ekkert fyrir um það að kæranda B hafi á þessum tíma verið unnt að afla tekna sem hann hafi látið undir höfuð leggjast að gera eins og umboðsmaður skuldara byggir á. Verður samkvæmt því ekki fullyrt að hann hafi á ámælisverðan hátt látið hjá líða að afla þeirra tekna sem honum hafi verið unnt. Samkvæmt þessu fellst kærunefndin ekki á það sjónarmið að kærandi B hafi brotið gegn ákvæðum f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Verður þá vikið að d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 3. júní 2011. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi látið undir höfuð leggjast að greiða tiltekin útgjöld á tímabili frestunar greiðslna og þannig stofnað til skulda í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi A hefur ekki staðið skil á leikskólagjöldum, kostnaði við frístundaskóla og bifreiðagjaldi en þessi gjöld féllu til á tímabilinu 30. ágúst 2013 til 1. júlí 2014 og eru alls að fjárhæð 756.359 krónur miðað við 29. september 2014. Þá hefur hún ekki greitt orkukostnað að fjárhæð 9.659 krónur sem féll í gjalddaga 6. júní 2011. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi B einnig stofnað til skulda í greiðsluskjóli. Þannig stendur hann í skuld við Félag fasteignasala frá 11. júlí 2011 og nemur sú skuld 234.774 krónum miðað við 1. október 2014. Þá liggur fyrir á hendur honum skuld við Bílastæðasjóð vegna krafna frá apríl og maí 2012 sem nema alls 54.666 krónum og skuld við Tollstjóra að fjárhæð 50.000 króna miðað við 1. október 2014. Þá nemur skuld hans við Aplikal slf. frá 6. september 2013 alls 76.931 krónu. Alls nema skuldir þessar 416.371 krónum.

Gert var ráð fyrir orkukostnaði, gjöldum vegna skóla, dagvistunar og bifreiðar í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Af fyrirliggjandi gögnum, meðal annars skattframtölum, má ráða að kærendur hafa haft greiðslugetu á tímabili greiðsluskjóls og þar með getu til að greiða umrædd gjöld. Hafa kærendur því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluskjóls.

Í ljósi þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og er greiðsluaðlögun því ekki heimil á grundvelli laganna þar sem kærendur uppfylla af þessum sökum ekki skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi því borið að synja umsókn kærenda um greiðsluaðlögun með vísan til þessara lagaákvæða.

Með vísan til alls þess er greinir hér að framan verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta