Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 115/2013

Fimmtudaginn 1. október 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. ágúst 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. júlí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra voru felldar niður.

Með bréfi 6. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. ágúst 2013.

Greinargerð umboðsmanns var send kærendum með bréfi 22. ágúst 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1946. Þau búa ásamt uppkomnum syni sínum í eigin fasteign að C götu nr. 20 í sveitarfélaginu D. Samkvæmt greiðsluáætlun nema ráðstöfunartekjur kærenda samtals að meðaltali 405.522 krónum á mánuði eftir frádrátt skatts.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 36.995.337 krónur sem allar falla innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 29. maí 2012 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum. Við undirbúning frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun komst umsjónarmaðurinn að þeirri niðurstöðu að selja þyrfti eignir kærenda, annars vegar fasteign þeirra að C götu nr. 20 og bifreið þeirra hins vegar. Lögðust kærendur gegn þeirri niðurstöðu umsjónarmanns. Að auki taldi umsjónarmaður kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta undir höfuð leggjast að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem var umfram það sem þau þyrftu til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Í kjölfarið sendi umsjónarmaðurinn bréf til umboðsmanns skuldara þar sem lagt var til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Var kærendum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en ákvörðun yrði tekin af hálfu embættisins. Engin andmæli bárust.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. júlí 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. og a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera þá kröfu að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi eða hún endurskoðuð.

Kærendur telja að beita eigi vægari úrræðum en umboðsmaður skuldara leggi til, en ákvörðun hans sé þeim afar íþyngjandi. Telja kærendur í fyrsta lagi að aðalkröfuhafi í máli þeirra, Landsbankinn, hafi lítinn samningsvilja sýnt. Bankinn hafi ekki fallist á eftirgjöf krafna, ekki tekið tillit til atvinnumissis kæranda B, hás aldurs kærenda og möguleika þeirra til tekjuöflunar í framtíðinni. Hafi bankinn ekki boðið kærendum upp á þau úrræði sem sannanlega standi skuldurum til boða. Nefna kærendur í þessu sambandi 110% leiðina svokölluðu og sértæka skuldaaðlögun. Hvorugt þessara úrræða sé í boði fyrir kærendur.

Í öðru lagi gera kærendur athugasemd við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Telja kærendur óraunhæft að ætla að þau hefðu getað lagt fyrir um 160.000 krónur á mánuði. Sé það í fyrsta lagi vegna þess að þriggja manna fjölskyldu þeirra séu áætlaðar 78.000 krónur á mánuði til matar- og hreinlætisvörukaupa en að mati kærenda er sú fjárhæð stórlega vanáætluð. Í þriðja lagi hafi kærandi A glímt við langvarandi veikindi og hafi læknis- og lyfjakostnaður, auk óbeins kostnaðar vegna veikinda hennar, numið mun hærri fjárhæð en rúmum 13.000 krónum á mánuði eins og viðmið umboðsmanns skuldara gera ráð fyrir.

Loks telja kærendur að hin áætlaða sala eigna feli ekki í sér lausn á máli þeirra. Þó að eignirnar yrðu seldar væri engan veginn sýnt fram á að raunhæft væri að kærendur gætu staðið við skuldbindingar sínar til framtíðar. Til þess að svo verði þurfi að koma til eftirgjafar skulda af hálfu aðalkröfuhafa. Að öðrum kosti muni koma til vanskila sem mögulega kynnu að leiða til gjaldþrots.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. laganna að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns, samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í hinni kærðu ákvörðun segi að það sé mat umsjónarmanns sem og umboðsmanns skuldara að selja þurfi eignir kærenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. og muni greiðsluaðlögunar­umleitanir ekki geta haldið áfram ef kærendur geti ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um sölu eigna, sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé enn fremur mælt fyrir um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Fyrir liggi að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt 3. júlí 2012 og þá hafi frestun greiðslna hafist samkvæmt 11. gr. lge. en skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. hafi tekið gildi gagnvart kærendum frá þeim degi.

 

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 10 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. ágúst 2012 til 31. maí 2013. Samkvæmt skattframtölum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. ágúst 2012 til 31. maí 2013 að frádregnum skatti 3.897.527
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2012 157.696
Samtals 4.055.223
Mánaðarlegar meðaltekjur 405.522
Framfærslukostnaður á mánuði 244.809
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 160.713
Samtals greiðslugeta í 10 mánuði 1.607.130

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 405.522 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 10 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið 244.809 krónur á meðan á frestun greiðslna stóð. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum júnímánaðar 2013 fyrir hjón. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að veita kærendum svigrúm til þess að bregðast við óvæntum minniháttar útgjöldum. Heildarframfærslukostnaður kærenda á umræddu tímabili greiðsluaðlögunar hafi því verið um 2.448.090 krónur. Með tilliti til áðurnefndra útreikninga skuli gengið út frá því að kærendur hefðu að öllu óbreyttu átt að geta lagt fyrir 1.607.130 krónur, sé miðað við mánaðarlega meðalgreiðslugetu að fjárhæð 160.713 krónur í 10 mánuði. Að sögn umsjónarmanns nemi sparnaður kærenda um 300.000 krónum eða einungis um 19% af þeirri fjárhæð sem þeim hefði átt að vera kleift að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Taldi umboðsmaður skuldara ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr. lge., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. og a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga.

Í tilefni andmæla kærenda, er fram komi í kæru til kærunefndarinnar, er af hálfu umboðsmanns skuldara vísað til þess í greinargerð til kærunefndarinnar að kærendur hafi ekki lagt fram nein gögn er sýni fram á aukin útgjöld vegna veikinda annars kærenda og að umboðsmaður skuldara hafi ekki heimild til þess að telja framfærslu uppkominna barna kærenda til heimilisþarfa í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna.

Þá hafi kærendur ekki sýnt fram á með gögnum að þau geti staðið í skilum með afborganir af eignum sínum að lokinni greiðsluaðlögun.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun sé tekin. Eins og fram hefur komið tilkynnti umsjónarmaður umboðsmanni skuldara með bréfi 2. maí 2013 að meðal annars þar sem kærendur hefðu ekki samþykkt sölu fasteignar sinnar, þrátt fyrir að hafa ekki greiðslugetu til að halda eigninni, teldi umsjónarmaðurinn rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður, sbr. 15. gr. lge. Með bréfi 26. júní 2013 var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. 13. gr. lge. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi hann með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. laganna.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það teljist ekki bersýnilega ósanngjarnt, svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án.

Þegar skuldari heldur eftir eignum, sem veðkröfur á hendur honum hvíla á, skal hann greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum eins og mælt er fyrir um í a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Fastar mánaðargreiðslur mega samkvæmt lagaákvæðinu ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu. Þessar kröfur falla ekki niður þegar greiðsluaðlögun lýkur.

Í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi til lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunar­tímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt er. Samkvæmt útreikningum umboðsmanns skuldara var greiðslugeta kærenda 160.713 krónur á mánuði þegar greiðsluaðlögunarumleitanir voru felldar niður. Samkvæmt upplýsingum úr Fasteignaskrá er íbúð kærenda að C götu nr. 20 samtals 132,2 fermetrar að stærð. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá yrði hæfileg leiga á sambærilegri eign á almennum markaði á bilinu 215.292 til 238.128 krónur á mánuði. Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilviki eins og því sem hér um ræðir að selja þá eign sem veðsett er, enda ljóst að kærendur geta ekki staðið undir greiðslum af veðkröfum samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge., jafnvel þótt miðað yrði við að sérstakar og tímabundnar ástæður væru fyrir hendi.

Sem fyrr segir hafa kærendur lýst yfir þeirri afstöðu sinni að þau vilji ekki að fasteign þeirra verði seld. Hafa kærendur því ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge., sbr. 5. mgr. sömu greinar. Bar umboðsmanni því, samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. laganna, að fella greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda niður. 

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist einnig á 15. gr. lge. með vísan til a- liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari við greiðsluaðlögun leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var umsókn kærenda samþykkt af hálfu embættis umboðsmanns skuldara 3. júlí 2012 og hófst þá frestun greiðslna og tóku skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. jafnframt gildi frá þeim degi.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 1.607.130 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram. Kærendur kveðast hafa lagt fyrir 300.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. ágúst 2012 til 31. desember 2012: Fimm mánuðir
Nettótekjur B 1.087.670
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 217.534
NettótekjurA 935.013
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 187.003
Nettótekjur alls 2.022.683
Mánaðartekjur alls að meðaltali 404.537


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. júní 2013: Sex mánuðir
Nettótekjur B 1.234.962
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 205.827
Nettótekjur A 1.012.254
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 168.709
Nettótekjur alls 2.247.216
Mánaðartekjur alls að meðaltali 374.536

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 4.269.899
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 388.173

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. ágúst 2012 til 30. júní 2013: 11 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 4.269.899
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2012 157.696
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 4.427.595
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 402.509
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 244.809
Greiðslugeta kærenda á mánuði 157.700
Alls sparnaður í 11 mánuði í greiðsluskjóli x 157.700 1.734.696

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Í kæru báru kærendur því við að framfærslukostnaður þeirra væri hærri en viðmið umboðsmanns skuldara gerðu ráð fyrir þar sem einnig þurfi að reikna með framfærslu sonar þeirra. Með vísan til þess sem fram kemur í lagaákvæðinu um framfærslu skuldara og fjölskyldu hans fellst kærunefndin á það með umboðsmanni skuldara að ekki sé unnt að taka tillit til framfærslu uppkominna barna skuldara við útreikninga á framfærslu samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafa hvorki lagt fram gögn er sýna sparnað né aukinn læknis- og lyfjakostnað og er því ekki unnt að taka tillit til þess við útreikninga á sparnaði kærenda.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Í ljósi þessa verður að fallast á það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi brugðist skyldu sinni við greiðsluaðlögun samkvæmt  a-lið 1. mgr. 12. gr. lge..

Með vísan til alls framangreinds er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta