Hoppa yfir valmynd

Nr. 119/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 119/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010019

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 16. janúar 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. desember 2018, um að synja honum um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga nr. 80/2018.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 22. október 2016. Þann 15. desember 2016 ákvað Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda ekki til efnismeðferðar og að hann skyldi sendur til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013). Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði sínum þann 31. janúar 2017. Þann 12. febrúar 2017 gekk kærandi í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli þess hjúskapar 23. febrúar 2017. Fékk kærandi útgefið dvalarleyfi þann 30. maí 2017 með gildistíma til 30. maí 2018. Þann 18. október 2017 fengu kærandi og fyrrverandi maki hans leyfi til lögskilnaðar hjá embætti sýslumanns.

Þann 4. september 2017 rann út frestur íslenskra stjórnvalda til þess að endursenda kæranda til Svíþjóðar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Ákvað Útlendingastofnun í kjölfarið að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Með ákvörðun stofnunarinnar þann 11. júlí 2018 var kæranda synjað um alþjóðlega vernd auk þess sem honum var synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið. Kærunefnd staðfesti ákvörðun stofnunarinnar með úrskurði sínum þann 18. október 2018. Þann 5. febrúar 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli skorts á starfsfólki. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. desember 2018, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 2. janúar sl. og þann 16. janúar sl. kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, 18. desember 2018, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 24. janúar sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 29. janúar 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga væri það forsenda fyrir útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki að áður hafi verið gefið út atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2018, hafi kæranda verið synjað um atvinnuleyfi. Væri stofnuninni því ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var umsókn hans því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé að afla gagna til þess að leggja inn umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, sbr. 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, og muni leggja þá umsókn inn á næstu dögum auk þess sem hann muni óska eftir því að fá að dvelja á landinu á meðan umsóknin er til meðferðar hjá stjórnvöldum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Af ákvæðinu er ljóst að ákveðin verkaskipting er milli Útlendingastofnunar annars vegar og Vinnumálastofnunar hins vegar. Er hlutverk Útlendingastofnunar m.a. fólgið í að kanna hvort skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis samkvæmt umsókn þar að lútandi séu fyrir hendi í samræmi við ákvæði laga um útlendinga á meðan Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, þ.m.t. hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að Vinnumálastofnun synjaði kæranda um atvinnuleyfi með ákvörðun, dags. 31. ágúst 2018. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að þeirri ákvörðun hafi verið hnekkt þrátt fyrir að kærandi hafi sótt um atvinnuleyfi að nýju. Kærandi uppfyllir því ekki ófrávíkjanlegt skilyrði b-liðar. 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Kæranda er því ekki heimil áframhaldandi dvöl hér á landi og ber honum að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                           Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta