Hoppa yfir valmynd

Nr. 188/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 188/2018

Miðvikudaginn 5. september 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. maí 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2018 um að líta á „uføretrygd“ greiðslur hennar frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árinu 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. febrúar 2018, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hennar á árinu 2018 hefði verið endurreiknaður á grundvelli upplýsinga frá NAV í Noregi. Í ákvörðuninni kemur fram að fyrir liggi ofgreiðsla að fjárhæð 18.256 kr. sem verði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins sem áætlað sé að fari fram haustið 2019.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. maí 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. júní 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. júní 2018. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að Tryggingastofnun ríkisins meðhöndli greiðslur hennar frá NAV sem erlendan grunnlífeyri en ekki sem lífeyrissjóðsgreiðslur.

Í kæru segir að kærð sé meðhöndlun Tryggingastofnunar ríkisins á örorkubótum sem hún fái frá norska ríkinu í gegnum NAV og þá sérstaklega þeirri aðferð að túlka bæturnar sem lífeyrissjóðsgreiðslur en ekki sem erlendan grunnlífeyri. Með þessari túlkun stofnunarinnar skerðist bætur hennar frá Tryggingastofnun um 40% af þeim greiðslum sem NAV greiði. Væru örorkubætur frá NAV meðhöndlaðar sem erlendur grunnlífeyrir þá hefðu greiðslurnar engin áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun.

Samskipti við Tryggingastofnun vegna þessa máls hafi einkennst af því að erfitt hafi verið að fá svör og að þau hafi oft verið misvísandi. Þá sé þess getið að umsókn kæranda hafi farið í gegnum Tryggingastofnun og hún hafi fengið þau svör í byrjun að örorkubætur úr norska almannatryggingakerfinu hefðu ekki áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun skilgreini örorkubætur frá norsku almannatryggingunum eins og um lífeyri frá lífeyrissjóðum sé að ræða og segja að vegna þess að útreikningar í Noregi byggi á tekjum þá velji Tryggingastofnun að flokka þessar bætur sem lífeyrissjóðsgreiðslur. Þess sé getið að kærandi eigi engan rétt til greiðslna úr lífeyrissjóðum í Noregi.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun hafi stofnunin, eftir að norska ríkið hætti að aðgreina „grunnpension“ og „tilleggspensjon“, ákveðið að flokka allar örorkubætur frá Noregi sem „tilleggspensjon“ og meðhöndla örorkubæturnar sem lífeyrissjóðsgreiðslur nema þær greiðslur sem byggi eingöngu á búsetu. Í raun sé það þá þannig að Tryggingastofnun hafi ákveðið að allir íslenskir öryrkjar sem hafi búið og unnið í Noregi fái ekki greiddar örorkubætur heldur lífeyrissjóðsgreiðslur frá norska almannatryggingakerfinu og að eingöngu þeir sem hafi aldrei verið á vinnumarkaði í Noregi en hafi búið þar fái örorkubætur. Með þessari túlkun haldi Tryggingastofnun því í raun fram að norska almannatryggingakerfið borgi engan grunnlífeyri ef fólk hafi verið á vinnumarkaði. Þetta sé þvert á túlkun norska ríkisins.

Í samtölum kæranda við NAV í Noregi hafi verið staðfest að þær greiðslur sem hún hafi fengið frá þeim eigi ekkert skylt við greiðslur frá lífeyrissjóðum og að þær byggist á áunnum rétti vegna búsetu hennar í Noregi. Kærandi hafi einnig spurt hvort hægt væri að finna út hvað væri „grunnpensjon“ og hvað væri „tilleggspensjon“ eins og Tryggingastofnun hafi fjallað um. Því hafi verið svarað á þá leið að ef um „tilleggspensjon“ væri að ræða, sem ekki væri raunin í hennar tilfelli, ætti það að koma fram á útreikningum og útborgunarseðlum. NAV hafi upplýst hana um að hún fái ekki neitt sem heiti „tilleggspensjon“ heldur séu þetta venjulegar örorkubætur („ordinær uföretrygd“). Í því samhengi sé bent á að á útborgunarseðlum standi „ordinær pensjon“ sem þýði „grunnlífeyrir“ eða „venjulegur lífeyrir“ Einnig sé bent á að í 13 blaðsíðna úrskurði NAV, sem innihaldi útreikninga og útskýringar á réttindum hennar, komi hugtakið „tilleggspensjon“ (viðbótarlífeyrir) eða „pensjonkasse“ (lífeyrissjóður) hvergi fyrir. Þess vegna sé bent á að þegar Tryggingastofnun túlki það svo að allar hennar bætur séu „tilleggspensjon“ eða „pensjonkasse“ (lífeyrissjóður) þá sé það sérkennileg túlkun þar sem hvorugt þessara hugtaka komi fyrir í neinum af þeim gögnum sem komi frá NAV.

Í Noregi sé það svo að allir sem hafi verið á norskum vinnumarkaði fái stig fyrir þátttöku í atvinnulífinu og það hafi áhrif á útreikning bóta úr almannatryggingakerfinu. Þannig fái fólk það metið í formi bóta frá ríkinu að hafa tekið þátt í norsku atvinnulífi og á þann hátt hafi það skilað verðmætum til samfélagsins. Lífeyrissjóðir sé svo allt annar hlutur eins og hér á landi. Á Íslandi sé þessi háttur ekki hafður við útreikning bóta frá Tryggingastofnun, hér sé það ekki metið hvað fólk hafi lagt á sig í þágu samfélagsins og þá sé það ákveðið hjá Tryggingastofnun að skera burt þennan rétt sem fólk hafi áunnið sér í Noregi með því að skerða greiðslur frá stofnuninni.

Íslenska ríkið sé aðili að ýmsum millilandasamningum sem hafi það að markmiði að standa vörð um þau réttindi sem Íslendingar hafi áunnið sér í gegnum búsetu og atvinnu í þeim löndum sem séu aðilar að þessum samningum. Í þetta sé vitnað á heimasíðu Tryggingastofnunar. Kærandi hafi ekki borið saman meðhöndlun stofnunarinnar á bótum frá hinum Norðurlöndunum og sé það ekki gert á sambærilegan hátt sé um grófa mismun að ræða.

Kærandi sjái ekki hvernig íslenska ríkið, í meðferð Tryggingastofnunar, standi vörð um þau réttindi sem hún hafi áunnið sér í gegnum […] í Noregi. Í gegnum skatta og skerðingar haldi hún sama og engu eftir þegar upp sé staðið. Íslenska ríkið taki til sín stærstan hluta af þeim bótum sem hún fái frá Noregi. Nánari útskýring á þessari staðreynd sé þannig að norska ríkið taki 15% skatt, íslenska ríkið taki svo 21,94% skatt og síðan skerðist bæturnar frá Tryggingastofnun um 40% af þeim greiðslum sem hún fái frá Noregi. Þetta séu samtals 76,94%. Í viðbót við þessar skerðingar þá skerðist bætur frá Tryggingastofnun við skerta búsetu. Sem sagt þá verði eftir hjá bótaþega, þegar best lætur, 23,06% af upphaflegri greiðslu og ef um skerta búsetu sé að ræða sé hlutfallið enn minna. Við skoðun þessara talna komi í ljós að íslenska ríkið hagnist verulega á örorkubótum sem íslenskir þegnar hafi áunnið sér rétt til erlendis með því að taka til sín í gegnum skatta og skerðingar að lágmarki 61,94% af þeim örorkubótum sem viðkomandi fái í Noregi.

Til samanburðar sé því haldið til haga að hátekjuskattur á Íslandi sé 46,24%. Í því samhengi sé bent á að kærandi sé með tekjur langt undir hátekjumörkum en hún geri ekki athugasemdir við að borga skatt á Íslandi af þessum bótum.

Þá sé áréttað að hún hafi ekki, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir, fengið í hendur neina útreikninga frá Tryggingastofnun á réttindum hennar og hvað liggi að baki þeim. Aðeins tölur um endurgreiðslu og niðurstöður útreikninga þeirra. NAV hafi hins vegar sent nákvæma útreikninga og greinargóðar skýringar. Það hafi Tryggingastofnun hins vegar ekki gert.

Þeir sem hafi minna en 40 ára búsetu á Íslandi fái skertar örorkubætur frá Tryggingastofnun þó svo að stofnunin viðurkenni ekki örorkubætur frá Noregi. Í þeim tilfellum þar sem um langa búsetu í Noregi sé að ræða, gæti íslenska ríkið verið að taka til sín nær allar örorkubætur sem komi frá Noregi. Tekið sé fram að kærandi geri engar athugasemdir við það að réttindi skerðist í hlutfalli við búsetu en þá aðeins að því tilskildu að einstaklingurinn haldi þeim réttindum sem hann hafi áunnið sér í gegnum búsetu á hverjum stað. Þannig sé það allavega í Noregi. Þeirra útreikningar miðist fyrst og fremst við þau réttindi sem hún hafi áunnið sér í gegnum búsetu í Noregi en ekki hvaða réttindi hún hafi á Íslandi.

Kærandi geti á engan hátt skilið hvernig hægt sé að færa rök fyrir því að íslenska ríkið telji sig vera að standa vörð um þann rétt sem íslenskir þegnar hafi áunnið sér í gegnum búsetu og atvinnu í öðrum löndum eins og sé eitt aðalmarkmið samninga um þessi mál sem Íslendingar séu aðilar að.

Með þessari meðhöndlun Tryggingastofnunar á örorkubótum hennar frá norska almannatryggingakerfinu telji kærandi að íslenska ríkið sé að brjóta verulega á rétti hennar. Kærandi fái ekki betur séð en að íslenska ríkið sé að stunda réttindaupptöku á réttindum íslenskra öryrkja sem þeir hafi áunnið sér í Noregi og telji hún slíka afgreiðslu algjörlega óásættanlega.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á lífeyrisgreiðslum frá NAV í Noregi (,,uføretrygd“).

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar miðist réttur til örorkulífeyris við þá sem hafi verið búsettir á Íslandi, séu á aldrinum 18 til 67 og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Við ákvörðun búsetutíma greiðist örorkulífeyrir í samræmi við sömu reglur og ellilífeyrir, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna, skuli því reikna tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda. Líkt og fram komi í 17. gr. teljist fullur ellilífeyri einstaklings sem hafi verið búsettur hér á landi að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri búsetutíma að ræða þá greiðist ellilífeyrir/örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutíma.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar skuli greiða þeim tekjutryggingu sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögunum. Um útreikning á tekjutryggingu gildir 16. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur skerði tekjutryggingu örorkulífeyrisþega, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga um almannatryggingar. Einnig segi að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skuli skerða tekjutryggingu um 38.35% þeirra tekna uns hún falli niður.

Til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Eftirlaun og lífeyrir séu þar á meðal, sbr. A-lið 7. gr. laganna. Í 3. og 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um tekjur sem ekki hafi áhrif og örorkulífeyri og tekjutryggingu.

Samkvæmt lögum um almannatryggingar sé meginreglan sú að allar skattskyldar tekjur hafi áhrif á útreikning bóta, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna, en í 3. og 4. mgr. séu taldar upp ívilnandi undanþágur frá þeirri meginreglu þar sem tilgreint sé hvaða tekjur skuli ekki teljast til tekna lífeyrisþega þrátt fyrir 2. mgr.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 skuli tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta sé nánar fjallað um í fyrrgreindri reglugerð.

Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna sé ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga.

Með reglugerð nr. 442/2012 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar, hafi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 öðlast gildi hér á landi. Í a) lið, 5. gr. fyrrnefndrar reglugerðar segi:

,,ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki,“

Málavextir séu þeir að kærandi hafi fengið bréf frá Tryggingastofnun, dags. 19. febrúar 2018, nánar tiltekið greiðsluáætlun fyrir árið 2018. Í bréfinu komi fram að Tryggingastofnun hafi borist úrskurður frá NAV í Noregi og á grundvelli hans hafi bótaréttur ársins verið endurreiknaður. Ofgreiðsla hafi myndast að fjárhæð 18.256 kr. sem ekki verði innheimt fyrr en að loknu uppgjöri ársins sem áætlað sé að fari fram haustið 2019. Í bréfinu hafi kærandi jafnframt fengið upplýsingar um forsendur útreiknings, þ.e. að greiðslur til kæranda frá NAV séu flokkaðar sem lífeyrissjóðstekjur. Kærandi hafi haft samband við Tryggingastofnun og óskað útskýringar á þessari skilgreiningu, sbr. tölvupósta á tímabilinu 21. febrúar 2018 til 27. mars 2018. Líkt og fram komi í fyrrnefndum tölvupóstum líti stofnunin svo á að greiðslur kæranda frá NAV samsvari greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Þann 1. janúar 2015 hafi tekið gildi nýjar reglur um greiðslur örorkulífeyris í Noregi. Örorkulífeyrir (,,uføretrygd“) sé nú skattlagður sem launatekjur, þ.e. skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur höfðu áður notið hafi verið afnumin. Réttindi einstaklinga sem hafi fengið örorkulífeyri frá NAV fyrir 1. janúar 2015 séu endurreiknuð með tilliti til fyrri greiðslna lífeyris. Lífeyrisgreiðslur NAV skiptist ekki lengur í „grunnpensjon“, „tilleggspensjon“ og eftir atvikum „særtilleggspensjon“ heldur heiti þær nú aðeins ,,uføretrygd“ og sé það reiknað í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þeir sem uppfylli ekki fyrir fram ákveðið lágmark (sem sé breytilegt eftir hjúskaparstöðu og búsetuhlutfalli) fái greitt „minsteytelse“ sem ekki hafi áhrif á bætur Tryggingastofnunar þar sem slík greiðsla sé sambærileg íslenskum grunnlífeyri. Greiðslur kæranda miðist meðal annars við þær tekjur sem hún hafi aflað á vinnumarkaði. Örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar taki aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur eingöngu út frá búsetulengd hér á landi. Af þeim sökum líti stofnunin svo á að ,,uføretrygd“ frá NAV samsvari greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Tryggingastofnun telji að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi og telur því að þær skuli skerða tekjutryggingu kæranda. Líkt og rakið hafi verið séu örorkubætur kæranda skattlagðar sem launatekjur og reiknaðar í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þar sem tekjurnar séu byggðar á launatekjum skuli þær hafa áhrif á tekjutryggingu kæranda líkt og um væri að ræða greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum og því falli umræddar tekjur ekki undir undantekningarreglur 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Sambærilegt mál hafi farið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. úrskurð nr. 86/2015 og úrskurð nr. 107/2016 sem úrskurðarnefndin hafi staðfest.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla Tryggingastofnunar á örorkulífeyrisgreiðslum frá NAV í Noregi hafi verið réttmæt miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. febrúar 2018 um að líta á „uføretrygd“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árinu 2018. Í ákvörðun Tryggingastofnunar var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hennar á árinu 2018 hafi verið endurreiknaður á grundvelli upplýsinga frá NAV. Í bréfi frá NAV, dags. 5. febrúar 2018, kemur fram að kærandi fái „uføretrygd“ á árinu 2018. Kærandi er ósáttur við að greiðslurnar komi til skerðingar á greiðslum hennar frá Tryggingastofnun.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Um tekjutryggingu er fjallað í 22. gr. laganna. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Þá hljóðar 4. mgr. 16. gr. laganna svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr.,  tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutrygginguna og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Noregi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna. Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á rétt kæranda til tekjutryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að taka til skoðunar hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi verið heimilt að líta á „uføretrygd“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árinu 2018. Nánar tiltekið snýst ágreiningur málsins um hvort „uføretrygd“ greiðslur kæranda falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum. Aftur á móti telur úrskurðarnefnd sér ekki fært að fjalla um endurreikning stofnunarinnar þar sem ekki er um endanlega ákvörðun að ræða, sbr. 7. mgr. 16. gr. laganna.

Um „uføretrygd“ er fjallað í 12. kafla í lov om folketrygd (LOV-1997-02-28-19). Við mat á því hvort „uføretrygd“ sé sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að samkvæmt ákvæðum 12-11 og 12-12 ræðst fjárhæð „uføretrygd“ af fyrri tekjum bótaþega og „trygdetid“. Með „trygdetid“ er átt við tímabilið sem viðkomandi hefur verið meðlimur almannatryggingakerfisins í Noregi, þ.e. með búsetu og/eða atvinnu í landinu. Örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taka aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 18. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir einnig til þess að samkvæmt 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012, er aðildarríki ekki heimilt að beita skerðingarákvæðum í sinni eigin löggjöf þegar um ræðir skörun hlutfallslegra bóta sömu tegundar. Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu í forúrskurðum sínum að um bætur sömu tegundar sé að ræða þegar tilgangur þeirra, grundvöllur útreiknings og skilyrði bótanna sé sá sami, sbr. efnisgrein 24 í forúrskurði dómstólsins í máli nr. C-107/00. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að þar sem grundvöllur útreiknings „uføretrygd“ og örorkulífeyris er mjög ólíkur teljist bæturnar ekki vera sömu tegundar í skilningi EB reglugerðar nr. 883/2004.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ sé ekki alveg sambærilegt örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, enda ráðast örorkulífeyrisgreiðslurnar einungis af búsetu bótaþega hér á landi en ekki fyrri tekjum líkt og „uføretrygd“. Hins vegar telur úrskurðarnefndin „uføretrygd“ ekki heldur vera alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur iðgjalda ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Í Noregi er greiddur skattur af tekjum sem er kallaður „trygdeavgift“ og hann er notaður til að fjármagna almannatryggingakerfið, sbr. 23. kafla lov om folketrygd. Skatturinn stendur á hinn bóginn ekki undir kostnaði NAV og norska ríkið fjármagnar almannatryggingakerfið að öðru leyti, sbr. ákvæði 23-10.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólík skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að þrátt fyrir að framangreindar tekjur kæranda frá NAV séu hvorki alveg sambærilegar við örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar né greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þá hafi tekjurnar mest líkindi við framangreinda tekjuflokka. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði komist hjá því að jafna tekjum kæranda við annan hvorn flokkinn, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um bótagreiðslur til kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur þegar tekið afstöðu til framangreinds álitaefnis. Í úrskurði nefndarinnar nr. 86/2015, dags. 19. ágúst 2015, féllst úrskurðarnefndin á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að „uføretrygd“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og að tekjurnar féllu því ekki undir 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Með vísan til þess og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutrygginguna með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að líta á „uføretrygd“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árinu 2018, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að líta á „uføretrygd“ greiðslur A, frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árinu 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta