Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2014

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, miðvikudaginn 9. júlí 2014, var tekið fyrir mál A gegn barnaverndarnefnd Reykjavíkur varðandi umgengni við dótturson hennar, B, nr. 3/2014.

Kveðinn var upp svofelldur

 Ú R S K U R Ð U R:

 Með bréfi 7. apríl 2014 skaut C hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavík frá 18. mars 2014 til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðurinn varðar umgengni kæranda við dótturson hennar, B, en drengurinn er í fóstri á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur. Með úrskurðinum var beiðni kæranda um umgengni við drenginn hafnað, en ákveðið að kærandi fengi einu sinni á ári myndir af honum. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndarinnar:

,,Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B, hafi ekki sérstaka umgengni við móðurömmu sína, A. Þá ákveður nefndin að A  fái einu sinni á ári myndir af drengnum“.

B er fæddur X 2013 og er því á fyrsta ári. Drengurinn hefur aldrei búið hjá móður sinni, D, og er vistaður í varanlegu fóstri á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur á grundvelli barnaverndarlaga. Samkvæmt upplýsingum frá barnaverndarnefnd Reykjavíkur var móðir drengsins svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2014. Gerður hefur verið fóstursamningur við fósturforeldra drengsins til 18 ára aldurs hans.

Kærandi krefst þess að hún fái að umgangast dótturson sinn. Hún krefst þess aðallega að viðurkenndur verði réttur drengsins til að fá umgengni við kæranda, þ.e. við móðurömmu sína. Kærandi vilji helst af öllu fá að taka drenginn í fóstur. Að öðrum kosti krefst kærandi þess að umgengni verði eins mikil og hægt er þannig að umgengni verði í það minnsta aðra hverja helgi og þá yfir nótt. Er drengurinn eldist er einnig óskað eftir því að kæranda verði heimilt að hafa umgengni við drenginn í gegnum síma, tölvuforrit og þess háttar. Til vara er þess krafist að auk umgengni samkvæmt mati kærunefndarinnar fái kærandi myndir og upplýsingar um heimilisaðstæður drengsins og upplýsingar um það hvernig hann stækkar og þroskast.

 Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Fósturforeldrar drengsins, E og F, komu á framfæri afstöðu sinni til krafna kæranda með bréfi sem barst kærunefnd barnaverndarmála 12. júní 2014. Fósturforeldrarnir leggjast gegn kröfum kæranda að öllu leyti út frá hagsmunum drengsins og þörfum að undanskildu því að kærandi fái eins og úrskurðað hafi verið um myndir af honum á hverju ári til þess að fylgjast með því hvernig hann vex og dafnar.


I. Helstu málavextir.

 Drengurinn er ófeðraður og var móðir hans, D, svipt forsjá hans með Héraðsdómi Reykjavíkur X sl. Hún var í sambúð með G og hefur sagt hann vera föður drengsins. Drengurinn hefur aldrei verið í umsjá foreldra sinna, en samkvæmt gögnum málsins hafa verið miklir erfiðleikar hjá þeim vegna neyslu fíkniefna. Fyrstu viku drengsins dvaldi hann á Landspítalanum og var síðan vistaður á Vistheimili barna. Þegar hann var mánaðargamall fór hann í tímabundið fóstur á vegum barnaverndarnefndar Reykjavíkur til E og F sem búa í H. Fyrir liggur að drengurinn hefur dafnað vel frá fæðingu. Hann á eldri bróður, I, sem er í varanlegu fóstri hjá föðurafa sínum og konu hans.

Kærandi og eiginmaður hennar, J, hafa einu sinni haft umgengni við drenginn, 21. janúar 2014, á Vistheimili barna í eina klukkustund. Drengurinn hefur enga umgengni haft við foreldra eða aðra ættingja síðan hann fór í tímabundið fóstur til fósturforeldra.

Kærandi og eiginmaður hennar eiga þrjú önnur börn en D. Þau óskuðu eftir því að taka drenginn að sér í fóstur en þeirri beiðni var hafnað, þar sem þau voru ekki talin uppfylla skilyrði sem fósturforeldrar samkvæmt upplýsingum frá barnaverndaryfirvöldum á K þar sem þau búa. Þau óskuðu einnig á sínum tíma eftir því að taka eldri drenginn, I, í fóstur en því var hafnað af sömu ástæðu. I nýtur reglulegrar umgengni við móðurfjölskyldu sína, en fram kemur að hann hafði myndað tengsl við þau áður en hann var vistaður á fósturheimili.

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi vísar til 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 41. gr. laga nr. 80/2011, varðandi kæruheimild.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. barnaverndarlaga eigi barn sem er vistað utan heimilis rétt á að umgangast foreldra sína eða aðra sem eru því nákomnir enda samrýmist það hagsmunum þess.

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga eigi þeir sem telji sig nákomna barninu sama rétt á umgengni við barn í fóstri og foreldrar, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Telja verði að það sé þessu barni til hagsbóta að læra að þekkja og tengjast ættingjum sínum og barnið geri það best með því að fá að njóta umgengni við kæranda. Kærandi bendir á að í greinargerð með frumvarpi til barnaverndarlaga komi fram um 2. mgr. 74. gr. að vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin.

Kærandi bendir einnig á að þáttaskil hafi orðið í barnavernd víðsvegar um heiminn með tilkomu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Barnasáttmálinn hafi verið löggiltur hér á landi með lögum nr. 19/2013. Barnasáttmálanum hafi verið ætlað að tryggja börnum nauðsynlega vernd og umönnun, sbr. 19. gr. sáttmálans. Meðal annars bendir kærandi á 8. gr. 1. sáttmálans en þar komi fram að aðildarríki skuldbindi sig til að virða rétt barnsins til að viðhalda því sem auðkenni það sem einstakling, þar með töldu ríkisfangi sínu, nafni og fjölskyldutengslum eins og viðurkennt sé með lögum, án ólögmætra afskipta. Barnasáttmálinn leggi með því þær skyldur á aðildarríki að þau skuldbindi sig til að virða rétt barns til að viðhalda fjölskyldutengslum við fjölskyldu sína, þar á meðal við stórfjölskyldu sína. Það sé ekki hægt að virða rétt barns í fóstri til að viðhalda tengslum við stórfjölskyldu sína með því að neita öllum meðlimum fjölskyldunnar um alla umgengni við barnið eins og gert sé í þessu tilfelli. Ef virða eigi barnasáttmálann eins og lög geri ráð fyrir, beri að heimila umgengni barnsins við stórfjölskyldu sína. Móðuramma barnsins, sem sé kærandi í máli þessu, teljist til stórfjölskyldu drengsins samkvæmt skilningi þess orðs í barnasáttmálanum. Öðrum ættingjum drengsins hafi verið neitað um umgengni. Því sé ljóst að fái drengurinn ekki notið umgengni við kæranda þá muni íslensk stjórnvöld brjóta þetta ákvæði sáttmálans.

Kærandi óski eftir umgengni við barnabarn sitt og helst vilji hún fá drenginn í fóstur. Við skoðun á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé það skylda aðildarríkja að stuðla að því að barn fái að viðhalda fjölskyldutengslum sínum, slíkt sé ekki gert nema barnið fái notið umgengni við fjölskylduna. Í dag njóti drengurinn engrar umgengni við fjölskyldu sína. Bróðir hans fái hins vegar umgengni við fjölskyldu sína. Fræðimenn og nágrannaþjóðir okkar, svo sem Svíar, telji í dag að það sé almennt börnum fyrir bestu að njóta umgengni við fjölskyldu sína, jafnvel þó svo að engin tengsl hafi verið á milli barnsins og fjölskyldunnar er það fór í fóstur. Það sé talið barninu fyrir bestu að læra um sögu sína, uppruna sinn og í leiðinni að læra að þekkja sjálf sig og ættmenni sín. Það sé ljóst að það sé hagur þessa drengs og honum til hagsbóta að njóta umgengni við kæranda, þ.e. móðurömmu sína, enda sé það eina leið barnsins til að tengjast fjölskyldu sinni. Foreldrar drengsins hafi ekki viljað hafa umgengni við hann.

Kærandi mótmælir því harðlega sem fram komi af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur að mál I sé ekki sambærilegt við þetta mál. Hér sé um að ræða mál tveggja ungra albræðra. Eina ástæða þess að kærandi hafi ekki myndað meiri tengsl við barnið en raun beri vitni, sé sú að Barnavernd Reykjavíkur hafi komið í veg fyrir það með því að banna kæranda umgengni. Því sé mótmælt að það sé með hagsmuni litla drengsins í huga að kærandi fái ekki umgengni við hann. Það sé margsannað að það sé börnum fyrir bestu að þekkja uppruna sinn og eigi það ekki síst við um börn sem sé annað hvort ráðstafað í fóstur á vegum barnaverndaryfirvalda eða ættleidd.

Í athugasemdum kæranda til kærunefndarinnar 26. maí sl. er vísað til þess að barnaverndaryfirvöldum beri að rannsaka mál nægilega áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 41. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki kynnt sér aðstæður kæranda sjálfstætt. Ekkert bendi til þess að kærandi myndi ekki uppfylla skilyrði þess að taka barn í fóstur sækti hún um leyfi til þess hjá Barnaverndarstofu. Kærandi telji að hún uppfylli þau skilyrði fullkomlega.

 

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar Reykjavíkur.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur telur mál bræðranna B og eldri bróður hans, I, ekki sambærileg. Í tilviki I hafi tengsl verið til staðar við kæranda áður en hann fór í varanlegt fóstur en það sama gildi ekki um drenginn sem úrskurður nefndarinnar fjalli um. Drengurinn hafi aldrei verið í umsjá stórfjölskyldu sinnar og ekki myndað nein tengsl við hana. Með hliðsjón af öllum gögnum málsins og þess sem fram hafi komið á fundi nefndarinnar hafi nefndin ekki talið það þjóna hagsmunum drengsins að hafa umgengni við kæranda. Hafi nefndin ekki talið slíka umgengni fullnægja skilyrðum 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga um að vera drengnum, sem sé fæddur X 2013, til hagsbóta við þær aðstæður sem nú séu í lífi hans og með tilliti til aldurs hans. Hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að kærandi njóti ekki umgengni við drenginn en starfsmönnum nefndarinnar hafi verið falið að hlutast til um að kærandi fengi afhentar myndir af drengnum a.m.k. árlega.

Í máli þessu sé um að ræða dreng á fyrsta ári. Hafi hann aldrei verið í umsjá foreldra eða annarra fjölskyldumeðlima. Gerð hafi verið krafa fyrir dómstólum um að móðir hans yrði svipt forsjá drengsins. Það sé mikilvægt fyrir drenginn að ná að mynda frumtengsl við umönnunaraðila sína og njóta öryggis og stöðugleika í umsjá þeirra. Það þjóni ekki hagsmunum hans að eiga umgengni við kæranda sem hann hafi engin tengsl við. Hafa beri í huga að samkvæmt 6. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga geti þeir sem umgengni eiga að rækja krafist þess að barnaverndarnefnd endurskoði fyrri úrskurð sinn um umgengni séu liðnir tólf mánuðir frá uppkvaðningu úrskurðar barnaverndarnefndar eða kærunefndar.

 

IV. Sjónarmið fósturforeldra.

Í bréfi fósturforeldra til kærunefndarinnar kemur fram að þeir leggist gegn kröfum kæranda um umgengni við B vegna hagsmuna hans og þarfa að undanskildu því að kærandi fái, eins og áður hafi verið úrskurðað, myndir af drengnum á hverju ári til að fylgjast með því hvernig hann vaxi og dafni.

Fram kemur að B hafi komið til fósturforeldranna fjögurra vikna gamall eftir að hafa varið fyrstu vikum ævinnar í umsjá starfsfólks vökudeildar Landspítalans og síðar starfsfólks Vistheimilis barna við Laugarásveg í Reykjavík. B hafi verið ráðstafað í fóstur til þeirra hjóna samkvæmt niðurstöðu barnaverndarnefndar Reykjavíkur X 2014 og síðar í varanlegt fóstur.

Í 74. gr. barnaverndarlaga sé skýrt tekið fram að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengnin sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt fóstursamningi sé ekki kveðið á um neina umgengni við foreldra eða önnur skyldmenni en gild ástæða hljóti að vera fyrir því að B hafi ekki verið vistaður í fóstri hjá kæranda eins og hún hafi óskað eftir á sínum tíma.

Fósturforeldrarnir telji að með ráðstöfun B í varanlegt fóstur, utan líffræðilegrar fjölskyldu og strax við upphaf ævi sinnar, sé markmiðið að búa honum nýja fjölskyldu til frambúðar. Horfa verði á það sem þjóni hagsmunum hans best. B sé í dag tæplega sex mánaða gamall og séu aðalþarfir hans að vera elskaður, finna til öryggis, vera saddur, þurr, vel sofinn og örvaður ásamt því að tengjast sem best nýjum foreldrum sínum og fjölskyldunni sem hann sé búinn að eignast. Engin tenging sé hjá honum við líffræðilega fjölskyldu. Aðstæður kæranda séu fósturforeldrunum ekki kunnugar og telji þeir að umgengni drengsins við hana komi einungis til greina ef sérfræðingur í málefnum barna og fjölskyldna hafi lagt mat á hennar aðstæður og barnavernd sé samþykk niðurstöðunni. Þeim sé vel kunnugt um réttindi barns til að þekkja uppruna sinn og muni styðja við og tryggja þann rétt B svo fremi sem það stuðli að stöðugleika í uppvexti og öryggi og hafi sem minnsta röskun á líf hans. Hafa beri í huga að umgengni þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna og þjóna þeirra hagsmunum. Eins og staðan sé í dag telji fósturforeldranir ekki forsendur fyrir að samþykkja umgengni við einstakling sem óljóst sé að þjóni hagsmunum og þörfum B og gæti jafnvel verið ósamrýmanleg þeim markmiðum sem sjálf fósturráðstöfunin stefni að.

Taki kærunefnd barnaverndarmála ekki tillit til úrskurðar barnaverndarnefndar frá 21. janúar sl. varðandi neitun á beiðni kæranda um umgengni við barnið og þeim ástæðum sem hafa verið raktar í bréfi þessu og heimili umgengni, er vinsamlegast farið fram á að umgengni verði takmörkuð og mjög hóflegur tímarammi verði settur á hverja umgengni og að hún fari fram undir eftirliti barnaverndar hverju sinni.

 

V. Niðurstaða.

Kærandi gerir athugasemdir við það að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað áður en ákvörðun var tekin í því. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi ekki kynnt sér aðstæður kæranda sjálfstætt. Ekkert bendi til þess að kærandi myndi ekki uppfylla skilyrði þess að taka barn í fóstur sækti hún um leyfi til þess hjá Barnaverndarstofu. Kærandi telji að hún uppfylli þau skilyrði fullkomlega. Hjá kærunefndinni er eingöngu til meðferðar hinn kærði úrskurður þar sem ákveðið var að drengurinn hefði ekki sérstaka umgengni við kæranda. Röksemdir kæranda fyrir því að barnaverndarnefndin hafi ekki gætt þess að rannsaka málið nægilega með tilliti til þess að kærandi uppfylli lagaskilyrði til að taka barn í fóstur eiga því ekki við um úrlausnarefnið.

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Þeir sem telja sig nákomna barninu eiga með sama hætti rétt til umgengni við barnið, enda verði talið að það sé til hagsbóta fyrir barnið. Við ráðstöfun barns í fóstur skal samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal tekið mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. lagagreinarinnar getur barnaverndarnefnd ákveðið að umgengni við aðra nákomna en foreldra njóti ekki við ef skilyrðum 2. mgr. er ekki talið fullnægt. Samkvæmt þessu er réttur barnsins til umgengni við kæranda takmarkaður af þeim skilmálum sem þarna koma fram.

Í athugasemdum við 74. gr. í frumvarpi því sem varð að núgildandi barnaverndarlögum er bent á að þegar um aðra nákomna sé að ræða sé tekið þannig til orða að umgengni sé barninu til hagsbóta. Samkvæmt því orðalagi sé réttur þessara aðila ekki jafnríkur og kynforeldra. Vera kunni að umgengni barns við aðra nákomna geti haft sérstaka þýðingu fyrir það, einkum þar sem umgengni við kynforeldra sé lítil sem engin. Tekið er fram að við ákvörðun um umgengni verði barnaverndarnefnd sem endranær að meta hagsmuni og þarfir barns og gæta þess að umgengni sé í samræmi við markmiðin með fóstri. Þannig verði almennt að gera ráð fyrir ríkari umgengni ef fóstri er ætlað að vara í skamman tíma og áætlað að barn snúi aftur til foreldra sinna.

Við úrlausn málsins ber að meta hvort kærandi teljist nákominn barninu í skilningi 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Um er að ræða dreng á fyrsta ári sem barnaverndarnefnd vistaði á Vistheimili barna þegar hann hafði dvalið á Landspítala í eina viku eftir fæðinguna. Hann hefur aldrei verið í umsjá foreldra sinna eða annarra fjölskyldumeðlima. Af Vistheimilinu fór drengurinn til fósturforeldra, en eins og fram hefur komið var móðir drengsins svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur X 2014. Af þessum sökum hefur drengurinn hvorki haft tækifæri til að kynnast né tengjast kæranda í máli þessu. Kærandi getur því ekki talist nákomin barninu í þeim skilningi að tengslamyndun hefur ekki farið fram milli kæranda og barns.

Þá ber jafnframt við úrlausn málsins að líta til þess hvernig hagsmunir barnsins verði metnir og hvort og þá hvernig það þjóni hagsmunum þess að hafa umgengni við kæranda.

Í gögnum málsins kemur fram að barnið hefur verið hjá fósturforeldrunum frá X 2014 en það var þá mánaðargamalt. Fram hefur komið að barnið muni verða áfram hjá þeim þar til það verður 18 ára. Fósturforeldrarnir hafa því tekið að sér það vandasama verkefni að ala barnið upp, búa því sem bestan hag og sjá til þess að þörfum þess verði sinnt á þann hátt sem þjónar hagsmunum þess.

Mikilvægt er fyrir barnið að öryggi þess verði tryggt þar sem grundvallarþörfum þess verði sinnt. Barnið þarf að finna fyrir grunnöryggi en einn mikilvægasti þáttur þess er heilbrigð tengslamyndun. Slík tengslamyndun þarf að fara fram í friði og ró þar sem minnstir streituvaldar eða álagsþættir verði til staðar. Fósturforeldrarnir hafa lagst gegn því að kærandi hafi umgengni við drenginn þar sem þau telja hana ekki þjóna hagsmunum hans. Þau hafa heldur ekki gert samning um umgengni við foreldra eða önnur skyldmenni enda eru þau mótfallin umgengni við núverandi aðstæður.

Kærunefndin telur að það þjóni ekki hagsmunum barnsins að stuðla að umgengni við kæranda á því viðkvæma stigi sem barnið er enda væri eðli málsins samkvæmt ekki hægt að byggja upp tíð og varanleg tengsl barnsins við hana. Barn tengist ekki öðrum einstaklingum tilfinninga­böndum vegna líffræðilegra erfða eingöngu heldur gegnum stöðug tengsl í frumbernsku. Barnið hefur í þessu tilfelli ekki sjálfstæða þörf fyrir tengsl við móðurömmu þar sem það tilheyrir nú annarri fjölskyldu. Barnið á að sjálfsögðu rétt á að fá að vita um uppruna sinn þegar það hefur aldur og þroska til. Framtíðin mun síðan skera úr um það hvort um umgengni verður þá að ræða eða ekki. Það á einnig við um kröfu kæranda þess efnis að henni verði heimilt að hafa umgengni við drenginn í gegnum síma, tölvuforrit og þess háttar þegar drengurinn eldist. Er því ekki tímabært að taka afstöðu til kröfu kæranda að þessu leyti þar sem hún kemur eðli málsins samkvæmt ekki til álita fyrr en drengurinn eldist og þroskast.

Þá telur kærunefndin það ekki vera til hagsbóta fyrir barnið að þvinga fram umgengni, en um slíkt þarf að ríkja einhver sátt og hún þarf að ganga átaklaust fyrir sig. Í þessu tilviki eru andstæð sjónarmið varðandi umgengni og gæti þvinguð umgengni haft í för með sér togstreitu og samskiptaörðugleika sem gætu skaðað barnið. Það getur aldrei þjónað hagsmunum barns að aðalumönnunaraðilar og ættingjar séu ósáttir og standi í deilum sín á milli. Fyrstu árin í lífi barnsins eru mjög mikilvæg með tillit til þess að barnið finni öryggi og fái svigrúm til þess að mynda varanleg tengsl við umönnunaraðila til frambúðar. Tengslamyndun barnsins og öryggi er best tryggt með því að hún fari fram ótrufluð. Því er ekki rétt að taka þá áhættu sem felst í því að raska stöðugleika og öryggi drengsins í lífi hans nú.

Varakrafa kæranda er þess efnis að hún fái myndir og upplýsingar um heimilisaðstæður drengsins og upplýsingar um það hvernig hann stækkar og þroskast. Við úrlausn málsins skiptir aðallega máli að meta hvernig hagsmunir barnsins verða sem best tryggðir. Með tilliti til ungs aldurs drengsins er ekki að öllu leyti tímabært að taka afstöðu til þessarar kröfu. Með hinum kærða úrskurði var þó ákveðið að kærandi fengi myndir af drengnum einu sinni á ári. Þannig er komið til móts við óskir hennar um að fá að fylgjast með því hvernig drengurinn stækkar og þroskast. Kærunefndin telur að við mat á aðstæðum og hagsmunum drengsins hafi barnaverndarnefndin lagt til grundvallar lögmæt sjónarmið þegar framangreind ákvörðun var tekin. Ber með vísan til þess að staðfesta hana.

Með hliðsjón af ofansögðu telur kærunefnd barnaverndarmála að umgengni barnsins við kæranda sé við núverandi aðstæður bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins og þörfum. Samkvæmt því og með vísan til þess sem að ofan greinir varðandi varakröfu kæranda og til 4. mgr., sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð.

 

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá X 2014 varðandi umgengni B við móðurömmu sína, A, er staðfestur.

Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta