Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2014

  Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 9. júlí 2014 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 7/2014, A og B gegn barnaverndarnefnd Z. Málið varðar tilkynningu til barnaverndarnefndar undir nafnleynd vegna barna kærenda, C og D. Upp var kveðinn svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi 16. maí 2014 kærði A, niðurstöðu barnaverndarteymis fjölskylduráðs Z frá 11. maí 2014 um að aflétta ekki nafnleynd vegna barnaverndartilkynningar til kærunefndar barnaverndarmála. Tilkynningin varðaði tvö börn á heimili kærenda, þau C, fæddan 2013, sem er sonur kærenda, og D, fædda 2001, sem er dóttir kæranda A, en tilkynningin laut að mikilli kannabis- og áfengisneyslu kæranda B. Í umboði B 3. júlí sl., sem beint er til kærunefndar barnaverndarmála, er því lýst að þau A standi bæði að kærunni og að hann veiti henni fullt og ótakmarkað umboð til að fara með málið fyrir þau bæði hjá kærunefndinni. Teljast þau því bæði kærendur í málinu.

Í bréfi E, félagsráðgjafa barnaverndarnefndar Z, til kæranda A 11. maí 2014 er gerð grein fyrir niðurstöðu barnaverndarteymis í málinu og jafnframt bent á að niðurstöðunni megi áfrýja til fjölskyldu- og tómstundaráðs sem fari með hlutverk barnaverndarnefndar. Kærandi A skaut málinu eigi að síður beint til kærunefndar barnaverndarmála með bréfi 16. maí 2014. Málið var síðan tekið fyrir á fundi barnaverndarnefndar Z 28. maí 2014 þar sem ákveðið var að nafnleynd skyldi ekki aflétt. Verður litið svo á að kæran nái til ákvörðunar barnaverndarnefndarinnar en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga er heimilt að skjóta til kærunefndar barna­verndarmála úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum.

Kærendur krefjast þess að nafnleyndinni verði aflétt.

 Af hálfu barnaverndarnefndar Z kemur fram að virða beri ósk tilkynnanda um nafnleynd með vísan til 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og hafnar barnaverndarnefndin því að nafnleyndinni verði aflétt.


I.  Helstu málavextir

 Fjölskyldu- og fræðslusviði Z barst tilkynning undir nafnleynd 27. mars 2014 varðandi börnin C og D. Í tilkynningunni kom fram að tilkynnandi teldi víst að faðir barnanna, B, væri í mikilli kannabisneyslu auk þess sem neysla áfengis (bjórs) væri óhófleg. Væri tilkynnandi þess viss að neysla föður hefði veruleg áhrif á heimilisaðstæður og fjölskylduna. Þá telji tilkynnandi ljóst að faðir þurfi á meðferð að halda enda búinn að vera í virkri neyslu frá 15 ára aldri.

Barnaverndarteymið ákvað að nafnleyndin skyldi haldin og komst barnaverndarnefnd Z að sömu niðurstöðu á fundi 28. maí 2014. Kærandi A hafði þá þegar kært ákvörðun barnaverndarteymisins til kærunefndar barnaverndarmála eins og fram hefur komið. Jafnframt hefur áður komið fram að í málinu er til endurskoðunar ákvörðun barnaverndarnefndarinnar frá 28. maí 2014 þar sem talið er að kæran nái til hennar.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur benda á að lögð hafi verið fram niðurstaða fíkniefnaprufu sem tekin var hjá Heilsugæslu Z sem staðfesti að kærandi B neytti ekki ólöglegra fíkniefna. Þau telja enn fremur að með fíknefnaprófinu hafi þau lagt fram sönnun fyrir því að tilkynnandinn hefði verið að ljúga og komið á framfæri rangri tilkynningu gagnvart kæranda B. Málinu hafi strax verið lokað af hálfu barnaverndarnefndar þar sem hún hafi séð að tilkynnandinn hefði ekkert fyrir sér í þessum efnum. Í tilkynningunni sé vísað í mikla kannabisneyslu auk þess sem neysla áfengis sé sögð óhófleg. Þessi staðhæfing tilkynnanda sé algjörlega röng og eigi ekki við nein rök að styðjast. Kærandi B sé sjómaður og þegar hann komi í land hafi hann eytt öllum sínum frítíma með fjölskyldunni og það hafi hann gert í þetta eina og hálfa ár sem kærendur hafi verið saman. Ekkert bendi til þess að hann sé í óreglu og því ætti ekki nokkur maður að geta komið fram með tilkynningu þessa efnis. Kærendur séu þess fullviss að tilkynnandi sé að búa þetta til og greinilegt sé að hann sé að nota barnaverndarnefnd til þess að reyna að koma höggi á fjölskylduna.

Kærendur telji að tilkynningin hafi ekkert með hagsmuni barnanna að gera, til dæmis eigi kærandi B ellefu ára gamlan son frá fyrra sambandi og hvergi komi fram að tilkynnandi beri hagsmuni hans fyrir brjósti þó svo að hann komi mjög reglulega inn á heimilið og alltaf þegar faðir hans sé í landi.

Hver sá sem orðinn sé 20 ára gamall megi neyta áfengis (bjórs) og því sé ekkert athugavert við það þegar slíkra drykkja sé neytt í hófi. Tilkynningin hafi haft veruleg áhrif á kærendur og fjölskylduna.

Kærendur vísa til þess að barnaverndaryfirvöldum í Z þyki ljóst að sé nafnleynd ekki virt geti það almennt haft þau áhrif að tilkynningar berist síður barnaverndarnefnd og stefni þar með virkni og árangri barnaverndarstarfs í voða. Kærendur benda á 13. gr. barnaverndarlaga þess efnis að ef barnaverndarnefnd fær rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu geti nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Kærendur telji ljóst að þau hafi þegar borið fram nægjanlega sönnun þess efnis að tilkynnandi hafi komið fram með ranga tilkynningu og þau eigi ekki að gjalda fyrir það að fólk segi ósatt um þá sem því sé illa við vegna þess að í litlum samfélögum sé ekki farið eftir sömu reglugerðum og til dæmis í Reykjavík.

Kærendur telja nauðsynlegt að hafa góða og virka barnaverndarstarfsemi og þau skilji fullkomlega að haft sé samband við foreldri þegar tilkynning berist. En segi fólk barnaverndarnefndum ósatt vegna þess að því sé illa við einhvern, eigi það ekki að líðast, sama hversu lítið sveitarfélagið sé.

Kærendur lögðu fram lista með undirskriftum nánustu fjölskyldu þeirra þar sem vottað er að heimilisaðstæður þeirra séu fullkomlega viðunandi og að kærandi B beri þess engin merki að vera í nokkurri neyslu.

 

III. Sjónarmið barnaverndarnefndar Z

 Það er mat barnaverndarnefndar Z að ekkert bendi til þess að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu. Það sé ljóst að sé nafnleynd ekki virt geti það almennt haft þau áhrif að tilkynningar berist síður barnaverndarnefnd og stefnt þar með virkni og árangri barnaverndarstarfs í voða. Tilkynnandi hafi óskað nafnleyndar þar sem hann óttaðist viðbrögð foreldra barnanna gagnvart honum ef nafn hans kæmi fram.

Tilkynnandinn hafi verið metinn trúverðugur af hálfu starfsmanna barnaverndarnefndar og innihald tilkynningarinnar sömuleiðis. Tilkynnandi standi í þeirri góðu trú að hann njóti nafnleyndar eins og getið sé um í 19. gr. barnaverndarlaga en ljóst þyki að hann muni eindregið fallast gegn því að nafnleynd sé aflétt. Eins og ýjað sé að í bókun nefndarinnar telji starfsmenn og barnaverndarnefnd að eigi tilkynnendur á hættu að nafnleynd þeirra verði rofin muni það spyrjast fljótt út í litlu bæjarfélagi sem Z séu og stefna þar með trúverðugleika, virkni og árangri barnaverndarstarfs í voða.

Í bréfi E félagsráðgjafa fyrir hönd barnaverndarnefndar Z 11. maí 2014 segi að könnun málsins hafi falist í því að boða foreldra á fund starfsmanna, fíkniefnaprufu, símtölum og viðtali við kæranda A. Hún hafi óskað eftir því að fá að vita innihald tilkynningarinnar og hver hefði tilkynnt. Innihald tilkynningarinnar hafi verið tilkynnt henni og jafnframt bent á að ekki væri unnt að aflétta nafnleyndinni. Niðurstaða fíkniefnaprufunnar hafi staðfest frásögn hennar um að sambýlismaður hennar væri ekki í neyslu ólöglegra vímuefna. Í kjölfar könnunar málsins hafi afskiptum barnaverndarnefndar af málinu verið lokið þar sem ekki hafi verið talið að neitt hefði komið í ljós sem benti til neyslu á heimilinu. Það hafi jafnframt verið mat starfsmannanna að ekki væri rökstuddur grunur um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu og því skyldi nafnleyndin haldin.

 

IV. Niðurstaða

 Í 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Í 2. mgr. 19. gr. laganna kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Í athugasemdum við 19. gr. sem fylgdi frumvarpi til barnaverndarlaga er því nánar lýst að tvö sjónarmið vegist á varðandi nafnleynd tilkynnanda. Annars vegar komi til skoðunar sjónarmið um réttláta málsmeðferð, þar sem upplýsingar um hver hafi tilkynnt um ófullnægjandi aðbúnað barns geti skipt máli svo andmælaréttur þess sem tilkynning beinist að verði virtur. Hins vegar komi til skoðunar sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi þar sem síður megi gera ráð fyrir að tilkynningar berist ef nafnleynd er ekki virt. Var síðarnefnda sjónarmiðið lagt til grundvallar í núgildandi barnaverndarlögum, þó þannig að unnt er að aflétta nafnleynd tilkynnanda ef sérstakar ástæður mæla gegn því að hún verði virt.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 80/2011, er öllum skylt að tilkynna til barnaverndarnefndar ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður. Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um grun um óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndarnefnd að hefja könnun máls og komast til botns í því hvort sá grunur sé á rökum reistur. Könnun í máli því sem hér hefur verið til meðferðar hjá barnaverndarnefnd Z hófst í kjölfar tilkynningar er barst um mikla neyslu vímuefna og áfengis eins og áður er lýst, en tvö börn búa á heimilinu. Málið var kannað af hálfu barnaverndarnefndar, meðal annars með því að hlutast til um það að kærandi A færi í fíkniefnapróf. Niðurstaða þess prófs var sú að ekki var staðfest að hann hefði þá neytt ólöglegra fíkniefna.

Að mati kærunefndar barnaverndarmála er ekki hægt að draga víðtækar ályktanir af niðurstöðu eins fíkniefnaprófs þar sem það segir ekki til um vímuefnaneyslu á öðrum tíma en þegar prufan er tekin. Barnaverndar­nefndin taldi að þrátt fyrir að málið hefði verið fellt niður að könnun lokinni yrði það ekki haft til marks um að með tilkynningunni hefði verið komið á framfæri af hefnigirni eða með villandi upplýsingum. Kærunefndin telur eins og málið liggur fyrir að engin sönnun liggi fyrir því að tilkynnandi hafi komið á framfæri röngum eða villandi upplýsingum eða þær hafi verið settar fram af illgirni eða hefnd. Jafnframt ber að hafna því að fyrir liggi sönnun um að tilkynnandi fari með rangt mál.

Við könnun málsins kom ekkert fram sem réttilega verður metið þannig að kærendur hafi sérstaka hagsmuni af því að nafnleynd verði aflétt. Kærandi A var af hálfu nefndarinnar upplýst um efni tilkynningarinnar þótt nafnleyndar væri gætt.

Með vísan til þessa verður ekki talið að sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem mæli gegn því að nafnleyndin verði virt. Samkvæmt því eru ekki skilyrði til að aflétta nafnleyndinni á grundvelli 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 Ákvörðun barnaverndarnefndar Z þess efnis að synja kröfu A og B um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna barnanna, C og D, er staðfest.

 Sigríður Ingvarsdóttir, formaður

Guðfinna Eydal

Jón R. Kristinsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta