Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 107/2013

Mánudaginn 19. ágúst 2013

 

 A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 13. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. júní 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Kærandi leitaði greiðsluaðlögunar og veitti umboðsmaður skuldara samþykki fyrir henni 2. nóvember 2011.

Þann 14. nóvember 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda og þann 29. ágúst 2012 var frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun sent til kröfuhafa, sbr. 1. mgr. 17. gr. lge.

Í hinni kærðu ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að Landsbankinn hf. hafi mótmælt frumvarpinu. Umsjónarmaður hafi farið þess á leit við kröfuhafa að komist yrði að samkomulagi um samning með lægri hlutfallslegri eftirgjöf samningskrafna en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þeim umleitunum hafi aftur á móti lokið þegar fram hafi komið að andmæli Landsbankans sneru að samningnum í heild sinni en ekki hlutfalli eftirgjafar sem lagt var til í frumvarpi til greiðsluaðlögunar.

Með yfirlýsingu 30. maí 2013 óskaði kærandi eftir því við umsjónarmann að nauðasamnings um greiðsluaðlögun yrði leitað.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 13. júní 2013 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningnum.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun skipaðs umsjónarmanns 13. júní 2013 kemur fram að frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi verið sent kröfuhöfum 29. ágúst 2012. Landsbankinn hafi hafnað frumvarpinu 13. september 2012. Í mótmælum bankans hafi komið fram að frumvarpinu væri hafnað á þeim grundvelli að kærandi hefði hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umsjónarmaður hafi gengið eftir upplýsingum frá kröfuhafa um meinta fjárhagslega áhættu. Í tölvupósti frá 8. mars 2013 hafi komið fram að andmæli bankans byggðu á því að einkahlutafélag kæranda, X ehf., sem stofnað var um rekstur veitingastaðarins Y, hefði verið úrskurðað gjaldþrota og hefði Landsbankinn hf. ekkert fengið upp í lýstar kröfur. Þrátt fyrir það hefði kærandi stofnað nýtt félag, Z ehf., utan um rekstur veitingastaðarins sem hún væri í fyrirsvari fyrir sem stjórnarmaður og framkvæmdastjóri.

Í kjölfar andmæla Landsbankans hafi umsjónarmaður farið þess á leit við kröfuhafa að komist yrði að samkomulagi með samningi um lægri hlutfallslegri eftirgjöf samningskrafna. Þeim umleitunum hafi lokið 22. maí 2013 þegar fram hafi komið í tölvupósti að andmæli Landsbankans snéru að samningnum í heild sinni en ekki hlutfalli eftirgjafar sem lagt hefði verið til í frumvarpi til greiðsluaðlögunar.

Umsjónarmaður bendir á að í 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um aðstæður sem geti komið í veg fyrir að heimild til greiðsluaðlögunar verði veitt. Í ákvörðun um afgreiðslu á umsókn um greiðsluaðlögun kæranda sem tekin var 2. nóvember 2011 komi fram að eitt og annað hafi farið úrskeiðis í fjármálum kæranda. Þó hafi umboðsmaður skuldara talið að aðstæður væru ekki með þeim hætti að þær kæmu í veg fyrir að kæranda yrði veitt heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. 6. gr. lge. Afstaða embættis umboðsmanns skuldara við ákvörðun um afgreiðslu umsóknar kæranda sé andstæð afstöðu kröfuhafa. Umsjónamaður bendir á að hann taki undir afstöðu umboðsmanns skuldara.

Umsjónarmaður hafi borið andmæli kröfuhafa undir kæranda. Með yfirlýsingu 30. maí 2013 hafi kærandi lýst yfir vilja til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt 18. gr. lge. Við sama tækifæri hafi umsjónarmaður farið fram á það við kæranda að hún afhenti honum gögn um það sem hún hefði lagt fyrir í greiðsluskjóli og tekjur undanfarinna mánaða.

Þann 10. júní 2013 hafi kærandi sent umsjónarmanni umbeðin gögn. Þar komi fram að kærandi hafi lagt fyrir 67.098 krónur í greiðsluskjóli, þrátt fyrir að drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar hafi gert ráð fyrir að hún gæti greitt 100.000 krónur á mánuði fyrir utan framfærslukostnað. Kærandi hafi jafnframt lagt fram launaseðil fyrir maí 2013 þar sem fram komi að hún hafi fengið 357.917 krónur útborgaðar fyrir þann mánuð. Miðað við heildartekjur kæranda í maí 2013, að barnabótum og leigutekjum meðtöldum, hafi hún þannig átt að vera fær um að leggja fyrir 258.908 krónur, að undanskildum framfærslukostnaði og öðrum útgjöldum.

Umsjónarmaður mæli því gegn því að nauðasamningur skuldara og kröfuhafa komist á í ljósi athugasemda sem gerðar hafi verið við frumvarpið 4. og 8. janúar, sbr. 1. mgr. 18. lge.

Umsjónarmaður bendir á að mat hans byggi á því að upplýsingar sem kærandi sendi honum 10. júní bendi til þess að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. skuli umsjónarmaður líta til þess hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. þegar hann meti hvort mælt skuli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á. Kærandi hafi verið í greiðsluskjóli frá því í desember 2010 en hafi á þeim tíma aðeins lagt fyrir 67.098 krónur þrátt fyrir að hafa haft 100.000 krónur aukalega á mánuði samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunar, sem sent var á kröfuhafa í ágúst 2012, Enn fremur hafi kærandi haft tekjur umfram framfærslukostnað að fjárhæð 258.908 krónur í maí 2013.

Jafnframt sé það mat umsjónarmanns að samningur um greiðsluaðlögun fasteignakrafna muni ekki leiða til þess að raunhæft verði að kærandi geti staðið við eftirstandandi skuldbindingar sínar í lok samningstíma. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. skuli umsjónarmaður líta til þess hvort raunhæft sé að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til hennar til sín taka. Afstaða kröfuhafa leiði til þess að ekki verði samið um eftirgjöf veðkrafna fasteignar kæranda í lok samningstíma og myndi hún því bæði þurfa að standa skil á kröfu Landsbankans utan matsverðs fasteignarinnar að fullu, sem og veðkrafna innan matsverðs, auk eftirstandandi samningskrafna. Á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana hafi kærandi lagt fyrir 67.098 krónur en beri fyrir sig að hún hafi ekki haft frekari tekjur vegna erfiðleika í rekstri.

Umsjónarmaður mæli því gegn því að nauðasamningar komist á.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru sinni til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála bendir kærandi á að svo virðist sem synjun umsjónarmanns hafi byggt fyrst og fremst á viðhorfi Landsbankans til kæranda.

Kærandi bendir á að áður en hún sótti um greiðsluaðlögun hafi hún ítrekað reynt að ná samkomulagi við Landsbankann sem hafi verið stærsti kröfuhafi hennar. Þrátt fyrir að hafa setið fjölmarga fundi með fulltrúum Landsbankans og hafa sent þeim erindi og tillögur til þess að leysa málið hafi bankinn engu svarað og ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að ná samkomulagi um málalok við kæranda. Kærandi hafi því verið tilneydd til þess að reyna að ná samkomulagi við bankann með því að fara í greiðsluaðlögun. Kærandi bendir á að umboðsmaður skuldara hafi metið kæranda og málefni hennar með þeim hætti að hún uppfyllti öll skilyrði fyrir því að fá greiðsluaðlögun. Synjunarástæður 6. gr. lge. eigi því ekki við um hana.

Landsbankinn hafi talið að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagslega stöðu kæranda á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Landsbankinn hafi væntanlega átt við viðskipti kæranda við gamla Landsbankann. Kærandi telur að þær skuldir sem hinn nýi Landsbanki krefji sig um greiðslu á hafi verið skuldir hennar við gamla Landsbankann. Það skjóti verulega skökku við að nýi Landsbankinn skuli líta svona á málið, enda sé það augljóst að gamli Landsbankinn hafi ekki metið það svo að kærandi hagaði fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tæki fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað. Annars hefði gamli Landsbankinn ekki lánað kæranda eða félögum á hennar vegum fé.

Kærandi telur jafnframt að það sé ekki hlutverk Landsbankans að dæma hana eða hegðun hennar. Það sé skýrt í lge. að umboðsmaður skuldara meti slíkt. Í tilfelli kæranda hafi það mat nú þegar farið fram og niðurstaða þess hafi einfaldlega verið sú að aðstæður þær sem taldar séu upp í 6. gr. lge. eigi ekki við í málinu.

Kærandi hafi aldrei fengið að ræða við Landsbankann á meðan á greiðsluaðlögunarferlinu hafi staðið. Allar viðræður hafi farið fram í gegnum skipaðan umsjónarmann. Það gefi augaleið að það sé ákaflega erfitt að semja við kröfuhafa sé ekki hægt að hitta viðkomandi.

Kærandi bendir á að tilgangur og markmið lge. hafi verið að koma á samkomulagi milli skuldara og kröfuhafa og reyna að tryggja hagsmuni beggja aðila með sem bestum hætti. Það sé því lagaleg skylda kröfuhafa að setjast að samningaborðinu ef svo megi að orði komast. Sú afstaða Landsbankans að neita hreinlega að semja við kæranda án þess þó að tala nokkurn tímann við hana, auk þess að leggja dóm á fjárhagslega hegðun kæranda, sé engan veginn í samræmi við tilgang, markmið og innihald lge. Þvert á móti megi halda því fram að framkoma Landsbankans sé beinlínis andstæð lögunum.

Samningsvilja Landsbankans megi best sjá með tölvubréfi sem kærandi hafi fengið afrit af hjá umsjónarmanni sínum þar sem Landsbankinn hafni frumvarpi umsjónarmanns. Bréfið sé nafnlaust og undirritað af „X“. Það eigi greinilega enginn að bera ábyrgð á því bréfi.

Þessi nafnlausi fulltrúi Landsbankans hafni samkomulagi við kæranda meðal annars á þeirri forsendu að heildarskuldir hennar séu verulega háar. Kærandi viðurkenni að heildarskuldir hennar séu vissulega nokkuð háar en það sé vandamálið og ástæða þess að hún geti ekki greitt þær að fullu. Kærandi bendir síðan á að heildarskuldir hennar séu sagðar 80.000.000 króna en það sé ekki rétt fjárhæð heldur hafi hún verið uppreiknuð miðað við að gengistryggð lán, sem hafi tvö- og þrefaldast, séu lögleg. Að mati kæranda sé það því algerlega óásættanlegt að Landsbankinn hafni samningaviðræðum við kæranda á þeirri forsendu að ætlaðar en ekki raunverulegar skuldir kæranda séu of háar.

Umsjónarmaður hafi talið að kærandi myndi ekki geta staðið við eftirstandandi skuld-bindingar sínar í lok samningstíma. Þar sem Landsbankinn vilji ekki gefa eftir eða semja um þær kröfur sem standi utan verðmætis fasteignar kæranda, hafi það þær afleiðingar að kærandi muni ekki geta greitt allar áhvílandi skuldir. Þetta sé kjarni málsins en kærandi hafi sjálf metið það svo að hún gæti ekki greitt allar sínar skuldir. Það hafi einmitt verið ástæða þess að hún sótti um greiðsluaðlögun sem hafi verið nýtt og lögbundið úrræði fyrir fólk í þessari stöðu. Nú eigi aftur á móti að synja kæranda um greiðsluaðlögun beinlínis af því að hún geti ekki greitt skuldir sínar að fullu.

Kærandi fer fram á að umboðsmaður skuldara horfi til markmiðs og tilgangs lge. og endurskoði afstöðu sína í málinu, skipi kæranda umsjónarmann sem hafi getu og vilja til að leiða málið til lykta með samningaviðræðum við kröfuhafa kæranda.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur  ekki tekist um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á byggðist í fyrsta lagi á því að kærandi hefði ekki staðið við skyldur sínar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana, samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í öðru lagi byggðist ákvörðun umsjónarmanns á því mati umsjónarmanns að samningur um greiðsluaðlögun fasteignakrafna myndi ekki leiða til þess að raunhæft yrði að kærandi gæti staðið við eftirstandandi skuldbindingar sínar í lok samningstíma.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Gögn málsins, sem kærandi lagði sjálf fram í maí 2013, sýna að hún hefur aðeins lagt fyrir 67.098 krónur í heild frá því að greiðsluskjól tók gildi. Í frumvarpi umsjónarmanns til samnings um greiðsluaðlögun frá 29. ágúst 2012 kemur fram að eftir að hafa staðið straum af framfærslukostnaði sínum ætti kærandi 100.000 krónur eftir til umráða í hverjum mánuði á væntanlegu tímabili greiðsluaðlögunar, sem henni hafi borið skylda til að leggja fyrir samkvæmt ákvæðum lge.

Kærandi hefur ekki skýrt nánar frá því hvernig hún ráðstafaði þeim fjármunum sem umfram voru á tímabilinu. Eins og að framan greinir er sú skylda lögð á skuldara er njóta greiðsluskjóls að þeir leggi til hliðar þá fjármuni sem þeir afla sem eru umfram framfærslukostnað. Ljóst er að kærandi hefur ekki sinnt þessari skyldu sinni samkvæmt a-lið 12. gr. lge. og ber þegar af þeirri ástæðu að staðfesta ákvörðun skipaðs umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningsumleitunum kæranda.

Fullyrðingar kæranda um samskipti sín við Landsbankann hf. breyta engu um þá skyldu kæranda að leggja fyrir áðurnefnda fjárhæð í samræmi við frumvarp umsjónarmanns og ákvæði lge.

Með vísan til ofangreinds er ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi kæranda staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta