Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2016

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 13/2016

Frístundabyggð. Aðgangur að vegi. Kostnaður vegna hliðs.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 15. apríl 2016, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndir gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 26. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 15. júlí 2016, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 22. júlí 2016, og athugasemdir gagnaðila, mótt. 5. ágúst 2016, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 15. nóvember 2016.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða frístundabyggð í C. Álitsbeiðandi er eigandi lóðarinnar D12, með landnúmerið xxxx og fastanúmer lóðar xxxx, og gagnaðili er frístundafélag um hluta frístundabyggðar í C. Ágreiningur er um uppsetningu hliðs á aðkomuvegi frístundabyggðarinnar, lögmæti ákvörðunar um uppsetningu hliðsins og kostnað vegna þess. Enn fremur er ágreiningur um afhendingu gagna af hálfu gagnaðila til álitsbeiðanda.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I. Að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að loka aðkomuvegi að lóðum í frístundabyggðinni með lokuðu hliði við þjóðveg.

II. Að viðurkennt verði að gagnaðila sé skylt að fjarlægja hlið við þjóðveg.

III. Að viðurkennt verði að ákvörðun gagnaðila um uppsetningu hliðsins hafi ekki verið tekin á lögmætan hátt og sé álitsbeiðanda því ekki skylt að taka þátt í kostnaði vegna hliðsins.

IV. Að kveðið verði á um að gagnaðila sé skylt að afhenda álitsbeiðanda fundargerð vegna félagsfundar 28. ágúst 2014, afrit af bréfi frá lögmanni eiganda vegarins vegna hliðsins, allar fundargerðir stjórnar gagnaðila á árunum 2014 til 2016 og ársreikninga vegna 2013 og 2014, áritaða af skoðunarmönnum félagsins.

Í álitsbeiðni kemur fram að um sé að ræða frístundabyggð í C sem hafi orðið til með samþykkt deiliskipulags í maí 1997 og að lóðirnar hafi verið skipulagðar og seldar af hálfu eiganda jarðarinnar, E. Frístundabyggðin skiptist í tvö svæði, ofan og neðan þjóðvegar, en allar lóðirnar séu eignarlóðir. Árið 2006 hafi verið stofnað félag um alla frístundabyggðina, C, en tveimur árum síðar hafi eigendur 15 lóða ofan þjóðvegar stofnað nýtt félag, B, með ákvörðun meirihluta lóðareigenda.

Upphaf ágreinings aðila megi rekja til þess er stjórn gagnaðila hafi 13. ágúst 2014 boðað til félagsfundar 28. ágúst 2014, með fundarefninu „Ákvörðun um hlið við þjóðveg“. Í kjölfar fundarboðsins hafi álitsbeiðandi sent tölvupóst til þeirra félagsmanna sem hann hafði upplýsingar um, þar sem hann lýsti þeirri skoðun sinni að slíkar íþyngjandi hindranir væru ekki ásættanlegar og að hvorki í afsali lóðar né deiliskipulagi frístundasvæðisins væri minnst á slíkar takmarkanir á umferð um aðkomuveg inn á svæðið. Álitsbeiðandi upplýsti einnig E eiganda jarðarinnar C og fyrrgreinds vegar, um áform frístundafélagsins en einn stjórnarmaður E sé „aðili að“ álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi hafi fengið álit tveggja lögmanna um þau lög og þær reglur sem gildi um hlið á vegum og takmarkanir á umferðarrétti sem staðfesti skilning álitsbeiðanda á rétti sínum varðandi umferðarrétt á veginum að lóð sinni. Á fundi gagnaðila 28. ágúst 2014 hafi álitsbeiðandi gert grein fyrir framangreindum skilningi álitsbeiðanda og þeim reglum sem um rétt hans gilda. Á fundinum hafi verið kannað hverjir vildu lokað hlið og hafi 13 félagsmenn viljað hlið en tveir verið því andvígir. Kveður álitsbeiðandi enga ákvörðun hafa verið tekna á fundinum.

Hinn 4. október 2014 hafi E borist bréf frá gagnaðila þar sem tilkynnt hafi verið að félagið hafi ákveðið að setja upp fjarstýrt hlið við þjóðveginn og að eigandi vegarins og eigendur lóða geti fengið aðgang að hliðinu óski þeir þess. Álitsbeiðandi kveðst ekki hafa fengið slíka tilkynningu sem eigandi lóðarinnar að D14. Í kjölfar stjórnarfundar E hafi verið sent bréf á gagnaðila, dags. 16. október 2014, þar sem fram hafi komið að eigendur jarðarinnar C myndu ekki una því að aðgengi þeirra yrði skert með fyrrgreindum hætti og að slíkt hlið yrði fjarlægt á kostnað þeirra sem að því myndu standa. Einum mánuði síðar, 15. nóvember 2014 eða fyrr, hafi undirstöður verið rafsoðnar á ristarhlið við þjóðveg án vitundar eiganda þess og rafstrengur plægður niður meðfram vegi frá frístundahúsi þáverandi formanns gagnaðila að ristarhliðinu, sem einnig hafi verið án vitundar eiganda landsins. Einn stjórnarmanna E hafi áréttað viðhorf eigenda varðandi læst hlið í símtali við formann gagnaðila 23. nóvember 2014 en 30. desember 2014 hafi hinn síðarnefndi upplýst sama stjórnarmann um að hliðið yrði sett upp í byrjun nýs árs. Lögmaður E hafi sent ítarlegt og afgerandi bréf til gagnaðila, dags. 20. janúar 2015, þar sem fram komi að gagnaðila sé með öllu óheimil uppsetning hliðs á aðkomuvegi nema með samþykki allra sumarbústaðareigenda/lóðareigenda og landeiganda. Afrit bréfsins hafi verið sent til skipulags- og byggingarnefndar.

Boðað hafi verið til aðalfundar gagnaðila með fundarboði, dags. 23. ágúst 2015, sem halda skyldi 8. september s.á., en í fundarboðinu hafi ekki verið getið um uppsetningu hliðs eða aðrar framkvæmdir sem leitt gætu til útgjalda. Tveimur dögum eftir aðalfund gagnaðila hafi álitsbeiðandi sent tölvupóst til stjórnar gagnaðila og óskað eftir að fá allar fundargerðir vegna funda í félaginu árin 2014 og 2015 ásamt ársreikningum fyrir rekstrarárin 2013 og 2014. Tölvupósturinn hafi verið ítrekaður 8. október 2015 og 9. október s.á. hafi álitsbeiðanda borist fundargerðir vegna aðalfunda 2014 og 2015 auk excel-skjala með uppgjöri reikninga fyrir árin 2013 og 2014 frá skoðunarmanni félagsins. Álitsbeiðandi hafi 12. október 2015 enn óskað eftir fundargerð vegna félagsfundar 28. ágúst 2014 sem og óskað eftir afriti af bréfi lögmanns E varðandi hlið og tengdar framkvæmdir á vegum gagnaðila sem álitsbeiðandi hafi vitað að sent hafi verið til stjórnar gagnaðila í janúar 2015. Álitsbeiðandi hafi ekki fengið gögnin en með tölvupósti 15. október 2015 hafi borist innheimtubréf frá gjaldkera gagnaðila þar sem óskað hafi verið eftir greiðslu á árgjaldi félagsins, að fjárhæð 10.000 kr., sem og greiðslu á sérstöku framkvæmdargjaldi að fjárhæð 15.000 kr. vegna uppsetningar á hliði. Álitsbeiðandi hafi þá sent bréf, dags. 29. desember 2015, til allra stjórnarmanna gagnaðila þar sem ítarlega hafi verið rakið á hvaða hátt stjórn gagnaðila hefði ekki brugðist við óskum álitsbeiðanda um afhendingu þar tilgreindra gagna. Samdægurs hafi borist tölvupóstur frá gjaldkera gagnaðila, sem einnig hafi verið sendur á þrjá félagsmenn og formann stjórnar gagnaðila, þar sem nafngreindir hafi verið þeir félagsmenn sem ekki hafi greitt þar tilgreind gjöld en engin önnur svör hafi borist vegna bréfs álitsbeiðanda. Gagnaðili hafi sett upp hið umþrætta hlið 9. apríl 2016.

Álitsbeiðandi vísar til 13. gr. vegalaga, nr. 80/2007, um að E hafi veghald þess vegar sem um ræðir. Þegar E hafi selt álitsbeiðanda lóðina D14 árið 2003 hafi fylgt vegur að lóðarmörkum samkvæmt afsali. Engar kvaðir hafi verið um takmörkun á umferðarrétti og hafi eigandi vegarins bannað gagnaðila að setja upp lokað hlið á veginum. Í greinargerð þeirri sem fylgdi frumvarpi til núgildandi vegalaga komi fram um 11. gr. laganna að ekki sé talin þörf á þeim sérreglum sem hafi verið að finna í eldri lögum um samskipti meðeigenda og rétthafa einkavegar. Sé gert ráð fyrir því að um samskipti þau fari alfarið eftir almennum reglum einkaréttarins um réttarstöðu sameigenda eignar og nánar eftir því hvernig þeir skipi réttindum sínum innbyrðis með löggerningum. Einnig segi að eigandi einkavegar geti þurft að sæta því að aðrir hafi umferðarrétt um veginn samkvæmt venju, hefð eða löggerningum. Þá segi um 55. gr. laganna að þar sé kveðið á um heimild landeiganda til að girða yfir veg á eigin landi, þó með þeirri skyldu að hafa hlið á girðingu sem ekki megi læsa eða hindra umferð á annan hátt nema með leyfi sveitarstjórnar.

Ætti því að vera ljóst að hvorki eigandi vegar né frístundafélag geti sett upp lokað hlið í andstöðu við einstakan lóðareiganda með vísan til 11.–13. gr., 53, og 55. gr. vegalaga, nr. 80/2007, sem og 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, og 11. mgr. og 1. gr. 1. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Álitsbeiðandi bendir einnig á frétt Fréttablaðsins frá 29. ágúst 2014, sem birtist í kjölfar samþykktar sveitarstjórnar 20. ágúst 2014, þar sem fyrri ákvörðun varðandi hlið hafi verið breytt og að fram komi í samþykktinni að sveitarfélagið fallist ekki á að hlið sé sett við aðkomu, þar sem ekki sé samkomulag á milli landeigenda um hliðið. Vísar álitsbeiðandi einnig í ummæli bæjarstjóra F 16. desember 2015 um að ekki sé heimilt að loka hverfi af með hliði í þéttbýli og telur álitsbeiðandi ekki annað gilda um frístundasvæði en þéttbýli hvað þetta varði.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að á aðalfundi 31. maí 2014 hafi verið rætt um kaup á veghliði. Í framhaldi af því hafi verið boðað til fundar 28. ágúst 2014 þar sem sérstaklega hafi verið tekið fram að fundarefni væri „Ákvörðun um kaup á hliði við þjóðveg“. Á fundinum hafi 13 af 15 lóðareigendum samþykkt að kaupa og setja upp veghlið inn í hverfið. Á aðalfundi gagnaðila hafi formanni félagsins verið falið að panta veghlið og hafi 14 af 15 lóðareigendum greitt útsenda greiðsluseðla vegna kaupa á hliðinu. Telur gagnaðili að álitsbeiðanda sé skylt að taka þátt í öllum sameiginlegum framkvæmdum félagsins, enda hafi meirihluti félagsmanna samþykkt framkvæmdirnar.

Gagnaðili vísar í bréf til E dags. 26. mars 2015, sem ritað hafi verið af lögmanni f.h. gagnaðila, þar sem fram kemur að gagnaðili telji sér heimilt að setja upp hlið á aðkomuvegi að frístundabyggðinni með samþykki meirihluta lóðareigenda. Samkvæmt deiliskipulagi sé umrædd frístundabyggð, sérstakt svæði og séu mörk þess skýrt dregin í deiliskipulaginu. Ekki leiki vafi á því að svæðið falli undir skilgreiningu á frístundabyggð samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/2005, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Svæðið afmarkist til suðurs af þjóðvegi, sunnan vegar og sé aðkomuvegurinn að hverfinu því að öllu leyti innan frístundabyggðarinnar. Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2005 komi fram að eitt atkvæði fylgi hverri lóð undir frístundahús á félagssvæði frístundabyggðar og að atkvæði ráði úrslitum mála skv. 3. mgr. 22. gr. laganna, annarra en þeirra sem fjallað er um í 4. og 5. mgr. ákvæðisins. Ef greiða eigi atkvæði um hvort ráðast skuli í framkvæmdir eða stofna til kostnaðar sem leiði til útgjalda umfram venjulegan rekstrarkostnað félagsins, sbr. 4. mgr. 22. gr., þurfi minnst 2/3 atkvæða og að minnst þriðjungur félagsmanna sæki fundinn. Sé því hafið yfir allan vafa að ekki sé þörf á samþykki allra lóðareigenda fyrir framkvæmdinni.

Í tilvitnuðu bréfi er því einnig hafnað að samþykki C þurfi vegna uppsetningar hliðs á aðkomuvegi. Í 19. gr. laga nr. 75/2005 komi fram að sé ekki um annað samið sé það meðal annars hlutverk félags í frístundabyggð að taka ákvarðanir um lagningu og viðhald akvega og göngustíga að og innan svæðis. Í skilmálum fyrir hverfið komi fram að landeigendur skuli kosta gerð vega innan svæðisins og viðhald þeirra. Samkvæmt samskiptum og öðrum gögnum leiki aftur á móti enginn vafi á því að samkomulag sé á milli gagnaðila og C að lagning og viðhald vega sé á forræði félagsins, enda hafi félagsmenn borið kostnað af öllu slíku í meira en áratug, meðal annars vegna krafna frá C. Teljist þetta veghald í skilningi 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. vegalaga, nr. 80/2007, og félagið því veghaldari í skilningi 6. tölul. sama ákvæðis. Þurfi gagnaðili því ekki sérstakt leyfi frá landeigendum til að taka ákvörðun um hvort setja eigi upp aksturshlið á aðkomuvegi.

Gagnaðili kveður E hafa lagt vegslóða að sumarbústaðalóðunum á frístundasvæðinu en hafi síðan ekki viljað taka þátt í uppbyggingu eða viðhaldi vegarins. Auk þess liggi aðkomuvegurinn ekki að eignum eða aðstöðu E Álitsbeiðandi sé ekki umboðsmaður E í málinu. Auk þess verði ekki séð til hvaða eignaspjalla hann vísi í greinargerð sinni. Ekki sé hægt að sjá á jarðvegi meðfram vegi að kapall hafi verið plægður niður og verði framkvæmdir félagsins taldar óheimilar megi fjarlægja festingar hliðsins frá pípuhliði án frekari ummerkja.

Gagnaðili kveðst hafa afhent álitsbeiðanda þau gögn sem krafist er í greinargerð.

Að lokum telur gagnaðili rétt að fram komi að umþrætt hlið hafi verið skemmt og að hliðslánni hafi verið stolið. Sé málið í rannsókn hjá lögreglunni og við rannsókn málsins hafi komið fram að aðilar á vegum E hafi viðurkennt að bera ábyrgð á skemmdunum.

Í athugasemdum álitsbeiðanda er vísað til fundargerðar frá félagsfundi 28. ágúst 2014 og gerðar athugasemdir við að ekki komi fram um hvaða tillögu greitt hafi verið atkvæði. Álitsbeiðandi vísar til 2. mgr. 13. gr. vegalaga um að eigendur einkavega hafi veghald þeirra og því geti gagnaðili ekki áunnið sér rétt sem veghaldari með því að bera kostnað af viðhaldi vegarins. Veiti vegurinn aðgengi að stórum hluta jarðar í eigu E auk þess sem fyrir liggi hugmyndir um skipulag þar sem vegurinn muni þjóna væntanlegum lóðareigendum.

Álitsbeiðandi bendir á að rannsókn lögreglu á fjarlægingu hliðsins sé lokið þar sem lögreglunni hafi ekki þótt efni til að hefja opinbera rannsókn vegna málsins. Telji álitsbeiðandi að fjarlæging hliðsins af hálfu veghaldara hafi verið bæði heimil skv. 2. mgr. 47. gr. vegalaga og skyld skv. 12. gr. sömu laga. Hafi lokun vegarins í 30 daga með umræddu hliði getað valdið verulegu tjóni fyrir fjölda aðila.

Í athugasemdum gagnaðila segir að fram hafi komið í fundarboði hvaða ákvörðun hafi verið kosið um á fundi gagnaðila 28. ágúst 2014 og hafi fundarmenn sett stafi sína á skjal til að staðfesta samþykki sitt fyrir kaupum á hliði. Gagnaðili kveður vegina sem liggi inn í sumarhúsahverfið enda við lóðir félagsmanna og að ekkert annað sé fyrir innan vegslóðana en ósnortin landsvæði. Komi til þess að E láti skipuleggja fleiri lóðir á svæðinu muni þeir sem koma að þeirri vinnu eða kaupa lóðirnar fá aðgang að hliðinu og fái gagnaðili ekki séð hvaða fjárhagslega tjón hafi orðið við lokum vegarins.

III. Forsendur

Í máli þessu er deilt um hvort heimilt sé að loka aðkomuvegi að lóðum í frístundabyggðinni B með hliði við þjóðveg. Einnig er deilt um hvort ákvörðun um uppsetningu hliðsins hafi verið tekin á lögmætan hátt af hálfu gagnaðila.

Álitsbeiðandi hefur enn fremur krafist afhendingar gagna af hálfu gagnaðila. Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að umbeðin gögn hafi þegar verið afhent og kemur sú krafa álitsbeiðanda því ekki til frekari skoðunar af hálfu kærunefndar.

Í 1. mgr. 17. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, er mælt fyrir um þá skyldu umráðamanna lóða undir frístundahús að hafa með sér félagsskap um sameiginlega hagsmuni. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 75/2008 segir að sé ekki á annan veg samið sé það meðal annars hlutverk félags í frístundabyggð að taka ákvarðanir um lagningu og viðhald akvega og göngustíga að svæði og innan þess. Í 2. gr. samþykkta gagnaðila kemur fram að hlutverk félagsins sé meðal annars viðhald vega. Kærunefnd telur ágreining gagnaðila og landeiganda um uppsetningu hliðs og aðgengi að vegi ekki falla undir lög nr. 75/2008 og heyri því ekki undir nefndina. Getur kærunefnd því ekki tekið afstöðu til þeirrar kröfu álitsbeiðanda um að viðurkennt verði að gagnaðila sé óheimilt að loka aðkomuvegi með hliði án samþykkis landeiganda.

Þá byggir álitsbeiðandi á því að ákvörðun um uppsetningu hliðs hafi ekki verið tekin á lögmætan hátt af hálfu gagnaðila 28. ágúst 2014. Einvörðungu hafi verið um könnun á vilja félagsmanna að ræða enda komi ekki fram í fundargerð um hvaða tillögu kosið hafi verið. Gagnaðili telur ekki ljóst á hvaða forsendum álitsbeiðandi telji ákvörðun um uppsetningu hliðs ólögmæta.

Af fundargerð frá fundi gagnaðila 28. ágúst 2014, sem liggur fyrir í málinu, má ráða að kosið hafi verið um uppsetningu hliðs en tilefni fundarins er tiltekið „Kaup á hliði niðri við þjó[ð]veg“ og í fundarboði, sem sent var með tölvupósti 13. ágúst 2014, er fundarefnið titlað „Ákvörðun um hlið við þjóðveg“. Samkvæmt 4. mgr. 22. gr. laga nr. 75/2008 skal tillaga í fundarboði um að ráðast skuli í framkvæmdir eða stofna til kostnaðar sem leiðir til útgjalda, sem eru umfram venjulegan rekstrarkostnað félagsins, hljóta samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða og skal minnst þriðjungur félagsmanna sækja fundinn. Samkvæmt fyrirliggjandi fundargerð samþykktu 13 af 15 félagsmönnum kaup á hliði.

Telur kærunefnd umrædd gögn sýna að ákvörðun hafi verið tekin um kaup á hliði við þjóðveg á lögmætan hátt í skilningi 22. gr. laga nr. 75/2008 á fundi gagnaðila 28. ágúst 2014.

IV. Niðurstaða

Kröfu álitsbeiðanda um að kærunefnd húsamála viðurkenni að gagnaðila hafi verið óheimilt að setja upp hlið á aðkomuvegi er vísað frá.

Kröfu álitsbeiðanda um að kærunefnd viðurkenni að gagnaðila beri að fjarlægja það sem eftir stendur af hliði á aðkomuvegi er vísað frá.

Það er álit kærunefndar að ákvörðun gagnaðila um uppsetningu hliðs hafi verið tekin á lögmætan hátt og að álitsbeiðanda beri að taka þátt í sameiginlegum kostnaði vegna kaupa og uppsetningar á hliði á aðkomuvegi að B.

Kröfu álitsbeiðanda um viðurkenningu á skyldu gagnaðila til afhendingar gagna er vísað frá.

Reykjavík, 15. nóvember 2016

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta