Hoppa yfir valmynd

Nr. 56/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 31. janúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 56/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16100049

Kæra […]

og barns hennar

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. október 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar og dóttur hennar […], fd. […], um hæli á Íslandi og endursenda hana til Danmerkur.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hennar um hæli til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 24. júní 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 24. júní 2016, kom í ljós að fingraför hennar höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Þann 1. júlí 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hennar um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 7. júlí 2016 barst svar frá dönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 18. október 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hún skyldi endursend til Danmerkur. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 25. október 2016 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hennar væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 26. október 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 14. nóvember 2016 og þann 24. nóvember sl. bárust kærunefnd fylgigögn í málinu.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að hælisumsókn kæranda yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hún og barn hennar skyldu endursend til Danmerkur. Lagt var til grundvallar að Danmörk virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hana til Danmerkur, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga.

Það sé mat Útlendingastofnunar að kærandi og barn hennar eigi raunhæfa möguleika á að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum í Danmörku og eftir atvikum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Ljóst sé að kærandi eigi raunhæfa möguleika á að leita til danskra yfirvalda sem væru í stakk búin til þess að veita henni vernd sem og aðstoð vegna andlegrar heilsu hennar. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að það sé niðurstaða stofnunarinnar, að gættum ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskra laga er málið varða, að hagsmunum barns kæranda sé ekki stefnt í hættu með því að það fylgi móður sinni til Danmerkur.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hennar hjá Útlendingastofnun þann 29. júlí 2016 hafi komið fram að hún hræðist ekki neinn í Danmörku og að aðstæður hennar þar í landi hafi verið í lagi. Hún hafi fengið húsnæði, fæði og dagpeninga en hafi greitt sjálf fyrir lögfræðiþjónustu. Kærandi setji ekki út á aðstæður sínar í Danmörku en hún viti þó að við komuna til Danmerkur verði hún send til heimaríkis síns þar sem hún sé í mikilli hættu. Kærandi kveður að hún og […] eiginmaður hennar hafi fengið synjun á hælismáli sínu í Danmörku en niðurstaðan hafi eingöngu verið byggð á aðstæðum hans en ekki hafi verið spurt út í hennar ástæðu fyrir flótta. […].

[…]. Í kjölfarið hafi kærandi óskað eftir endurupptöku á máli sínu í Danmörku þar sem hún hafi aldrei fengið tækifæri til að tjá sig á fyrri stigum málsins. […]. […]. Kærandi kveður að hún hafi kært […] til lögreglu og einnig dvalið á spítala […]. Dönsk stjórnvöld hafi því verið fullmeðvituð um hennar hagi. Kærandi kveður að yfirvöld í […] muni ekki veita henni vernd þar sem mikil spilling sé þar í landi, […].

Kærandi kveðist vera kvíðin og stressuð og að hún hafi verki í hjarta. Dagana 24. og 26. ágúst sl. hafi kærandi farið í viðtal hjá sálfræðingi sem hafi metið andlega heilsu hennar. Í sálfræðimatinu komi fram að kærandi hafi alvarleg einkenni kvíða, þunglyndis, streitu og áfallastreitu […]. Mat sálfræðingsins sé að einkenni þessara raskana hafi neikvæð áhrif á sálræna líðan kæranda og getu til að takast á við daglegt líf. Þá hafi komið fram að sú óvissa sem ríki um framtíð hennar og dóttur hennar sé til þess fallin að ýta undir og viðhalda vanlíðan hennar. Mæli sálfræðingurinn með áframhaldandi og samfelldri sálfræðimeðferð og telji mikilvægt að binda enda á það óvissuástand sem ríki í lífi mæðgnanna.

Í greinargerð kæranda kemur fram að Danmörk reki eina ströngustu innflytjendalöggjöf í Evrópu og að málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna séu mjög eldfim þar í landi. Fjölmörg tilvik hafi komið upp þar sem ráðist hafi verið á búsetuúrræði umsækjenda um alþjóðlega vernd eða hjálparstofnanir sem aðstoði umsækjendur og innflytjendur. Fjöldi umsækjenda hafi aukist mjög á undanförnum árum og dönsk yfirvöld séu í vandræðum með undirmönnun og skort á búsetuúrræðum. Í september 2014 hafi dönsk yfirvöld þrengt rétt fólks sem hafi flúið stríðsástand til dvalar í eitt ár á grundvelli viðbótarverndar og fylgi því leyfi ekki heimild til fjölskyldusameiningar fyrr en eftir þrjú ár. Þá kemur fram í greinargerð að þegar straumur flóttamanna hafi farið að aukast á síðasta ári hafi ríkisstjórn Danmerkur beitt sér gegn því að flóttamenn leiti til landsins. Auglýst hafi verið í dagblöðum í Mið-Austurlöndum að flóttafólk væri ekki velkomið í Danmörku. Lög hafi verið sett sem kveðið hafi á um rétt ríkisins til að leggja hald á verðmæti þeirra flóttamanna sem komið hafi inn í landið. Þann 24. maí 2016 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu í máli Biao gegn Danmörku (mál nr. 38590/10) að dönsku lögin um fjölskyldusameiningu flóttamanna hafi brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í greinargerð kæranda er bent á að mannréttindavandamál séu til staðar í hæliskerfinu í Danmörku og að greint hafi verið frá þessum vandamálum í opinberum skýrslum. Þau vandamál sem um ræðir séu t.a.m. ófullnægjandi heilbrigðisskoðun og aðgangur að heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem fengið hafi synjun á umsókn sinni, vanhöld á því að lögregluþjónar beri auðkenni og lagalegar takmarkanir á ferðafrelsi. Þá hafa takmarkanir á möguleikum umsækjenda um alþjóðlega vernd til þess að vinna eða stofna fyrirtæki verið gagnrýndar. Þá er af hálfu kæranda vísað til þess að fram hafi komið gagnrýni á langvarandi varðhald einstaklinga sem fengið hafi synjun á umsókn sinni auk þess sem ekki sé nægilega gætt að greiningu sérstaklega viðkvæmra einstaklinga, svo sem þolenda pyndinga, fólks með geðræn vandamál og barna.

Þá er í greinargerð mótmælt þeirri staðhæfingu sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar að ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til að álykta að umsókn kæranda hljóti ósanngjarna málsmeðferð í Danmörku og að kærandi eigi raunhæfa möguleika á að leita réttar síns fyrir dómstólum í Danmörku. Ljóst sé að kærandi hafi ekki fengið að segja sögu sína fyrir dönskum yfirvöldum þrátt fyrir að hafa notið aðstoðar lögmanns. Kærandi hafi farið fram á endurupptöku á máli sínu, á grundvelli þess að hún hafi aldrei fengið að tjá sig á fyrri stigum, en ekki hafi verið fallist á það. Kærandi hafi því í raun aldrei fengið efnislega meðferð á máli sínu og brottvísun liggi fyrir. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 29. júlí 2016 hafi kærandi kveðið að ef mál hennar hefði verið opnað í Danmörku og hún fengið að segja sögu sína þá hefði hún ekki komið til Íslands. Verði því að telja hæpið að kærandi eigi kost á vernd í Danmörku í ljósi þess að henni hafi verið synjað um hana nú þegar og stjórnvöld þar í landi hafi synjað beiðni hennar um endurupptöku í málinu þrátt fyrir að hún hafi notið aðstoðar lögmanns. Eigi kærandi því von á því að vera send beint til […] við komuna til Danmerkur.

Af hálfu kæranda er vakin athygli á að því að kærandi á ungt barn en börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd. Við töku ákvörðunar í málinu sé því mikilvægt að kærunefnd hafi í huga ákvæði 2. mgr. 23. gr. þágildandi laga um útlendinga, en þar komi fram að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi. Í tilskipun Evrópubandalagsins nr. 2011/95/EB frá 13. desember 2011 komi fram í 3. mgr. 20. gr. að við mat á þörf á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra einstaklinga, s.s. barna, og í 5. mgr. sömu greinar segi að ávallt skuli hafa það sem barninu sé fyrir bestu að leiðarljósi. Þá er vísað til 1. mgr. 22. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem fram komi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður eða sem talið er flóttamaður fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningum og öðrum alþjóðlegum löggerningum á sviði mannréttinda- eða mannúðarmála sem ríki þau er um ræðir eigi aðild að.

Kærandi byggir enn fremur á 45. gr. þágildandi laga um útlendinga. Með endursendingu til Danmerkur taki íslensk stjórnvöld ábyrgð á því að kæranda verði vísað aftur til […]. Ákvörðun um endursendingu til Danmerkur sé ólögmæt þar sem ákvörðunin fæli í sér að kærandi yrði send til svæðis þar sem hún hafi ástæðuríkan ótta um að sæta ofsóknum og verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að ekki hafi verið sýnt fram á að dönsk yfirvöld muni ekki veita kæranda þá vernd sem áskilin sé í alþjóðlegum skuldbindingum Danmerkur á sviði mannréttinda, þar á meðal reglunni um að mönnum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kunni að vera í hættu verði þeir sendir til Danmerkur. Af hálfu kæranda er þessu mótmælt. Í viðtali við Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hún hafi ekki fengið sanngjarna málsmeðferð í Danmörku en hælisumsókn hennar hafi verið synjað án þess að hún hafi fengið að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Því sé ljóst að hún verði send beint frá Danmörku til […] þar sem líf hennar sé í mikilli hættu vegna […]. Ótækt sé að stjórnvöld loki augum fyrir þeim raunveruleika sem kærandi standi frammi fyrir og treysti því í blindni að dönsk stjórnvöld taki rétta ákvörðun í máli hennar. Sé það bundið skýrt í íslenska sem og alþjóðlega löggjöf að slíkt sé með öllu óheimilt. Miðað við frásögn kæranda og þau gögn og upplýsingar sem lögð hafi verið fram verði að teljast ljóst að kærandi sé í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimalandi sínu vegna […] í […].

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð krafa um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið aftur til meðferðar. Krafan sé byggð á 3. mgr. 50. gr. þágildandi laga um útlendinga og 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Byggt sé á því að við töku stjórnvaldsákvörðunar skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Það sé því jákvæð skylda stjórnvalds að ganga úr skugga um að ástand í því ríki sem fyrirhugað sé að senda umsækjanda um alþjóðlega vernd til sé í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna. Sé sú skylda vanrækt geti endursending brotið í bága við 3. gr. mannréttindasáttmálans og 45. gr. laga um útlendinga. Þá skuli ákvarðanir stjórnvalds rökstuddar með fullnægjandi hætti. Þá hafi Útlendingastofnun ríka skyldu í hverju máli til að framkvæma einstaklingsbundið mat á aðstæðum umsækjanda um alþjóðlega vernd með tilliti til þess hvort ákvörðun í máli hans uppfylli kröfur laga og alþjóðlegra skuldbindinga um verndun mannréttinda. Byggt sé á því að Útlendingastofnun hafi með hinni kærðu ákvörðun ekki framkvæmt einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda heldur látið nægja að vísa með almennum hætti til heimilda án þess að rökstyðja mál sitt að öðru leyti. Nauðsynlegt sé að tryggja að mál kæranda verði skoðað ofan í kjölinn, ekki síst í ljósi þess að yfirgnæfandi líkur séu á því að dönsk yfirvöld muni senda hana til baka til […] án þess að hún fái tækifæri til að fá mál sitt skoðað á nýjan leik. Þá sé talið að slík almenn tilvísun til heimilda um ástand hælismála í Danmörku geti ekki talist fullnægja þeim kröfum sem 22. gr. stjórnsýslulaga geri til efnis rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar. Þá sé rannsóknarregla stjórnsýslulaga í 10. gr. laganna öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Í reglunni felist m.a. sú skylda stjórnvalds að sjá til þess, að eigin frumkvæði, að málsatvik stjórnsýslumáls séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að dönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á hælisumsókn. Samþykki Danmerkur er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Þá hefur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins verið lögfestur hér á landi, sbr. lög nr. 19/2013. Í 22. gr. samningsins er jafnframt fjallað sérstaklega um ábyrgð ríkja á að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð gagnvart börnum sem leita eftir réttarstöðu sem flóttamaður, hvort sem það er fylgd foreldra eða annarra eða ekki.

Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003, segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. laganna segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Þá er í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sérstaklega áréttað að ákvarðanir sem varða barn skuli teknar með það sem því er fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varðar og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

Svo sem fram er komið kom barn kæranda með henni hingað til lands. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd móður sinnar.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæði sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstól Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Danmörku, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Country Factsheet Denmark (European Union Agency for Fundamental Rights, september 2010)
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Denmark from 19 to 21 November 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 24. mars 2014)
  • Denmark 2015 Human Rights Report (United States Department of State, 13. apríl 2016)
  • Dublin II – national asylum procedure in Denmark (Danish Refugee Council, 2011)
  • Amnesty International Report 2014/15 - Denmark (Amnesty International, 25. febrúar 2015)
  • Freedom in the world 2016 – Denmark (Freedom House, 2016)
  • Upplýsingar af heimasíðu sem danska Útlendingastofnunin heldur úti: www.nyidanmark.dk, Udlændingestyrelsen og Styrelsen for International Rekruttering og Integrations.

Í framangreindum gögnum kemur fram að danska útlendingastofnunin (d. Udlændingestyrelsen) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd í Danmörku og eiga hælisleitendur þess almennt kost að bera synjun dönsku útlendingastofnunarinnar undir sérstaka kærunefnd útlendingamála (d. Flygtningenævnet). Þá kemur fram að umsækjandi um alþjóðlega vernd á rétt á viðtali hjá dönsku útlendingastofnuninni áður en ákvörðun er tekin í máli hans og ef ástæða þykir til getur útlendingastofnun boðað umsækjanda í annað viðtal og gefið honum kost á að skýra mál sitt betur. Danska útlendingastofnunin skoðar sérstaklega hvert mál fyrir sig með tilliti til þeirra upplýsinga sem umsækjandinn veitir ásamt þeim almennu upplýsingum sem liggja fyrir um aðstæður í heimaríki hans. Almennt kemur umsækjandi, sem hefur kært synjun á umsókn um hæli, fyrir hina dönsku kærunefnd útlendingamála og skýrir mál sitt munnlega fyrir nefndinni. Jafnframt á umsækjandi rétt á aðstoð lögmanns við málsmeðferð hans fyrir kærunefndinni. Hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd í Danmörku fengið lokaniðurstöðu í máli sínu getur hann lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd telji hann nýjar ástæður eða breyttar aðstæður vera fyrir hendi í máli hans, sem ekki voru fyrir hendi þegar mál hans var áður til meðferðar.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að dönsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Dönsk yfirvöld tryggja umsækjendum ekki fría lögfræðiaðstoð við meðferð máls á stjórnsýslustigi. Hins vegar eiga umsækjendur rétt á lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu við meðferð máls á kærustigi. Þá veita frjáls félagasamtök að nafni Dansk Flygtningehjælp lögfræðiráðgjöf til umsækjenda um alþjóðlega vernd þeim að kostnaðarlausu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á að vera í Danmörku á meðan mál þeirra er til meðferðar fyrir dönskum stjórnvöldum. Af gögnum um Danmörku verður ráðið að umsækjendur fá gistingu í móttökumiðstöðvum þar til ákvörðun um brottvísun kemur til framkvæmda eða umsækjandi yfirgefur Danmörku sjálfviljugur. Jafnframt eiga umsækjendur rétt á dagpeningum til grunnframfærslu eða fríum mat í móttökumiðstöðvum.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Danmerkur brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Danmörku bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Danmerkur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í greinargerð kæranda er á því byggt að beiðni kæranda um að fá hælismál sitt í Danmörku endurupptekið hafi verið hafnað. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu má ráða að lögmaður kæranda í Danmörku hafi, með bréfi dagsettu 26. febrúar 2016, óskað eftir því við dönsku kærunefnd útlendingamála að mál kæranda yrði endurupptekið. Viðbótargögn til stuðnings þessari málsástæðu kæranda bárust kærunefnd þann 24. nóvember 2016. Gögnin bera með sér að beiðni kæranda hafi verið hafnað með bréfi kærunefndar (d. Flygtningenævnet) dagsettu 7. október 2016. Í bréfinu er vísað til þess að þar sem kærandi hafi flutt úr móttökumiðstöðinni í Bornholm í Danmörku þann 15. júní 2016 og dönsk stjórnvöld hafi ekki upplýsingar um núverandi búsetu hennar verði beiðni hennar um endurupptöku ekki tekin til meðferðar. Í bréfinu er kæranda jafnframt leiðbeint um hvernig hún geti gefið sig fram við yfirvöld svo hægt sé að taka mál hennar til meðferðar.

Fram hefur komið í málinu að kærandi þjáist af streitu, þunglyndi og kvíða, sbr. vottorð sálfræðings dags. 3. október 2016. Auk þess er kærandi einstæð móðir með ungt barn og telst því vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað hælisleitenda í Danmörku kemur fram að danska útlendingastofnunin veitir hælisleitendum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda. Jafnframt stendur hælisleitendum ýmis heilbrigðisþjónusta til boða í móttökumiðstöðvum, svo sem viðtalsfundir með sálfræðingi eða lækni. Þó svo að mikið álag sé á hæliskerfi Danmerkur um þessar mundir telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Danmörku, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi og barn hennar geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Það er því mat kærunefndar í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður og þjónustu við hælisleitendur í Danmörku og að teknu sérstöku tilliti til hagsmuna barns kæranda og stöðu fjölskyldunnar í heild, þar á meðal í ljósi andlegrar heilsu kæranda, að endursending mæðgnanna til Danmerkur sé ekki í andstöðu við 42. gr. laga um útlendinga.

Þá er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 29. júlí 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 24. júní 2016.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda varðandi rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar og rannsóknar málsins tekur kærunefnd fram að af rökstuðningi Útlendingastofnunar fyrir niðurstöðu sinni megi ráða að stofnunin kynnti sér aðstæður í Danmörku sem og einstaklingsbundnar aðstæður kæranda. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rökstuðningi ákvörðunar Útlendingastofnunar að fella beri ákvörðun stofnunarinnar úr gildi. Þá er byggt á því að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem skort hafi á vísanir til skýrslna og heimilda og að einstaklingsbundið mat á aðstæðum kæranda hafi verið ófullnægjandi. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess, að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Rannsóknarreglan gerir kröfu um að stjórnvöld afli gagna sem eru fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Kærunefnd útlendingamála hefur farið yfir öll gögn varðandi mál kæranda. Er það afstaða kærunefndar að ekkert bendi til þess að slíkur ágalli hafi verið á rökstuðningi niðurstöðu ákvörðunar Útlendingastofnunar þannig að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Í máli þessu hafa dönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og barni hennar og umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda og barns hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og senda þau til Danmerkur með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Líkt og að framan greinir kom barn kæranda í fylgd með henni hingað til lands. Hefur mál kæranda og barns hennar verið skoðað í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Eins og að framan greinir telur kærunefnd það ekki andstætt réttindum barns kæranda að umsóknir kæranda og barns hennar verði ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi og að fjölskyldan verði send til Danmerkur.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Erna Kristín Blöndal                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta