Mál nr. 8/2012
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 8/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi A, kærði með bréfi, mótteknu 17. janúar 2012, það að hann hefði verið tekinn af bótum eftir að hafa tekið þátt í átakinu Nám er vinnandi vegur frá september til desember 2011. Hann þáði hann atvinnuleysisbætur á þeim tíma eða til 31. desember 2011, en var þá skráður af atvinnuleysisbótum.
Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi fengið þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun að hann myndi eiga tilkall til fulls námsláns hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) eftir að hafa verið í vinnumarkaðsúrræðinu. Hann hafi því ekki kynnt sér sjálfur rétt sinn fyrirfram til námslána hjá LÍN og þegar hann sótti um lán hafi komið í ljós að hann átti ekki tilkall til fullra námslána. Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið þær upplýsingar hjá stofnuninni að hann ætti ekki rétt til atvinnuleysisbóta.
Kærandi kveðst ekki hafa getað lifað af lánunum sem hann átti kost á frá LÍN þar sem hann fengi aðeins 60.000 kr. á mánuði þar sem hann býr hjá skyldmenni og er ekki með neina uppgefna húsaleigu auk þess sem atvinnuleysisbætur hans í eitt ár áður en hann sótti um námslán skerði lánshámarkið.
Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi fengið þær upplýsingar að ef hann ætlaði að koma aftur á atvinnuleysisskrá þyrfti hann að skila inn skriflegum skýringum. Þá greinir kærandi frá því að hann ætti eftir að skila inn endurkomublaði.
Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 16. maí 2012, kemur fram að kæranda hafi verið bent á að hann þyrfti að sækja aftur um bætur og skila inn skriflegum skýringum vegna námsloka. Vinnumálastofnun hafi ekki borist ný umsókn um atvinnuleysisbætur frá kæranda og því hafi engin ákvörðun verið tekin í máli hans af hálfu stofnunarinnar sem uppfyllir skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og vísa beri málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. maí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 4. júní 2012. Með bréfi, dags. 2. júní 2012, bárust athugasemdir kæranda. Í athugasemdunum mótmælir kærandi því sem kemur fram af hálfu Vinnumálastofnunar um að honum hafi verið bent á að sækja aftur um atvinnuleysisbætur og greinir frá því að honum hafi aðeins verið bent á að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar. Af þessum sökum hafi hann kært ákvörðunina en ef hann hefði fengið upplýsingar um að sækja aftur um atvinnuleysisbætur hefði hann gert það frekar enda hafi hann verið staddur hjá Vinnumálstofnun.
2.
Niðurstaða
Kærandi og Vinnumálastofnun gerðu námssamning í átakinu Nám er vinnandi vegur fyrir tímabilið september til desember 2011 og er námssamningur þar að lútandi meðal gagna málsins, dags. 7. september 2011, undirritaður af fulltrúa Vinnumálastofnunar og kæranda. Í 7. lið námssamningsins kemur fram að skilyrði þátttöku í átakinu Nám er vinnandi vegur sé að atvinnuleitandi sé afskráður í lok árs 2011 nema um forsendubrest varðandi framfærslu sé að ræða. Kæranda mátti því vera ljóst að ef hann óskaði þess að fara aftur á atvinnuleysisbætur eftir að því tímabili lauk sem námssamningurinn tók til þyrfti hann að sækja um bætur að nýju. Það hefur kærandi ekki gert og hefur Vinnumálastofnun ekki tekið kæranlega ákvörðun í máli kæranda, en skv. 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur einnig verið bent á að ekki hefur verið tekin kæranleg ákvörðun í máli kæranda. Í máli þessu er ekki til staðar ágreiningsefni í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúríksdóttir
Helgi Áss Grétarsson