Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 66/2012

Miðvikudaginn 30. janúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 66/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Guðmundur St. Ragnarsson hdl., f.h. A hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 9. júlí 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 27. júní 2012, á beiðni hennar um sérstakar húsaleigubætur.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi flutti til Reykjavíkur þann 3. apríl 2012 en hafði þar áður einungis verið með skráð lögheimili í Kópavogi. Kærandi hefur verið greind með þroskahömlun, blandaða röskun á námshæfni og aðrar raskanir á félagsfærni í bernsku. Hún hefur einnig verið að kljást við þunglyndi og kvíðaraskanir. Kærandi er í 50% starfi en fullt starf reyndist henni of mikið. Kærandi leigir íbúð á almennum markaði og greiðir 107.000 kr. í leigu á mánuði með hita og rafmagni.

 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 9. maí 2012. Umsókn kæranda var synjað með tveimur bréfum þjónustumiðstöðvar Breiðholts, dags. 11. maí 2012. Í bréfunum kom fram að kærandi hafi annars vegar ekki uppfyllt ákvæði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík en samkvæmt ákvæðinu séu tekjumörk fyrir einstakling 3.015.355 kr. og fyrir hjón og sambúðarfólk 4.222.564 kr., auk þess 504.785 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Hins vegar hafi kærandi ekki uppfyllt ákvæði b-liðar 4. gr. reglnanna þar sem sett sé skilyrði um að umsækjandi eigi lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um og a.m.k. síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn berst. Þá var kæranda leiðbeint um heimild til að sækja um undanþágu frá framangreindum skilyrðum.

 

Kærandi óskaði eftir undanþágu frá skilyrði um þriggja ára búsetu í sveitarfélaginu með bréfi, dags. 5. júní 2012. Kom þar einnig fram að ef beiðni hennar yrði synjað óskaði hún eftir að áfrýja til velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Velferðarráð Reykjavíkurborgar tók málið fyrir á fundi sínum þann 26. júní 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

„Velferðarráð staðfestir synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrðum b. og c. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.“

 

Niðurstaða velferðarráðs var kynnt kæranda með bréfi, dags. 27. júní 2012. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á ákvörðun velferðarráðs og var hann veittur með bréfi, dags. 29. ágúst 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 9. júlí 2012. Með bréfi, dags. 17. júlí 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 30. ágúst 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 4. september 2012, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Úrskurðarnefndin óskaði frekari gagna frá Reykjavíkurborg með tölvupósti þann 23. janúar 2013 og bárust þau með bréfi, dags. 25. janúar 2013.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur. Kærandi kveður heildartekjur sínar fyrstu sex mánuði ársins 2012 vera 1.451.172 kr. og sé þá meðtalinn styrkur frá Verkalýðsfélaginu Hlíf að fjárhæð 44.256 kr. Rauntekjur kæranda séu því 1.406.916 kr. fyrstu sex mánuði ársins 2012 eða 2.213.832 kr. yfir árið. Um sé að ræða tekjur sem séu verulega undir mörkum. Kærandi byggir á því að Reykjavíkurborg skorti lagaheimild til að skilorðsbinda sérstakar húsaleigubætur við þriggja ára búsetutíma í sveitarfélaginu. Um sé að ræða brot á 4. gr. laga nr. 138/1997 þar sem skilyrði fyrir greiðslu húsaleigubóta og um leið sérstakra húsaleigubóta séu sett fram. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segi að þeir eigi rétt sem séu búsettir í sveitarfélagi og eigi þar lögheimili. Í lögunum sé ekki skilyrði um búsetutíma. Þessu ákvæði verði ekki breytt með reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi bendir á að sérstakar húsaleigubætur séu greiddar á grundvelli 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/1997. Um þær gildi engar sérreglur í lögum hvað varði búsetutíma eða búsetustað. Sérstakar húsaleigubætur fylgi þannig sömu skilyrðum og reglum og almennar húsaleigubætur. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/1997 geti sveitarfélag tekið ákvörðun um að greiða sérstakar húsaleigubætur. Sé sú ákvörðun á annað borð tekin sé sveitarfélagið bundið við ákvæði laganna um rétt til húsaleigubóta og geti ekki sett pólitískar sérreglur á eigin forsendum. Reglur sveitarfélaga geti ekki farið gegn lögum og megi ekki þrengja eða skerða lögbundin réttindi íbúa sveitarfélaga. Kærandi telur að ákvæði c-liðar 4. gr. áðurnefndra reglna Reykjavíkurborgar brjóti gegn 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Félagsþjónusta sveitarfélaga sé fyrir alla íbúa sem þurfi á henni að halda og uppfylli skilyrði laga. Kærandi uppfylli skilyrði laga um sérstakar húsaleigubætur og því hafi borið að samþykkja umsókn hennar. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttur hennar til sérstakra húsaleigubóta verði viðurkenndur frá því umsókn hennar var lögð fram. Verði ekki fallist á sérstakar húsaleigubætur til handa kæranda sé gerð krafa um rökstuðning í samræmi við stjórnsýslulög þar sem vísað sé til jafnræðisreglu og lögmætisreglu. Einnig sé gerð krafa um að vísað sé til lagaheimilda sem styðji ákvörðunina og fjallað sérstaklega um hvernig þriggja ára búsetuskilyrði samræmist 4. mgr. 5. gr. laga nr. 138/1997 og þá með tilliti til skilyrða 4. mgr. laganna.

 

 

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

 

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar kemur fram að um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík gildi reglur sem samþykktar hafi verið í félagsmálaráði þann 18. febrúar 2004 og í borgarráði þann 24. febrúar 2004, með síðari breytingum. Í 4. gr. reglnanna séu sett fram nánar tiltekin skilyrði sem umsækjandi þurfi að uppfylla svo umsóknin taki gildi. Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði sem séu heimildarákvæði og því ekki skylt að veita slíkar undanþágur. Þegar kærandi hafi lagt fram umsókn hafi hún verið nýlega flutt til Reykjavíkur og fram að þeim tíma hafði búseta hennar alla tíð verið skráð í Kópavogi. Því hafi verið ljóst að skilyrði b-liðar 4. gr. reglnanna hafi ekki verið uppfyllt þar sem ekki var um að ræða samfellda búsetu í Reykjavík í þrjú ár. Samkvæmt gögnum er lágu fyrir velferðarráði hafi meðaltal tekna kæranda síðastliðin þrjú ár verið 3.405.691 kr. og tekjur síðastliðið ár hafi verið 3.715.984 kr. Samkvæmt c-lið 4. gr. reglnanna séu tekjumörkin 3.015.355 kr. og tekjumörkin séu miðuð við meðaltal síðastliðinna ára. Tekjur kæranda hafi því verið 390.336 kr. hærri en tekjumörkin kváðu á um. Þá hafi einnig verið litið til þess að samkvæmt upplýsingum er lágu fyrir velferðarráði að meðalmánaðartekjur kæranda það sem af var árs 2012 hafi verið 265.448 kr. Tekjur á ársgrundvelli væru því 3.185.376 kr. sem sé enn yfir viðmiðunarmörkum. Þá sé ekki fallist á útreikninga er fram komi í kæru en þar segi að rauntekjur kæranda fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2012 væru 1.406.916 kr. eða 2.213.832 kr. allt árið. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra séu tekjur kæranda fyrstu sex mánuði ársins 2012 1.559.233 kr. eða 3.118.466 kr. fyrir allt árið 2012 sem sé enn yfir viðmiðunarmörkum. Velferðarráð hafi ekki talið unnt að veita kæranda undanþágu skv. a-lið 5. gr. reglnanna þar sem hún hafði ekki búið í Reykjavík fyrr en í apríl 2012. Þá hafi velferðarráð talið að þrátt fyrir erfiðar aðstæður kæranda þá væru þær ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda undanþágu á lögheimili og tekjumörkum á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna. Í athugasemdum Reykjavíkurborgar frá 25. janúar 2013 kemur fram að upplýsingar um tekjur kæranda séu sóttar rafrænt í álagningarskrá og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra en velferðarsvið hafi beintengdan aðgang að umræddum gagnagrunnum. Starfsmenn þjónustumiðstöðva framkvæmi ekki sjálfir útreikninga á meðaltekjum síðastliðinna þriggja ára heldur séu upplýsingarnar sóttar beint úr gagnagrunnunum. Í c-lið 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík komi fram að tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Í framkvæmd sé því miðað við tekjur þriggja síðastliðinna almanaksára (skattára) sem í tilfelli kæranda séu tekjuárin 2009, 2010 og 2011. Miðað hafi verið við upplýsingar úr álagningarskrá vegna tekna 2009 og 2010 og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá vegna tekna 2011. Í kjölfar tölvupósts starfsmanns úrskurðarnefndar hafi upplýsingar um tekjur kæranda verið sóttar á ný í álagningarskrá og staðgreiðsluskrá. Samkvæmt álagningarskrá vegna tekna ársins 2009 hafi kærandi verið með laun að fjárhæð 2.044.969 kr. og greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins 1.567.902 kr. eða samtals 3.612.871 kr. Samkvæmt álagningarskrá vegna tekna ársins 2010 hafi kærandi verið með laun að fjárhæð 2.439.792 kr. og greiðslur frá Tryggingastofnun 1.436.344 kr. eða samtals 3.876.136 kr. Samkvæmt staðgreiðsluskrá vegna tekna ársins 2011 hafi kærandi verið með tekjur að fjárhæð 3.715.984 kr. Meðaltal síðastliðinna þriggja ára samkvæmt þessum upplýsingum séu því 3.734.997 kr. Reykjavíkurborg bendir á að meðaltekjur kæranda séu samkvæmt þessu hærri en fram hafi komið í gagnagrunni ríkisskattstjóra í maí 2012 en sveitarfélagið hafi ekki skýringar á því. Þó megi gera ráð fyrir að breytingar hafi orðið á gögnum kæranda hjá ríkisskattstjóra og tekjur kæranda hafi breyst á þessum tíma.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík samþykktar í borgarráði 24. febrúar 2004, síðustu breytingar samþykktar í borgarráði 19. febrúar 2012.

 

Kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 9. maí 2012. Umsókn hennar var synjað með tveimur bréfum starfsmanns þjónustumiðstöðvar, dags. 11. maí 2012. Um var að ræða synjun á umsókn kæranda sem byggðist á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði b- og c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Kæranda voru veittar leiðbeiningar um heimild hennar til að sækja um undanþágu frá skilyrðum 4. gr. reglnanna með skriflegri umsókn til þjónustumiðstöðvar. Kærandi óskaði eftir undanþágu frá skilyrði um þriggja ára búsetu í sveitarfélaginu með bréfi, dags. 5. júní 2012. Kom þar einnig fram að ef beiðni hennar yrði synjað óskaði hún eftir að áfrýja til velferðarráðs Reykjavíkurborgar. Úrskurðarnefndin tekur fram að skv. 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík skulu umsóknir um undanþágu afgreiddar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Umsókn kæranda um undanþágu var hins vegar ekki afgreidd hjá þjónustumiðstöð heldur var hún tekin fyrir á fundi velferðarráðs þann 26. júní 2012. Meðferð umsóknar kæranda um undanþágu var því ekki í samræmi við reglur sveitarfélagsins.

 

Í máli þessu liggur þannig ekki fyrir formleg afgreiðsla þjónustumiðstöðvar á umsókn kæranda um undanþágu. Þrátt fyrir það er bókun velferðarráðs á fundi þann 26. júní 2012 orðuð svo að „[v]elferðarráð staðfestir synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrðum b. og c. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur“. Úrskurðarnefndin telur rétt að gera athugasemd við umrætt orðalag enda liggur ekki fyrir synjun um undanþágu. Við mat á því hvaða áhrif framangreindur annmarki hefur á niðurstöðu málsins telur úrskurðarnefndin að líta verði til b-liðar 5. gr. reglnanna er heimilar undanþágu frá skilyrðum um lögheimili og/eða tekjuviðmiði. Kemur þar fram að heimildin er bundin við það að umsækjandi sé samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum. Í greinargerð starfsmanns þjónustumiðstöðvar, dags. 8. júní 2012, vegna umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði, kemur meðal annars fram að ekki sé mælt með undanþágu frá þriggja ára búsetureglu þar sem kærandi hafi alla tíð búið í Kópavogi og ekki sé um verulegan félagslegan vanda að ræða. Í máli þessu liggur því fyrir faglegt mat ráðgjafa, sbr. b-lið 5. gr. reglnanna. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að framangreindur annmarki á afgreiðslu umsóknar kæranda um undanþágu leiði ekki til ógildingar á hinni kærðu ákvörðun. Verður því vikið að því hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur.

 

Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík er fjallað um skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild. Umsækjandi þarf að uppfylla öll þar tilgreind skilyrði a–e-liða til þess að umsókn öðlist gildi. Í 5. gr. er heimild til að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið. Synjun á umsókn kæranda um sérstakar húsaleigubætur byggðist á því að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði b- og c-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar og ekki þóttu skilyrði til að veita undanþágu á grundvelli 5. gr. reglnanna.

 

Kærandi byggir á því að skilyrði b-liðar 4. gr. framangreindra reglna um þriggja ára búsetu í sveitarfélaginu sé ólögmætt og ekki í samræmi við 4. gr., sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála að kveða á um stjórnskipulegt gildi reglna sem sveitarfélög setja sér heldur einskorðast endurskoðun úrskurðarnefndarinnar við að skera úr um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar.

 

Í b-lið 4. gr. reglnanna kemur fram að umsækjandi skuli eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt er um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands bjó kærandi í Kópavogi þar til hún flutti til Reykjavíkur þann 3. apríl 2012. Í máli þessu liggur því ljóst fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði b-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík þar sem hún hefur ekki átt lögheimili í Reykjavík síðustu þrjú ár samfleytt áður en umsókn barst. Samkvæmt a-lið 5. gr. reglnanna er heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. um lögheimili hafi umsækjandi búið í Reykjavík stóran hluta ævi sinnar en flutt tímabundið úr sveitarfélaginu vegna húsnæðisvanda, náms eða vinnu. Kærandi hefur ekki búið í Reykjavík áður og er það því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Reykjavíkurborg hafi verið rétt að synja kæranda um undanþágu á grundvelli a-liðar 5. gr. reglnanna. Tekið skal fram að Reykjavíkurborg hefur á grundvelli heimildar 4. mgr. 5. gr. laga um húsaleigubætur ákveðið að greiða sérstakar húsaleigubætur og sett sér reglur þar að lútandi. Sveitarfélögum er ekki skylt að greiða sérstakar húsaleigubætur og í lögum um húsaleigubætur er eingöngu kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu almennra húsaleigubóta. Ekki verður séð að Reykjavíkurborg sé óheimilt að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu sérstakra húsaleigubóta en skilyrði þau er löggjafinn hefur sett fyrir greiðslu almennra húsaleigubóta og verður í máli þessu ekki talið ómálefnalegt að setja skilyrði um þriggja ára búsetu kæranda í sveitarfélaginu. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að synjun á umsókn kæranda um húsaleigubætur á grundvelli þess að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði um þriggja ára búsetu hafi verið lögmæt.

 

Í c-lið 4. gr. reglnanna er kveðið á um tekju- og eignamörk. Samkvæmt breytingum á ákvæðinu þann 19. janúar 2012 eru tekjumörk fyrir einhleyping 3.015.355 kr. Tekjumörk eru miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár og er heimilt að taka tillit til skuldastöðu/greiðslubyrði umsækjanda. Af kæru má ráða að kærandi telji rétt að miða við rauntekjur hennar sem hún bendir á að séu tekjur að frádregnum styrkjum. Tekið skal fram að miðað er við skattskyldar tekjur, sbr. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og teljast styrkir til skattskyldra tekna, sbr. 2. tölul. a-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að miða skuli við aðrar tekjuupplýsingar en Reykjavíkurborg lagði til grundvallar afgreiðslu umsóknar kæranda. Samkvæmt upplýsingum úr greinargerð þjónustumiðstöðvar vegna umsóknar um félagslegt leiguhúsnæði, dags. 8. júní 2012, voru meðalárstekjur kæranda síðastliðinna þriggja ára 3.405.691 kr. Í athugasemdum Reykjavíkurborgar kemur fram að við útreikning meðalárstekna kæranda hafi verið miðað við upplýsingar úr álagningarskrá ríkisskattstjóra vegna tekna áranna 2009 og 2010 og staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra vegna tekna 2011. Meðal gagna sem Reykjavíkurborg sendi með athugasemdunum eru upplýsingar úr álagningarskrá vegna tekna ársins 2011 og upplýsingar úr staðgreiðsluskrá vegna tekna áranna 2011 og 2012. Af framangreindu er ljóst að gögn sem úrskurðarnefndinni bárust voru ekki þau gögn sem byggt var á við afgreiðslu umsóknar kæranda.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Þegar gagna er aflað vegna umsókna um sérstakar húsaleigubætur ber að hafa í huga að ákvörðun um að synja eða samþykkja slíka umsókn er stjórnvaldsákvörðun. Þegar byggt er á upplýsingum úr gagnagrunnum líkt og staðgreiðsluskrá og álagningarskrá ríkisskattstjóra er því rétt að slíkar upplýsingar séu við afgreiðslu umsóknar skráðar sérstaklega eða prentaðar úr gagnagrunninum.

 

Við meðferð kærumálsins óskaði úrskurðarnefndin því eftir frekari upplýsingum frá Reykjavíkurborg um tekjur kæranda og hefur sveitarfélagið lagt fram útprentanir úr staðgreiðsluskrá og álagningarskrá ríkisskattstjóra. Samkvæmt þeim voru tekjur kæranda 3.449.275 kr. árið 2009, 3.688.758 kr. árið 2010 og 3.715.984 kr. árið 2011. Meðalárstekjur kæranda síðastliðinna þriggja ára, þ.e 2009, 2010 og 2011, samkvæmt hinum nýju upplýsingum eru því 3.618.006 kr. Af þessu má sjá að tekjur kæranda eru nokkuð hærri samkvæmt upplýsingum þeim er Reykjavíkurborg aflaði við meðferð kærumálsins heldur en við afgreiðslu umsóknar kæranda. Af gögnum málsins er ekki ljóst af hverju þetta misræmi stafar. Úrskurðarnefndin telur þó rétt að miða við tekjuupplýsingar sem hin kærða ákvörðun er byggð á enda er slík niðurstaða hagfelldari fyrir kæranda. Tekjur kæranda eru því 390.336 kr. umfram tekjumörk fyrir einhleyping og uppfyllti hún því ekki skilyrði c-liðar 4. gr. reglnanna. Samkvæmt b-lið 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá skilyrði b-liðar 4. gr. um lögheimili og eða tekjuviðmiði
c-liðar 4. gr. Í b-lið 5. gr. kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið þegar umsækjandi er samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að fallast verði á það mat Reykjavíkurborgar að kærandi uppfylli ekki hið matskennda viðmið b-liðar 5. gr. reglnanna eins og hér stendur á.

 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Reykjavíkurborgar.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 27. júní 2012, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta