Mál nr. 23/2002. Úrskurður kærunefndar:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 26. nóvember 2002
í máli nr. 23/2002:
Penninn hf.
gegn
Ríkiskaupum.
Með bréfi 18. september 2002, sem barst kærunefnd sama dag, kærir Penninn hf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 13068 auðkennt Ljósritunarpappír".
Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir kærða að breyta ákvörðun sinni um val á bjóðendum í útboðinu á þá leið að einnig verði gerður rammasamningur við kæranda á grundvelli tilboðs hans. Kærandi krefst þess einnig að nefndin láti uppi álit á skaðabótaskyldu kærða. Þá krefst kærandi kostnaðar við að hafa kæruna uppi.
Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.
I.
Með hinu kærða rammasamningsútboði leitaði kærði, fyrir hönd áskrifenda að rammasamningakerfi hans á hverjum tíma, tilboða í ýmiskonar pappír til notkunar fyrir ljósritunarvélar, faxtæki og laser prentara. Samningstími rammasamnings skyldi vera tvö ár. Í útboðsgögnum kom fram að reiknað væri með að samið yrði við fleiri en einn aðila um viðskiptin. Frávikstilboð voru ekki heimil, sbr. lið 1.1.6. í útboðsgögnum.
Samkvæmt lið 2.1 í útboðsgögnum var skylt að leggja fram tilboð í 80 g fjölnotapappír (gagnapappír/Skrifstofupappír) sem hentaði vel til notkunar í ljósritunarvélar, faxtæki og laser prentara. Heimilt var að bjóða mismunandi verð frá mismunandi framleiðendum. Tilgreina skyldi verð sem boðið var fyrir hverja pakkningu og frá hvaða framleiðanda hún væri (Liður A). Í annan stað mátti einnig bjóða afslátt af verðlista fyrir aðrar tegundir af pappír (Liður B). Tilboð skyldu sett fram á tilboðsblöðum, sem fylgdu útboðsgögnum eða á sambærilegan hátt, sbr. lið 1.1.4 í útboðsgögnum. Umrætt tilboðsblað var sundurliðað eftir framangreindum lið A og B. Við lið A skyldi bjóða verð fyrir hverja pakkningu. Annars vegar var um að ræða 80 g pappír í 500 eintaka pakkningu. Hins vegar var um ræða 80 g pappír í 2500 eintaka pakkningu.
Samkvæmt lið 1.2.6. skyldi hafa eftirfarandi atriði til hliðsjónar við mat á tilboðum eftir mikilvægi þeirra: 1. Verð (60%); 2. Þjónustugeta / Vöruúrval (20%); 3. Gæði (20%). Gefa átti einkunnir frá 0,0 til 5,0 fyrir hvert atriði. Lægsta verð átti að fá hæstu einkunn, en önnur atriði átti að meta samkvæmt innsendum gögnum.
II.
Kærandi var einn sjö bjóðanda í framangreindu útboði og voru tilboð opnuð 13. ágúst 2002. Samkvæmt tilboðsblaði kæranda bauð hann í lið A, annars vegar kr. 351,- með vsk. (80 g pappír í 500 eintaka pakkningu) og hins vegar kr. 1.580,- með vsk (80 g pappír í 2.500 eintaka pakkningu). Með símbréfi 21. sama mánaðar var kæranda tilkynnt að ákveðið hefði verið að semja við þrjá tiltekna aðila. Daginn eftir ritaði fulltrúi kæranda kærða bréf, þar sem fram koma að um mistök kæranda hefði verið að ræða við gerð tilboðs hans. Af hálfu kæranda hafi útboðsgögn verið skilin á þá leið að þegar beðið var um 2.500 eintaka pakkningu hafi verið átt við kassa sem innihéldi 5 pakka með 500 eintökum. Samkvæmt þessu hafi bjóðandi viljað bjóða 316 kr. með vsk. fyrir hvern 500 eintaka pakka (í stað 351 kr.) og sama verð gildi ef kassi innihaldi 2.500 eintök ópökkuð. Í bréfinu var þess óskað að tekið yrði tillit til þessarar leiðréttingar.
Kærði svaraði framangreindu erindi kæranda með bréfi 23. sama mánaðar, þar sem fram kom að ekki væri hægt að leiðrétta tilboð eftir móttöku og opnun tilboða. Jafnframt var bent á að ef um vafaatriði hefði verið að ræða á tilboðstíma hefði verið nægur tími til að senda inn fyrirspurnir samkvæmt lið 1.1.3. í útboðsgögnum.
III.
Kærandi grundvallar kröfur sínar á því að þegar tekið hafi verið tillit til leiðréttingar hans hafi tilboð hans verið það þriðja hagstæðasta. Þar sem heimilt sé að semja við fleiri en einn bjóðanda eigi kærði einnig að semja við kæranda. Kærandi vísar til þess að lang algengast sé að fyrirtæki og stofnanir kaupi 500 eintaka pakkningar af pappír og hrein undantekning sé ef óskað er eftir kössum með 2.500 eintökum. Kærandi hafi gert ráð fyrir því að miðað væri við algengustu vöruna, þ.e. venjulegan kassa með fimm 500 eintaka pakkningum. Í lokaathugasemdum sínum mótmælir kærandi einnig þeim aðferðum við einkunnagjöf sem notuð var. Í fyrsta lagi hafi þær ekki komið fram í útboðsgögnum eða verið kynntar kæranda. Í öðru lagi sé rangt að leggja verð fyrir 2.500 eintaka pakkningar að jöfnu við verð á 500 eintaka pakkningum með hliðsjón af því að fyrrnefndu pakkningarnar séu almennt ekki keyptar inn af ríkisstofnunum.
IV.
Eins og áður greinir gerði tilboðsblað ráð fyrir því að annars vegar væri boðið fram verð í 80 gr (sic) pappír í 500 eintaka pakkningu", en hins vegar væri boðið fram verð í 80 gr (sic) pappír í 2500 eintaka pakkningu". Samkvæmt lýsingu kæranda á málsatvikum bauð hann þó ekki fram 2.500 eintaka pakkningu heldur aðeins 500 eintaka pakkningu, annars vegar eina sér og hins vegar fimm saman í kassa. Skilja verður málatilbúnað kærða á þá leið að talið hafi verið að þetta tilboð kæranda væri gilt þrátt fyrir að vikið væri frá skýrum skilmála útboðsins um að einnig væri boðin fram 2.500 eintaka pakkning. Eins og málið liggur fyrir er ekki ástæða til að hagga við því mati.
Eins og tilboð kæranda lá fyrir varð ekki annað af því ráðið en að verð fyrir 500 eintaka pakkningu væri 351 króna með virðisaukaskatti. Samkvæmt meginreglu útboðsréttar um bann við eftirfarandi viðræðum kaupanda og bjóðanda, var kærða óheimilt að bregðast við tilmælum kæranda um leiðréttingu á tilboði hans. Á það því frekar við að tilmæli kæranda bárust ekki aðeins eftir að tilboð höfðu verið lögð fram og opnuð heldur einnig eftir að niðurstöður útboðsins höfðu verið kynntar.
Að mati nefndarinnar kom tilgreining á vörunni og viðmið fyrir vali tilboðs með fullnægjandi hætti fram í útboðsgögnum, sbr. 26. gr. laga nr. 94/2001, en af þeim varð ekki annað ráðið en að taka skyldi jafnt tillit til verðs fyrir 500 eintaka pakkningu og 2.500 eintaka pakkningu. Ekkert er fram komið sem styður fullyrðingar kæranda um að mat á tilboði hans hafi grundvallast á röngum eða ómálefnalegum sjónarmiðum. Samkvæmt þessu var kærða rétt að hafna tilboði kæranda.
Samkvæmt öllu framangreindu verður kröfum kæranda hafnað.
Vegna liðs 1.1.10 í útboðsgögnum athugast að samkvæmt b. lið 1. mgr. 47. gr. laga nr. 94/2001 eiga bjóðendur rétt á að á opnunarfundi sé lesin upp upphæð tilboða og geta ákvæði í útboðsgögnum ekki rýrt rétt bjóðenda að þessu leyti.
Úrskurðarorð :
Kröfum kæranda, Pennans hf. vegna rammasamningsútboðs kærða, Ríkiskaupa, nr. 13068 auðkennt Ljósritunarappír" er hafnað.
Reykjavík, 26. nóvember 2002.
Páll Sigurðsson
Sigfús Jónsson
Stanley Pálsson