Mál nr. 27/2002. Ákvörðun kærunefndar:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 18. október 2002
í máli nr. 27/2002:
Fura ehf.
gegn
Sorpu bs.
Með bréfi 14. október, sem barst kærunefnd útboðsmála sama dag, kærir Fura ehf. útboð byggðasamlagsins Sorpu auðkennt Móttaka og vinnsla brotamálma frá móttökustöðvum Sorpu".
Kærandi krefst þess að útboð kærða verði þegar í stað fellt úr gildi og lagt verði fyrir kærða að láta nýtt útboð fara fram. Kærandi tekur fram að krafist sé stöðvunar útboðsins um stundarsakir samkvæmt 80. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.
Kærða var gefinn kostur á því að tjá sig sérstaklega um hugsanlega stöðvun útboðsins um stundarsakir samkvæmt 80. gr. laganna. Í athugasemdum kærða um þessa kröfu kærenda er þess krafist að henni verði hafnað.
Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er fyrirhugað að opna tilboð í dag, 18. október 2002, kl. 14.00. Að þessu virtu telur nefndin rétt að þegar í stað sé skorið úr um kröfu kæranda um stöðvun útboðsins um stundarsakir.
I.
Í framangreindu útboði óskar kærði eftir tilboðum í móttöku, flokkun og vinnslu brotamálma frá móttökustöðvum sínum. Samkvæmt lið 1.2 er útboðið lokað og tveimur aðilum gefinn kostur á því að gera tilboð, það er kæranda og Hringrás ehf.
Samkvæmt lið 3.2 í útboðsgögnum er gert ráð fyrir því að kærði sjái um flutning brotamálmanna til verktaka, en verktaki taki við öllum málmi sem berst frá móttökustöðvum kærða að undanskildum ísskápum og rafeindatækjum. Í lið 1.10 í útboðsgögnum er tekið fram að við mat á tilboðum verði tekið tillit til kostnaðar við flutning brotamálma frá móttökustöðvum kærða til verktaka. Þá segir að kærði hafi gert mælingar á fjarlægðum einstakra móttökustöðva kærða að móttökustöðvum kæranda og Hringrásar ehf. Áætlaður kostnaður kærða við flutning á brotamálmi til bjóðendanna er sem hér segir (tilboð A, B og C gera ráð fyrir flutningi frá mismunandi mótökustöðvum kærða):
Kærði | Hringrás ehf. | |
Tilboð A | 1.696 kr./tonn með VSK | 1.090 kr./tonn með VSK |
Tilboð B | 2.334 kr./tonn með VSK | 942 kr./tonn með VSK |
Tilboð C | 1.994 kr./tonn með VSK | 1.021 kr./tonn með VSK |
Samkvæmt því sem greinir í kæru gera útboðsgögn samkvæmt þessu ráð fyrir því að það verði tæplega 10.000.000 kr. dýrara að flytja brotajárn til kæranda en til Hringrásar ehf. sem mun vera með starfsstöð nær móttökustöðvum kærða. Kærandi telur rangt að áætla flutningskostnað með þessum hætti, það er að tekið sé meðalverð samninga um flutninga til Furu ehf. á hvern kílómeter og það síðan notað til þess að áætla kostnað við flutninga til Hringrásar ehf. Það liggi í augum uppi að aksturinn sé aðeins brot af kostnaði við flutninganna, en stærri hluti verksins felist í undirbúningi gáma, hleðslu, vigtun, losun, o.s.frv. Samkvæmt framangreindu telur kærandi að með umræddu ákvæði í útboðsgögnum sé honum mismunað þannig að brotið sé gegn jafnræðisreglu 11. gr. laga nr. 94/2001.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001 er það skilyrði þess að útboð verði stöðvað að kröfu kæranda að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup eða reglum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt þessu er það forsenda stöðvunar útboðs um stundarsakir að útboð falli undir gildissvið laga nr. 94/2001 og að verulegar líkur séu á því að reglur laganna eða reglur settar samkvæmt þeim hafi verið brotnar.
Kærði í máli þessu er svokallað byggðasamlag sjö sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt þessu fellur kærði undir 10. gr. laga nr. 94/2001 og eiga lögin því aðeins við um innkaup hans að þau nái þeim fjárhæðum sem leiða af 56. gr. laganna, sbr. nú reglugerð nr. 513/2001 um viðmiðunarfjárhæðir vegna opinberra innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu og samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup (sjá t.d. úrskurð kærunefndar útboðsmála 4. júní 2002 í máli nr. 8/2002: A.B. pípulagnir ehf. gegn Reykjavíkurborg). Þegar um kaup á þjónustu er að ræða er þessi fjárhæð15.827.204 kr. samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 513/2001.
Samkvæmt 16. gr. laga nr. 94/2001 ber að miða fjárhæð þess samnings, sem hér um ræðir, við heildarfjárhæð hans á samningstímanum, sem er 12 mánuðir. Að virtum gögnum málsins og þeim upplýsingum sem nefndin hefur á þessu stigi um áætlaða fjárhæð þeirra innkaupa, sem boðin eru út í hinu kærða útboði, telur nefndin verulegan vafa leika á því hvort fjárhæð samningsins, þannig áætluð, nái framangreindum viðmiðunarmörkum. Að þessu virtu telur nefndin að skilyrðum sé ekki fullnægt til að stöðva útboðið samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 94/2001.
Ákvörðunarorð :
Kröfu kæranda, Furu ehf., um stöðvun útboðs kærða, Sorpu bs., auðkennt Móttaka og vinnsla brotamálma frá móttökustöðvum Sorpu" er hafnað.
Reykjavík, 18. október 2002.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Rétt endurrit staðfestir.
18.10.02